Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Kojuvaktin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. júlí 2019 kl. 14:28 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. júlí 2019 kl. 14:28 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Kojuvaktin

Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur í Hafnarfirði hefur skrifað 2 bækur um hjátrú: Sjö, níu, þrettán og Stóru hjátrúarbókina. Hann segir m.a. í viðtali í Morgunblaðinu 29. nóvember 2000: „Sjómenn eru með eindæmum hjátrúarfullir og hefur ýmiss konar hjátrú verið samofin sjómennsku og sjósókn frá ómunatíð." Hann telur að á undanförnu hafi hún verið á undanhaldi. M.a. kemur eftirfarandi fram í viðtalinu.

Í landi.

Fari prestur á sjó skal hafa kirkjuna opna á meðan.
Gæta skal þess að viðra ekki bækur meðan verið er á sjó.
Hvorki má viðra rúmföt né lesa í bók meðan menn eru á sjó. Þá skellur á stormur.
Konur mega ekki prjóna úti við þegar bátar eru á sjó.
Ekki er talið gott að búa um rúm sjómanna fyrr en þremur nóttum eftir að þeir eru farnir að heiman. Annars eiga þeir ekki afturkvæmt.

Við upphaf sjóferðar.
Slæmur fyrirboði er að mæta konu á leiðinni til skips og hið sama á við um svarta ketti og líkbíla. Alverstar eru þó rauðhærðar konur en þó bót í máli sé konan vændiskona.
Detti formaðurinn á hnakkann á leið til skips má búast við hvassviðri.
Sé formaðurinn fullur nóttina fyrir róður er segin saga að vel fiskast.
Þegar báti er hrundið á flot og snúið, verður að gera það réttsælis, annars verða snögg veðrabrigði eða önnur óhöpp henda.

Um borð.
Ógæfa er að hafa kvenmann um borð í skipi.
Gott er að láta konu handleika öngla og veiðarfæri. Þá fiskast vel.
Kvensamir menn eru taldir fisknari en aðrir.
Talið er gott að reimt sé um borð í skipi en fari draugar í land, ferst skipið. Hið sama á við um rottur og mýs.
Ólánsvegur er að syngja eða kveða við störf um borð í skipi. Þá dragast að illhveli. Ekki má heldur blístra, þá skellur á stormur.

Ráð við sjóveiki.
Setja gras úr kirkjugarði í skóna sína áður en farið er á sjó.

Gera þann sjóveika reiðan, t.d. með því að slá blautum sjóvettlingi í andlit hans.
Óbrigðult ráð við sjóveiki er að gleypa lifandi smásilung

Sævar í Gröf Benónýsson

Sævar í Gröf
Sævar í Gröf Benónýsson (Binna í Gröf) var fæddur hér í Eyjum 11. febrúar 1931.

Hann var einhver harðduglegasti sjómaðurinn hér til margra ára. Klár og flinkur. Áfengið fór mjög illa með þennan röska og góða mann og lagði hann að velli þegar hann var aðeins 51 árs, 15. janúar 1982.
Hann var frábær sundmaður og varð sá gæfumaður að bjarga nokkrum frá drukknun í höfninni. M.a. Óskari á Háeyri, sem þá var 9 ára, og segir að hluta til hér frá, einnig lítilli stúlku. Í annað sinn sá hann stúlku, sem maraði í sjónum í höfninni. Hann stakk sér eftir henni og kom henni með hjálp upp á bryggju. Þar sem hann hélt á henni og gerði sér ljóst að hún væri dáin, brotnaði þessi harðjaxl saman og grét. Það var ekki óeðlilegt, þetta gæðablóð, sem ennfremur var sérstök barnagæla.
Hann naut sín í botn, þegar hann stóð í reddingum og útvegunum fyrir sig og drykkjufélagana. Með eindæmum þótti hve úrræðagóður og uppfinningasamur hann gat þá verið. Allt var það á heiðarlegum og kurteisum nótum eins og hann var sjálfur alla tíð. Og þekktur var hann að því að borga fyrir sig, ef eitthvað hafði verið fengið að láni. Lengst af var Sævar á Gullborginni hjá pabba sínum. Þar hefur kraftur hans og dugnaður, og þessi eldklára sjómennska komið sér vel. Hann var líka um tíma hjá öðrum t.d. Ásmundi á Löndum á nýsköpunartogaranum Keflvíkingi. Þar var þessi hörkumaður fljótt gerður að pokamanni en í það starf voru settir duglegustu og klárustu mennirnir. Þegar Sævar var búinn að hnýta fyrir í síðasta skipti hverju sinni, var hann áfram í fiskikössunum að blóðga með hinum á vaktinni. Starf pokamanns var auk þess, þegar búið var að leysa frá og hnýta fyrir pokann, að fara aftur á, og bíða þar þangað til að búið var að slaka út og taka vírana í togblökkina. Sævar fór aldrei aftur á fyrr en í þann mund að búið var að slaka út. Hann hamaðist í blóðguninni með hinum og hentist síðan aftur á á síðustu stundu til þess að taka slakann af messanum og slá togblökkinni utan um vírana svo þaut hann fram í kassana að blóðga. Ásmundur sagði oft að á allri sinni togaramennsku hefði hann aldrei fyrr né síðar séð þetta. Svona var Sævar.
Einhverju sinni á síldinni fyrir norðan á Gullborginni lágu þeir við Rauðanúp. Binni var alltaf með byssu um borð enda góð skytta. Allt í einu rekur selur upp hausinn skammt frá. Binni sótti byssuna en í þann mund sem hann ætlaði að skjóta, rétti selurinn upp hönd og veifar. Binni lét byssuna síga en Sævar, sem stóð hjá og fylgdist með, kallaði af ákafa til föður síns: „Skjóttu pabbi hann lýgur þessu."
Öðru sinni voru þeir að koma á Gullborginni að Ingólfshöfðanum og sáu þá 4 breska togara í landhelgi. Binni kallaði á Landhelgisgæsluna og lét vita af þeim. Þeir hífðu og þrír keyrðu út fyrir línu en sá fjórði gerði ítrekaðar tilraunir til að sigla Gullborgina niður. Binni reyndi með öllum ráðum að komast undan og var Sævar uppi á bátapalli og sagði honum til aftan frá. Einhvern tíma í hamaganginum, kallaði hann til pabba síns: „Pabbi ekki gefa þig, láttu hann frekar keyra okkur niður, við getum alveg synt í land."

Snorri Óskarsson
safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar í Vestmannaeyjum kenndi íslensku og dönsku í Stýrimannaskólanum með ágætum. Á sama tíma kenndi Kristinn heitinn Sigurðsson slökkviliðsstjóri frá Skjaldbreið eldvarnir þar, einnig með ágætum.
Einu sinni í prófi hjá Kristni var hann vant við látinn og Snorri lagði prófið hans fyrir nemendurna og sat yfir. Snorri vissi að einn nemandinn var fjarverandi vegna veikinda og þess vegna tók hann til sinna ráða. Snorri er að eðlisfari æringi og fjörkálfur og nú naut hann sín. Hann tók þetta skriflega próf, meðan hann sat yfir, fyrir nemandann fjarverandi og svaraði í hans nafni á sinn sérstaka hátt, og stakk því í bunkann með úrlausnum hinna. Eftirfarandi spurningar voru m.a. lagðar fram:

l. Hverjir eru flokkar eldsvoða?
Sv. Skemmdir, meiri skemmdir, mestar skemmdir. Ég legg mig ekki niður við að flokka skemmdirnar öðru vísi en svona. Oft verða skemmdir af vatni og reyk en það er nú bara í Reykjavík, þeir eru svoddan asnar þar.
2. Hvað ber að aðgæta ef CO2 kerfi er notað?
Sv. 1. Að ekki frjósi á kerfinu því þegar gasið streymir úr kútnum kólnar hann.
2. Að ekki slokkni á sjálfum brunaverðinum því CO2 getur stoppað efnaskipti í líkamanum.
3. Ef CO2 vantar þá bara fá nógu margar ölflöskur opna þær og hleypa loftinu (gasinu) út.
4. Láta CO2 ekki feykjast burt með vindinum.
3. Hvaða grímur eru fullnægjandi gegn CO2?
Sv. Gasgríma frá varnarliðinu og svo hin sem slökkviliðið í Vestmannaeyjum notar.
4. Hvað er mikilvægt við slökkvistarfið?
Sv. Að halda sig nógu langt frá svo að eldur eða gastegundir nái manni ekki og ekki þvælast fyrir slökkviliðinu. Ef eldsupptök eru, ráðast þá að rótum eldsins eins og að rótum þess illa.
5.Hver eiga að vera fyrstu viðbrögð þegar vart verður elds?
Sv. Grípa til handa og fóta, koma sér af stað til að gera eitthvað, vera á undan öðrum til að slökkva, því sjálfs er höndin hollust.
6. A) Hver ber ábyrgð á að skipshöfninni séu kynnt slökkvitæki?
B) Hver ber ábyrgð á að haldnar séu slökkviæfingar?
C) Hve oft á að halda slökkviæfingar um borð í skipum?
D) Sv. A) Kristinn Sigurðsson slökkviliðsstjóri B) Kristinn Sigurðsson slökkviliðsstjóri C) Einu sinni á 30 daga fresti (eða 800 daga fresti, ég man það ekki vel).