Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Bjargvættur á hrakningi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. júlí 2019 kl. 13:20 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. júlí 2019 kl. 13:20 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Bjargvættur á hrakningi

Jón Sturlaugsson hét maður. Hann var enginn meðalmaður eða veifiskati. Hann var sjómaður og útgerðarmaður á Stokkseyri, forustumaður í félagsmálum sveitunga sinna, hreppstjóri um tíma, hafnsögumaður mjög lengi, en slíkur starfi á þeim stað og þeim tíma var ekki á færi annarra en afburðamanna. Hann henti aldrei neitt óhapp við það starf. Jón Sturlaugsson var landsfrægur maður fyrir að hafa bjargað fleiri mönnum úr sjávarháska og oftar en dæmi er um frá hans dögum.

Þessi bjargvættur sjófarenda lenti hins vegar í ótrúlegum hrakningum í Vestmannaeyjum og við Stokkseyri á útmánuðum 1920. Hann stundaði flutninga, með öðru, milli Stokkseyrar, Reykjavíkur og Vestmannaeyja um tíma, stundum yfir vetrarmánuðina, og lenti þá oft í kröppum dansi. En það var ekki óveður sem þessu olli heldur alveg sérstök óbilgirni yfirvalda í hans garð.

Hjónin Jón Sturlaugsson og Vilborg Hannesdótlir. Þau voru bœði fœdd Stokkseyringar og bjuggu þar allt sitt líf. Myndin er tekin 1926, eða síðar, eftir að Jón fékk riddarakross fálkaorðunnar

Sóttvarnir í Vestmannaeyjum.

Páll Bjarnason, skólastjóri og ritstjóri Skeggja
Gunnar Ólafsson, kaupmaður og útgerðarmaður, stundum settur sýslumaður

Vestmannaeyjar voru alloft fyrsti viðkomustaður skipa sem sigldu hingað til lands frá útlöndum með fólk og varning á fyrstu áratugum síðustu aldar, skipa sem svo héldu áfram til höfuðborgarinnar. Vestmannaeyjar voru því sóttvarnahöfn og læknar hér fóru í skip til að gæta að því hvort meðal skipverja og farþega væri sjúkt fólk sem bæri smitsjúkdóma til landsins. Reglan var sú að engum skyldi leyft að fara í land úr skipi frá útlöndum nema hann hefði verið a.m.k. fimm daga heilbrigður frá því að skipið lagði úr erlendri höfn.

Landsmenn höfðu fengið marga bóluna og því var mikilvægt að reyna að stöðva smit frá útlöndum Árið 1918, síðari hluta október og næstu vikur þar á eftir, þegar menn vildu fagna stríðslokum og íslensku fullveldi, barst hingað og breiddist út skæð drepsótt, Spánarveikin, og létust í henni um 460 Íslendingar, þar af 25 í Vestmannaeyjum. Það er því ekki að undra þótt landsmenn hafi verið mjög uggandi þegar fréttir frá útlöndum tóku að berast upp úr áramótum 1920 um að skæð inflúensupest gengi víða í Evrópu, þar á meðal í Danmörku, en þaðan komu flestir hingað til lands.

Snemma í febrúar stingur pestin sér niður í Eyjum og fregnin um það flýgur, m.a. til Reykjavíkur. Skv. frétt í Morgunblaðinu 17. febr. eru 20 manns veikir í Eyjum. Í blaðinu 22. febr. er sagt að annar hver maður liggi í Eyjum og aðeins 10 vélbátar hafi komist á sjó. En pestin sé væg. Morgunblaðið á samtal við Pál Bjarnason, ritstjóra Skeggja, 28. febr., en hann „var þá að koma á fætur úr inflúenzunni". Meiri hluti eyjarskeggja liggur enn í flensunni, þrjú börn hafa dáið. Eldsneytisskortur er mikill og liggja sjúklingar í kulda sem mjög tefur afturbata. — Því má líka bæta við, eins og kemur fram í Eyjablaðinu Skeggja, að á þessum tíma voru í Vestmannaeyjum fimm um hvern kýrspena, sem hlýtur að teljast þröngur kostur (einn peli á mann á dag). Ráðherra heilbrigðismála, Jón Magnússon forsætisráðherra, gerir þegar ráðstafanir, svo sem honum er skylt að lögum, til að beitt sé öllum tiltækum ráðum til að hefta útbreiðslu flensunnar. Hann birtir auglýsingu í Morgunblaðinu 17. febr. 1920, og á forsíðu blaðsins þann 18. „um inflúenzu í Vestmannaeyjum". Þar segir: „Allar skipa- og bátaferðir milli Vestmannaeyja og suðurstrandar landsins eru bannaðar." Alþingi kemur saman 5. febr. en þar er ekki fundafært (tæpur helmingur þingmanna fjarstaddur) þar sem strandferðaskipið Sterling, sem hefur væntanlega tínt upp landsbyggðarþingmenn í ýmsum höfnum í ófærðinni um miðjan vetur, kemur ekki til Reykjavíkur fyrr en nokkrum dögum of seint! Þingið var háð til að staðfesta nýja stjórnarskrá „konungsríkisins Íslands" eftir að sambandslagasamningarnir 1918 voru gerðir og staðfestir. — Karl Einarsson, bæjarfógeti og þingmaður Vestmanneyinga, komst ekki til þings fyrr en 12. febr., viku eftir að það var sett. Hann fer ásamt fimm öðrum Eyjamönnum til Reykjavíkur með norska skipinu „President Wilson", sennilega 11. febr., en þá er veikin ekki komin upp. Talið er að hún hafi þó borist til Eyja áður, annaðhvort með veiku barni sem kom með Gullfossi eða með dauðveikum þýskum sjómanni. Morgunblaðið spyr hvers vegna Karl þingmaður og ferðafélagar hans eru ekki settir í sóttkví. Þrátt fyrir sóttvarnir berst flensan til Reykjavíkur en ekki vitnast um hana fyrr en í byrjun mars. Sóttin reyndist hins vegar væg, það var engin ný „Spánarveiki" á ferðinni; inflúensan gekk fram eftir mars 1920 í Reykjavík og víðar syðra, einnig á Vestur- og Austurlandi og lítils háttar norðanlands, og í raun varð hennar vart fram eftir öllu árinu. Póstskipið ,-,Ísland", sem kom til Reykjavíkur 18. febr. frá útlöndum, var sett í sóttkví. Lögreglustjórinn, Jón Hermannsson, birtir auglýsingu 9. mars:
„ ...skal öllum skólum... nú þegar lokað, ennfremur eru bannaðir almennir mannfundir, opinberar skemmtisamkomur og aðrar samkomur, dansleikir; brúðkaupsveizlur og þess háttar, þar sem margir koma saman í sama húsi. Einnig eru bannaðar messur og líkfylgdir."

Í Morgunblaðinu 20. mars 1920 er loks þessi frétt: „Vestmannaeyjar. Þaðan var símað í gær: Afli ágætur og heilsufar gott. Virðist því svo, sem inflúenzan sé þar um garð gengin." Hrakningar Jóns Sturlaugssonar byrja.

Meðan á þessu gengur heldur Jón Sturlaugsson uppi siglingum milli Stokkseyrar og Vestmanna¬eyja. Til er frásögn hans sjálfs af þeim atburðum sem nú verður sagt frá. Er hún er prentuð í Skeggja, blaði sem Páll Bjarnason, skólastjóri í Vestmannaeyjum, ritstýrði og gefið var út í Eyjum á þessum tíma: „Fór frá Stokkseyri 16. febrúar kl. 12, kom til Vestmannaeyja kl. 4 1/2." — Ekki er vitað um erindi né tölu bátsverja.

„Þegar að „Steinbryggjunni" (þ.e. Bæjarbryggju) kom var þar maður fyrir sem kallaði eitthvað til okkar, en ég heyrði það ekki fyrir hávaðanum í mótornum. Ekki var hann í neinum einkennisbúningi. Litlu síðar kom hr. Gunnar Ólafsson á bryggjuna, kallar hann til mín og segir hann að ég megi ekki fara að bryggjunni, sagði hann sótt ganga á landi.

Ég baðst að mega koma kvenmanni, sem með okkur var, á land og fjórum pokum, leyfði hann það. Lögðum við síðan nær bát sem við bryggjuna var og losuðum okkur við það er leyft var. Gættum við þess vandlega að bátur okkar kæmi hvorki við bát né bryggju; þó gátum við ekki varnað því að bátur okkar snerti bryggjuhornið sem snöggvast og rann þar sjór yfir.

Einn maður komst upp á minn bát sem snöggvast, hótaði ég að berja hann með krókstjakanum ef hann færi ekki þegar í stað, af hverjum sem hann væri sendur. Fór hann þá tafarlaust. Gunnar (Olafsson) bannaði mér allar samgöngur við land og eins að taka bréf." — Gunnar hefur, að ætla má, verið settur sýslumaður, sem hann var oft í fjarveru Karls Einarssonar bæjarfógeta meðan hann var á þingi.

Jón heldur nú áfram frásögn sinni:
„Seint um kvöldið kom bátur til okkar út á höfnina og sögðust bátsmenn hafa bréf til mín. Ég neitaði fyrst að taka á móti því, en þeir sögðu það vera frá bæjarfógeta, og tók ég þá við því.

Með bréfi þessu er mér bannað að fara af Vestmannaeyjahöfn. Um nóttina var harður norðanstormur, en í þeirri átt eru bátar alltaf að hringsnúast hér á höfninni; það gerði minn bátur líka, og draga keðjurnar um akkerin, og tók að reka. Vakti ég megnið af nóttinni og varð ég þess var að við vorum nærri komnir upp í „Básasker" svokallað. Þótti mér þá ekki til setu boðið og lét hita upp vélina til að reyna að ná inn festunum. Gekk það seint því allt var snúið í hnút. Að þessu vorum við í 3 1/2 klst. þar til allt var komið upp á kinnung, akkerin og festarnar. Þá vissi ég ógjörla hvað gera skyldi, okkur bannað að koma að bryggju, ómögulegt að liggja á höfninni. Ég hugði brimlaust á Stokkseyri og tók það ráð að fara þangað, því að ég hélt að ég mætti liggja sóttkvíaður þar við mína festi eins og á Vestmannaeyjahöfn ótryggri, þar sem allt er í veði, bátur og menn."

Haldið til Stokkseyrar.
„Lagði ég síðan af stað en gekk seint því að mikill vindur var á móti og frost um 20 stig er til Stokkseyrar kom. Tók ég festi mína og lagðist um kyrrt. Kemur þá bátur úr landi og fjórir menn á honum. Voru þar komnir sýslumaður og héraðslæknir og tveir róðrarmenn.

Kallar sýslumaður til mín og spyr hvort ég komi úr Vestmannaeyjum og hvort ég hafi engin orð fengið frá sér um að fara ekki af stað [sbr. bréf afhent í Eyjum]. Ég kvað svo vera og greindi ástæður. Skipaði [hann] mér þegar til Vestmannaeyja aftur, en ég beiddist að mega liggja við festi mína á Stokkseyrarhöfn, og hann sóttkvíaði mig þar á höfninni. Lofaði ég að leitast ekki við að ganga á land og ítrekaði þetta hvað eftir annað. Bað hann [mig] mjög að fara til Vestmannaeyja til þess að hann kæmist hjá að senda mig til Reykjavíkur. Vildi hann síðan meina mér frekara viðtals en þó fékk ég það af honum að segja meira. Kvaðst ekki komast til Vestmannaeyja, bátur illa útleikinn, mennirnir ekki búnir til útilegu og olíulaust. Ekki vildi hann heyra þetta, nóg olía þar í öðrum bát, segist sjálfur vera með sængurföt með sér og láta þau í næsta bát, og mat bauðst hann til að senda út.

Húsið Vinaminni á Stokkseyri. Þar bjuggu Jón og Vilborg með börn sín. Húsið reisti Jón 1898, en það var síðar stækkað

Ég sagði að ég færi hvergi nema hann sjálfur vildi ábyrgjast allar afleiðingar af ferðalaginu og játti hann því skýrt og greinilega, svo að við heyrðum allir á bátnum.

Mótoristi minn vildi eitthvað yrða á lækninn, en er læknirinn vildi tala þá rétti sýslumaður út sína hönd fyrir andlit læknisins svo hann gat ekkert sagt. Ég varð hálffeginn þegar ég sá lækninn þar með sýslumanni því að mér var ráðlagt hér að láta skoða skipshöfnina og lofaði ég því. En ekkert vildi læknir tala við mig. Ekki lét sýslumaður sængurfötin í bátinn sem hann lofaði, heldur fór með þau í land og komu þau síðar sjóblaut eins og kostur sá er við fengum.

Sængurfötin átti ég, en ekki veit ég við hvað hinir mennirnir áttu að liggja. Sýslumaður lofaði mér tryggri festi í Vestmannaeyjahöfn. Kvað hafsögumanninn skyldu vísa mér á festina með það sama ég kæmi þar." Guðmundur Eggerz (1873-1957) var sýslumaður í Árnessýslu 1917-1920 og bjó á Eyrarbakka. Hann var fulltrúi bæjarfógeta í Vestmannaeyjum 1927-1931 og ritstjóri vikublaðsins Víðis 1930-1931. Gísli Pétursson (1867-1939) var héraðslæknir í Eyrarbakkahéraði 1914-1937. Starfandi læknir var Gunnlaugur Einarsson.

Aftur til Vestmannaeyja.
„Nú legg ég af stað þann 17. febr. kl. 5 til Vestmannaeyja og kom þar kl. 10 1/2. Ekki kom þá neinn um kvöldið til að vísa mér á festar.

Lagðist ég við akkeri mín sem fyrr, en allt fór á sama veg sem fyrri nóttina. Gátum við þó lagað nokkuð um morguninn. Þann dag um nónbil náði ég í hafnsögumann og spyr hann um festina sem sýslumaður Árnesinga hafi útvegað mér. Hann kvaðst enga tilkynningu hafa fengið um það, enda ekki hafa ráð á neinni festi. Líka kom bæjarfógeti til mín og sagði að það skyldi í té látið sem ég þyrfti með.

Nóttina eftir snerist báturinn á keðjunni og fór mjög úr stað. Daginn eftir [19. febr.] löguðum við það sem aflaga fór. Nóttina eftir var afar vont veður af suðvestri og næstu nótt stóðum við allir uppi. Næstu dægur (til 23. febr.) var sífellt illviðri og höfðum við fullt í fangi með að verjast. Þá voru vistir að þrotum komnar og lagði ég drög fyrir vistir og vatn, og bað um að grennslast eftir um heimfararleyfi.

Jón og Vilborg með börn sín. Efri röð, frá vinsri: Sturlaugur, Sigurbjörg, Snjáfriður og Guðlaug: neðri röð: Guðmundur, Hannes, Jón með Jón nafna sinn í fanginu, Vilborg, Anna (nýlátin) og Hannesína. 10. barn þeirra, Sigrún, dó ársgömul. Myndin gœti verið tekin nokkrum árum áður en þeir atburðir gerast sem sagt er frá í greininni

Þann 23. kom bæjarfógeti til okkar. Gat ég þess við hann að mér leiddist að liggja hér lengur þar eð við værum allir heilbrigðir á bátnum. Hann sagðist þá hafa sent stjórnarráðinu skeyti um ferðalag okkar og vonast eftir svari daginn eftir.

Sú meðferð var höfð við matinn og annað, sem okkur var fært úr landi, að við snertum það ekki fyrr en eftir 24 klst.

Frá þeim degi (23.) rak hvert stórviðrið annað af ýmsum áttum. Þann 26. náði ég loksins í festar. Nú er kominn 6. mars og ekkert svar enn þá komið. Héðan af fer ég hvenær sem fært verður. Ég hef fengið nóg af fangavistinni hér í höfninni.

Þann 17. febrúar var mér boðið að velja um hvort ég vildi heldur koma í land eða haldast við í bátnum og kaus ég heldur að vera í bátnum þar sem ég bjóst við að losna úr sóttkvínni eftir 5 daga. Þess vil ég geta að hefði verið hér sóttarflagg þegar ég kom hér fyrst þá hefði ég aldrei lagt að landi en snúið heim aftur jafnharðan og þá sennilega losnað við allan hrakninginn."
— „Hvers vegna léstu tilleiðast að fara hingað aftur?" spyr blaðamaður.
— „Vegna þess að sýslumaður [Árnesinga] mun vera löglærður, en það er ég ekki, og vissi ég ekki nema hann hefði einhverja lagastafi, sem hann gæti beitt gegn mér. Héðan af hirði ég ekki um slíkt, því að nú kýs ég flest fremur en að vera hér lengur á höfninni."

Páll Bjarnason (1884-1938), sem var ritstjóri Skeggja 1917-1920, hefur skrifað þessa sérstæðu sögu Jóns Sturlaugssonar. Páll var síðar skólastjóri barnaskólans hér, 1920-1938. Hann var Stokkseyringur eins og Jón Sturlaugsson.

Páll bætir við að „einum eða tveimur dögum eftir að Jón skýrði frá þessu, fór hann héðan áleiðis til Stokkseyrar og sennilega þá fengið greiðari viðtökur en síðast". Heim á ný.

Í Skeggja 17. apríl 1920 er stutt frétt um viðtökur þær sem Jón formaður og menn hans fengu heimkomnir: ,Rœkileg sóttargœsla.

Flestum er í fersku minni meðferð sú er bátsverjar á Stokkseyrarbátnum, sem hér var í sóttgæslu, voru látnir sæta. Þótti víst flestum nóg komið er þeir fóru héðan. En þar með var ekki öllu lokið. Þegar heim kom voru þeir settir í gæslu í vikutíma. Gættu þeirra tveir menn á nóttunni að þeir slyppu ekki út úr varðhaldinu, en á daginn var einn vörður látinn nægja. En þó hafður hengilás að loku til varúðar. — Illa má hann vera kyntur í ættborg sinni(!) hafnsögumaðurinn sem bjargað hefur yfir 60 mönnum úr sjávarháska." Jón Sturlaugsson hafnsögumaður og menn hans voru þá heftir frelsi í um það bil mánuð af yfirvöldunum. Síðasti áfangi var eins konar varðhald sem lauk 15. mars 1920.

Um Jón Sturlaugsson.
Hver var Jón Sturlaugsson? Hann fæddist 13. nóvember 1868 í Starkaðarhúsum við Stokkseyri, lést 5. ágúst 1938. Foreldrar hans voru Sturlaugur bóndi Jónsson og kona hans Anna Gísladóttir, bónda á Ásgautsstöðum. Jón missti móður sína átta ára en ólst upp hjá föður sínum og stjúpmóður. Kona Jóns (10. sept. 1898) var Vilborg Hannesdóttir (1873-1949), dugnaðarkona, frá Skipum við Stokkseyri. Árið 1898 byggði Jón húsið Vinaminni. Jón og Vilborg áttu tíu börn, elstur var Sturlaugur Jónsson sem síðar varð þekktur sem umsvifamikill heildsali og í miklum viðskiptum við útgerðarmenn um áratuga skeið (vélasali t.d.). Fyrr á þessu ári lést Anna, dóttir þeirra, sem síðust kvaddi af börnum þeirra.

Til sjós í 45 ár.
Jón Sturlaugsson byrjaði að róa á vorvertíð á tólfta ári og var sjómaður óslitið í 57 ár (1880-1937). Hann var formaður á opnum skipum og vélbátum í 45 ár (1893-1937) og hafnsögumaður í 46 ár, frá 1893 til dauðadags, 1938.

Jón hóf formennsku á opnum bát 24 ára og þótti aflasæll. Þá er mótorbátarnir komu var hann meðal þeirra fyrstu til að eignast vélbát. Fyrsti vélbátur á Stokkseyri var „Ingólfur", 6 smál., smíðaður í Friðrikssundi 1904. Jón sá um smíði næstu tveggja bátanna og var meðeigandi annars þeirra. Vélbátum fjölgaði ört. Vertíðina 1916 gengu 17 bátar frá Stokkseyri. Ástgeir Guðmundsson í Litla-Bæ smíðaði nokkra vélbáta Stokkseyringa.

Vestmannaeyjahöfn 1920

Árið 1908 bættust við tveir vélbátar, báðir 7 tonna, smíðaðir í Danmörku, Vonin og Þorri. Jón keypti Þorra. Hann kostaði 4359,84 kr. með dragnót og spili. Sama ár fór Jón utan til að læra veiðiaðferð og meðhöndlun dragnóta. Var hann brautryðjandi í þeirri grein. Reyndi hann þessa veiðiaðferð vorið 1909, veiddi m.a. kola en varð að hætta því þar sem markað skorti.

Jón eignaðist mb. Vilborgu, 9,45 lesta vélbát (með 12 hestafla Tuxham-vél) árið 1915. Hann var smíðaður á Stokkseyri af Ástgeir í Litla-Bæ. Vilborg gekk aðeins tvær vertíðir. Báturinn fórst á Stokkseyrarsundi 3. september 1917, var að koma frá Reykjavík.

Jón og Sturlaugur sonur hans eignuðust 1917 Þorra II., 12 tonn bát, smíðaðan á Stokkseyri það ár af Jens Andersen, bróður Danska-Péturs, og var Sturlaugur formaður. Báturinn var svo seldur til Eyja haustið 1918 Stefáni í Gerði og fleirum (Halkion; annar með því nafni).

Árið 1917 keypti Jón líka mb. Syllu, 11,5 tonna bát með 15 hestafla Alfa-vél. Guðmundur Jónsson á Háeyri smíðaði bátinn. Jón var formaður með hann til dauðadags, 1938.

Bjargvættur.
Svo var Jón nefndur. Sjö sinnum lék gæfan við hann:
Hinn 15. apríl 1898 kom leki að franskri skútu, og var hún við það að sökkva. Jón sigldi skútunni á land og bjargaðist skipshöfnin, 24 menn.

Stokkseyrarhöfn 1920

Hinn 4. desember 1899 fórst bátur Þorkels Magnússonar á Stokkseyrarsundi. Jóni tókst að bjarga þremur mönnum, tveir fórust. Sjór var ófær.

Hinn 14. mars 1906 strandaði gufuskip, togari frá Hull, austan við Stokkseyri. Brimið gekk óbrotið yfir skipið og allt upp í siglutré. Í áhöfn voru 12 menn. Þeir björguðust allir í skip Jóns, en togarann tók út af skerinu 5 mínútum síðar og sökk hann.

Þann 2. apríl 1908 fórst skip Ingvars Karelssonar á sundinu við Stokkseyri, en það lagði á sundið eitt skipa. Þá er Jón kom voru tveir menn í skipinu sem veltist um í briminu; annar maðurinn fór þó fyrir borð. Jón sætti lagi og lagði inn á sundið. Hann náði eina manninum sem eftir var í skipinu og þremur mönnum örendum. Enginn bátur annar reyndi að lenda, en sneru til Þorlákshafnar.

Hinn 19. mars 1913 reri eitt skip úr Loftstaðasandi í vondum sjó. Reyndi það lendingu á Stokkseyri en þar var stórbrim. Jón fór út á vélbát og bjargaði áhöfninni, 12 manns.

Hinn 16. apríl 1913 bjargaði Jón og menn hans 13 mönnum sem voru í áhöfn áraskips sem ekki gat lent í stórsjó. Lenti Jón við illan leik á Eyrarbakka.

Hinn 14. febrúar 1919 lagði Jón línu langt undan Stokkseyri. Kom þá vélbátur á reki með neyðarflagg uppi og var að hverfa sjónum. Jón brá hnífi á línuna, náði bátnum og dró hann til Þorlákshafnar. Skipverjar voru 8 að tölu.

Jón Sturlaugsson bjargaði því alls 73 mönnum úr sjávarháska, 37 íslenskum og 36 útlendum. Fyrir þau afrek hlaut hann vandaðan sjónauka og heiðursskjal frá bresku stjórninni og skipverjum á togaranum frá Hull. Enn fremur fékk hann heiðursgjöf frá Alþingi 1918 og riddarakross l. des. 1926.

Heiðursmaður.
Jón var forustumaður um margt er að sjávarútvegi og sjómennsku laut í byggðarlaginu, var einn helsti hvatamaður að stofnun Ísfélagsins á Stokkseyri, einnig slysavarnadeildarinnar þar, og beitti sér fyrir lendingar- og hafnarbótum.

Jón Sturlaugsson var fátækur maður þegar hann byrjaði búskap, en efnaðist ágætlega þegar á ævina leið. Hann var stakur reglumaður og kom börnum sín vel til manns. Í tímaritinu Óðni 1927 er honum svo lýst að hann þyki gervilegur, stilltur og ekkert fyrir að trana sér fram, vinsæll og mikils metinn í sínu héraði, fáskiptinn um annarra hagi og enginn smjaðrari!

Páll á Hjálmsstöðum, skáld og bóndi, segir um Jón Sturlaugsson í minningabók sinni (Tak hnakk þinn og hest, sem Vilhjálmur S. Vilhjálmsson skráði 1954) að hann hafi verið „hin mesta kempa, nokkuð dulur og kaldur viðkomu til að byrja með, en það var aðeins para utan um eldinn, því að innra logaði hann. Hann minnti mig stundum á eldfjall, sofandi eldfjall með snæ á kolli." Páll orti mikinn brag um Jón og þar er þetta m.a.:

Stýrði Jón að storðu,
stundum þó væru sundin
lokuð og lögin hvikul,
löðrið skaut hvítum blöðrum.
Skimaði ei bát þó skúmið
skæfi við himinglæfu.
Heill með hölda snjalla
heim í vör rann knörinn.
---
Enginn Íslendingur,
eg veit þótt sé leitað,
barg úr bylgjum körgum
brögnum fleiri að sögnum.
Erlendum úthafsknörrum,
enskum, þýskum, frakklenskum,
kom til liðs þegar lima
og líftjón engu hlífir.