Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Tvennir tímar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Ólafur Sigurðsson


TVENNIR TÍMAR


Að velja og hafna þeim lystisemdum sem eru í boði nú til dags er ekki vandalaust og vart fyrir meðalhaus að átta sig á. Til þess er heldur ekki ætlast, allt er framreitt af slíkum sannfæringarkrafti að jafnvel ofurheilabú tekur gott og gilt. Ýmislegt er því við að vera, en villugjarnt getur orðið á þeim öldum og heimsiglingin ekki alltaf auðveld. Í gamla daga var talað um að sterk bein þyrfti til að þola góðæri. Átt var við að verða ekki vitlaus af lystisemdum lífsins. Það hugtak er ávallt til staðar.
Athafnasvæði unglinga er ekki lengur og bátar, enda fátt sem laðar að á þeim vettvangi. Æ færri pabbar, frændur, að ekki sé nú talað um afa, stunda sjóinn. Má því glöggt sjá að tengslin milli manns, hafs og fjöru hafa rofnað, enda sjósókn byggð á öðrum forsendum en áður var.
Aðdráttaraflið í minni æsku var mótorskellir, stórir þorskar og þessar skelfilegu öldur sem byrjuðu við Bjarnarey og æddu hátt upp í Heimaklett og Urðirnar og áfram yfir hafnargarðana.
Í ölduróti dagsins gerðum við krakkarnir okkur ekki grein fyrir þeirri miklu vinnu sem fólk lagði á sig til að bjarga verðmætum úr sjó og lífsafkoman byggðist á. Unnið var myrkranna á milli við erfiðar aðstæður og soðningin önnur en pítsur og kók.
Í byrjun vertíðar birtust sömu andlitin ár eftir ár, þegar aðkomufólkið kom til starfa, ýmist á bátum eða í landi, enda var hafið gjöfult. Sjómenn tóku í auknum mæli þátt í útgerð, og bjart framundan á þeim vettvangi. Við unglingarnir smituðumst af þessum hasar og settum við bræðurnir á stofn stórútgerð á túninu hans afa í Vatnsdal. Þar komum við fyrir steinum af ýmsum stærðum, allt frá stórhveli niður í ísukvóð, og veiðarfærin voru net, enda mikið hugvit á bak við þessa útgerð. Afa gamla leist ekkert á þessar aðfarir, enda ekki heilsusamlegt fyrir sláttuvélina þegar þar að kæmi. Þó svo að við bræðurnir legðum árar í bát gilti það ekki um aðrar útgerðir þó að til þeirra hafi verið stofnað af fyrrum peyjum sem drógu sinn fyrsta bát á eftir sér um tún eða polla.
Hefði einhverjum dottið í hug að hafbúinn yrði eign fárra, óveiddur, og látið það út úr sér, hefði hann umsvifalaust verið talinn galinn og flokkaður í hóp hinna kynlegu kvista. Nokkuð var til af slíkum listamönnum sem í dag væru lokaðir inni á stofnunum. Þessir kvistir voru úr mannlegu tré, urðu utanveltu í mannfélaginu einhverra hluta vegna. Við þessa karaktera vorum við krakkarnir skíthrædd þó ekki væri ástæða til.
Vart er hægt að lifa svo í fortíðinni að öldugangur nútíðar kalli ekki á. Um þessar mundir er votviðrasamt og fáir sólskinsdagar í hugum sjómanna. Sterkir vindar fylla segl þeirra sem öðlast hafa eignarrétt á auðlindinni að stærstum hluta og má því segja að með tilkomu fiskveiðilaganna hafi verið sótt að því náttúrulögmáli að vindurinn geti ekki blásið úr tveim áttum í senn, sem dæmin sanna. Þjóðin á hafbúann að sagt er, en nýtur hans að litlu leyti. Þrátt fyrir hina neikvæðu strauma í sjávarútvegi hafa orðið miklar framfarir á öðrum sviðum enda mikið vatn runnið til sjávar frá því að fiski var kastað upp á bryggjur af bólgnum höndum. Og nú er ekkert tiltökumál að fara fyrir Klettinn, hinn votviðrasama þröskuld fyrri tíma. Bátar eru öflugir, vel búnir björgunar- og siglingatækjum. Þeir eru því betur búnir til átaka í fangbrögðum Ægis sem óvæginn er sem fyrr ef því er að skipta.
Það er ekki bara glímt við Ægi konung. Glíma lítilmagnans, trillukarlsins, felst í því að standa í lappirnar þótt grimmt sé að sótt, en þeir hafa notið „ástar og virðingar“ stærsta hagsmunaaðilans í sjávarútvegi og er nú svo komið, m.a. að þeirra tilhlutan, að útgerð smábáta er ekki svipur hjá sjón. Kvótalögin hafa leitt sjómenn inn á brautir sem samrýmast ekki eðli þeirra sem veiðimanna. Það er hinn kaldi sannleikur að vera neyddir til að henda fiski fyrir borð hversu ótrúlega sem það nú hljómar. Er því ljóst að kvótalögin hafa farið úr böndunum, enda illa ígrunduð frá upphafi og ekki fyrir meðaljón að skilja.
Já, það var viðbúið að fyrsta kjölfarið við Íslandsstrendur risti grunnt og augljóst að það næsta yrði dýpra og eitthvað annað en árar og segl myndu plægja framtíðarsjósókn. Þetta var eðlileg framþróun sem allir skildu, en engan gat órað fyrir þeirri stöðu sem nú er upp komin í sjávarútvegi hvað varðar veiðarnar og aðra þætti þeim tengda.
Smábátar hafa vaggað við bryggjur Vestmannaeyjahafnar meira og minna í gegnum aldir og þeir verið fastur punktur í tilverunni. Um þessar mundir er trillufloti Eyjamanna öflugur og skilar verulegum verðmætum að landi. Tilvera þessara báta er ekki síst Fiskmarkaði Vestmannaeyja að þakka enda eðlilegt að fiskurinn sé metinn að verðleikum á frjálsum markaði. Samkeppnin er hörð um afurðina. Æ fleiri bátar heltast úr lestinni. Úreldingarákvæði stjórnvalda hafa í för með sér m.a. að hátt í 300 trillukarlar víðsvegar á landinu geta sótt um úreldingu fyrir báta sína. Það er ekki gert með glöðu geði, enda þeim gert ókleift að stunda veiðar af einhverju viti. Margir af þessum trillukörlum höfðu stundað sjómennsku á hinum og þessum bátum sem lagt hafði verið eða seldir hinum „stór“ og þeir séð vonarglætu í smábátaútgerð.
Þeir trillukarlar sem koma til með að halda velli í hrunadansi vitleysunnar gera það af þrjósku og nokkrum öðrum þáttum. Þeir verða ekki aðeins að geta fótað sig á hálum gólfum fjármálanna heldur og taka mótbyr úr öðrum áttum sem fyrr. Er því dans á rósum í þeirri útgerð borin von, enda dettur engum trillukarli slíkt í hug með tilliti til reynslunnar.
Að lokinni sjóferð stígur trillukarlinn enn ölduna þó upp á bryggju sé komið. Hann staldrar við um stund, við tekur þá nokkurs konar bryggjublús. Hann er þreyttur, jafnvel þó ekkert hafi fiskast, hreyfingar hans hægfara og hann skimar í kringum sig, án þess beinlínis að hrífast af neinu, enn er hann í sínum heimi þó í land sé komið. Hafi hann fiskað vel er hann á verði, engan varðar um hvar hann var á sjónum og hafi hann fengið lítið eða ekki neitt gildir hið sama. Hann fer sínar leiðir á morgun burt séð frá öðrum, eflaust lítur hann til veðurs, er næmur fyrir umhverfinu, þótt fasið segi lítið um það. Störf sjómanna eru erfið, ekki síst á smábátum. Þannig hefur það alla tíð verið, enda búa trillukarlar yfir digrum sjóðum andlegra verðmæta.
Auk óbilandi trúar á sjálfum sér er það margt annað sem gerði sjósókn á trillubát eftirsóknarverðara, fyrir utan afkomuna. Það er frelsið. Ekkert í veröldinni er eins vel lifandi og hafið, veiðimennskan er í blóð borin, þótt veiðin sé ekki beinlínis bitin á barkann.
Við fækkun smábáta er eins og „sándið“ vanti í blúsinn, ekki síst eftir að hinir eldri drógu sig til hlés. Það er eins og þessar litlu fleytur hafi líka sál. Enda hefur almenningur taugar til þessara báta þó að hann ráði ekki við gang mála.
Í hinni miklu hagsmunabaráttu, sem nú er háð, hafa trillukarlar í auknum mæli látið í sér heyra. Þusa ekki bara yfir öldunni hvað betur mætti fara, þó að fundarsetur séu ekki beint í forskriftinni.
Í málflutningi sínum hafa trillukarlar lagt áherslu á að vera frjálsir í sínum veiðiskap án afskipta, með öðrum orðum að mega veiða í friði. Engin rök eru til fyrir því að takmarka veiðarnar. Frjálsar krókaveiðar er krafan, vistvænustu veiðar í veröldinni og enginn skaði gerður á neinn hátt. Þetta viðhorf er eðlilegt hvar sem er á litið.
Með kvótalögunum gerðist margt í senn, frelsi til athafna verið skert, í höndum fárra eru bæði kóngar og ásar og því borin von að hasla sér völl í útgerð við núverandi aðstæður, þó þekking og áræði sé fyrir hendi. Það er ekki gæfulegt fyrir fámenna þjóð að stíflaður sé sá farvegur sem hugurinn stefnir í.
Mér kemur í hug gamall æskufélagi minn sem nú er hámenntaður og ávallt verið með höfuðið í lagi. Ég hitti hann á bryggjunni í júní sl. sumar. Við rákumst nánast hvor á annan og viðbrögðin eins og hvor um sig hefði séð draug. Smám saman kviknaði nú ljós í heilabúum okkar og við komumst að raun um að báðir væru vel lifandi. Þessi gamli æskufélagi var alla tíð sérstæður meðal peyjanna. Við töldum hann fullgáfaðan fyrir okkar smekk og var hann oft tekinn í gegn fyrir það. Samt sem áður ólum við þá von í brjósti að í heilabúinu leyndist einhver glæta, þó ekki væri nema í úthverfum þess, svona upp á framtíðina. Ungur að árum fluttist hann frá Eyjum og er nú orðinn gráhærður og fjallhress. Við vorum sumsé báðir til í flestan sjó og þar af leiðandi voru landfestar Einfarans leystar og haldið út fyrir hafnargarða. Þegar þangað kom mundi ég eftir Fiskistofu og sneri til lands. „Hvað, er eitthvað að“ ? „Fiskistofa vill vita hvað við erum að gera“ svaraði ég óhress yfir að hafa gleymt að tilkynna mig út. Vinurinn trúði þessu varla og taldi ótækt að skrifstofa í Reykjavík hefði með það að gera hvort eða hvenær trilla frá Vestmannaeyjum færi á sjó. Ég gat sannfært hann um að Fiskistofa ynni eftir lögum sem lúta yrði þótt vitlaus væru og enn er haldið út og nú löglegir. Veiðigræjurnar voru myndavél sem hékk á velvaxinni ístru vinarins og það sem ég lagði til málanna voru krókar, enda vart hægt að bjóða Einfaranum annað. Veðrið eins og Guð hafi tekið gamla prakkara í sátt, hægviðri og sléttur sjór og dagurinn senn að hverfa inn í bjarta nóttina. Við dustuðum af okkur göturykið og héldum inn í heim sem mér er nokkuð kunnur og rabbað var um hitt og þetta meðan báturinn renndi sér inn í mjúkan sjóinn og skildi eftir sig kjölfar sem fuglinn vasaðist í. Haldið var framhjá Tobba, Stökkunum og Hellutáin sleikt, loks kúplað frá í Suðureyjarsundi. Vinurinn sat afslappaður á vélarlokinu og leit í hrifningu sinni á umhverfið, enda tilveran indæl, fuglinn spókaði sig í blíðunni alls óhræddur við skrifstofumann úr Reykjavík sem fór að mynda í gríð og erg og tautaði eitthvað útí loftið. Ég renndi út færunum og varð honum þá að orði að þetta væru nú meiri græjurnar. „Og eitthvað hefur nú þetta kostað.“ Hann bætti við: „Trillukarlar eru þá ekki staurblankir, ha?“ „Maður fær nú stundum í soðið“ sagði ég og hafði ekki augun af dýptarmælinum í leit að lóðningu. „Ertu ekki með kvóta“ spurð hann hálfhöstuglega. Ég svaraði að bragði að ég væri í banndagakerfinu. „Þar lástu í því, lagsmaður, kvóti er kvóti, með hann má vasast að vild, ég hélt að þú vissir það!“ „Um það veit ég heilmikið, en það er ekki eftir minni forskrift.“ „Jæja“ sagði hann hissa og tók svo að góna upp í himinhvolfið í einhverjum sérstökum hugleiðingum að því er virtist. Loks skotraði hann á mig augunum og spurði hvort ég færi aldrei með sjóferðarbæn. Mér varð svarafátt, enda átti ég ekki von á svona guðlegum hugleiðingum af hans hálfu og svaraði því til að í blíðskaparveðri gæti slíkt gleymst.
„Ég er með svolítið handa þér“ sagði hann fullhátíðarlegur að mér fannst og kippti inn tveim ufsum af færinu. „Og hvað er það?“ „Bæn“ svaraði hann, „bæn þeirra sem eiga fiskinn sem syndir hérna undir bátnum.“ Hann skorðaði sig af í skutnum og byrjaði að tóna með tilbrigðum, fyrir mig, lundann, svartfuglinn og fýlinn sem sáu ekki ástæðu til að flýja strax. Fyrstu tónarnir klufu svo lofthelgi Suðureyjar. „Það hlýtur að vera unaðsleg tilfinning að eiga slatta af þorskígildum á banka og vera laus við allt útgerðarkjaftæði og sjósókn, megi kvótalögin lifa for ever... amen!“ Hann þagnaði og leit í kringum sig með velþóknun. Sennilega hefur aldrei orðið annað eins fjaðrafok í orðsins fyllstu merkingu við bæn dagsins, enda höfðu viðstaddir ýmist forðað sér, er leið á bænina, upp í himinhvolfið eða stungið sér niður í undirdjúpin og ræfillinn ég aldrei eins blankur og nú.
Satt best að segja sagði vinurinn heilmikinn sannleika. „Hvernig fannst þér?“ spurði hann í vímu skáldskaparins, líkast því að hann hafi sturtað í sig tvöföldum vodka. „Þetta var gott hjá þér, en þú hefðir mátt sleppa for ever“ og nú fór miðrúllan að hífa og við blöstu tveir stússar.
Eftir þetta ævintýri á lognsléttum sjónum var haldið heim á leið á hægu nótunum og fuglinn óðum að jafna sig. Vinurinn vasaðist í að gera að og flaka í sinn eiginn pott á Reykjavíkursvæðinu. „Hvernig kannt þú við heim án þaks, veggja og gólfs sem breytir mynstrinu á hverjum degi?“ „Ætli við séum ekki svona nokkurn veginn á sömu bylgjulengd hvað það varðar“ svaraði hann og bætti við eftir að hafa virt fyrir sér Eldhraunið sem við blasti. „Þú yfirgafst ekki Eyjuna í gosinu eins og svo margir.“ „Það yfirgefur enginn sjálfan sig.“ Við þessu svari varð hann hugsi og þar með lagðist Einfarinn í básinn sinn og sló sitt síðasta púst að þessu sinni.
Þegar upp á bryggjuna kom beindi hann sjónum sínum að Heimakletti, hneigði sig, um leið hallaðist hann lítið eitt undan soðningunni.
Ég vil í lok þessarar greinar óska sjómönnum til hamingju með sjómannadaginn, enda er hann þeirra afl og framtíð.