Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Hringferð með Breka VE 61

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 09:11 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 09:11 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Jón Bernódusson


HRINGFERÐ MEÐ BREKA VE 61

Fyrir tíu árum fór ég í sjóferð, nánar tiltekið í lok júlí 1986. Farkosturinn var Breki VE. Ein sjóferð er tæpast frásagnarverð fyrir þá sem stunda sjóinn, en þessi sjóferð var merkileg fyrir mig, og það fyrir margra hluta sakir.
Á þessum árum vann ég við rannsóknarstörf við skipaverkfræðideild Tækniháskólans í Vestur-Berlín. Eitt af þeim verkefnum, sem við unnum að á þessum tíma, var hönnun á „fiskiskipi framtíðarinnar.“ Þessar rannsóknir voru styrktar af rannsóknarráðuneyti Þýskalands. Upp úr miðjum áttunda áratugnum fór mjög að kreppa að þýskum sjávarútvegi, aðallega vegna þess að strandþjóðir eins og Íslendingar höfðu fært út lögsögu sína í 200 sjómílur. Þar sem Þýskaland hefur litla strandlengju og Evrópubandalagið viðurkenndi einungis 12 mílna landhelgi urðu fiskimið Þjóðverja harla lítil. Þetta hafði þau áhrif að fiskiskipin gátu nánast hvergi veitt og verst urðu stóru frystitogararnir úti. Þeim var lagt hverjum á fætur öðrum. Þjóðverjar biðu ekki eftir að fiskiskipastóll þeirra yrði úreltur og útgerðir færu á hausinn þannig að fáir yrðu eftir til sjá um restina. Þess í stað var okkur (og reyndar mörgum fleiri stofnunum) fengið það verkefni að hanna nýtt fiskiskip sem hæfði þeim aðstæðum sem upp voru komnar. Í verkefninu var gengið út frá þörfinni á nýju skipi sem tæki mið af breyttum aðstæðum. Skipið skyldi vera ferskfiskstogari því að í Þýskalandi er ferskur fiskur mun dýrari en frosinn. Einnig átti skipið að geta veitt síld og makríl í flottroll.
Þegar þetta verkefni var komið af stað og forvinna í fullum gangi datt mér í hug að það kynni að vera nokkurt snjallræði að fara til Íslands og reyna að freista þess að komast um borð í líkt skip og vinna þar eins og hver annar til þess að átta mig betur á hvernig veiðar og frágangur ferskfisks gengur fyrir sig. Ég var viss um að á því væri nokkuð að græða að kynna sér yfirleitt hvernig er unnið um borð í Íslenskum togara við veiðar, hvernig tvinnast saman vinna, vinnsla og mannskapur. Með þetta í huga fór ég til Íslands í júlímánuði 1986 og auðvitað heim til Eyja.
Fyrsta málið var að finna pláss og ég vissi að það gæti verið erfitt. Ekki taldist ég vanur togarasjómaður(!). Ég fékk yngri systur mína í lið með mér, enda er hún rösk kona og klárar yfirleitt þau mál sem hún tekur að sér. Hún sagði mér að hringja í Eyva á Vestmanney og Magga Kristins. Ég hlýddi. Eyvi tók mér vel og Maggi Kristins líka. En, þetta var snúið, stutt væri í þjóðhátið og ólíklegt að einhver tæki sér frí. Þeir ætluðu að tala við skipverja og athuga hvort einhver ætlaði að vera í landi. En raunin var sú að enginn ætlaði í frí og því ekkert pláss laust. Systir sagði mér að koma í bíltúr niður á bryggju og sjá hvaða togari væri í landi. Inni í Friðarhöfn lá Breki VE. Nokkrir skipverjar stóðu þar á bryggjunni fyrir framan skipið. Einn þeirra þekkti ég, jafnaldra minn og bekkjarbróður frá því í Gagganum. Þetta var Kiddi Birgis. Hann er þeirrar gerðar að ýta ekki frá sér mönnum þegar til hans er leitað. Hann tók vel í það að ég kæmi með í næsta túr, hvatti mig til að hringja í Sævar skipstjóra og Hjört Hermannsson. Hann skyldi mæla með mér, ekki fyrir það hvað ég væri góður sjómaður heldur vegna þess hvað til stæði hjá mér. Ég hringdi í Sævar og Hjört og tóku þeir vel í málið. Sævar sagði að einn skipverji ætlaði í frí og ef það reyndist rétt fengi ég að fara með. Stuttu seinna hringdi hann og sagði að ég gæti komið með. Mér létti því að erfitt hefði verið að koma aftur til Berlínar án þess að hafa komist í sjóferð. En nú var stundin runnin upp. Fjölskyldan hafði miklar áhyggjur af því hvort ég yrði mér til skammar sem ónytjungur og sjóveikur hvítflibbi. En ég hafði áður verið á sjó, m.a. verið kokkur eina sumarvertíð.
Það átti að fara út klukkan fjögur um nóttina. Ekki þorði ég að sofna og spilaði Trivial Pursuit við systur og mág fram að brottför. Ég hafði keypti mér stígvél í réttum lit og fékk lánaðan galla og gúmmívettlinga. Með þetta mætti ég síðan til skips og var með fyrstu mönnum um borð. Ég hélt mig sem næst Kidda Birgis því að ég vissi að í honum væri góður styrkur, og við urðum sem betur fer klefafélagar. Ég hafði verið lengi í burtu frá Eyjum og á þeim tíma fyrnast kynnin við menn. Ég kannaðist engu síður við mörg andlit en skipstjórann hafði ég þó aldrei séð áður. Mannskapurinn reyndist mér þó í alla staði vel og eru kynnin við þessa stráka það sem gerir þessa sjóferð hvað eftirminnilegasta.
Farið var af stað og keyrt austur með landinu. Ís hafði rekið inn á Húnaflóa og því voru miðin fyrir vestan varhugaverð. Ég lenti á vaktinni frá sex á morgnana og fram að hádegi og frá sex á kvöldin og til miðnættis. Þegar komið var á miðin fyrir austan land tók Kiddi mig með upp í brú, benti niður á dekk á son skipstjórans, sem var á hinni vaktinni, og sagði mér að það sem hann væri að gera yrði ég að læra og leika eftir honum síðar. Ég fylgdist með stráksa og leist ekkert á blikuna því að hann var ansi snaggaralegur og kunni augljóslega vel til verka. Og þetta átti ég að endurtaka þegar mín vakt var úti á dekki. Einnig fór ég upp í brú þegar trollið var tekið inn og enn fylgdist ég með drengnum því að bráðlega kæmi að mér að reyna mig. Ekki þekkti ég nöfnin á þeim hlutum sem notaðir voru á dekkinu og átti ég oft eftir að rugla þeim saman eða gefa þeim ný nöfn. En Kiddi leiðrétti mig og gerði sitt besta til þess að útskýra og svara þeim mörgu spurningum sem ég lagði fyrir hann.
Nú kom sú frétt að ísinn fyrir norðan væri horfinn og ákvað skipstjórinn að fara áfram austur og norður með landinu út á Strandagrunn. Enn hafði ég ekki fengið að spreyta mig og mátti bíða nokkuð því að siglingin á Strandagrunn tók sinn tíma.
Þegar ég var í verknámsdeild gagnfræðaskólans lærði ég bætningar á trollum í Veiðarfæragerðinni og á nótum í Netagerð Ingólfs. Mér sýndist ekki sitja mikið eftir af þeim vísdómi þegar ég sá handbrögð skipverja. Ég var settur við körfuna og fylgdist með strákunum gera annað trollið klárt.
Meðan á ferðinni kringum rúmlega hálft landið stóð fór ég að kynnast strákunum á vaktinni minni betur, svo og kokkinum, skipstjóranum og fyrsta stýrimanni. Hafsteinn kokkur vakti okkur á morgnana. Hann er rólegur maður, prúður, orðvar og góður drengur. Maturinn hjá honum var fyrirtak og naut ég þó sérstaklega morgunverðarins því Hafsteinn hafði þann skemmtilega sið þegar við komum fram á morgnana að setja þýska dægurlagatónlist á kasettutækið. Mér fannst ég vera kominn á þýska krá að fá mér árbít. Kokkurinn kunni nefnilega að meta Þjóðverja og það skildi ég vel. Bátsmaðurinn var Hjalti Hávarðar. Hann fannst mér merkilegur fyrir tvennt. Hann virtist alltaf hafa nóg munnvatn til þess að skyrpa og svo var hann mjög orðheppinn. Verkstjórarnir voru Palli Sig. og Garðar Garðarsson. Palli er mikill húmanisti og hafði kynnt sér margt fleira en vélfræði, enda víðlesinn. Garðar átti það til að koma með í aðgerðina og afsannaði þá kenningu að vélstjórar geri aldrei neitt!
Á leiðinni á Strandagrunn notaði ég tækifærið til þess að kynna mér tækin í brúnni. Var ég löngum stundum uppi í brú og spurði Sævar skipstjóra í þaula. Hann sat í miðri tækjahrúgunni og reykti vindil. Útskýrði hann fyrir mér til hvers hvert tæki væri notað og þótti mér það allt mjög athyglisvert. Sævar hlýtur þó að hafa orðið leiður á mér öðru hvoru því að ég endurtók sömu spurningar oft ef ég náði ekki hlutunum. Eitt sinn var hann nærri búinn að keyra á ísjaka því að ég hafði stolið athyglinni frá honum. En hann náði að beygja frá í tæka tíð!
Fyrsti stýrimaður var Raggi í Skógum. Hann fékk ekki heldur að vera í friði. Sat ég oft tímunum saman hjá honum uppi í brú á spjalli. Aðrir á vaktinni voru Ófeigur, bróðir Ragga, Kjartan, sem var frá Selfossi, og bróðir Hermanns skipstjóra, en Hermann var í fríi þennan túr. Hermanni kynntist ég síðan á þjóðhátíðinni og ég gaf honum og einnig Sigga Vignis skýrslu um túrinn og hegðan skipshafnar. Þá var skálað í korni.
Og svo var komið á Strandagrunn. Nú tók alvaran við og Kiddi stillti mér upp þar sem ég átti að vera. Trollið var látið fara og allt gekk vel. Síðan var híft og ég var tilbúinn að koma með reipin í gilsinn. Dekkið var ansi sleipt en ég datt þó ekki. Og alltaf var mikið í trollinu og yfirleitt beið löng aðgerð. Aðgerðarkerfi skipsins var athyglisvert. Fyrst var blóðgað og rist niður og fisknum hent í kassa á bak við mann. Þegar kassinn var fullur færði maður sig fram fyrir hann þar sem hin eiginlegu aðgerðarborð voru. Þar var slitið úr og þar fór fiskurinn niður í lest. Aðgerðin gekk mjög vel, enda menn duglegir og skapgóðir við vinnuna. Oft fór ég í kapp við Ófeig, hann sleit með vinstri á móti mér, og var alltaf á undan. Ég gaf honum þá „skýringu” að ég léti það eftir honum að vera á undan, enda væri hann tíu árum yngri en ég. Svo hafði hann einnig lánað mér inniskó.
Og áfram leið túrinn. Ég var farinn að verða vanur. Ég var settur á hlerann, þó fyrir aftan hleramanninn sem var Kiddi Birgis. Hann vildi endilega að ég kæmist í sem flest störf. Þó sparaði hann mér það að fara í lestina. Eitt sinn var ég að klára mitt við hlerann og verð var við það að skipið tekur mikla dýfu að aftan. Hinir reyndari komu sér fljótt undan þegar sjórinn var á leiðinni inn fyrir að aftan, en ég varð of seinn. Ég sá hvað í vændum var og hætti við að forða mér og hélt mér þess í stað sem fastast í keðjuna á hleranum. Ég fór ekki alveg á bólakaf því að hárið var þurrt eftir volkið. Nú hlógu menn, en ég lét sem ekkert hefði í skorist og hélt áfram minni vinnu með stígvélinn full af köldum sjó.
Oft gat legið mikið á þegar trollið var sett út og ef Hjalti sá eitthvað athugavert þá rauk hann á trollið og bylti því og velti. Eitt sinn var hann að bæta og trollið var farið af stað. Ekki hætti hann að bæta og ég hélt að hann færi út með því. Ég vildi gera eitthvað í málinu, en menn sögðu mér að vera rólegur, hann væri bara svona. Hann kláraði gatið og stökk svo til hiðar sekúndubroti áður en sjórinn tók hann, og svo skyrpti hann hressilega.
Senn var túrinn á enda. Ég hafði það á tilfinningunni að Sævar væri ekki kominn með nóg í skipið því að þetta voru ekki nema 200 tonn á tíu dögum, og mestan partinn verið á hringsiglingunni. Hann var að hugsa um að sigla til Þýskalands eða Englands og vera í siglingu meðan þjóðhátíðin stæði yfir. Úr því var þó ekki. Tekin var stefna á Vestmannaeyjar og farið vestan með landinu. Nú fékk kokkurinn völdin og var mannskapnum skipað að þrífa skipið hátt og lágt. Hin vaktin fékk millidekkið og við gangana og stýrishúsið. Nú gat skipstjórinn rakað sig og látið aðra um stólinn sinn.
Komið var til Eyja rétt fyrir þjóðhátíð. Hringferðinni var lokið. Ég orðinn vanari til sjós og reynslunni ríkari. Ég var þakklátur þeim sem með mér voru um borð og gerðu þessa sjóferð svo eftirminnilega og notadrjúga síðar. Það sem kom mest á óvart var hve samhentir menn voru, allir vissu nákvæmlega hvað þeir áttu að gera, hvenær og við hvaða aðstæður. Og svo það góða samkomulag sem ríkti milli manna. Þetta minnti mig vissulega á hinn margrómaða þýska aga, þó með talsvert léttara yfirbragði. Þessi sjóferð kenndi mér enn einu sinni þá lexíu að ef vel á að vera þurfa reynslan og fræðin að fara saman.