Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Sjóslysin 12. febrúar 1944

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. apríl 2017 kl. 16:34 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. apríl 2017 kl. 16:34 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (Tenglar, gæsalappir, bandstrik, stór stafur, stafarugl)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri:

Sjóslysin 12. febrúar 1944

Lýðveldisárið
Lýðveldisárið 1944 var ekki eingöngu ár bjartra vona fyrir Íslendinga. Það var eins og svo oft áður, sérstaklega þó á fyrri hluta þessarar aldar, ár sorga og harma fyrir marga sem við sjóinn bjuggu. Þetta var slysaár.
Vetrarvertíðin var ógæftasöm og afli mjög tregur framan af vertíð. Árið 1944 var annað mesta slysaár á styrjaldarárunum 1939-1945, á eftir árinu 1941. Árið 1944 fórust 17 skip, samtals 2344 rúmlestir, og 104 manns drukknuðu með ýmsum hætti hér við landið, bæði af íslenskum skipum og í höfnum, þar af fórust 83 íslendingar.
Meðal þeirra skipa, sem fórust, var farþega- og flutningaskipið Goðafoss, 1542 rúmlestir að stærð, sem var sökkt af þýskum kafbáti rétt við Garðskaga, en þá var um tveggja tíma sigling eftir inn til Reykjavíkur. Með skipinu fórust 24 Íslendingar, þar á meðal ung læknishjón, ásamt þremur börnum sínum kornungum, og voru þau að koma frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Einnig drukknuðu þar 18 erlendir sjómenn, en Goðafoss hafði skömmu áður bjargað fjölda manna af skipum, sem höfðu verið skotin niður, og voru 63 menn um borð þegar tundurskeyti grandaði Goðafossi.

Vetrarvertíðin 1944.
Vertíðina 1944 gengu 60 vélbátar frá Vestmannaeyjum, 40 voru með línu, 12 á botnvörpu og 8 voru með dragnót.
Vetrarvertíðin í Vestmannaeyjum árið 1944 byrjaði hjá mörgum sjómanninum með útilegunótt. Aðfaranótt 10. janúar fóru 11 bátar í róður í allsæmilegu veðri, en þegar leið á daginn skall á suðaustan hvassviðri með snjóbyl. Aðeins einn bátur, Emma VE 219, náði landi klukkan um 6 um kvöldið. Þá var komið svartamyrkur, bylur og stórsjór. Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum, formaður með Emmu, skrifaði m.a. í skipsdagbók Emmu um þennan róður:
„Við á „Emmu" vorum eini báturinn, sem náðum inn í höfn um kvöldið, um kl. 6, og mátti ekki seinna vera, því þá var myrkrið og snjóbylurinn að verða svo svart, og rokið mikið. Er við fórum austur úr Faxasundi sáum við bara dekkja fyrir Faxaberginu, en ekki Lat, þar nœst brimið á Lögmannssœti og svo ekkert, fyrr en rauða ljósið á hafnargarðsvitanum, vorum við þá búnir að lensa, halda undan sjó og veðri, góða stund.“ Þetta var auðvitað löngu fyrir tíma ratsjár í nokkru íslensku skipi.
Veðri þessu slotaði fyrst eftir tvo sólarhringa. Aðeins þrír bátar gátu haldið sjó undir Eiðinu og Kambinum við hinar erfiðustu aðstæður í suðaustan foráttuveðri, kolsvarta byl og náttmyrkri, um kvöldið hinn 10. og aðfaranótt 11. janúar. Þó voru þeir þar á tiltölulega sléttum sjó miðað við þá sem voru úti í sortanum, aðeins með kompás og sjómannsreynslu sína og hyggjuvit til leiðsagnar. Engin önnur siglingatæki voru þá í bátunum, utan að einstaka stærri bátar höfðu miðunarstöð. Einn bátanna sem lá úti, en þeir höfðu allir róið á Norðvesturslóð, 1-2 klst. siglingu frá Faxa, komst ekki til hafnar fyrr en á fimmta degi og hélt sjó vestur af Þrídröngum. Báturinn var þá talinn af, en talstöð hans var biluð og óvirk. Þetta var Skúli fógeti VE 185 og var formaður hinn þekkti sjósóknari Ólafur Vigfússon frá Gíslholti.

Togari fórst.
Í þessu veðri, hinn 11. janúar, fórst togarinn Max Pemberton frá Reykjavík, 321 smálest að stærð, með allri áhöfn, 29 mönnum. Max Pemberton fórst í norðanverðum Faxaflóa eða við Snæfellsnes. Miklar getgátur voru um að skipið hefði farist mjög skyndilega af völdum tundurdufls, en ekkert heyrðist til togarans eftir að skipstjórinn hafði sent skeyti um að þeir lægju í vari undir Malarrifi.

Mannskaðaveður.
Hinn 12. febrúar 1944 gekk aftaka suðvestan veður yfir landið með miklu brimi og hafróti. Þetta var hið mesta mannskaðaveður og fórust fjórir bátar með 15 sjómönnum.
Margir bátar urðu fyrir áföllum og rak á land. Veiðarfæratjón var mikið. Það er eftirtektarvert að lesa hvernig Vestmannaeyjablaðið Víðir skrifaði um tap veiðarfæra á þeim válegu stríðstímum sem þá voru um allan heim: „Veiðarfœratjónið varð allsstaðar mikið. Spillir það mjög útliti með vertíðaraflann, þar sem veiðarfœraskortur er tilfinnanlegur um land allt.“
Frá Vestmannaeyjum fórust í þessu veðri tveir bátar með allri áhöfn, samtals níu mönnum. Bátarnir sem fórust voru: Njörður VE 220, 15 smálestir að stærð, smíðaður úr furu í Vestmannaeyjum árið 1920, með 30 hestafla Alfavél. Með honum fórst öll áhöfnin, fjórir menn. Freyr VE 98, 14 rúmlestir, og með honum fimm menn. Allt voru þetta menn í blóma lífsins. Freyr var smíðaður í Færeyjum árið 1920, úr eik og furu, og var með 48 hestafla Tuxhamvél. Báturinn hét áður Friðþjófur. Hann var lengst af í eigu Friðriks Svipmundssonar á Löndum, sem var þekktur aflamaður og sjómaður í Vestmannaeyjum (afi Friðriks Ásmundssonar skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum).
Í 50 ára minningu þeirra sjómanna, sem fórust, er þessa atburðar minnst í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Um leið er rifjað upp hvernig aðstæður við sjósókn frá Vestmannaeyjum voru á þessum árum.

Bátar á bólum.
Á þessum tíma lágu flestir mótorbátamir við legufæri og ból úti á Botni og var róið um borð í þá áður en „blússið“ var gefið en svo var brottfararmerki línubátanna á ákveðnum tíma á línuvertíðinni nefnt. Á nóttinni var róið um borð í bátana á skjöktbátum. Flestir bátar sem lágu við ból á Botninum, austan við Básaskersbryggjuna, geymdu skjöktbátana í Hrófunum þar sem hafði verið uppsátur Eyjaskipa frá aldaöðli. Hrófin voru norðan við Strandveginn þar sem mjölskemma FES var síðar reist, beint upp af Læknum sem svo var nefndur, á milli Bæjarbryggju að vestan og Edinborgarbryggju að austan, en í framhaldi af Edinborgarbryggjunni til vesturs var Nausthamarsbryggjan síðar byggð. Nokkrir mótorbátar geymdu skjöktbátana í uppsátri sem var austan við gamla Íshúsið þar sem Ísfélag Vestmannaeyja var síðar byggt og vestan við króarpallana sem voru aldrei nefndir annað en Pallarnir. Vélbátar sem lágu vestast á Botninum lögðu skjöktbátum við grjótin vestan við Sælaslipp, austan og neðan við Gúanóið (FIVE). Á þessum árum var bryggjupláss lítið, m.a. vegna flutninga á nær öllum fiski, ísvörðum, beint til Bretlands með fisktökuskipum, íslenskum og færeyskum, sem voru flest gamlar skútur. Ótryggar veðurfréttir.
Veðurfregnir á þessum styrjaldartímum voru ótryggar og stopular og stranglega var bannað að útvarpa veðurfréttum.
Söluturninn stóð þá austar en nú er, á móts við suðurdyr Ísfélagsins, norðan við Nýborg, rétt við hornið á Mandal sem þá var.
Allt frá því að Þorlákur Sverrisson á Hofi opnaði verslun sína í Turninum árið 1927 höfðu veðurskeyti verið hengd þar út í glugga. Fyrir tilstuðlan. Björgunarfélags Vestmannaeyja var sjálfritandi loftvog (barograf) sett út í gluggann. Ef spáð var stormi voru veðurskeytin rauð a lit. Kom þessi þjónusta sjómönnum vel og veitti bátaflotanum mikilsvert öryggi áður en útsendingar Ríkisútvarpsins hófust árið 1930. Þegar Ísland var hernumið af Bandamönnum í maí vorið 1940 voru allar útsendingar veðurfrétta bannaðar, einnig var þá stranglega bannað að birta veðurfregnir í glugganum á Turninum sem og annars staðar. Þó var leyft að hafa „barografið" áfram úti í glugganum. Ef stormur, 8 vindstig eða meira, var í aðsigi var kveikt á rauðu ljósi í glugganum.

Svikalogn.
Aðfaranótt laugardagsins 12. febrúar réru bátar úr öllum verstöðvum í sæmilegasta veðri, flestir voru þeir á línuveiðum. Undir morgun skall á eins og hendi væri veifað suðvestan ofsaveður, 11-12 vindstig, með haugasjó og stórveltubrimi. Á Vestmannaeyjamiðum voru öll grunn uppi og grunnbrot og brimskaflar víða um sjó. Milli harðra og dimmra útsynningsélja gat frá Eyjum að líta Landeyjasand og Eyjafjallasanda hvítkögraða.
Ritstjóri Vestmannaeyjablaðsins Víðis, Magnús Jónsson skipstjóri frá Sólvangi, sagði svo frá sjóslysunum og þessu veðri í Víði, sem kom út 26. febrúar 1944:
„Laugardagurinn 12. febrúar varð mikill óhappadagur hér sunnan lands. Veður var hér hið versta þennan dag, útsynningsrok og stórbrim. Hœgviðri var um nóttina og narraði menn á sjóinn, en í dögun kom veðrið eins og byssuskot. Flestir bátanna byrjuðu línudrátt, en náðu misjafnlega miklu af henni. Mun línutap þennan dag hafa orðið meira en áður hefir orðið á einum degi hér. En þó nokkuð af töpuðu línunni hefir aftur náðst. Flestir bátarnir urðu lengi að stríða við stórsjó og rok áður en þeir náðu heim. Einn af stœrstu línubátunum (Ísleifur VE 63) varð fyrir talsverðum skemmdum ofandekks. Tveir bátar komu ekki heim; Freyr VE 98, 14 smál. og Njörður VE 220, 15 smál. Sá bátur sást halda af stað heim á leið um hádegisbilið, en til hins hafði enginn séð. E.s. Þór var á ferðinni til eftirlits allan þann dag og leitaði nœstu nótt og nœsta dag, en árangurslaust. Báðir bátarnir voru eign h.f. Fram.“
Svo snögg og hörð voru veðraskil þennan dag að sumir líktu því við gjörningaveður. Njörður hafði lagt línuna vestur af Einidrang og sást það síðast til bátsins að hann var lagður af stað heimleiðis um hádegisbil og virtist þá allt vera í lagi þar um borð. En Njörður kom ekki til hafnar og daginn eftir fannst bjarghringur og brak úr bátnum rekið á Bakkafjöru í Landeyjum. Þótti þá sýnt hver hefðu orðið örlög Njarðar og áhafnar bátsins.
Freyr lagði lóðir sínar norðvestur af Einidrang ásamt öðrum báti. Sást til skipverja á Frey þar sem þeir voru að draga línuna, en eftir það fréttist ekkert af bátnum og enginn reki fannst úr Frey.
Faðir minn, Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum, var þessa vertíð eins og áður segir með Emmu VE 219. Hann minntist þess oft að hann hefði varla séð ljótari sjó við Eyjar en þennan dag. Á landleiðinni varð hann iðulega að snúa Emmu litlu, sem var listafleyta, upp í sjó og vind þegar hann sá til stórsjóa og brota sem nálguðust bátinn. Eyjólfur ritaði í skipsdagbók sína, sem hann ætíð hélt, laugardaginn 12. febrúar:
„Farið frá Vestm.eyjum kl. 3 f. md. Byrjað að leggja lóðina NV að N, 2 1/2 mílu frá Þrídröngum. Vindur S-2. Skýjað loft og þunga brim. Kl. 745 f.md. var byrjað að draga inn lóðina. Var þá komið hvassviðri af SSV með dimmum jeljum. Lokið við að draga línuna kl. 1410. Var enn sama hvassviðri, en vindstaða SV og stórsjór. Töpuðum 15 strengjum af línu.
Komum að bryggju kl. 1545. Afli 2200 kg.“
Á blaðsíðu um vinnu, viðburði, notkun talstöðvar o.fl. skrifaði Eyjólfur í dagbókina:
„Kl. 1030 kallað á m/b Lagarfoss VE 292 á 188 m. Tala við skipstjórann um afla og hvernig gangi að ná inn lóðinni. Samtal varir 5 mín.
Kl. 1530 komum við á Ytri höfnina. Tókum þar í eftirdrag m/b Pipp VE 1 og drógum hann að bryggju. M/b Pipp VE 1 var með bilaða vél og hafði varðskipið Þór dregið hann að landi (Ytri höfnina).
Þennan dag fórust 2 vélbátar með allri áhöfn og voru það þeir „Freyr“ VE 98 með 5 mönnum og „Njörður“ VE 220 með 4 mónnum. Formaður með „Frey“ var Ólafur Jónsson Hlíð. Formaður með „Njörð" var Guðni Jónsson Vegamótum. Eyjólfur Gíslason."
Miklar ógæftir voru næstu viku eftir slysið, t.d. var ekki róið á m/b Emmu fyrir en laugardaginn 19. febrúar. Þessu sjóslysi fylgdi sem alltaf þessi ólýsanlegi tregi og hljóði harmur sem gagntók alla í bænum.

Guðni í Ólafshúsum.
Formaður á Nirði var Guðni Jónsson á Vegamótum, einnig og oftar kenndur við Ólafshús, þar sem hann var uppalinn og fæddur 6. júní 1903. Hann var vinur pabba. Sex ára aldursmunur var á þeim; Eyjólfur, fæddur 1897, er enn á lífi og dvelst á Dvalarheimili aldraðra sjómanna (DAS) í Reykjavík. Æskuheimili þeirra voru uppi á bæjum eða í girðingunni sem svo var stundum nefnd. Eyjólfur var frá Eystri-Búastöðum sem voru spölkorn norðaustur af Ólafshúsum og fóru undir hraun og eimyrju í eldgosinu 1973. Aðeins tún
Vestri-Búastaða skildu að tún jarðanna, en þær áttu frá fornu fari saman reka í Brimurð einn dag í viku. Þeir Eyjólfur og Guðni höfðu verið saman á sjó og í fjöllum og á skipstjórnarnámskeiði hjá Sigfúsi Scheving í Heiðarhvammi árið 1922. Eyjólfur lýsti Guðna sem góðum sjómanni og ógleymanlegum félaga á sjó og í fjöllum. Slíkt orð báru honum allir. Hann var hvers manns hugljúfi. Guðni var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs, hinn 1. maí árið 1921, og sat í fyrstu stjórninni sem gjaldkeri. Hann var afburða karlmenni og íþróttamaður ágætur, sérstaklega þó í knattspyrnu og íslenskri glímu, mikill drengskapar- og gæðamaður eins og hann átti kyn til. Foreldrar hans voru hjónin Jón Bergur Jónsson, bóndi og formaður, og fyrri kona hans, Elín Sigurðardóttir. Þriggja ára að aldri missti hann móður sína og ólst upp í Ólafshúsum hjá föður sínum og síðari konu hans, Jórunni Erlendsdóttur. Guðni byrjaði til sjós 15 ára gamall og eftir að hann lauk skipstjómarprófi, nítján ára gamall, var hann skipstjóri og vélstjóri, m.a. með Gullveigu VE 331 á síldveiðum og trolli. Þetta var fyrsta vertíð hans með Njörð. Guðni kvæntist Önnu Eiríksdóttur frá Vegamótum 18. júní 1932 og eignuðust þau fimm börn. Eitt þeirra, Jón Bergur, andaðist kornabam, en fjögur barnanna voru á lífi þegar Guðni fórst. Hið elsta, Eiríkur Ágúst, síðar skólastjóri Barnaskóla Vestmannaeyja (d. 1987), var þá 11 ára; yngstur var Hjálmar, loftskeytamaður og hljómlistarkennari, fæddur 9. desember 1940 og því á fjórða ári. Hin systkinin voru Sigurbjörg skrifstofustjóri, f. 29. des. 1935, og Gylfi menntaskólakennari, f. 16. nóv. 1937.

Heimilið á Vegamótum.
Pabbi hafði frá æsku verið kunnugur heimilinu á Vegamótum. Þar bjuggu hjónin Sigurbjörg Pétursdóttir og Eiríkur Hjálmarsson kennari við Bamaskóla Vestmannaeyja, miklar gæðamanneskjur og í uppáhaldi hjá föður mínum, en synir hjónanna, Haraldur og Hjálmar, voru á líkum aldri og hann. Bamaskóli Vestmanneyja var frá 1904 í þinghúsinu Borg sem var næsta hús fyrir sunnan Vegamót. Þangað var því leiðin stutt í frímínútum og sagði Eyjólfur að Sigurbjörg á Vegamótum hefði átt í sér margan bitann. Daginn eftir slysið, sunnudaginn 13. febrúar, fór pabbi niður að Vegamótum. Hann reyndi eins og fleiri að létta fjölskyldunni byrðar sorgar og vottaði þeim samúð sína og okkar allra. Ég fór með honum, þá níu ára gamall.
Sigurbjörg, móðir Önnu, lá þá fjörgömul og brjóstveik í rúmi við austurgaflinn, en börnin léku sér á gólfinu. Hin elstu voru miður sín og sorgmædd. Ég hef aldrei getað gleymt þeirri dapurlegu mynd sem var í ranni þessarar sjómannsfjölskyldu þennan dag, sjómannsekkja með fjögur ung börn og háaldraða móður sína, fársjúka. Ef til vill hef ég verið hrifnæmur og viðkvæmur, en sjóslys þessara ára og þessi heimsókn hafði djúp áhrif á mig. Þó fannst mér eins og flestum öðrum Eyjadrengjum á þessum árum að ekkert væri samt eftirsóknarverðara framtíðarstarf en að vera sjómaður. Slíkar raunir og harmar sem gerst höfðu urðu margar sjómannskonur og fjölskyldur að bera þennan dag og á þessum árum.
Anna Eiríksdóttir var þekkt gáfukona. Hún tók hinu sviplega slysi, drukknun eiginmanns og fyrirvinnu fjölskyldunnar, með mikilli stillingu og æðruleysi. Öll komust þau systkinin á Vegamótum vel til manns og mennta. Eflaust hefur þar oft verið erfitt þó að þau ættu góða að. Þau æðruðust ekki og yfir heimilinu var rósemi hinna syrgjandi. Anna á Vegamótum andaðist 4. janúar 1988.

Slys í öðrum verstöðvum.
Þennan dag urðu sem fyrr segir slys í verstöðvum víðar hér sunnanlands. Um þetta segir í Víði 26. febrúar 1944:
„Frá Akranesi fórst Björn II, vegna óstöðvandi leka. sem kom að honum. Skipshöfninni bjargaði m.b. Fylkir, sem þar var nœrstaddur. Þá fórst m.b. Ægir frá Garði. Af honum drukknaði einn maður, Sigurður Björnsson frá Sandgerði, um þrítugt. Kvongaður og átti 3 börn.
Hinum skipverjunum bjargaði m.b. Jón Finnsson frá Garði, sem bar þar að um það leyti sem Ægir komst á réttan kjöl, með brotin möstur og stýrishúslaus, eftir að hafa á svipstundu oltið heila veltu. Þegar það var afstaðið komu þeir sem í hásetaklefa voru, ómeiddir upp á dekk. Sá sem drukknaði var í stýrishúsi hjá skipstjóra og fór út með húsinu. En það varð skipstjóra til lífs að hann festist undir planka á dekkinu. Það kostar mikið snarrœði og gœfulegt er það að geta bjargað mönnum í þessu ástandi í slíku foraðsveðri. Þá rak tvo báta á land í Keflavík og skemmdust báðir, annar allmikið.
Hornafjarðarbátar sem á sjó voru þennan dag, komust í hann krappan, en náðu landi á Djúpavogi. Einn bátur Báran fékk á sig brotsjó og laskaðist mikið. M.B. Hvanney tókst að koma festi í hana og draga til lands.“

Aðrir sem fórust með Nirði og Frey.

Með Nirði VE 220:
Jóhannes Þorsteinsson vélstjóri, 54 ára að aldri, frá Vöðlum í Önundarfirði. Hann var fæddur í Skötufirði við Ísafjarðardjúp 28. sept. 1889 og hafði stundað sjó frá fermingaraldri. Jóhannes hafði verið vélstjóri á ýmsum skipum þar vestra, lengst með Guðmundi Þorláki á útlegubátnum Ísleifi sem síðar var keyptur til Vestmannaeyja, eða samtals í 7 ár, frá 1916-1923, en sjósókn á útilegubátunum frá Ísafirði þótti sérstaklega hörð. Jóhannes var ekkjumaður og átti þrjú uppkomin börn. Björn Jóhannsson háseti. Hann var frá Siglufirði, 21 árs, fæddur 3. júlí 1922. Foreldrar hans voru Sesselja Jónsdóttir, sem hann missti 10 ára gamall, og Jóhann Sveinbjörnsson tollþjónn. Björn var ókvæntur og barnlaus. Hannes Kristinn Björnsson frá Leynimýri við Reykjavík. Hann var 25 ára, fæddur 25. nóv. 1918. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir frá Stokkseyri (d. 1933) og Björn Sæmundsson sem tók út af togaranum Snorra goða í janúar 1925. Bróðir Hannesar, Halldór S. Björnsson, fórst með línuveiðaranum Jarlinum sem hvarf sporlaust með allri áhöfn, 11 mönnum, á leið frá Englandi til Íslands í september árið 1941. Vafalaust hefur það verið af stríðsvöldum. Óskar Björnsson bifreiðastjóri við Faxastíg, sem nýlega er látinn, var bróðir Hannesar Kristins, en nafni hans, Hannes Óskarsson, fórst í hinu hörmulega Pelagusslysi við Urðimar á austurströnd Heimaeyjar.

Með Frey VE 98 fórust:
Ólafur Magnús Jónsson frá Hlíð í Vestmannaeyjum. Hann var 29 ára gamall, sonur hjónanna Þórunnar Snorradóttur og Jóns Jónssonar sem bjuggu í Hlíð við Skólaveg. Jón, faðir Ólafs, setti á sinni tíð mikinn svip og lit á bæjarlífið í Vestmannaeyjum, glaður og reifur maður sem öllum þótti vænt um. Hann var á yngri árum sjómaður og síðar útgerðarmaður til margra ára, auk þess stundaði hann eins og þá var títt talsverðan búskap. Meðal barna þeirra hjóna voru, auk Ólafs, Hreggviður bifvélavirki og systurnar Kapítóla, eiginkona Jóns Þorleifssonar, og Ásta, eiginkona Óskars Jónssonar, sem bjuggu í Sólhlíð og voru kennd við þá götu, auk þess Guðrún og Sigurbjörg, búsettar í Danmörku. .Jón í Hlíð var vel hagmæltur, orti falleg erfiljóð og ritaði skáldsöguna Fólk. Ólafur í Hlíð byrjaði ungur sjómennsku og varð formaður aðeins 18 ára gamall, árið 1933, með m/b. Hansínu sem hann var með þar til báturinn sökk 19. apríl 1937. Færeysk skúta sigldi Hansínu niður sem í foraðsveðri var vélarvana og undir seglum. Breskur togari undir skipstjórn íslendingsins Guðmundar Ebenesarsonar bjargaði áhöfninni. Eftir þetta var Ólafur með Sleipni og Frey sem hann fórst með. Ólafur var ókvæntur en lét eftir sig dóttur sem hann átti með Margréti Guðleifsdóttur og fæddist hún eftir að faðir hennar drukknaði og var skírð Ólöf Margrét.
Matthías Ólafsson vélstjóri frá Vopnafirði. Hann var 19 ára gamall, fæddur 3. febrúar 1925 að Leiðarhöfn í Vopnafirði. Foreldrar hans vom Pálína Steindórsdóttir og Ólafur Albertsson. Matthías hafði stundað sjó frá bamæsku eða frá því að hann var 12 ára gamall. Haustið 1943 lauk hann vélstjóranámskeiði í Neskaupstað. Freysteinn Hannesson háseti, Reykjavfk. Hann var 21 árs gamall, sonur hjónanna Guðrúnar Hallbjörnsdóttur og Hannesar Freysteinssonar skipstjóra, fæddur 27. september 1922. Þótt ungur væri að árum hafði hann verið í stríðssiglingum og árið 1943 sigldi hann með amerísku skipi hina hættulegu leið á þessum tímum til Murmansk í Rússlandi. Freysteinn var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur Kristjánsson háseti, Fáskrúðsfirði. Hann var tvítugur að aldri, sonur Guðrúnar Magnúsdóttur og Kristjáns Jóhannssonar sem bjuggu að Hvammi í Fáskrúðsfirði, fæddur 31. ágúst 1923 og þar uppalinn. Þetta var önnur vertíð Guðmundar í Vestmannaeyjum.
Sæmundur Arnason háseti. Hann var 19 ára, fæddur 5. september 1924. Foreldrar hans vom Margrét Loftsdóttir og Árni Sæmundsson sem bjuggu að Bala í Þykkvabæ þegar sonur þeirra fórst. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Með sjómannadagskveðju.
Guðjón Ármann Eyjólfsson

Heimildir:
1. Virkið í norðri, III. bindi, Sæfarendur, eftir Gunnar M. Magnúss, 2. útgáfa 1984 í umsjá Helga Haukssonar.
2. Víðir, Vestmannaeyjum 1944.
3. Skipsdagbækur Eyjólfs Gíslasonar frá Bessastöðum, skipstjóra á m/b. Emmu VE 219.
4. Islensk skip, 4. bindi, eftir Jón Björnsson í Bólstaðarhlíð.
5. Eyjar gegnum aldimar eftir Guðlaug Gíslason.