Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Úr syrpu Eyjólfs Gíslasonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Úr syrpu Eyjólfs Gíslasonar frá Bessastöðum


Eyjólfur Gíslason

ÞÚ HELLIR FULL FULLT
Fram um 1930 höfðu Landeyjarbændur aðallega sín verslunarviðskipti við Vestmannaeyjar, vor og haust. Þessar ferðir voru oftast farnar á þeirra vetrarvertíðarskipum, sem flest voru áttæringar, þó kom það fyrir, að þeir færu þessar ferðir á minni skipum. Eftir að mótorbátarnir komu til Eyja upp úr 1906 fóru þessar verslunarferðir fram með þeim, sagt var, að oft hefðu þá sumir þessara sveitamanna fengið sér vel í staupinu, þegar vínið var selt í staupum í verslunum og á Vertshúsinu (Frydendal) og hafði það tíðkast fram um síðustu aldamót árið 1900.
Sagt var, að sumir karlarnir í þessum ferðum, hefðu verið orðnir góðglaðir, þegar þeir fóru að nálgast Eyjar, af tilhlökkuninni í staupin.
Þá sögu heyrði ég sagða af einum Landeyjaformanninum (ekki var nafns hans getið), að eitt sinn, er hann var í Eyjaferð og var kominn út undir Álinn af Faxaskeri fór hann undir ár og lét annan stýra. Þegar hann ætlaði að segja við þann, sem stýrði: „Þú heldur heldur (-of) hátt", það er að segja of nærri vindi, þá sagði hann: „Þú hellir full fullt" og var þá kominn í huganum á Vertshúsið í Eyjum.
Þá heyrðist og einn þessara formanna segja upphátt við sjálfan sig, þegar hann labbaði niður Austurbúðarbryggju að skipi sínu, sem flaut þar fullfermt og ferðbúið til heimferðar: „Það er þrennt, sem þarf að fara vel undir: Það er konan, hesturinn og skipið".

„Nansen“ 7.34 tonn, smíðaður 1906 í Danmörku
„Fálki“ 9,81 tonn, smíðaður 1906 í Noregi

FYRSTA ELDEYJARFÖRIN TIL SÚLNA FRÁ EYJUM
Það var að afloknum fýlaferðum, um mánaðamótin ágúst, september árið 1907, að farið var héðan fyrst til súlna í Eldey á tveimur mótorbátum. Bátarnir, sem fóru þessa fyrstu ferð voru m/b „Fálki“ VE 105, sem var 9,81 tonn að stærð með 10 hestafla Hoffmannsvél, einna strokka (sílundra). Báturinn var keyptur frá Danmörku og siglt hingað síðla sumars 1906. Hann var sléttbyrtur (kantsettur) og þótti þá mikið skip, en gangtregur. Hinn báturinn var „Friðþjófur Nansen“ VE 102, sem var 7,43 tonn að stærð með 8 hestafla Danvél. Þessi bátur var alla tíð kallaður „Nansen“.
Farið var af stað frá Eyjum seinni part dags og var þá kominn stinningskaldi af suðaustri, sem fór vaxandi með regni og dimmviðri. Bátarnir héldu saman, þar til dimma fór af nótt, þá urðu þeir viðskila, af því að hjá hvorugum þeirra lifði ljós ofan þilja.
Fálkinn hætti þá undanhaldinu og andæfði upp í sjó og vind fram í birtingu um morguninn og voru þeir þá fram af Selvogi. Nansen hélt áfram alla nóttina og var kominn fyrir Reykjanes með morgninum. Fálkinn hélt síðan áfram ferð sinni og fóru báðir bátarnir inn í Ósabotna í Höfnum og lögðust þar fyrir akkeri. Þeir lágu í Höfnum í tvo sólarhringa, þar til fært þótti að athafna sig við Eldey. Eyjamenn voru komnir að Eldey klukkan ellefu fyrir hádegi og klukkan fjögur um daginn voru allir komnir á bát og haldið var af stað heim til Eyja. Á Fálkanum voru þessir menn: Magnús Þórðarson Sjólyst formaður, Tómas Guðjónsson Sjólyst vélamaður, en hann var stjúpsonur Magnúsar. Sigurður Sigurðsson Frydendal, Magnús Ástgeirsson Litlabæ, Guðmundur Ástgeirsson Litlabæ, Árni Árnason eldri á Grund, sem fór fyrstur upp, Guðmundur Guðmundsson Mandal og Guðjón Jónsson Sandfelli.
Á Nansen voru: Jóhann Jónsson formaður Brekku, Sigurjón Jónsson Bergi. Ágúst Gíslason Valhöll, Friðrik Svipmundsson Görðum, Friðrik Benónýsson Gröf og Snorri Þórðarson Steini.
Göngumenn eða þeir, sem fóru upp í eyjuna voru sex, þeir Árni á Grund, sem var forystumaður og fór fyrstur, Ágúst Gíslason, Snorri Þórðarson, Magnús Ástgeirsson, Friðrik Svipmundsson og Sigurður á Vertshúsinu.
Bátslegumenn, sem lögðu að eyjunni og tóku upp fuglinn, voru Guðmundur í Mandal, Friðrik í Gröf, Guðmundur í Litlabæ og Guðjón Jónsson Sandfelli.
Á leiðinni heim til Eyja var austan kaldi, en Fálkinn notaði segl og sigldi hið næsta vindi. Komið var til Eyja klukkan ellefu að morgni næsta dags.
Í hlut voru 115 súlur og ef reiknað er með skiptum eins og venja var í fjallaferðum í Vestmannaeyjum, þá voru mannshlutir 15 (þ.e. 14 leiðangursmenn og einn gönguhlutur), en gönguhlutur skiptist jafnt á milli þeirra, sem fóru upp í eyjuna.
Eyjan fékk í sinn hlut ¼ af aflanum og ætla má, að eigendur bátanna muni hafa fengið svipaðan hlut, en afgangi aflans eða helmingnum (1725 súluungum) skipt að venju milli leiðangursmanna. Heildarafli hefur því verið 3450 súlur, sem hefur verið prýðilegur fengur. Súlan úr Eldey þótti samt ekki eins góð á bragðið og súla úr úteyjum Vestmannaeyja, vegna þess að líkast var því sem hitnaði í fuglinum á leiðinni heim, sem var fyrst reyttur og verkaður meira en sólarhring eftir að hann var sleginn.

Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum