Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2017 kl. 09:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2017 kl. 09:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA


Við hinsta bed
Hljóður fetar helga mold hél og sölnuð stráin. Hníga tár á freðna fold. fornvinurinn dáinn. Dauðinn slítur bræðrabönd, blikna vonir heitar. Sorgin lamar hug og hönd hans er vinar leitar.
Löngum þráir liðinn dag, liðna gleðifundi. Þegar söngur, ljóð og lag lék á bláu sundi. Meðan skoðar muna sinn meðan blæða sárin. Fölskvalaus um fölva kinn falla vinar tárin.
Hallar degi, húmið rótt hinsta beðinn vefur. Góði vinur, væra nótt veit ég Drottinn gefur. Sofðu rótt í söngvanið sælli og betri heima. Minningarnar munum við meðan lifum geyma.
Guðjón Weihe.

Einar Indriðason.

Einar Indriðason.
F. 17. nóvember 1933. D. 13. júní 1985.
Einar var fæddur að Sandgerði á Raufar-höfn 1933. Þar bjuggu foreldrar hans, Indriði Einarsson og Jóhanna Helga Önundardóttir. Móður sína missti Einar 11 ára gamall. Ólst hann upp hjá föðurafa sínum og ömmu og föðursystur. Hann átti fjögur alsystkini. Eru þrjú þeirra látin. Tvö hálfsystkini átti hann og eru þau bæði á lífi.
Einsi, eins og hann var kallaður, byrjaði snemma að stunda sjóinn. Um fermingu eignaðist hann árabát með frænda sínum og fóstbróður, Önundi Kristjánssyni. Þeir frændur öfluðu það vel á þennan bát að eftir skamman tíma gátu þeir keypt sér trillubát sem þeir gerðu út saman í nokkur ár. Var það tímabil honum mjög hugleikið. Sagði hann mér margar góðar fiskisögur frá þeim árum.
Leiðir okkar Einsa lágu fyrst saman er við vorum báðir á leið til Vestmannaeyja á vertíð með strandferðaskipinu Esjunni veturinn 1955. Þegar við vorum lentir í Eyjum kom í ljós að ég hafði engan samastað og því á flæðiskeri staddur. Þá kom Einsi sem bjargvættur og sagði: ,,Þú verður bara í herberginu hjá mér, félagi!" Svona voru mín fyrstu kynni af Einsa og komu þau mér nokkuð á óvart. Eftir að við kynntumst betur fór ég að skilja hvaða hug hann bar til vina sinna og vinátta okkar Einsa hélst til hinstu stundar.
Vetrarvertíðina 1956 vorum við á sama bát, Jötni, sem gerður var út á línu og net undir öruggri stjórn Odds Sigurðssonar frá Skuld. Þessa vertíð kynntist ég dugnaði og ósérhlífni Einsa. Á ég margar góðar minningar frá þeirri vertíð, bæði til sjós og lands. Að sjálfsögðu nutum við hins ljúfa lífs þegar færi gafst.
Einsi stundaði sjómennsku héðan frá Vestmannaeyjum til ársins 1983. Þá varð hann að hætta á sjónum vegna heilsubrests. Það þótti honum slæmur kostur því að sjórinn átti hug hans allan.
Einsi var alla tíð með þekktum aflamönnum meðan hann stundaði sjóinn. Má þar nefna Guðmund Inga á Hugin, Svein Hjörleifsson á Kristbjörgu og síðustu árin Helga Ágústsson á Sindra. Lengst var hann á Hugin með Guðmundi Inga. Hann byrjaði með honum á litla Hugin og fylgdi honum með smá hléum á þann bát sem Guðmundur Ingi gerir nú út. Þeir voru ætíð miklir mátar. Bar Einsi mikla virðingu fyrir Guðmundi Inga og talaði oft um það.
Einar gekk að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Fjólu Guðmannsdóttur, í desember 1959. Þau eignuðust sex drengi sem allir eru á lífi. Þeir eru Stefán, Jón, Einar Fjölnir, Davíð, Indriði og Rósberg. Hann var góður faðir og eiginmaður og unni heimili sínu mjög svo. Hann var stoltur af sonum sínum. Ég minnist Einsa með söknuði og trega. Hann var einn af mínum bestu vinum. Guð geymi góðan félaga.
Elli Bjöss.

Óskar Haraldsson

Óskar Haraldsson, netagerðarmaður.
F. 7. ágúst 1929. D. 22. ágúst 1985.
Óskar var fæddur og uppalinn í Nikhól hér í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin Haraldur Þorsteinsson verkamaður og Matthildur Gísladóttir kona hans.
Sökum veikinda föður síns hófu Óskar og systkini hans snemma að vinna fyrir nauðþurftum heimilisins og aðeins 14 ára gamall fór hann til vinnu. Á þessum árum var hann fjögur sumur og eina vetrarvertíð til sjós. Fyrst eitt sumar á síld með Sighvati í Ási á Erlingi, síðan tvö sumur og eina vetrarvertíð á Ófeigi með Ólafi Sigurðssyni frá Skuld. Loks var Óskar eitt sumar á síld á Baldri með tengdaföður sínum, Haraldi Hannessyni frá Fagurlyst.
Við Óskar hófum störf haustið 1943 hjá Nót hf. sem útgerðarmenn í Eyjum áttu en Ingólfur Theodórsson var þar meistari og yfirverkstjóri. Haustið 1946 kaupir Ingólfur fyrirtækið og skýrir það Netagerð Ingólfs. Hjá honum vinnum við svo saman til ársins 1963 er við ákváðum að stofna okkar eigið fyrirtæki, Net hf., ásamt mági Óskars, Júlíusi Hallgrímssyni. Starfsemin var fyrst til húsa í Nýju-Geirseyri en í desember 1966 fluttum við í nýtt húsnæði að Hlíðavegi 5 þar sem fyrirtækið er enn til húsa. Samstarf okkar Óskars gekk ávallt hið besta og þegar Óskar féll frá höfðum við starfað saman að netagerð í 42 ár.
Arið 1954 gekk Óskar að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Ástu Haraldsdóttur frá Fagurlyst. Óskar og Ásta voru samhent og hamingjusöm hjón og eignuðust þau fjögur börn sem öll eru búsett hér í Eyjum. Tveir sona Óskars fetuöu í fótspor fööur síns og eru lærðir netagerðarmenn og starfa hjá Net hf. Óskar og Ásta bjuggu fram til ársins 1977 að Skólavegi 27 er þau fluttust í nýtt hús að Höfðavegi 57.
Árið 1982 veiktist Óskar en þrátt fyrir það lét hann engan bilbug á sér finna og starfaði ótrauður við fyrirtæki sitt þar til kallið kom.
Að leiðarlokum, er ég kveð látinn vin, viljum við hjónin senda Ástu og börnum hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi algóður Guð styrkja þau í minningunni um látinn eiginmann og föður.
Finnbogi Ólafsson.

Guðni Einarsson

Guðni Einarsson.
F. 26. apríl 1915. D. 12. ágúst 1985.
Guðni Einarsson lést á Landsspítalanum hinn 12. ágúst s.l.
Hann var einn af þessum ógleymanlegu persónuleikum sem maður kynnist á lífsleiðinni. Þar nægja engin skyndikynni, því að mönnum eins og honum kynnist maðurekki nema í gegnum langa samvinnu og samveru. Hann var einn af þessum hljóðlátu mönnum sem ganga hógværir gegnum lífið, vinna starf sitt af hendi með trúmennsku og skapa íslenskri þjóð þann auð sem hún á með eljusemi sinni og dugnaði.
Guðni var fæddur að Galtarholti í Vestur Landeyjum 26. apríl 1915. Foreldrar hans voru hjónin Einar Magnússon bóndi og Margrét Pálsdóttir, kona hans. Hann ólst upp líkt og algengt var um börn á þessum árum við leik og starf og var ekki gamall þegar hann fór að taka þátt í lífsbaráttunni. Ungur maður fluttist Guðni, eins og margir aðrir úr sunnlenskum sveitum, hingað til Vestmannaeyja því að hér eygðu menn framtíðarvon. Hér eyddi hann mestum hluta ævi sinnar og varekki síðureyjamaðuren margur innfæddur þó að rætur hans lægju annars staðar. Hann giftist árið 1941 ungri eyjastúlku, Öldu Guðjónsdóttur frá Fagurhól, og bjuggu þau hér alla tíð utan þess tíma er eldgosið skóp þeim útlegð sem og mörgum öðrum eyjamönnum. Eignuðust þau hjón tvo syni, þá Einar og Guðjón Borgar, sem báðir eru búsettir hér í bæ, auk þess sem Guðni gekk í föður stað syni Öldu, Sævari ísfeld.
Fyrstu ár sín hér stundaði Guðni sjóróðra á ýmsum bátum, auk þess sem hann stundaði alla almenna landvinnu. Hann var t.d. mörg sumur starfandi hjá Búnaðarfélaginu á sumrum, en síðan árið 1957 starfaði hann hjá Fiskimjölsverksmiðjunni og þar urðu kynni mín af Guðna hvað nánust. Ég tel mig standa í mikilli þakkarskuld að hafa fengið að kynnast honum og starfa með honum því að í allri framgöngu og framkomu var Guðni einn af þeim sem gera lífið fagurt og þess vert að sækjast eftir því.
Ég vil með þessum fáu orðum þakka honum samfylgdina og samveruna á þessum árum og bið eftirlifandi konu hans og afkomendum þeirra guðs blessunar.
Snorri Jónsson.

Helgi Benónýsson

Helgi Benónýsson.
F. 23. apríl 1900. D. 19. ágúst 1985.
Helgi fæddist að Stóru-Drageyri í Skorradal. Foreldrar hans voru hjónin Benóný Helgason og Guðný Magnúsdóttir sem bjuggu allan sinn búskap í Skorradal, lengst af á Háafelli, í 40 ár.
Það var ekki algengt á uppvaxtarárum Helga að börn í sveit væru sett til mennta, en svo mun þó hafa verið um Helga og systkini hans sex að tölu að þau nutu öll einhverrar menntunar.
Sautján ára gamall fór Helgi á Hvítárbakkaskóla og var þar í tvo vetur. Haustið 1921 leggur Helgi land undir fót og heldur til Norðurlands og sest í búnaðarskólann á Hólum í Hjaltadal. Þaðan útskrifaðist hann búfræðingur og lauk síðan framhaldsnámi í Danmörku.
Starfsvettvangur Helga var fjölþættur eins og títt var á þeim árum. 15 ára gamall réð hann sig til sjóróðra á áttæring sem reri úr Leirunni á Suðurnesjum, og eina vertíð reri hann úr Vogunum.
Árið 1928 fluttist Helgi til Vestmannaeyja. ráðinn til þess að standa fyrir jarðabótum fyrir eyjabændur. Hér í Eyjum kynntist hann Nönnu Magnúsdóttur sem síðar varð eiginkona hans. Nanna var dóttir Magnúsar Guðmundssonar útvegsbónda á Vesturhúsum og Jórunnar Hannesdóttur konu hans. Jórunn var dóttir hins nafnfræga manns, Hannesar lóðs á Miðhúsum.
Helgi og Nanna eignuðust sjö börn, tvö dóu kornung en fimm eru á lífi. Þau hjón bjuggu allan sinn búskap á Vesturhúsum, eða fram til 1970 að þau fluttust til Reykjavíkur.
Rétt fyrir stríð, eða árið 1939, byrjar Helgi í útgerð. Hann gerði út ýmsa báta og þar á meðal Sídon, sem keyptur var frá Svíþjóð 1946, og gerði hann út í níu ár. Eigendur voru fimm, Árni Sigurjónsson, Axel og Ólafur Halldórssynir, Helgi og undirritaður. Þá kynntist ég Helga allnáið.
Helgi var maður vörpulegur á velli og hinn mesti dugnaðarforkur. Hann var stakur reglumaður á vín, en þótti gott að kveikja í góðum vindli. Helgi var glaður og skemmtilegur og oft hnyttinn í svörum og reiddist ekki þótt aðrir væru ekki á sama máli og hann. Hann talaði aldrei illa um nokkurn mann í mín eyru, eiginleiki sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Helgi var vel gefinn og skýr maður og átti auðvelt með að koma fram hugsunum sínum hvort sem var í ræðu eða riti, reikningsglöggur og minnugur á tölur.
Í stríðsbyrjun, árið 1940, var ísfisksamlagið stofnað í þeim tilgangi að annast útflutning á ísuðum fiski til Bretlands. Helgi réðst verkstjóri hjá félaginu. Aðallega var unnið á Básaskersbryggju og þannig háttaði til að þegar bátarnir komu var fiskurinn tekinn í land og gert að honum og hann síðan fluttur að skipshlið og ísaður um borð. Oft var vegið beint út togbátunum í skipin því að þeir komu með aðgerðan fisk og þurfti þá margar vogir og marga vigtarmenn. Þetta var kalsöm og mjög ströng vinna því að unnið var í svo að segja hvaða veðri sem var. Þannig gekk þetta til öll stríðsárin. Helgi þótti með afbrigðum afkastamikill og duglegur við þetta starf. Upp úr þessu var Vinnslustöðin hf. stofnuð og var Helgi einn af stofnendum hennar ásamt mörgum útgerðarmönnum. Þar gerðist hann verkstjóri.
Helgi tók mikinn þátt í ýmsum félagsmálum og hafði mörg áhugamál. Hann hafði mjög gaman af að spila og eigum við hjónin margar skemmtilegar minningar frá heimili þeirra hjóna þar sem setið var fram undir morgun við að spila bridge. Bæði voru hjónin gestrisin og góð heim að sækja.
Helgi gegndi trúnaðarstörfum fyrir Fiskifélag Íslands og var um mörg ár umboðsmaður Ægis, blaðs Fiskifélagsins. Hann sat í mörg ár fiskiþing og búnaðarþing.
Síðustu æviárin dvaldist Helgi á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, farinn aö heilsu og kröftum. en minni og andlegt þrek svo að segja óbugað. Hann naut ástríkis og umhyggju dóttur sinnar, Jórunnar, og tengdasonar, Gunnars, sem hér búa en hin börnin eru öll búsett utan eyjanna.
Helgi andaðist 19. ágúst 1985 og varjarðsettur við hlið konu sinnar að Lundi í Lundarreykjadal, en þar voru hans æskuslóðir Samúðarkveðjur eru sendar börnum, tengdabörnum og öðrum ættingjum Helga Benónýssonar.
Anganýr Elíasson.

Jón Ó. E. Jónsson

Jón Ó. E. Jónsson vélsmiður
F. 12. nóvember 1901. — D. 9. september 1985.
Foreldrar Jóns voru Sigríður Magnúsdóttir og Jón Ólafur Eymundsson í Eyvindarholti, þá í vinnumennsku eða húsmennsku hjá sóknarprestinum, sr. Jes A. Gíslasyni, og frú Ágústu Eymundsdóttur, systur Jóns Ólafs. Hafa ef til vill verið að bíða eftir að jarðnæði losnaði. Þau gengu í hjónaband árið 1900.
Brátt dró til válegra atburða. Jón Ólafur fórst með Fjallaskipinu Björgólfi í Eyjaferð 16. maí 1901.
Þorsteinn Einarsson fv. íþróttafulltrúi segir m.a. um þetta stórslys í Goðasteini 1982-83: „Mannskaðinn mikli vorið 1901 varpaði sorgarskugga yfir hvert heimili þessarar sveitar. Þung spor fyrir prest að þurfa að ganga í nær hvert heimili sóknarinnar til þess að tilkynna lát ástvina og færa huggun og verða sjálfur fyrir vinamissi."
Sjálfur stóð presturinn í Sandi albúinn til Eyjaferðar sem hann hætti við á síðustu stundu, mat meira ólokið embættisverk.
Tveggja ára fór Jón með móður sinni að Seljavöllum. Þar bjó Jón Jónsson koparsmiður, ekkjumaður með fjögur börn. Þar kom að þau Sigríður og Jón giftust. Sjö voru börn þeirra.
Þá er Jón Ó. E. Jónsson hafði aldur til fór hann á vertíð í Eyjum. Var hjá séra Jes og Ágústu á Hól. Fór síðar í járnsmíðanám hjá Guðjóni uppeldisbróður sínum í Magna. Var Jón síðan mörg ár rennismiður í Vélsmiðjunni Magna. Má segja að Jón hafi mörg bestu ár sín verið í þjónustu bátaflotans í Vestmannaeyjum. Síðar vann Jón í Vélsmiðju Þorsteins Steinssonar, svo aftur í Magna sem lagermaður.
— Í gosinu og nokkru lengur vann Jón hjá Ágústi hálfbróður sínum í fyrirtæki hans í Hafnarfirði.
Síðasta áfanga ævigöngunnar bjó Jón Ó. E. í Hraunbúðum.
Jón eignaðist hlut í 12 tonna vélbát einhvern tíma á fjórða áratugnum. Ég var aðgerðarmaður hjá honum 1938-40. Þekkti manninn ekki hið minnsta er ég réðst til hans. Mér brá við að vinna í fiskhúsi á besta stað í bænum (móti Geirseyri), eftir óhugnaðinn á Pöllunum.
Jón vann þá í Magna. Hann brá sér þó oft í flatningu með mér á kvöldin, þó ekki væri ofverkið mitt að vinna þetta einn. Við áttum um margt vel skap saman, báðir taldir nokkuð svo sérlyndir. Jón var greindur maður og vel heima á mörgum sviðum. Margt var spjallað við flatningsborðið, en lítt það sem efst var á baugi í sjávarplássi, svo sem tíðarfar, aflabrögð og fiskverð. En ekki Ieystum við lífsgátuna, stóð heldur ekki til.
Ég hef skrifað nýkominn í þjónustu Jóns Ó. E.: ,,Jón húsbóndi minn er merkilegur maður. Hann er fjölhæfur, „altmuligmand" eins og danskurinn segir. Hann er vélsmiður að atvinnu, útgerðarmaður í tómstundum, heimspekilega sinnaður hagyrðingur."
Jón hafði víst meiri áhuga á ljóðum en lausu máli. Hann var talsvert gagnrýninn á ljóð. Átti til að taka kvæði þjóðskálda og kryfja vendilega þar sem honum þótti skáldfákurinn brokkgengur.
Jón bar margt við um dagana. Hafði gaman af að gera tilraunir með ýmsa hluti af smíðatagi. Til að mynda steypti hann blýsökkur í skúr á Reynivöllum og seldi handfæramönnum.
Útgerð Jóns Ó. E. gekk misjafnlega. Hefur líklega staðið í járnum. Kaup var ekki nefnt þegar ég réðst til Jóns, en hann borgaði betur en kauptaxti kvað á. Þessar vertíðir hjá Jóni kynntist ég vel Axel Bjarnasen. Hann var vigtarmaður á voginni uppaf Bæjarbryggju. Milli vinnustaða okkar var bara Formannabrautin. Við hittumst nær daglega og tókum spjall saman milli þátta, stundum á esperanto. Stundum kom Axel á óvart með skemmtilegum hugdettum. Ekki vissu allir að hann átti til húmor.
Í kjallaranum í Fagurhól bjuggu systur tvær skaftfellskar. Þær verkuðu sundmagann fyrir Jón Ó. E., báðar nær áttræðu, Steinunn og Þórunn Eyjólfsdætur. Hjá þeim var alltaf heitt á könnunni.
Steinunn hafði oftast orð fyrir þeim systrum. Hún talaði svo kjarnmikla og blæbrigðaríka íslensku að unun var á að hlýða.
Jón lagði mér eina „lífsreglu": Að láta ekki bregðast að allar innleggsnótur væru skrifaðar á Jón Ó. E. Jónsson en ekki Jón Jónsson.
Ég þóttist fljótt vita af hverju Jón lagði svo ríkt á um þetta. Hann hét fullu nafni Jón Ólafur Eymundsson. Þetta væri af ræktarsemi við minningu föður hans og vegna þess að Jónar Jónssynir voru margir hér sem annarsstaðar og bauð heim ruglingi. Millistafirnir tóku hins vegar af öll tvímæli.
Enda þótt starfsævi Jóns Ó. E. Jónssonar væri að mestum hluta hér í Eyjum og hann vildi hag þeirra sem stærstan, var hann þó ávallt ósvikinn Eyfellingur. í ritinu Goðasteini 1978 er prentað ljóð hans: í Bjallanum mínum heima á Seljavöllum. í því eru m.a. þessar ljóðlínur:

Bjallanum mínum ég bera vil hróður, hann blessaði líf mitt og andlegan gróður, þar hljóp ég svo glaður um steina og stokka og streymandi lækina sá ég þar brokka niður um brekkur í bunum og sprænum, á blágrýtisflötum þeir urðu að lænum. en baðaður sólskini bærinn var allur...
Haraldur Guðnason.

Helgi Guðlaugsson

Helgi Guðlaugsson.
F. 13. september 1901. D. 9. júní 1985.
Hann afi var fæddur í Mundakoti á Eyrarbakka árið 1901. Foreldrar hans voru Guðlaugur Guðmundsson og Þuríður Magnúsdóttir. Afi og Guðjón, tvíburabróðir hans. voru næstelstir af ellefu systkinum. Eru þrjú þeirra ennþá á lífi.
Árið 1922 fluttist afi hingað til Eyja, byrjaði hér sjósókn og kynntist hér henni ömmu, Guðrúnu Jónínu Bjarnadóttur frá Túni hér í bæ og giftu þau sig 1924. Eignuðust þau fjóra drengi: Guðmund, hann lést aðeins 24 ára að aldri; Bjarna er lést á fyrsta aldursári; annan dreng skírðu þau Bjarna og er hann búsettur í Reykjavík, kvæntur Helgu Sigurðardóttur, og eiga þau einn son; yngstur var Guðlaugur Helgason, faðir minn, kvæntur Lilju Jensdóttir, áttu þau sex börn. Pabbi lést árið 1982, 53 ára gamall. Einnig átti afi einn son með Laufeyju Líndal, Theodór, og er hann búsettur í Reykjavík.
Afi missti ömmu árið 1971. Hjá afa bjó í mörg ár Hulda Jóhannsdóttir. Vil ég þakka henni fyrir umönnun við afa.
Afi var lengst af vélstjóri á bátum og sigldi öll stríðsárin. Síðan gerðist hann bifreiðastjóri hjá Vinnslustöðinni og starfaði þar í meira en tvo áratugi. Þegar á efri árin var komið, og flestir setjast í helgan stein, sat afi ekki aðgerðalaus heldur gerðist vaktmaður á togaranum Vestmannaey og fór með þeim í eina söluferð til Þýskalands.
Afi fluttist á dvalarheimili aldraðra fyrir fjórum árum er Guðrún, elsta systir mín, sem átt hafði heima á efri hæðinni hjá afa, seldi og fluttist til Akraness. Saknaði afi fjölskyldu hennar mjög og heimsótti þau á hverju sumri þótt á háan aldur væri kominn.
Eftir að afi var fluttur á Hraunbúðir var hann svo til daglegur gestur á heimili mínu. Ég sagði stundum að ég gæti stillt klukkuna mína eftir afa því að hann kom ávallt á sama tíma. Og mér fannst alltaf eitthvað að sæi ég hann ekki tvo daga í röð.
Afi var mjög barnelskur og var undurkært milli Hjördísar dóttur minnar og afa. Hún beið alltaf eftir honum og alltaf laumaði hann einhverju góðgæti að henni. Það er erfitt að skýra út fyrir þriggja ára telpuhnokka hvers vegna afi kemur ekki lengur.
Afi var mjög kær barnabörnum sínum og er sárt saknað af þeim. Það er stórt tóm sem hann skilur eftir sig. Hafi hann þökk fyrir allt.
Svana og fjölskylda

Tryggvi Ólafsson

Tryggvi Ólafsson málarameistari
F. 8. ágúst 1911. — D. 9. apríl 1985
Tryggvi Ólafsson málarameistari var fæddur í Garðhúsum í Vestmannaeyjum 8. ágúst 1911. Foreldrar hans voru hjónin Anna Vigfúsdóttir og Ólafur Jónsson sem bjuggu þar alla tíð. Ólafur, faðir Tryggva, var Landeyingur, en fluttist 24 ára gamall til Vestmannaeyja árið 1896 og stundaði hér sjóinn. Strax á fyrstu árum vélbátanna, eftir 1906, eignaðist Ólafur hlut í mótorbátum, en frá 1926 annaðist hann olíuafgreiðslu til báta frá olíugeymunum á Nausthamri og vann við það fram á elliár; þekktur fyrir lipurð og ljúfmennsku í erilsömu starfi.
Tryggvi Ólafsson í Garðhúsum var því frá blautu barnsbeini í nánum tengslum við sjósókn og sjómenn og hneigðist hugur hans að sjómennsku. Stuttu eftir fermingu fór Tryggvi að stunda sjó á ýmsum bátum. Lengst var Tryggvi á Leó með Þorvaldi Guðjónssyni, sem var kunnur sjósóknari, og síðan var hann á Ver með frænda sínum Jóni Guðmundssyni í Miðey sem var alltaf mikill aflamaður og aflakóngur á vetrarvertíð 1946.
Eftir þetta vann Tryggvi um tíma við verslunarstörf í versluninni Úrval sem var við Miðstræti og enn stendur. Árið 1947 sneri hann sér alveg að málarastöríum og varð meistari í sinni iðngrein, fær iðnaðarmaður og lærðu margir hjá honum. Tryggvi málari, eins og hann var oft nefndur í kunningjahópi, var félagslyndur og alla tíð mikill áhugamaður um íþróttir. Frá æsku var hann einn af fremstu knattspyrnumönnum Íþróttafélagsins Þórs. Hann var ásamt Jóni bróður sínum, sem lést á besta aldri, mjög virkur félagi í Þór. Þeir bræður voru iðulega kenndir við æskuheimili sitt, Garðhús, og var framkoma þeirra og drengskapur rómaður.
Um Tryggva segir í afmælisriti Þórs árið 1963, í grein sem nefnist ..Knattspyrnuþankar" eftir Ingólf Arnarson: ,,Tryggvi Olafsson, bróðir Jóns, lék oftast innherja eða útherja. Svipaði þeim bræðrum um margt á leikvelli, en eitt vakti þó sérstaklega athygli, og kom Þór oft í góðar þarfir, það var hversu slyngir samleiksmenn þeir voru. Var oftast reynt að haga svo til, að þeir bræður lékju stöður hlið við hlið. Skoruðu Þórarar mörg mörk vegna samleiks og uppbyggingar þeirra bræðra."
Tryggvi Ólafsson var skemmtilegur maður og skemmti sér ætíð vel í vina- og kunningjahópi, algjör hófsmaður á vín og tóbak. Okkur yngri mönnum sýndi hann allt frá unglingsárum okkar ætíð vinsamlegt viðmót og alúð.
Árið 1939 kvæntist Tryggvi Þórhildi Stefánsdóttur Guðlaugssonar skipstjóra frá Gerði. Þau voru sérlega samhent og bjuggu sér hlýlegt heimili við Helgafellsbraut sem Tryggvi hlúði að með natni, en hann var góður heimilisfaðir og hafði auga og smekk fyrir fallegu umhverfi og snyrtimennsku. Sér til skemmtunar í frístundum safnaði Tryggvi og kom haganlega fyrir ýmsum gömlum og merkilegum hlutum. Átti hann orðið allgott safn gamalla muna sem brá upp mynd af tækjum og margs konar amboðum fyrri tíðar.
Tryggvi og Þórhildur eignuðust þrjá syni, Ólaf sem býr í Vestmannaeyjum, Stefán Þór og Sævar sem eru búsettir í Reykjavík.
Eftir eldgosið 1973 settust þau hjón að í Kópavogi. Þau komu sér upp fallegum sumarbústað í Skorradal. Þar undi Tryggvi sér vel og sérstaka ánægju hafði hann af að fara út á Skorradalsvatn og kasta fyrir fisk.
Með Tryggva Ólafssyni er genginn traustur maður sem skilaði góðu dagsverki á uppvaxtar- og manndómsárum sínum í Vestmannaeyjum, þar sem hann dvaldist nær alla ævi. Eyjarnar voru alltaf sterkurstrengurílífi hans.
Tryggvi andaðist á Borgarspítalanum í Reykjavík hinn 9. apríl 1985 eftir erfiða sjúkdómslegu þá um veturinn.
Blessuð sé minning hans.
G.Á.E.

Finnur Kristján Halldórsson

Finnur Kristján Halldórsson.
F. 30. maí 1962. D. 18. nóvember 1985.
Oft er sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska. Því er erfitt að trúa nú þegar vinur okkar og skipsfélagi, Finnur Kristján, er látinn í blóma lífsins, aðeins 23 ára gamall.
Okkur skipsfélögunum varð ósjálfrátt hugsað hver tilgangurinn væri þegar grunur okkar var staðfestur mánudaginn 18. nóv. s.l. þegar vinur okkar og starfsfélagi, Finnur Kristján Halldórsson, fannst látinn í höfninni í Vestmannaeyjum.
Sorgleg staðreynd blasti við. Fjörmikill Tappinn (en það var gælunafn hans hjá okkur félögunum) svo skyndilega á brott numinn að vart verður trúað.
Stórt skarð er höggvið í samhentan hóp. Finnur heitinn réðst á Bergeyna fyrir tæpum tveimur árum. Féll hann strax vel inn í andann sem fyrir var, síbrosandi, léttur og hress. Með aíbrigðum þægilegur í umgengni og snerist strax margt gamanið í kringum hann. Því er erfitt að sætta sig við það þegar jafn góður drengur og Finnur Kristján, fullur af hreysti og lífsgleði, er hrifinn burt jafnskyndilega og raun varð á. En ekki þýðir að deila við alvaldinn. Tíminn var kominn. Einum skipsfélaganum varð á orði: ,,Þetta er það eina er maður veit fyrir víst um lífið, það tekur enda."
Nú er Finnur Kristján kominn á lygnan sjó og farinn að stunda ný mið, en minningin mun lifa um góðan dreng.
Við skipsfélagarnir og fjölskyldur okkar vottum Jenný, Halldóri og systkinum dýpstu samúð okkar og biðjum Guð að veita þeim styrk í sorginni.
Sverrir Gunnlaugsson og skipshöfn Bergeyjar VE 544

Óskar Ólafsson

Óskar Ólafsson, pípulagningameistari.
F. 15. ágúst 1905 — D. 23. janúar 1986
Óskar var fæddur 15. ágúst 1905 að Torfastöðum í Fljótshlíð. Foreldrar hans voru þau Ólafur Sigurðsson frá Snotru í AusturLandeyjum og Aðalheiður Jónsdóttir frá Arngeirsstöðum í Fljótshlíð. Áttu þau fjórtán börn, en tíu þeirra náðu fullorðinsaldri. Þrjú þeirra eru á lífi, þær systurnar Guðmunda, Sigríður og Aðalheiður.
Árið 1925 fluttist Óskar með foreldrum sínum og systkinum til Vestmannaeyja. Fljótlega eftir komuna til Eyja kynntist Óskar eftirlifandi eiginkonu sinni, sómakonunni Kristínu Jónsdóttur frá Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð. Hófu þau sambúð árið 1927.
Fyrst í stað var heimili þeirra að Landagötu 18, en síðan reistu þau sér hús að Boðaslóð 27 af miklum myndarskap, þrátt fyrir erfitt árferði. Eignuðust þau hjónin 10 börn sem öll eru á lífi. Elstur þeirra er Adolf, þá Jóna Guðlaug, Aðalheiður, Guðmunda Eygló, Kristín Ósk, Ólafur, Albína Elísa, Hrefna, Örn og Guðrún.
Óskar tók sér margt fyrir hendur um ævina, en lífsbaráttan var hörð. Árið 1929 lenti Óskar í hrakningum á mótorbátnum Síðuhalli við fjórða mann. Lentu þeir félagar í fárviðri og vélarbilun. Þegar lengja tók eftir þeim og ekkert hafði spurst um fleyið þótti sýnt að þeir kæmu ekki til lands á lífi, enda veðrið óskaplegt. Þegar vonin var úti gerðist hið ótrúlega. Báturinn fannst vestur við Þorlákshöfn eftir mikla hrakningar. Allir voru heilir á húfi og tók björgunarskipið Þór, sem fann þá félaga, bátinn í tog til Eyja. Ljóst var að dugur og þrek þeirra félaga hafi orðið þeim til lífs.
Óskar var stórbrotinn maður, sem átti fáa sína líka. Þegar sjósókninni lauk fór hann að vinna við pípulagnir. Lét hann sig ekkert muna um það að setjast á skólabekk, fimmtugur að aldri, í Iðnskóla Vestmannaeyja og lauk námi í pípulögnum. Slíkt var og er ekki algengt, hvað þá þegar þess er gætt að hann hafði fyrir stórusegja frá lífsstarfi Óskars svo sem vert væri, en ég get ekki orða bundist að þakka fyrir að fá að ganga með honum þessi fáeinu spor. Hafi hann þökk fyrir og ég þykist betri að fá að kalla hann vin.
Ömmu Stínu, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ástvinum votta ég samúð mína við fráfall Afa Óskars. Það gerir okkur lífið bærilegra að eiga minninguna um hann.
Drottinn blessi hann og gefi okkur öllum eilíft líf.
Guðmundur Þ.B. Ólafsson.

Einar Guðmundsson

Einar Guðmundsson.
F. 29. mars 1930. D. 25. desember 1985.
Þó Einar Guðmundsson félli frá langt um aldur fram var framlag hans til þjóðarbúsins verðmætara en margra, sem eldri verða, því að enn og um ókomna framtíð er það þessi fámenni hópur sjómanna sem eru stoðirnar undir þjóðarbúskap okkar.
Hann gerði sjómennsku að ævistarfi sínu, tók ungur hið meira fiskimannapróf frá Sjómannaskólanum í Reykjavík og var í áratugi stýrimaður á togurum og bátum. Eina vertíð var hann skipstjóri á báti frá Vestmannaeyjum, en þar bjó hann í nokkur ár ásamt konu sinni, Valdísi Pálsdóttur.
Þrátt fyrir að Reykjavík væri hans fæðingar- og uppáhaldsstaður voru þau hjón fyrir nokkru flutt aftur til Eyja þar sem hann var fram undir það síðasta í skipsrúmi hjá Sverri Gunnlaugssyni skipstjóra á togaranum Bergey, og mun ákvörðunin um flutning til Eyja hafa byggst á því hve vel honum líkaði þar um borð.
Á undanförnum fimm árum var þrívegis búið að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík vegna hjartaáfalla og voru læknar búnir að banna honum að vinna erfiðisvinnu. Þessi stóri og glæsilegi maður, sem í áratugi hafði axlað sinn poka og haldið til skips, lét ekki „feilpúst" í hjartanu stöðva sig á leið sem hann hafði ungur hafið. Til þess varð það að stoppa alveg. Það gerðist síðastliðna jólanótt.
Ég ætlast ekki til þess að fólk sem ekki hefur starfað á sjó, hugsi um eða skilji hve vel menn þurfa að vera gerðir til líkama og sálar til þess að gera sjómennsku að ævistarfi sínu. Við þessir flækingssjómenn, sem förum einn og einn túr, eða tökum eina vertíð og hlaupum svo í land þegar okkur líst ekki á blikuna, fáum smá innsýn í líf þeirra.
Einar var afbragðssjómaður sem orð fór af, en einn þáttur í skapgerð hans bar af öllum öðrum. Það var léttlyndi hans og kímnigáfa sem var svo mögnuð að ég hefi engan slíkan hitt.
Ég hafði alltaf á tilfinningunni þegar ég hlustaði á hann að þjóðin hefði misst til hafs mann sem hefði getað ritað gamansögur af meiri kúnst en flestir aðrir. Eiginkonu hans, glæsilegum barnahópi þeirra og systkinum hans votta ég samúð mína, jafnframt því sem ég óska þeim til hamingju með að hafa átt leið með slíkum afbragðsmanni.
Heiðar Marteinsson.

Hinrik Gíslason

Hinrik Gíslason
F. 4. júní 1909 - D. 16.mars 1986
Hinrik Gíslason var sonur hjónanna Guðrúnar Sigurðardóttur og Gísla Gíslasonar sem bjuggu að Kaðlastöðum á Stokkseyri.
Þar fæddist Hinrik 4. júní 1909. Hann var næstyngstur af átta börnum þeirra hjóna, eftir lifa nú Ingibjörg og Gísli.
Ungur að árum fer Hinrik Gíslason til sjós og þá til Austfjarða. En árið 1927 kemur hann til Vestmannaeyja og er þá á vélbátnum Víkingi með Gísla Jónssyni á Arnarhóli. Árið 1928 flyst Gísli Gíslason með fjölskyldu sína til Eyja, og eftir það átti Hinrik fasta búsetu hér, þótt hann sækti atvinnu oft og tíðum til annarra byggðarlaga. Til Siglufjarðar fór hann t.d. oft snemma vors og vann við standsetningu véla þeirra báta sem hann var svo á yfir sumarið.
Hinrik þótti hörkuduglegur sjómaður og var oftast í góðum og eftirsóttum skipsrúmum. Hér í Eyjum var hann á eftirtöldum bátum: Ara, Soffí, Skuld, Skíðblaðni, Þorgeiri goða og Þórunni. Hann var skipstjóri í eina eða fleiri vertíðir með eftirtalin skip: Gídeon, Þrist, Nönnu og Neptúnus, og fyrir norðan var hann á Minní með Sighvati Bjarnasyni og Karli Sigurðssyni frá Litla-Landi. Árið 1939-45 er hann á Gunnvöru í eitt ár og svo á Fagrakletti frá Hafnarfirði með Jóni Sæmundssyni. Þetta voru síldveiði-skip yfir sumarið en sigldu með fisk til Englands aðra tíma ársins. Eftir þetta fer Hinrik í land og er ráðinn vélgæslumaður við Rafstöð Vestmannaeyja og var þar í 14 ár.
Árið 1965 fer hann að vinna við vélgæslu í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og vinnur á vegum þess fyrirtækis svo lengi sem heilsa hans leyfði, eða til ársins 1982.
Eftirlifandi eiginkona hans er Vilmunda Einarsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn. Árið 1946 byggði Hinrik húsið að Skólavegi 15 og átti þar heima til æviloka. Hann andaðist 16. mars 1986.

Bragi Sigjónsson

Bragi Sigjónsson
F. 27. júní 1914 - D. 25. september 1985
Bragi Sigjónsson fæddist 27. júní 1914. Foreldrar hans voru Sigjón Halldórsson, fæddur 31. júlí 1888 að Stóra-Hóli í A-Skaftafellssýslu, dáinn 19. apríl 1931, og Sigrún Runólfsdóttir, fædd 26. maí 1889 að Eystra-Hóli, V-Landeyjum. Þau bjuggu allan sinn búskap í Vestmannaeyjum. Sigrún lifir son sinn og er nú vistmaður á elliheimilinu í Vestmannaeyjum.
Börnin urðu tólf og var Bragi þriðji elstur í röðinni. Þau sem eru á lífi eru Þórunn, Þórhallur, Guðbjörg, Garðar, Gústaf, Guðmundur og Kristbjörg. Þegar Bragi var 4 ára veiktist faðir hans af spönsku veikinni og var þá elstu börnunum komið fyrir í fóstur að Haukafelli í A-Skaftafellssýslu. Bragi er þar til 10 ára aldurs en snýr þá aftur til Eyja.
Árið 1931 veikjast feðgarnir af lungnabólgu og faðir hans deyr en Bragi kemst til heilsu aftur og verður fyrirvinna heimilisins. Bragi stundaði sjómennsku í Vestmannaeyjum til ársins 1940, en þá lá leið hans til Reykjavíkur í Vélstjóraskólann. Lauk hann prófi þaðan. Eftir það vinnur hann á fraktskipum og farskipum bæði hjá Sambandinu og Ríkisskipum. Á stríðsárunum sigldi hann á fiskiskipum til Englands. Hann sigldi lengi vel á Esjunni og Herjólfi.
Bragi giftist árið 1959 Rósu Einarsdóttur frá Seyðisfirði. Þau eignuðust þrjú börn, tvíburana Helgu Báru og Sigjón, fædd 1959 og Hauk fæddan 1966. Þau slitu samvistum Tvö börn átti Bragi áður. Ingibjörgu, fædd 1941, og Braga Val, fæddan 1946. Bragi Valur lést af slysförum 1977. Barnabörnin eru fimm.
Síðustu árin vann Bragi hjá Þvottahúsum Ríkisspítalanna við útkeyrslu en lét af störfum þar 1982. Hann átti við vanheilsu að stríða síðustu æviárin og lést í Borgarspítalanum 25. september 1985.
Blessuð sé minning hans.
S.B.

Sigurjón Ingvarsson

Sigurjón Ingvarsson
F. 20. des. 1895 - D. 29. mars 1986
Laugardaginn þann 29. mars sl. leysti vinur minn Sigurjón heitinn Ingvarsson festartaugar á sinni lífsins ferðagnoð. Aldna kempan strekkti seglvoðir að rám og siglutré. Þá róðrarmerkið var gefið af hinum æðsta var siglingin hafin, út á magnþrungnar straumelfur þess víðfemda hafs, hina miklu móðu. Lokaförin var hafin, réttvísandi stefnu haldið að ströndu hins bjarta ókunna framtíðardvalarstaðar.
Með Sigurjóni er genginn einn af þeirri kynslóð sem hóf upp merki þeirra framfara á þessari öld sem skapað hafa það land sem við nú byggjum. Sigurjón var einn af aldamótakynslóðinni, einn af þeim sem lá ekki á liði sínu, vann af trúmennsku og dug að störfum sem mest og best hafa dugað okkar þjóð.
Aðalstörfin voru sjómennska og sjósókn.
Hvert það skiprúm, sem Sigurjón var í, var vel skipað, þar fór saman þróttur og orka. Sigurjón hafði ekki mikið fyrir því að lyfta og bera um borð í bát sinn neysluforða vélar, olíutunnuna, nei, án orðamælgi vann krafta-jötunninn sín störf, og ekki með neinni sýndarmennsku.
Þá gnoðin lét úr höfn til starfa út á víðfemdu hafi, fiskimiðum, var ekki ætíð andvari eða gola. Stundum gustuðu veður válynd um knörrinn og kvikar duttlungafullar mánadætur herjuðu á af mætti, án blíðuatlota, á ytri svið, þilfar og reisn, með æðandi holskeflum. Kári og árásargjarnar ægisdætur komu Sigurjóni ekki úr andlegu jafnvægi eða spilltu hugarró hans. Hann vann sín störf með ró og jafnaðargeði.
Sigurjón átti sína heimilis-Friðarhöfn. Hann eignaðist tryggan lífsförunaut þar sem Hólmfríður Guðjónsdóttir var. Lífsförunaut sinn virti og dáði Sigurjón, hún var hans styrkur og stoð í lífsbaráttunni.
Með Sigurjóni er genginn manndómsmaður, meiður af íslenskum kjarnastofni. Um leið og ég votta aðstandendum hluttekningu færi ég vini mínum þakkir fyrir áratuga samstarf og vinnáttu. Góðar og ljúfar minningar er gott að eiga og varðveita eftir genginn, horfinn vin.
Æðsti Sjóli vor, gef þua dánum ró, en þeim líkn sem lifa.
Jón I. Sigurðsson.

Flosi Finnsson

Flosi Finnsson
F. 2. júní 1922 - D. 5. apríl 1986
Flosi Finnsson, Faxastíg 7, Vestmanneyjum, er látinn.
Hann fæddist 2. júní 1922, sonur hjónanna Þórunnar Einarsdóttur og Finns Sigmundssonar. Hann var elstur þriggja systkina, en þau eru Sigmundur, sem lést í Ástralíu árið 1977, og Steina Margrét, gift Friðriki Haraldssyni bakarameistara í Kópavogi. Þá á Flosi einnig uppeldisbróður, Bergmann Júlíusson, trésmíðameistara, í Keflavík.
Flosi dvaldist mikinn hluta æskuára sinna á bernskustöðvum móður sinnar, í Viðvík við Bakkatjörð. Hann dvaldist þar lengur en ætlað var og aðstoðaði Kristján Einarson móðurbróður sinn við búskapinn í veikindum móðurafa síns.
Flosi lauk skipasmíðanámi upp úr 1940 og starfaði við smíðar mestan hluta starfsævi sinnar, auk ýmissa annarra starfa, s.s. fiskvinnslu og sjómennsku. Ég kynntist Flosa fyrir rúmum 20 árum er ég tengdist fjölskyldunni og voru alla tíð hlý tengsl milli okkar. Hann lét sér ákaflega annt um og dáði börn, tengdabörn og barnabörn systur sinnar, Steinu, enda var hann hið mesta ljúfmenni, einstaklega barngóður og í raun öllum góður, nema sjálfum sér.
Mikinn hluta ævinnar átti hann við þann harða hús-bónda, Bakkus, að etja, sem stjórnaði lífi hans með harðri hendi. Flosi gerði þó margar, virðingarverðar tilraunir til að brjótast undan ofurvaldi hans og sýndi þegar á reyndi oft mikinn kjark og dug, eins og t.d. þann tíma sem Vestmannaeyjagosið stóð, en allan þann tíma starfaði hann í Eyjum og gat sér gott orð fyrir.
Flosi var bókhneigður, glaðsinna og glæsilegur maður á sínum yngri árum og hafði næmt fegurðarskyn. Eg veit að hann trúði statt og stöðugt á annað og betra líf. Ég vil kveðja hann með þeim orðum, sem honum voru tömust á viðkvæmum stundum: ,,Aftur kemur vor í dal." Megi Flosa auðnast annað og betra líf handan móðunnar miklu, í „vorsins dal".
Ástrún Davíðsdóttir

Páll Sigurður Pálsson

Páll Sigurður Pálsson
F. 9. september 1963 — D. 19. apríl 1986
Hinn 19. apríl s.l. vildi það sviplega slys til um borð í Bjarnarey VE 501 að Pál S. Pálsson, háseta, tók út með veiðarfærum bátsins. Náðist hann aftur, en lést af þessu slysi.
Slíkir atburðir eru því miður alltaf að henda á sjónum. en eru jafnsárir fyrir alla, sem eiga hlut að máli. Það er mikil sorg fyrir alla. þegar ungir menn, sem eiga allt lífið framundan, falla frá með þessum hætti án minnsta fyrirvara. Enginn veit hvenær kallið kemur og hver er næstur.
Páll fæddist á Hörgsdal á Síðu, sonur hjónanna þar, Páls Bjarnasonar og Elsu Bjarnasonar. Þar ólst hann upp í hópi systkina sinna, en hann átti tvo bræður og eina systur. Hann vann þau störf í æsku, sem algeng eru til sveita. Hann fór á vertíð til Eyja 1982 og var við störf í Ísfélaginu 1982 og 1983. Hann hóf störf sem háseti á Bjarnarey í vertíðarbyrjun 1984 og var þetta þriðja vertíðin hans á þeim báti, þegar kallið kom.
Páll kom sér vel í hópi félaga og kunningja, sem hann eignaðist í Eyjum, og hann þótti traustur starfsmaður í alla staði. Hann var einn af hinum hægu og dagfarsprúðu drengjum, sem eru kallaðir alltof fljótt frá okkur.
Að lokum vildi ég votta foreldrum Páls, systkinum og aðstandendum, dýpstu samúð og bið þeim Guðs blessunar í framtíðinni.
Steingrímur D. Sigurðsson