Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Minning látinna

From Heimaslóð
Revision as of 11:38, 26 July 2017 by Mardis94 (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search
Minning látinna

Inngangur kirkjugarðsins
Sævar Benónýsson

Sævar Benónýsson
F. 11. febrúar 1931 D. 15. janúar 1982
Sævar Benónýsson stýrimaður var fæddur 11. feb. 1931, sonur þeirra merkishjóna Katrínar Sigurðardóttur og Benónýs Friðrikssonar skipstjóra. Sævar lést 15.jan. 1982. Sjómenn í Vestmannaeyjum þakka Sævari samfylgdina og Ási í Bæ minnist hans í eftirfarandi ljóði.

Lúkarsvísur
Við munum hann frískan í fasi
með fögnuð í augunum björtu
svo lengi sem lyft verður glasi
og lifa sæbarin hjörtu.
Hvort sem lagði hann dýpst á dröfn
eða dorgaði uppvið sand
fleyinu stýrði heilu í höfn
og hoppaði karskur í land.
Ungur stóð'ann við öldu stokk
af öðrum góðum bar,
en þegar reyndi á þennan skrokk
þá vissum við hver hann var.
Með línu handfæri nætur net
í nepju og veðradyn
á Gullborgu slógu þeir met á met
því magnað er fransarakyn.

Samhentir feðgarnir sigldu höf
og saman var gaman að slást,
því sonur 'ans Binna,
hann Sævar í Gröf
síðastur manna brást.

Suðaustan 14 í siglum hvín,
af seltunni þyrstir mann,
bergja þá vinirnir brennivín
og bokkunum reddar hann.

Látum þá bítast um arð og auð
eignast banka og hrað,
gleðjast við orður og gáfnafrauð,
við gefum skít í það.

Hver þekkir drauminn sem bakvið býr
það brjóst sem heitast slær,
lífið er undarlegt ævintýr
sem enginn skilið fær.
Kvöldrauðan jökul við blámann ber
og bjarmar við skýjahlið,
í síðasta róðurinn Sævar fer
og siglir á ókunn mið.
Við munum hann frískan í fasi
með fögnuð í augunum björtu
svo lengi sem lyft verður glasi
og lifa sæbarin hjörtu.

Ási í Bæ.

Árni Þórarinsson

Árni Þórarinsson
hafnsögumaður
F. 25. maí 1896 D. 18. jan. 1982
Árni var fæddur að Fossi í Mýrdal 25. maí 1896. Foreldrar hans voru Þórarinn Árnason og Elín Jónsdóttir.
Þau hjón fluttu til Vestmannaeyja sumarið 1908 með stóra fjölskyldu, sex syni og tvær dætur. Fjölskyldan settist að á Eystri-Oddstöðum og þar bjuggu þau hjónin til 1922.
Árni var 12 ára, þegar hann fluttist til Eyja og vakti hann fljótt athygli fyrir hve fáskiptinn, stilltur og prúður hann var í allri framkomu og þeim eiginleikum hélt hann alla sína ævi.
Árni fór ungur að vinna og afla í heimilið, þrettán ára gamall var hann ráðinn beitingamaður á m/b Sæfara hjá Sveini á Landamótum. Beitti hann svo frá því, á hverri vertíð, þar til hann byrjaði sína sjómennsku á vetrarvertíð 1915 hjá Eyvindi bróður sínum sem þá var formaður með m/b Gideon.
Vetrarvertíðina 1917 er Árni ráðinn formaður fyrir nýsmíðaðan mótorbát, Goðafoss, sem var mældur tæp 12 tonn að stærð og var þá annar stærsti bátur í Eyjaflotanum. Mörgum þótti það misráðið að fela svo ungum og lítið reyndum sjómanni formennsku á svo stórum og nýsmíðuðum bát, en Árni sýndi fljótlega að hann var starfinu vaxinn og í vertíðarlokin var Goðafoss næst hæsti bátur í höfn með aflabrögð. Árni var svo formaður með Goðafoss til vertíðarloka 1925. Þá réðst hann formaður fyrir nýsmíðaðan bát Geir goða, sem var um 21 lest að stærð og er með hann í tvær vertíðar.
Haustið 1918 var fyrst haldið skipstjórnarnámskeið í Eyjum. Kennari var Sigfús Scheving. Einn af þeim sem luku prófi var Árni Þór.
Þrjár vertíðir var Árni með mestan afla Vestmannaeyjabáta, það voru vertíðarnar 1918 og 1920 á m/b Goðafossi og vertíðina 1926 með m/b Geir goða.
Þegar Árni hætti með Geir goða, keypti hann ásamt fleirum línuveiðarann Venus og var skipstjóri með það skip í 3 ár og fiskaði mikið, en þá var heimskreppan mikla að skella á og þeir seldu skipið og hætti Árni þar með skipstjórn á vetrarvertíðum í árslok 1930.
Árni gerðist nú hafnsögumaður með Hannesi gamla lóðs og er með honum í 2-3 ár, þar til hann tók við starfinu að fullu og varð yfirhafnsögumaður Eyjanna og það starf hafði hann á hendi þar til hann flutti alfarið frá Eyjum.
Árni kvæntist 1921 eftirlifandi konu sinni Guðbjörgu Þórðardóttur frá Vestra-Stakkagerði. Þau eignuðust ekki börn, en ólu upp dreng frá bernsku, Bernódus Þórarinsson systurson Guðbjargar. Þau hjón fluttu burt frá Eyjum árið 1948. Eftir það vann Árni á vegum Vitamálaþjónustunnar á meðan aldur leyfði.
Eftir að Árni hætti með Venus var hann í 3-4 sumur formaður með dragnótabáta, sem hann gerði út sjálfur og fiskaði oftast vel í það veiðarfæri á Eyjamiðum. Eftir að Árni hætti alveg á sjónum vann hann alfarið við Vestmannaeyjahöfn og eftir hans ábendingum og tillögum var hafist handa við gerð Friðarhafnar. Þá hafði hann og umsjón ásamt fleirum með viðgerð syðra hafnargarðshaussins.
Þegar Skipstjóra- og stýrimannafélag Vestmannaeyja var stofnað 27. nóvember 1938 var Árni kosinn formaður félagsins og gegndi hann því starfi samfellt í sex ár. Fyrsta áhugamál félagsmanna var að koma upp ljósvita á Þrídröngum, þar sem hann var ein hættulegasta siglingaleið Eyjaflotans vegna Blindskerja vestan við Dranga. Varð Árni, ásamt Jóhanni Gunnari Ólafssyni, þá bæjarstjóra aðal hvata- og áhugamaður að því verki.
Ég, sem skrifa þessa minningargrein, var háseti hjá Árna á m/b Goðafossi, vertíðirnar 1918 og 1920 og sumarið 1919 á keilufiskiríi og síldveiðum.
Ekki hafði ég verið lengi með honum, þegar ég dáðist að hans formannshæfileikum, þó sérstaklega fyrir hversu aðgætinn og athugull hann var og verkséður á öllum sviðum.
Árni var sérstaklega geðgóður maður, sem aldrei sást skipta skapi, svo að á bæri, en gaf sínar fyrirskipanir ákveðið og skorinort, svo að eftir var tekið.
Fjórir af þeim sex Oddstaðabræðrum urðu mótorbátaformenn í Eyjum, þeir Eyvindur, Oddgeir, Árni og Júlíus, sem einn er nú á lífi þeirra bræðra.
Árni andaðist í Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík 18. janúar 1982 eftir stutta legu.
Ég kveð gamlan og góðan vin og njóti hann sælu annars heims, sem hann trúði á. Eyjólfur Gíslason.

Hannes Kristinn Óskarsson

Hannes Kristinn Óskarsson
F. 19. desember 1957 D. 21. janúar 1982
Í hvíta falda skipið stafni snýr
en stingst og skelfur líkt og kvalið dýr
þá rifna segl en reipi sundur slitna
skal reiði Guðs á okkur snauðum bitna.
En frammi í stafni sefur ungur sveinn
í svip hans ljómar draumur engilhreinn
og til hans einn afstormsins mönnum snarast.
Stýrið er brotið við erum að farast.
D. Stefánsson

Hannes Óskarsson hefur kvatt þetta líf, þessa tilveru sem við lifum og hrærumst í - í gleði og sorg. Hann fórnaði lífi sínu til að bjarga meðbræðrum sínum, sem háðu sitt stríð í dimmviðri á stórgrýttri strönd Heimaeyjar.
Hann var sonur hjónanna Sigríðar Sigurðardóttur og Óskars Björnssonar. Snemma heillaði hafið ungan dreng og starfaði hann um hríð við sjómennsku, hann gerðist síðan starfsmaður við Áhaldahús Vestmannaeyja og þar var hann við ýmis störf uns hann ræðst til bróður síns að Áhaldaleigunni s/f. En í tómstundum var hafið hans vettvangur, froskköfun var mikið áhugamál og þegar hann gerist félagi í Hjálparsveit skáta, er hann einnig orðinn reyndur svifdrekaflugmaður og með slíka reynslu að baki varð hann brátt mjög virkur félagi í sinni sveit.
Hannes hafði allt það til að bera sem prýðir hvern mann, hugrekki, hreysti og drengskap, og með slíkt vegarnesti lagði hann af stað. Framtíðin virtist björt og fögur og blasti við ungum athafnasömum æskumanni. En á vordögum lífs hans er skyndilega þörf fyrir slíkan dreng. Neyðarkall berst á öldum ljósvakans. Við klettótta ströndina eru menn í sjávarháska. Þeim til bjargar lagði hann í þá för, sem hann átti ekki afturkvæmt úr.
Lífsgangan var stutt, en í farvegi minninganna vex blóm, sem er minning um góðan dreng og það fölnar aldrei.
Far vel til fegri heima.
Ég votta aðstandendum hans samúð mína og bið það afl sem yfir oss vakir að veita þeim styrk í sárum söknuði.
Kristinn V. Pálsson.

Kristján K. Víkingsson

Kristján K. Víkingsson
heilsugæslulæknir
F. 26. júní 1949 D. 21. jan. 1982.
Harmleikurinn, sem átti sér stað hinn 21. janúar sl. mun seint líða okkur Vestmanneyingum úr minni. Tveir ungir, hraustir menn fórnuðu lífi sínu í árangurslausri tilraun til bjargar meðbróður. Annar þessara manna var Kristján Víkingsson, heilsugæslulæknir, sem mér er skylt að minnast fáum orðum.
Kristján var fæddur í Reykjavík 26. júní 1949. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði 1977, en starfaði síðan á sjúkrahúsum í Reykjavík um tveggja ára skeið. Eftir það gerðist hann héraðslæknir á Þingeyri uns hann réðst hingað sem heilsugæslulæknir í júlí 1980.
Fljótlega kom í ljós, að með Kristjáni hafði okkur læknum bæst góður liðsauki. Hann var góður og dugmikill læknir, sem rækti störf sín af áhuga, alúð og frábærri samviskusemi. Þetta fundu sjúklingar hans sem treystu honum og virtu.
Á vinnustað öðlaðist Kristján vinsældir og virðingu fyrir alúðlegt viðmót, glaðværð og greiðvikni. Það var því höggvið stórt skarð í okkar fámenna hóp er örlögin bundu á þennan óvænta hátt enda á stutta en gifturíka starfsævi. Það skarð hefur ekki verið fyllt.
En þó við höfum misst mikið er þó missir ástvina Kristjáns miklu stærri: eiginkonu hans, barnanna hans tveggja og foreldra hans. Megi minningin um góðan dreng verða þeim huggun í harmi.
Vestmanneyingar fjölmenntu við minningarathöfn um Kristján Víkingsson, sem fram fór í Landakirkju hinn 11. mars sl. Með því sýndu þeir hvern hug þeir báru til hans og hvert rúm hann skipaði í okkar litla samfélagi, enda þótt krafta hans nyti skemur við en skyldi. Megi okkur auðnast að fá fleiri hans líka til starfa hér. Þá er vel.
Fyrir hönd samstarfsfólks á Sjúkrahúsi og Heilsugæslustöð Vestmannaeyja flyt ég Kristjáni Víkingssyni þakkir fyrir samstarf og samveru, sem aldrei bar skugga á. Blessuð sé minning hans.
E.V.B.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson
F. 23. júní 1920 D. 25. maí 1981
Sigurður Guðmundsson var fæddur á Stokkseyri, 23. júní 1920, og voru foreldrar hans Guðmundur Sigurjónsson trésmiður og Guðríður Jónsdóttir, sem lengst af bjuggu að Sunnuhvoli á Stokkseyri. Systkini Sigurðar voru þrjú: Jens og Jóhannes, sem eru valinkunnir byggingameistarar, og Guðrún, sem dó fyrir aldur fram.
Sigurður hóf sjóróðra frá Vestmannaeyjum árið 1939. Var hann háseti, I. og II. vélstjóri með Haraldi Hannessyni á Baldri VE fram til ársins 1946, er hann gerðist stýrimaður á Erlingi með Sighvati Bjarnasyni. Þótti Sigurður góður og dugmikill sjómaður. Síðan gerðist hann verkstjóri í Vinnslustöðinni þar til hann fluttist til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni árið 1956.
Sigurður var giftur Hönnu Jóhannsdóttur, en Hanna var dóttir hjónanna Lilju Hannesdóttur frá Stokkseyri og Jóhanns Vilhjálmssonar úr Þykkvabæ. Sigurður og Hanna hófu búskap að Selalæk hér í bæ, en bjuggu síðan í húsi sem nefnt er Fagrafell. Þeim Sigurði og Hönnu varð tveggja barna auðið, Guðrúnu hússtjórnarkennara og Lilju hjúkrunarkonu.
Eftir að til Reykjavíkur kom lærði Sigurður húsasmíði og starfaði hann við smíðar til dánardags, síðasta árið á Selfossi, þar sem Guðrún dóttir hans býr.
Sigurður var samviskusamur, einstaklega athafnasamur og góður verkmaður. Sér-stæður persónuleiki var Sigurður og reglu-maður í orðsins fyllstu merkingu.
Sigurður var jarðsettur í fæðingarbæ sín-um, Stokkseyri, 30. maí 1981.

Sigurður Óli Sigurjónsson

Sigurður Óli Sigurjónsson
F. 24. janúar 1912 - D. 16. júní 1981
Sigurður Óli Sigurjónsson var fæddur að Kirkjulandi í Vestmannaeyjum 24. janúar 1912. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Óladóttir og Sigurjón Sigurðsson.
Sigurður ólst upp hjá föðurafa sínum og ömmu, Sigurbjörgu og Sigurði í Brekkuhúsi til fullorðinsára. Ég sem þessar línur rita var einn af börnunum sem ólust upp í Brekkuhúsi. Á okkur Sigurði var 10 ára aldursmunur en við vorum samrýndir og héldum góðri vináttu alla tíð. Sigurður var fæddur með þeim kostum sem Eyjamönnum hafa komið best. Hann var sjómaður eins og þeir gerast bestir og aflamaður svo að af bar. Sigurður var mjög farsæll í störfum og hafði mikla mannhylli, sömu skipshöfn árum saman, hann var mjög aðgætinn og heppinn alla sína löngu formannstíð, og varð aldrei fyrir neinu óhappi. Hann var formaður með marga báta en lengst af var hann kenndur við m/b Freyju sem hann var lengst formaður með, þetta var mesta happaskip alla tíð undir hans stjórn. Þegar hann seldi m/b Freyju hætti hann formennsku. Sigurður byrjaði sína sjómennsku úr Klaufinni eins og allir Ofanbyggjarar. Hann var innan við fermingu þegar hann fór að fá að fljóta með afa sínum og okkur strákunum og var fljótt áhugasamur og mjög fiskinn á handfæri, sem var eina veiðarfærið í Klaufinni á þeim tíma.
Sigurður var mjög slyngur lundaveiðimaður og stundaði þann veiðiskap mikið á sumrin einnig var hann oft með í eggjaferðum. Hann var Vestmanneyingur af lífi og sál og fór létt með þátttöku í öllum veiðiskap í Eyjum. Sigurður var jafnlyndur og fremur hlédrægur og rólegur á hverju sem gekk, en þeir kostir hafa reynst þeim best sem við stjórnvölinn stendur. Eins og áður segir var Sigurður farsæll í störfum og gæfusamur í einkalífi. 9. október 1934 giftist hann Jóhönnu Kristínu Helgadóttir systurdóttur minni. Hún reyndist honum góð og farsæl eiginkona, þau eign uðust 5 börn sem búsett eru og hafa stofnað sín eigin heimili. Yngsti sonurinn er í heimahúsum og dvelur nú með móður sinni. Þau hjónin byggðu sér mjög gott íbúðarhús að Boðaslóð 15 og bjuggu þar mest af sínum búskap.
Foreldrar Sigurðar Óla voru hjónin Kristín Óladóttir ættuð af Austfjörðum einstök dugnaðarkona og Sigurjón Sigurðsson frá Brekkuhúsi í Eyjum mikill dugnaðarmaður til sjós og lands. Hann var formaður í Eyjum um árabil og ætíð með bestu aflamönnum. Hann var talinn einn með bestu fjallamönnum Eyjanna á sínum tíma og sigmaður af bestu gerð og lundaveiðimaður svo sem best má vera. Svo segja má að Sigurður Óli hafi líkst föður sínum um margt.
Við sólarlag kveð ég vin minn og uppeldisbróður í Jesú nafni.
Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum.

Matthías Einar Angantýsson

Matthías Einar Angantýsson
F. 15. sept. 1939 D. 18. jnní 1981
Matthías var fæddur og uppalinn á Siglufirði og fluttist hingað til Vestmannaeyja með foreldrum sínum árið 1954.
Frá 16 ára aldri stundaði Matthías sjóinn bæði á fiskibátum og togurum. Hann stundaði nám í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum á árunum 1965-66 og lauk þaðan prófi. Hann var síðan stýrimaður og skipstjóri á fiskiskipum bæði hér í Eyjum og annarsstaðar í nokkur ár, þar til hann fluttist til Noregs. Þar kvæntist Matthías eftirlifandi konu sinni, Marit og bjuggu þau um hríð í Oslo. Þar tók Matthías próf frá norskum sjómannaskóla og var síðan stýrimaður á norskum skipum, en vann við borpalla er hann lést.
Matthías lætur eftir sig einn uppkominn son af fyrra hjónabandi, Björgvin Sævar, sem búsettur er á Akranesi.

Kristinn Ástgeirsson

Kristinn Ástgeirsson frá Miðhúsum
F. 6. ágúst 1894 D. 31. júlí 1981
Kristinn var fæddur í Litlabæ í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1894 og voru foreldrar hans hjónin Kristín Magnúsdóttir og Ástgeir Guðmundsson, Ögmundssonar frá Auraseli.
Ungur byrjaði Kristinn að róa á sumrin á árabátum með handfæri og reyndist þá fljótlega vel fiskinn á það veiðarfæri eins og fleiri hans ættmenn, faðir hans og bræður. Öll hans manndómsár var sjómennskan aðalstarf Kristins. Nokkrar vetrarvertíðar réri hann með Ólafi bróður sínum á sexæringnum Gæfu. Haustið 1916 fékk Kristinn Ólaf bróður sinn, sem ásamt föður þeirra var helsti bátasmiður Eyjanna, til að smíða fyrir sig áttæring með færeysku lagi og nefndi Kristinn bátinn Örk. Hann var formaður með Örkina nokkrar vertíðir fram yfir 1920 og voru þeir Kristinn og Ólafur í Litlabæ síðustu formenn, sem stýrðu áraskipum á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum. Kristni fórst formennskan vel úr hendi og þótti hann snilldargóður stjórnari, enda átti hann ekki langt að sækja það, því Ástgeir faðir hans þótti afburða góður stjórnari á áraskipatímanum, en til þess þurfti mikla útsjón, lagni og handstyrk. Árið 1929 smíðaði Ólafur mjög fallegan og góðan trillubát fyrir Kristin, sem hann skírði Gæfu, og var Kristinn formaður með þennan bát í fleiri vetrarvertíðir og fiskaði oft mikið, en á sumrin sótti hann oft fugl og egg í úteyjar.
Kristinn var lögskipaður vigtarmaður frá árinu 1918 til 1968, er hann hætti að geta unnið. Þessu starfi fylgdi að vera oft um borð í fragtskipunum, sem komu með þungavöru til Eyja og fluttu svo þaðan fisk og fiskafurðir. Starf vigtarmanns var að fylgjast vel með öllu, sem upp var skipað, telja hverja olíutunnu, sem í land fór og hverja lýsis- og hrognatunnu, sem kom um borð, skrifa þær og hvert gengi, sem fór í og úr lestum skipsins. Um borð í hverju skipi hafði einn af áhöfninni sama starfa og var það oftast annar stýrimaður. Báru þeir svo saman bækur sínar þegar vinnu lauk hverju sinni. Kristinn gat fleytt sér í ensku, talaði allvel norsku og bjargaði sér í hinum norðurlandamálunum, svo ekki varð bagi að við þetta starf.
Vegna heilsubilunar hætti Kristinn sjómennsku árið 1939 og næstu tvö árin vann hann við ýmis konar störf í landi. Árið 1941 varð hann vigtar- og móttökumaður lifra hjá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja og hjá því fyrirtæki vann hann fram til 1968, að ellin sagði til sín og heilsa og orka létu sig.
Á sjómannsárum sínum tók Kristinn virkan þátt í verkalýðs- og kjarabaráttu sjómanna, sem var hörð á þeim árum. Hann var einn af stofnendum Sjómannafélagsins Jötuns, 24. október 1934, og fyrsti ritari félagsins, enda hafði hann fagra rithönd og var vel ritfær. Kristinn var á efri árum heiðursfélagi Jötuns.
Strax í barnaskóla vöktu vel gerðar myndir, sem Kristinn dró upp með blýanti, athygli skólasystkina og kennara. Þessi myndlistargáfa og hneigð blundaði síðan að mestu hjá honum fram á efri ár, því að árið 1952 byrjaði hann fyrst að mála með pensli og litum. Þetta tómstundagaman varð Kristni mikil ánægja. Hann náði góðum árangri og leikni og sagði síðar, að málun mynda væri sér nærri ástríða.
Árið 1970 tók hann þátt í sýningu „alþýðu-málara", sem haldin var á vegum Alþýðusambands Íslands og vöktu myndir hans mikla athygli. Málverk Kristins urðu fljótlega eftirsótt, en hann gaf þau flest frændum og vinum. Allar voru myndir Kristins af Eyjunum, húsum þar, landslagi og bátum - skipum á sjó og í nausti, en myndir hans af gömlu áraskipunum í Hrófunum og lendingu við Stokkhellu segja mikla sögu. Hann málaði atvinnusögu Eyjanna bæði til sjós og lands að fornu og nýju og má sjá margar þessar myndir hans á Lista- og Byggðasafni Vestmannaeyja. Þar getur einnig að líta fleiri verk eftir hann en málverkin. Má þar nefna líkan af fjárrétt Eyjabænda, sem stóð vestan til á Eiðinu um aldaraðir og fram yfir 1930, einnig er þar líkan eftir hann af fiskgarði og fiskkró. Þessi líkön gerði Kristinn úr smá steinvölum og límdi þær saman og er mikið snilldarhandbragð á þessum líkönum.
Kristinn var kvæntur færeyskri konu, hét hún Jensína Nílsen frá Kvívík á Straumey. Þau eignuðust saman 9 drengi og eru nú 3 þeirra á lífi, en einn son eignaðist Kristinn áður en hann giftist. Árið 1942 keypti Kristinn Miðhús, sem stóð á einum fegursta stað á Heimaey, skammt austan við Skansinn. Árið 1947 lést Jensína kona hans. Með þeim var mikið ástríki og tregaði Kristinn hana mjög. Hann fékk nokkru síðar myndarlega og góða bústýru, Guðfinnu Sigurbjörnsdóttur frá Þorlaugargerði, sem hann mat mikils. Hélt Kristinn áfram heimili með henni og sonum sínum, sem heima voru, þar til Finna andaðist nokkru fyrir 1970.
Að Miðhúsum var umhverfi og útsýni sérstaklega fagurt og undi Kristinn þarna vel hag sínum og var ætíð kenndur við Miðhús í seinni tíð. Hann bjó þar til ársins 1971, að sonarsonur hans keypti húsið. Kristinn átti við heilsuleysi að stríða síðustu æviárin, sem hann dvaldi á elliheimilinu Hraunbúðum. Hann andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja hinn 31. júlí sl.
Eyjólfur Gíslason.

Sigurður Sæmundsson

Sigurður Sæmundsson
frá Hallormsstað
F. 16. feb. 1887 D. 15. júlí 1981
Hann var fæddur að Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 16. febrúar 1887.
Þau systkinin voru alls 15. Sigurður fór ungur að stórbýlinu Reynifelli á Rangárvöllum og á því heimili var hann fram yfir tvítugsaldur.
Sigurðrur kom til Vestmannaeyja vertíðina 1905 og réri þá vertíð og þá næstu 1906 hjá Ástgeiri í Litlabæ á áttæringnum Enok. Eftir það var hann hjá Sigurði hreppstjóra á m/b Skeið og hefur sennilega verið á þeim bát 2 vertíðar og var seinni vertíðina formaður með Skeiðina. Þar næst verður hann formaður með m/b Siggu, sem Gísli J. Johnsen átti, og er með þann bát í 2 vertíðar. Þá hætti hann formennsku og verður mótoristi á m/b Björgvin hjá Bernódusi Sigurðssyni og síðar hjá mági sínum Stefáni í Skuld á sama bát og fleirum.
Vertíðina 1926 rær Sigurður á nýsmíðuðum bát, sem hann átti að einum fjórða hluta. Það var Kristbjörg VE 70, sem var 15 og hálf lest að stærð, mjög gott sjóskip og fallegur bátur á að líta. Á næstu vertíðum vann svo Sigurður við sinn bát, en seldi sinn hlut í honum stuttu eftir 1930 á kreppuárunum. Sigurður réri eina vertíð á áraskipi í Þorlákshöfn hjá þeim kunna formanni Bjarna Grímssyni frá Óseyrarnesi. Þau 8 ár, sem Sigurður bjó sveitabúskap, réri hann á hverri vetrarvertíð á áraskipi út frá söndunum, þegar fiskur var genginn þar. Var hann formaður eina vertíð með skip frá Hallgeirseyjarsandi og tvær eða þrjár vertíðar, þegar hann bjó á Tjörnum, var hann formaður með sandaskip.
Sigurður á Hallormsstað var hinn mesti þrek- og dugnaðarmaður og góður trésmiður. Eftir að hann flutti til Eyja vann hann á milli vertíða við nýskipasmíðar og bátaviðgerðir í Austur- og Vesturslippnum. Þegar hann var um hálfsjötugt varð hann fyrir því óhappi að falla ofan af bát og mjaðmagrindarbrotna. Af því slysi varð hann aldrei jafngóður, en strax og orka og bati leyfði og þó fyrr byrjaði hann að vinna við veiðarfæri hjá Ársæli Sveinssyni og sonum hans og hjá þeim vann hann fram yfir áttræðisaldur.
Sigurður var kvæntur Guðbjörgu Björnsdóttur frá Bryggjum í Vestur-Landeyjum. Þau giftu sig árið 1915 og byrjuðu þá sinn búskap á Bryggjum og bjuggu þar í 3 ár. Þaðan fluttu þau hjón að Tjörnum í Vestur-Eyjafjallahreppi og bjuggu þar í 5 ár. Þaðan fluttu þau til Eyja árið 1923 í nýbyggt hús, sem þau létu heita Hallormsstað og eftir það var Sigurður ætíð kenndur við það húsnafn.
Þau hjón eignuðust 4 börn, Torfhildi og Björn trésmíðameistara sem búa í Reykjavík og Þórarin skipaeftirlitsmann í Eyjum. Þau urðu fyrir þeirri sáru sorg að missa 5 ára gamlan son sinn, Sigurð í sjóinn vestur af syðri hafnargarðinum og man ég, að það slys snerti alla Eyjabúa.
Guðbjörg og Sigurður voru í hjónabandi yfir 60 ár. Þau hvíla nú bæði í Hábæjarkirkjugarði í Þykkvabæ.
Sigurður dvaldi síðustu æviárin að Hrafnistu og þar andaðist hann 15. júlí 1981.
Eyjólfur Gíslason.

Ólafur Jónsson

Ólafur Jónsson
Brekastíg 6
F. 27. júní 1909 D. 31. júlí 1981
Óli var fæddur í Nýjabæ í Ólafsfirði. Foreldrar hans voru Margrét Sigurðardóttir og Jón Fr. Bergsson, en Óli ólst upp hjá móður foreldrum sínum Ólöfu Önnu og Ólafi Ingimundarsyni.
Byrjaði Óli um fermingu eða 14 ára til sjós á m/b Skúla fógeta í Ólafsfirði. Til Eyja flyst hann 1932. Byrjar til sjós með Guðjóni á Heiði er þá var með m/b Glað og síðan á ýmsum bátum hér í Eyjum. Á m/s Lagarfossi var hann um tíma, síðar Júlíu og síðast Sigurfaranum. Á stríðsárunum var hann og sigldi á m/b Ernu, þá var skipstjóri hans Einar Bjarnason. Voru það oft strangar og langar útilegur. En allt blessaðist vel.
Óli kvæntist Jónu Magnúsdóttur og áttu þau heima nokkur ár í Hólmgarði.
Eignuðust Jóna og Óli fjögur börn. Yngsta son sinn Einar Marvin misstu þau er m/b Þráinn fórst 5. nóvember 1968. Er gosið gekk hér yfir fluttu þau hjónin til Hveragerðis og meðan starfskraftar entust vann Óli í ullarþvottastöð Hveragerðis. Óli var hæglátur maður og vildi góðan hlut allra sem hann umgekkst. Óli var elstur tíu systkina, þau þrjú sem eftir eru þakka honum bróðurlegan hlýhug. Þakka ég mági mínum góð kynni og síðustu heimsókn hans til okkar hér í Eyjum. Til Eyja stóð ætíð hugur hans.
Halldór Jónsson.

Áslaugur Stefánsson

Áslaugur Stefánsson
F. 22. júní 1899 D. 1. júlí 1981
Samferðamenn á lífsleiðinni eru misjafnlega eftirminnilegir.
Mér er enn í fersku minni, er Áslaugur Stefánsson leitaði eftir húsnæði hjá okkur en það varð upphaf vináttu, er við hefðum ekki viljað án vera. Áslaugur leigði hjá okkur um árabil og sú trausta vinátta, sem bundin var frá fyrstu kynnum hélst þar til yfir lauk, en Áslaugur andaðist 1. júlí s.l.
Áslaugur Ingibjörn Stefánsson, var skaftfellingur að ætt og uppruna, fæddur í Álftaveri 22. júní 1899 sonur hjónanna Guðlaugar Einarsdóttur og Stefáns Jónssonar. Þegar Áslaugur var 4ra ára stóð móðir hans ein uppi með 2 syni, hann og Stefán líka barnungan, er hún missti mann sinn 1905 úr holdsveiki.
Áslaugur minntist móður sinnar með virðingu og þökk, en oft var þröngt í búi, talaði hann stundum um mjólkurdreitilinn, sem gjarnan var flóaður til drýginga, einnig hve mikil björg var í bú, ef fiskur fannst rekinn á fjörum. Fóstri Áslaugs var Helgi Brynjólfsson frá Þykkvabæjarklaustri, en hann kvæntist Guðlaugu og áttu þau 4 börn: Málfríði, Eyrúnu, Helga og Einar.
Eftir að Áslaugur hafði á unglingsárum unnið algeng sveitastörf leitaði hann að sjónum, og stundaði sjómennsku um áratugaskeið, m.a. rak hann eigin útgerð frá Bakkafirði, og lánaðist vel. Aflann verkaði hann sjálfur með aðstoð eins og gengur, og þarf ekki að rekja það, hve vinnutíminn var oft langur og strangur. Síðustu árin var Áslaugur í vinnu hjá Fiskiðjunni hér og gekk til verka fram yfir sjötugt.
Hin létta lund og starfsgleði Áslaugs ávann honum miklar vinsældir, hann átti fjölda vina víðsvegar um landið, og meðan kraftar leyfðu hafði hann mikla unun af að sækja þá heim, og var duglegur að ferðast milli vina og vandamanna.
Við sem áttum því láni að fagna að eiga hann að fjölskylduvini geymum ljúfar minningar um Áslaug og biðjum Alföður að blessa minningu þessa mæta öðlings.
Jóhann Friðfinnsson.

Guðmundur Ketilsson

Guðmundur Ketilsson
F. 13. mars 1902 D. 21. ágúst 1981
Guðmundur Ketilsson var fæddur 13. mars 1902 að Sandprýði á Stokkseyri, en fluttist ungur með foreldrum sínum að Kaðlastöðum á Stokkseyri og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Hildur Vigfúsdóttir og Ketill Jónsson. Ungur fór Guðmundur að stunda sjó, fyrst á Stokkseyri og Sandgerði. Árið 1924 fór hann fyrst til Vestmannaeyja á vertíð og réri þá á Víkingi hjá Gísla á Arnarhóli og var með honum nokkrar vertíðir. Seinna var hann með Haraldi Hannessyni á Hilmi og Baldri, hann var vélstjóri lengst af á þessum bátum sem hann réri á og var hann mjög vel liðinn í því starfi, og eftirsóttur á báta. Seinustu árin sem hann var í Eyjum vann hann á hafnargrafskipinu.
Hinn 18. maí 1935 kvæntist Guðmundur eftirlifandi konu sinni Jónínu Guðnýju Helgadóttur frá Dalbæ í Vestmannaeyjum. Þau byggðu húsið að Fífilgötu 2 og bjuggu þar í 11 ár. Þau eignuðust 3 börn, sem öll eru gift og búa 2 þeirra á Selfossi og 1 á Stokkseyri, barnabörnin eru 10. Eina aldraða systur á Guðmundur á lífi, Viktoríu og dvelur hún hjá dóttur sinni á Stokkseyri.
Árið 1947 fluttust þau Guðmundur og Jónína að Selfossi og byggðu þar hús að Smáratúni 4 og bjuggu þar síðan. Fyrstu árin á Selfossi vann Guðmundur hjá Kaupfélagi Árnesinga, að vélaviðgerðum uns sjónin dapraðist til muna, svo að hann varð að hætta störfum þar, eftir það vann hann ýmsa verkamannavinn+u, þar til heilsu þraut. Guðmundur andaðist í sjúkrahúsi Selfoss 21. ágúst 1981, 79 ára að aldri, eftir langa og stranga sjúkralegu.
Guðmundur var mjög gjafmildur maður, og má segja að það var hans aðaláhugamál að gefa og styðja á allan hátt þá sem minna máttu sín. Síðustu árin sem hann lifði var hann orðinn sem sagt blindur, en hann kvartaði ekki, en hugsaði um það eitt að hjálpa öðrum. Börnum sínum reyndist hann góður og umhyggjusamur faðir og studdi þau á allan hátt. Barnabörnin hændust mjög að afa sínum, enda fylgdist hann náið með þeirra framförum og hugarefnum.
Ég sem þetta rita, tel mig gæfumann að hafa kynnst Guðmundi, honum sem gekk svo vel að lifa eftir sinni lífstrú, kærleika, jafnrétti og bræðralagi.
Páll Bjarnason.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson
frá Grund
F. 12. júlí 1922 D. 24. ágúst 1981
Ari Þorgilsson lést á Húsavík 24. ágúst s.l. Foreldrar hans voru þau heiðurshjón Þorgils Þorgilsson og kona hans, Lára Kristmundsdóttir, sem bæði eru látin.
Ari var næstelstur fimm bræðra, sem ólust upp á dæmigerðu alþýðuheimili, ástríkra foreldra. Eins og fjölmargra ungra Eyjamanna lá leið hans á sjóinn og var hann fyrst háseti og síðan vélstjóri á bátum héðan, frá 1940-1944, að leið hans lá austur í Vík í Mýrdal í símavinnu, en þar kynntist hann konuefni sínu, Þorbjörgu Sveinsdóttur, sem hann síðan kvæntist 31. maí 1946.
Ari og Bobba eignuðust fimm börn, tvær dætur og þrjá syni, sem öll eru nú farin úr foreldrahúsum.
Ari og sá, sem þessar línur festir á blað, voru jafnaldrar og æskuvinir, og eru mér kærar minningar um daglegar komur mínar á heimili foreldra Ara, þar sem hjartarúm var nóg, þó húsrýmið væri oftast í minna lagi.
Síðan skildu leiðir, þó hittumst við af og til, og á heimili þeirra hjóna var gott að koma, og voru þá kannski rifjaðar upp ýmsar æskuminningar, við græskulausa gamansemi, sem Ara var gefin í ríkum mæli, en hann var hrókur alls fagnaðar á mannfundum og virtur af félögum og samstarfsmönnum. Lengst af sínum starfsaldri vann Ari sem vélstjóri við Lóranstöðina á Reynisfjalli, þar til hún var lögð niður, er tekin var upp svonefnt Loran C kerfi.
Ari var félagsmaður og voru honum falin ýmsi trúnaðarstörf í þeim félögum sem hann var í. Þá sat hann í hreppsnefnd Hvammshrepps og var kjörinn hreppstjóri. Síðari árin starfaði hann á sýsluskrifstofunni í Vík.
Ég sendi eiginkonu, börnum og öðrum vandamönnum samúðarkveðjur.
K.G.

Hallgrímur Garðarsson

Hallgrímur Garðarsson
Illugagötu 34
F. 23. nóv. 1940 D. 22. des. 1981.
Þann 29. desember sl. var til moldar borinn Hallgrímur Garðarsson skipstjóri til heimilis að Illugagötu 34 Vm.
Hallgrímur var fæddur á Reyðarfirði 23. nóvember 1940. Hann var sonur hjónanna Sigfríðar Bjarnadóttur og Garðars Jónssonar.
Snemma lá hugur Hallgríms að sjónum og byrjaði hann ungur til sjós.
Hann settist í Stýrimannaskólann í Rvík og lauk þaðan prófi 1962.
Eftir að Stýrimannaskóla lauk var Hallgrímur stýrimaður og skipstjóri, mest á bátum hjá Einari Sigurðssyni, m.a. á Gullborgu með Binna í Gröf. Skipstjóri var hann á Hannesi Lóðs og lengi stýrimaður hjá mági sínum Jóni Valgarð Guðjónssyni á Gunnari Jónssyni og fl. bátum.
Síðustu 3-4 árin gerði hann sjálfur út 100 tonna bát sem hét Sæþór Árni og var skipstjóri á honum. Síðastliðið haust hætti hann útgerð og var búinn að ráða sig sem stýrimann á Álsey þegar kallið kom svo óvænt.
Hallgrímur var mjög félagslyndur og virkur félagi í þeim félögum sem hann var í. Hann var í skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi og gegndi þar ýmsum mikilvægum trúnaðarstörfum, t.d. átti hann sæti í sjómannadagsráði í mörg ár, og þar sýndi hann eins og alltaf að hann var bæði drífandi og duglegur þegar eitthvað þurfti að gera. Árið 1974 var stofnaður hér í Eyjum Lionsklúbbur Vestmannaeyja. Hallgrímur var einn af þeim sem vann að stofnum klúbbsins.
Hallgrímur var mjög góður Lionsmaður enda virkur félagi sem ávallt var reiðubúinn að vinna þau störf sem lágu fyrir hverju sinni, enda vissi hann að með því var hann að styrkja þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.
Það má því segja að stórt skarð hafi verið höggvið í Lionshreyfinguna og munu Lionsmenn geyma vel minninguna um góðan dreng og tryggan félaga.
Þann 14. mars 1962 gekk Hallgrímur að eiga eftirlifandi konu sína Addý Guðjónsdóttur og eignuðust þau þrjú börn, Sigfríði, Sæþór Árna og Berglind, en einnig gekk Hallgrímur Mörtu dóttur Addýjar í föðurstað.
Hallgrímur var ástríkur eiginmaður og faðir og einnig var hann barngóður og naut þess að vera með börnum sínum og barnabörnum. Hallgrímur Garðarsson lést 22. des. 1981 í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
Ó.F.

Kristmundur Sæmundsson

Kristmundur Sæmundsson Draumbæ
F. 1. nóv. 1903 D. 21. ágúst 1981
Kristmundur var fæddur 1. nóvember 1903, í Draumbæ í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin, Sigríður Eyjólfsdóttir og Sæmundur Ingimundarsson.
Kristmundur var elsta barn foreldra sinna, alls urðu systkinin 7, þar af eru fjórar systur eftirlifandi. Kristmundur ólst upp með foreldrum sínum og systkinum til fullorðinsára. Hann tók þátt í þeim störfum sem fyrir lágu á hverjum árstíma. Hann réri úr Klaufinni með föður sínum og nágrönnum eins og þá var vani hjá Ofanbyggjurum, einnig stundaði hann lundaveiði í Bjarnarey um árabil. Ég sem þessar línur festi á blað var með Kristmundi í Bjarnarey mörg sumur við lundaveiði og eggjatöku. Hann var góður fjallamaður, ágætur lundaveiðimaður og góður félagi. Hann reyndist foreldrum sínum góður og dyggur sonur og var heimili sínu ætíð til sóma. Á vetrarvertíðum réri Kristmundur á vélbátum margar vertíðir. Hann var einn af þeim fyrstu sem eignaðist vörubifreið og ók henni um árabil. Hann mun einnig hafa verið einn af stofnendum B.S.V.
Eftir að foreldrar Kristmundar féllu frá kom til hans að Draumbæ Sigríður Valgeirsdóttir með 2 syni sína unga frá Reykjavík. Þau hófu búskap í Draumbæ og eignuðust 7 börn, síðar slitu þau samvistum. Eftir það vann Kristmundur lengst af hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og líkaði þar mjög vel. Þegar hér var komið fór heilsan að bila. 1978 lá leið hans í Sjúkrahús Vestmannaeyja og þar dvaldi hann þar til yfir lauk, 21. ágúst 1981. Þar með lauk langri ævi þar sem skiptust á skin og skúrir eins og gengur í lífinu.
Ég kveð hér æskufélaga frá fyrri árum, en við Kristmundur vorum næstu nágrannar fyrir ofan hraun um árabil. Við rérum saman úr Klaufinni vor og haust og vorum við fuglaveiðar á sumrin. Kristmundur var Vestmanneyingur af lífi og sál. Þeim hafði hann unnað frá fyrstu bernsku. Hann var hörku duglegur við allt sem hann tókst á við. Vestmanneyingar kveðja hér góðan aldamótamann í Jesú nafni.
Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum.

Guðni Ólafsson

Guðni Ólafsson
F. 25. apríl 1899 D. 12. ágúst 1981
Guðni Ólafsson var fæddur 25. apríl 1899 í Steinum undir Eyjafjöllum. Hann flutti til Eyja 1925 en var þá búinn að vera á vertíðum áður. Það mun vera um 1920 sem Guðni kemur fyrst til Eyja og vann þá við beitningar og aðgerð hjá Birni á Kirkjulandi og fleirum. 1926 réði hann sig á bát hjá Helga Benediktssyni, sem hét Enok. Seinna var hann hjá Guðjóni í Hlíðardal á Siggu litlu á línu og færum (1934-5). Guðni lagði hönd á margt, má þar nefna að hann vann við hleðslu hafnargarðanna er þeir voru byggðir, einnig var hann mörg ár við vinnu í Ísfélaginu. Þá vann hann að mælingarstörfum með Stefáni í Framtíð og við pípulagnir með Hermansen frá Ásbyrgi. Og að lokum má nefna að Guðni vann að lagningu flugbrautar hér í Eyjum og síðustu árin sem hann var hér var hann póstmaður. Giftur var Guðni Aðalheiði Ólafsdóttur og áttu þau 3 dætur. Guðni lést 12. ágúst 1981.
Tengdasonur.

Sigurður Bjarnason

Sigurður Bjarnason
Brekastíg 23
F. 25. ágúst 1895 D. 13. ágúst 1981
Hann fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1895. Foreldrar hans voru Bjarni Magnússon steinsmiður og kona hans Sólveig Sigurðardóttir. Sigurður fluttist ungur til Vestmannaeyja og hóf sjómennsku sem varð hans aðalstarf. Sigurður var ávallt í góðum skipsrúmum, enda eftirsóttur og vel liðinn af öllum sem honum kynntust, eins og sést af því að hann var 19 vertíðir með Stefáni Guðlaugssyni frá Gerði á m/b Halkion. Hélst góð vinátta með þeim alla tíð og oft rómaði hann góðmennsku þeirra Gerðishjóna.
Mörg sumur var Sigurður með Sighvati Bjarnasyni frá Ási á síldveiðum fyrir norðan. Hvort tveggja voru þetta eftirsótt pláss á þeim tíma.
Sigurður var mikið snyrtimenni, handlaginn og mjög hagur við matreiðslu og brá sér oft í kokkshlutverkið í forföllum.
Fljótlega eftir að Sigurður kom til Eyja kynntist hann konu sinni, Þorbjörgu Sigurðardóttur frá Akurey hér í bæ, og eignuðust þau 5 börn: Önnu, Hilmar, Sólveigu og Engilbert, en fyrsta barn sitt misstu þau við fæðingu. Þorbjörg lést 1948, 52 ára gömul.
Eftir að Sigurður hætti að stunda sjóinn að staðaldri lét hann smíða sér trillubát sem hann skírði eftir Þorbjörgu konu sinni og réri á henni héðan og einnig nokkur sumur frá Patreksfirði.
Árið 1955 kvæntist Sigurður seinni konu sinni, Ólafíu Ólafsdóttur og bjuggu þau saman þar til Ólafía lést 25. ágúst 1969. Þau ólu upp dótturdóttur Ólafíu, Ásdísi Ernu Guðmundsdóttur. Síðustu árin vann Sigurður við alla almenna verkamannavinnu hjá Vestmannaeyjabæ og vel kom handlagni hans og snyrtimennska í ljós við lagningu margra gangstétta hér í bænum.
Mér, sem þetta skrifar, var það mikil ánægja að kynnast nafna mínum og unun hafði ég af því að heyra hann segja frá uppvaxtarárum sínum í Reykjavík og ýmsu því sem skeði hér á árum áður en of langt mál yrði upp að telja í grein sem þessari.
Eins dáðist ég að léttlyndi hans og þeirri lífsorku sem í honum bjó og seiglan í honum var með ólíkindum, enda fannst honum fátt verra en að vera verklaus og eftir að heilsan fór að bila fékk hann send net til sín til afskurðar.
Elliáranna reyndi nafni að njóta eftir bestu getu og fór meðal annars nokkrar utanlandsferðir bæði með eldri borgurum og öðrum ferðahópum og var þá hrókur alls fagnaðar og marga kunningja átti hann víða sem reyndust honum vel og launuðu með því vináttu hans.
Sigurður lést á sjúkrahúsi hér í Eyjum eftir nokkurra mánaða legu, 13. ágúst 1981.
Blessuð sé minning um góðan vin.
Sigurður Óskarsson.

Þorbjörn Sigurhansson

Þorbjörn Sigurhansson
frá Brimnesi
F. 1. febrúar 1896 D. 13. ágúst 1981
Þorbjörn var fæddur í Stóru-Mörk undir Austur-Eyjafjöllum, sonur hjónanna Dórotheu Sveinsdóttur og Sigurhans Ólafssonar, en þau hjón fluttu svo að Gerðakoti í Holtshverfi og bjuggu þar, þangað til að þau fluttu út til Vestmannaeyja árið 1911 með stóra fjölskyldu og stuttu seinna keyptu þau íbúðarhúsið Brimnes, sem stóð á sjávarkambinum austur af Gjábakka.
Þorbjörn ólst upp í Stóru-Mörk hjá föðurbróður sínum, en fluttist til Eyja um tvítugs aldur og gerðist þar sjómaður og fljótlega „mótoristi" eftir að hann hafði eitt haustið verið á mótornámskeiði, sem haldið var í Eyjum og tekið þar próf.
Vertíðina 1923 réðst Þorbjörn vélstjóri hjá Sigurði Ingimundarsyni á nýsmíðaðan stóran bát, Blika VE 143, sem var tæp 22 tonn að stærð með 60 hestafla, tveggja strokka Wichmann-vél. Blikinn var þá einn stærsti báturinn í Vestmannaeyjum og kom það fyrir að hann væri einskipa á sjó enda öll veiðarfæri ný. Á Blikanum var svo Þorbjörn þar til hann flutti úr Eyjum.
Haustið 1922 var Þorbjörn ásamt 18 öðrum nemendum á skipstjórnarnámskeiði, sem haldið var í Eyjum og Sigfús Scheving veitti forstöðu og var eini kennarinn. Próf af þessum námskeiðum veittu réttindi til skipstjórnar á 30 lesta stórum skipum. seinna var því breytt í 60 lestir og loks í 120, án þess að bæta við sig lærdómi.
Þegar Þorbjörn fluttist burt frá Eyjum um 1930 settist hann að í Innri-Njarðvík og varð þar vélstjóri við fiskvinnsluhús Eggerts Jónssonar frá Nautabúi og við það hús vann hann í nokkur ár.
Frá Njarðvík flutti Þorbjörn á Seltjarnarnesið og varð þá vélgæslumaður við frystihúsið Ísbjörninn og þar vann hann svo á meðan aldur og orka leyfði.
Þeir Brimnesbræður, Sigurhanssynir, voru sex og lifir nú einn þeirra, Karl, sem dvelur á elliheimilinu Hraunbúðum og er öllum eldri Vestmanneyingum að góðu kunnur.
Ágúst var elstur þeirra bræðra, hann var vélstjóri á m/b Fram og fórst með þeim bát, austur af Urðum 14. janúar 1915, í austan roki og stórsjó. Sveinn var næstur að aldri og var í fleiri vertíðar vélamaður á Eyjabátum. Eftir að hann hætti á sjónum var hann lengi vélamaður í Hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar.
Sveinn lést 1963. Óskar lærði vélsmíði í smiðju Th. Thomsen, en vann svo alla sína ævitíð sem rennismiður í Vélsmiðjunni Magna. Hann var einn af þremur stofnendum og eigendum h/f Magna. Allir eldri Eyjasjómenn þekktu Óskar í Magna að öllu góðu. Hann lést 1. apríl árið 1979. Berent Sigurhans var mjög efnilegur maður. Fór ungur í vélsmiðju um 1920, en veiktist þá og varð að hætta námi. Hann dó innan við þrítugt. Aðalsteinn var yngstur þeirra bræðra. Hann fórst með m/b Mínervu 24. janúar 1927 í austan ofsaveðri.
Allir voru þessir bræður mestu myndarmenn og drengir góðir. Þorbjörn var kvæntur Málfríði Helgadóttur frá Holti í Álftaveri og lifir hún mann sinn. Þau hjón eignuðust tvö börn.
Eyjólfur Gíslason.

Guðmundur Guðmundsson

Guðmundur Guðmundsson frá Lyngbergi
F. 10. maí 1905 D. 14. september 1981
Guðmundur Guðmundsson var fæddur að Leirum Austur-Eyjafjöllum 10. maí 1905. Sex ára gamall fluttist hann með foreldrum sínum og systkinum til Vestmannaeyja, en þau voru alls 11 og var hann næstyngstur þeirra.
Þegar þessi stóra fjölskylda flutti til Eyja fékk hún inni í litlu timburhúsi á Kirkjubæjunum, sem kallaður var Ólafsbær, en ekki höfðu þau þar jarðarafnot. Í þessu litla húsi, sem var eitt herbergi og lítið eldhús, bjó fjölskyldan í tvö ár og flutti þaðan að Eystri-Uppsölum og við það húsnafn var Guðmundur lengi kenndur og kallaður Gummi í Uppsölum.
Guðmundur fór ungur að vinna og hjálpa foreldrum sínum, því allt sem hann vann sér inn lét hann ganga inn í heimilið og hafði þann háttinn á þar til hann stofnaði sitt eigið heimili 29 ára gamall.
Um nokkur ár var Guðmundur sjómaður á vetraravertíðum, beitti hann þá á línuvertíð, en fór á sjóinn, þegar netin voru tekin. Ég, sem skrifa þessar minningar, hafði Gumma sem háseta í 5 vetrarvertíðar, 1933-1937, á m/b Glað VE 270 og eftir okkar samveru vorum við ætíð góðir kunningjar.
Guðmundur var sérlega vandaður og trúr maður til orða og verka á sjó og landi. Nokkur úthöld var Gummi á dragnótaveiðum með Jóni aðventista á m/b Unni og m/b Erni, en ekki líkaði honum það veiðarfæri frekar en fleirum.
Þegar Gummi var með mér var hann aðventisti og vann því ekki á laugardögum, en það bætti hann upp aðra daga vikunnar, svo að aldrei var á það minnst eða um talað, hvorki af mér eða skipsfélögum hans, þó staðið væri í róðrum alla daga vikunnar, virka sem helga. Mátti enginn heyra það nefnt að skipta um mann eða ráða annan í hans stað.
Um tvítugsaldur lærði Guðmundur húsamálningu og eftir það vann hann við það starf í fleiri sumur á milli vertíða. Um 1940 snéri hann sér alfarið að málaraiðninni, sem hann vann við fram á sinn síðasta ævidag og var alla tíð eftirsóttur í það starf.
Guðmundur var mjög listhneigður og í sínum fáu frístundum málaði hann landslagsmyndir og skipa, sem vöktu aðdáun þeirra er sáu.
Guðmundur var tvíkvæntur og eignaðist 9 börn og eru átta þeirra á lífi. Fjögur þeirra, er hann eignaðist með fyrri konu sinni Sigrúnu, búa í Grindavík, eitt barn misstu þau. Seinni kona hans er Herdís Einarsdóttir, sem býr í Eyjum ásamt fjórum börnum þeirra.
Eyjólfur Gíslason.

Daníel Willard Fiske Traustason

Daníel Willard Fiske Traustason
F. 18. júní 1928 D. 27. september 1981
Daníel var fæddur í Grímsey, sonur hjónanna Kristínar Valdimarsdóttur og Trausta Pálssonar. Kristín er enn á lífi en Trausti féll frá þegar Daníel var aðeins fjögurra ára.
Stóð hún þá ein uppi með stóran barnahóp. Daníel fékk því fljótt að kynnast hörku lífsbaráttunnar og mun ekki hafa verið gamall þegar hann tók að sækja sjó, fyrst á bátum síðar á togurum. Hann undi því ekki lengi að vera háseti hjá öðrum. Innan við tvítugt sótti hann fiskimatsnámskeið og starfaði síðan um hríð sem verkstjóri við frystihús í Stykkishólmi. Leiðin lá þó fljótt aftur á sjóinn og Daníel fór síðan í Stýrimannaskólann og lauk þaðan skipstjórnarprófi 1955. Að loknu prófi var hann eitt ár stýrimaður á bát frá Vestmannaeyjum en tók síðan sjálfur við skipstjórn. Var fyrst með Ísleif gamla en síðan hvorn á eftir öðrum báta Helga Benediktssonar, Fjalar og Hringver. Á þeim árum voru að hefjast veiðar á kraftblökk, Daníel var fljótur að ná valdi á nýrri tækni við veiðarnar og aflaði vel. Hann stjórnaði síðan nýjum stálbátum Einars Sigurðssonar, Engey og Akurey, en keypti um 1965 af Einari vélbátinn Kóp og hefur gert hann út síðan. Kópur var ekki nýr, þegar Daníel keypti hann, og líklegt er að honum hefði hlotnast bæði meiri fjármunir og umfram allt fleiri tómstundir ef hann hefði áfram verið með skip fyrir aðra, því hann var eftirsóttur skipstjóri. Samt hygg ég að hann hafi aldrei iðrast þess að fara sjálfur út í útgerð. Það átti best við hann að þurfa ekkert undir aðra að sækja. Daníel sótti jafnan fast á vetrarvertíð frá Eyjum, aflaði vel, þegar engin óhöpp urðu með tækjabúnað, og varð eitt ár aflakóngur. Á síðustu árum var hann aftur tekinn til við síldveiðar og hafði nýhafið síldarvertíð þegar hann féll frá.
Daníel gekk árið 1957 að eiga Hildi Jónsdóttur kennara í Vestmannaeyjum og hafa þau búið þar síðan að undanskilinni dvöl fjölskyldunnar í landi um tíma eftir gosið. Þau eignuðust þrjú börn, Jón Hauk, Úlfar og Írisi.
Daníel Traustason var hár maður, herðabreiður og kraftalegur og hafði þá þykkustu hönd sem ég hef tekið í. Svipmikill var hann, lá hátt rómur þegar hann vildi það við hafa og sópaði að honum hvar sem hann fór. Hann var afbragðssjómaður, skjótráður, ákveðinn og skýr í fyrirskipunum og glöggur að greina hvern vanda. Hann var kröfuharður við menn sína og gat látið heyrast til sín úr brúarglugganum ef honum þótti menn vera svifaseinir eða linir til átaks, en kunni líka vel að meta það þegar rösklega var unnið og allir samtaka. Hann var góður félagi áhafnarinnar á hvíldarstundum. Mér er kunnugt um fjölmarga, sem verið höfðu með honum á sjó, mátu hann mikils og þótti vænt um hann síðar og héldu við hann sambandi þótt þeir hefðu horfið að öðrum störfum.
Erfið bernska og langvinn sjósókn oft við óhægar aðstæður settu vitaskuld sitt mark á Daníel. Hann gat verið hrjúfur á ytra borði. En ekki þurfti mikil kynni til að sjá í gegnum það. Barngóður var hann með afbrigðum, hjálpsamur og rausnarlegur. Hann unni mikið fjölskyldu sinni, lagði kapp á að láta hana ekkert skorta og skapa börnum sínum þau tækifæri sem hann fór á mis við sjálfur í æsku. Svo ráðríkur og aðsópsmikill sem hann gat verið við skipstjórn hygg ég að jafnrétti milli kynja og kynslóða hafi verið meira á heimili hans en margra annarra.
Það er hörmulegt að sjá á eftir góðum drengjum á besta aldri í greipar dauðans. Það er e.t.v. nokkur huggun að hægt er að segja með sanni að Daníel Traustason hafði þegar skilað sínu dagsverki sem hver maður væri fullsæmdur af. En hann hefði líka átt skilið að njóta ávaxtanna af erfiði sínu um langa hríð í samvistum við eiginkonu, börn og barnabörn, fædd og ófædd, sem áreiðanlega hefðu orðið honum til mikils yndis eins og hann var gerður.
Vésteinn Ólason.

Jón Stefán Sigurðsson

Jón Stefán Sigurðsson
frá Götu
F. 20. júlí 1926 D. 13. sept. 1981
Jón var fæddur hér í Eyjum, sonur hjónanna Vilborgar Jónsdóttur og Sigurðar Sigurðssonar sjómanns. Bjuggu þau um árabil að Herjólfsgötu 12, Götu, og eftir að Sigurður faðir Jóns dó, þá bjó móðir hans, Vilborg, árum saman í skjóli Ólafs Gránz í Jómsborg.
Jón, eða Nonni, eins og við leikbræður hans kölluðum hann, var tápmikill og frískur drengur. Vettvangur okkar í leik var við höfnina, bryggjurnar, bátana, ,,fara út á" eins og við kölluðum það, þ.e. ef einhver báts-eigandi var svo góður að lána okkur skjöktarann sinn. Mjög sjaldan fylgdu árar með og var þá róið með spýtum og vanalega farið undir Stórulöngu og þvert yfir botninn inn á Eiði. Nonni var alltaf vel liðtækur og sýndi mikinn dugnað í þessum leikjum. Vílaði hann sér ekki við að blotna. Þá gátu ekki allir drengir verið í vaðstígvélum. Peningar voru einfaldlega ekki til kaupa á kreppuárunum. Vilborg tók drengjunum sínum alltaf vel og án orða, þá voru fötin þurrkuð við eldavélina, svo allt væri tilbúið fyrir næsta leik, eða skólaferð.
Þegar Jón var 10 ára fór hann í sveit sem léttadrengur. Þá þegar voru örlög hans ráðin. Hann réðst að Presthúsum í Mýrdal til sæmdarhjónanna Ingveldar Tómasdóttur og Guðjóns Guðmundssonar, búenda þar. Nonni kom ekki til Eyja um haustið og framlengdist þetta svona, við tímans elfur, að hann staðfestist í Presthúsum til manndómsára. Heim til Eyja kom hann svo þroskaður velvaxinn ungur maður. Réðst hann til Páls Ingibergssonar á gamla Reyni og síðan á þann nýja. Með Páli, þeim dugnaðar öðlingsmanni, réri svo Jón vertíð eftir vertíð. Páll var ávallt með mikinn feng í vertíðarlok og skaffaði sínum mönnum topp-hluti.
Með vertíðarferðum sínum til Eyja, þá lagði Nonni grundvöll að því sem hugur hans stefndi til. Hann gerðist bóndi. Árið 1953 giftist hann Svandísi Salomonsdóttur frá Ketilsstöðum og eignuðust þau 4 börn. Árið 1958 eru þau orðin ábúendur að Ketilstöðum í Mýrdal og bjuggu þar alla tíð upp frá því.
Bætti Jón jörð sína eftir föngum og komst vel af. Í leik sem drengur var hann duglegur. Hann var svo í skipsplássum, þar sem aðrir en dugnaðarmenn áttu ekki heima. Hann sparaði hvorki krafta eða tíma til heilla konu sinni og börnum.
Jón var alla tíð hraustur, en fyrir hjarta hafði hann fundið til undir það síðasta. Hann var að skipta um ljós í perustæði, þegar kallið kom, svo óvænt. Allt í einu var hann allur. Lífið er oft svona. Tryggingu fyrir áframhaldi hér í heimi hefir enginn.
Mig setti hljóðan við andlát gamals leikbróður. Ég bið Drottinn Jesúm að blessa eiginkonu hans og börn og votta þeim og systkinum Nonna innilegustu samúð.
Einar J. Gíslason.