Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Björgunarfélag Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Revision as of 15:26, 1 March 2016 by StefánBjörn (talk | contribs) (Ný síða: <center><big><big>'''Björgunarfélag Vestmannaeyja'''</big></big></center><br> Til þess að átta sig á starfi Björgunarfélagsins þarf að ri...)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search
Björgunarfélag Vestmannaeyja

Til þess að átta sig á starfi Björgunarfélagsins þarf að rifja upp nokkur atriði úr sögu félagsins. Í ritinu Björgunarfélag Vestmannaeyja, 10 ára starf, segir um slys og hrakningar 1908 til 1930: Fórust 28 vélbátar og með þeim 120 manns, þar af ein kona. Undir þessum kringumstæðum verður Björgunarfélag Vestmannaeyja til.
Félagið var stofnað 1918 og fyrsti formlegi stjórnarfundur þess haldinn að Hofi hér í bæ þann 4. ágúst 1918. Var á þeim fundi samþykkt að láta byggja 60 tonna bát til gæslu- og björgunarstarfa. 1919 býðst félaginu að kaupa Þór, sem var svo keyptur á 270 þús. krónur. Þór kom til Vestmannaeyja 26. mars 1920. Rekstur skipsins var svo á vegum Björgunarfélagsins í 6 ár við mikla fjárhagserfiðleika og skilningsleysi ríkisstjórnar, en velvild og fjárstyrk frá ráðamönnum Vestmannaeyjabæjar. Síðan var Þór seldur ríkinu og varð þar með fyrsta landhelgis- og björgunarskip sem ríkið eignaðist.
Í ritinu Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyju 1862 til 1938, á blaðsíðu 86-88, stendur: „Árið 1934 var fyrir forgöngu Björgunarfélags Vestmannaeyja hafin bygging sundlaugar með upphituðum sjó. Það fyrirtæki studdi Bátaábyrgðarfélagið með myndarlegu fjárframlagi kr. 5000 en mannvirkið kostaði þá fullbúið kr. 40.000."
Árið 1944 er fyrir forgöngu Björgunarfélagsins ráðinn maður á næturvakt á loftskeytastöðinni og til að þetta fengi fram að ganga varð félagið að greiða helming kostnaðar og var svo í mörg ár. Í framhaldi af því er tilkynningarskyldan tekin upp hér 1956 að tilhlutan Björgunarfélagsins, og þykir sjálfsögð í dag.
Á stjórnarfundi í Björgunarfélaginu 1953 var fyrst vakið máls á og rætt um hina miklu þörf á fullkomnu hafnar- og björgunarbát til afgreiðslu skipa og til hjálpar við skip og báta innan hafnar og utan. Á stjórnarfundi sem haldinn var 30. maí 1957 var skýrt frá því að Magnús Ólafsson í Reykjavík hafi tilboð um 50 smálesta bát úr stáli frá Hollandi og væri verðið kr. 1.400.000. Var það einróma álit stjórnarmanna að heppilegast myndi vera að fá tilboð um smíði á bát frá sem flestum aðilum. Á stjórnarfundi 1958 lá fyrir útlitsteikning ásamt lýsingu á hafnar og björgunarbát, gerðar af Hjálmar Hjálmari R. Bárðarsyni skipaskoðunarstjóra og voru það frumdrög að Lóðsinum, sem kom 1961. Ekki er mér kunnugt um hversu mörgum hann hefur veitt aðstoð eða bjargað síðan hann kom, en þeir eru margir. Björgunarfélagið lagði til kr. 380.217,24 sem var nálægt 5% af verði skipsins.
Á stjórnarfundi 21. október árið 1972 var rætt um hvort hægt væri að fá skrúfuna af gamla Þór, sem strandaði í Húnaflóa 1929, en árið áður náðu kafarar skrúfunni á land. Formanni var falið að kanna málið sem hann gerði og var skrúfan svo keypt á kr. 50 þúsund. Skrúfan er nú staðsett í minnismerki um Björgunarskipið Þór í Friðarhöfn.
Tillaga kom fram á stjórnarfundi 2. október 1976 um að standa ásamt fjórum félögum öðrum að kaupum á Halkionshúsinu. Var hún samþykkt og húsið keypt og það nefnt Básar.
Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur margt gert í sambandi við kynningar á notkun gúmmíbjörgunarbáta, kynnt mönnum meðferð þeirra og hvatt til góðrar meðferðar á þeim. Sigmundsgálgann hefur félagið ásamt öðrum kynnt og prófað og unnið að löggildingu hans. Hér er á ferðinni tækni við sjósetningu og uppblástur á gúmmíbjörgunarbátum, sem að flestra dómi á eftir að sýna ágæti sitt á neyðarstundu.
Síðastliðið haust stóð Björgunarfélagið ásamt Kjartani Bergsteinssyni loftskeytamanni fyrir fundi með eigendum smábáta hér í Eyjum um fjarskiptabúnað og annað er varðar öryggi þeirra. Árangurinn af þessum fundi er, að búið er að panta um 30 viðurkenndar talstöðvar, auk þess sem nokkrir munu vera að festa kaup á gúmmíbjörgunarbátum. Mun þetta örugglega eiga eftir að sanna ágæti sitt eins og svo margt annað sem félagið hefur staðið að í öryggismálum.
Ég hef verið við að bjarga 29 manns úr bráðum háska hér við Vestmannaeyjar og ótal mörgum sinnum verið með ásamt öðrum að veita bágstöddum aðstoð á neyðarstundu. Nú kann einhver að spyrja: hvers vegna hefur þú svo mikinn áhuga á björgunarmálum? Svar við því er, að ég hef sjálfur notið þess að vera bjargað tvisvar sinnum úr bráðum háska, og hét ég því þá að kæmist ég lífs af skyldi ég beita mér fyrir bættu öryggi á sjó og landi. Vonast ég til að hafa ekki brugðist því heiti.
Að því sem hér hefur verið sagt sést að Björgunarfélagið leggur mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir, en jafnframt að vera ávallt tilbúnir að veita aðstoð og björgun ef óhapp eða slys hefur hent.
Nefna má til dæmis að Lóðsinn dró vélbátinn Búðarnes GK 101 á flot, þar sem hann hafði strandað í fjörunni austan Markarfljóts og komu menn og tæki Björgunarfélagsins þar við sögu, ennfremur hefur á síðasta ári eins og undanfarin ár verið leitað að trillum sem vantað hefur og þeim veitt aðstoð ef þurft hefur.
Mönnum er í fersku minni strand belgíska togarans Pelagusar hér við Urðirnar þann 21. janúar sl. Ætla ég ekki að rekja þá sögu hér, en ætla þó að minnast á það, að þótt útbúnaður okkar Björgunarfélagsmanna hafi reynst hið besta í það skiptið, þá er margt til sem okkur vantar og gott hefði verið að vera búnir að eignast til að flýta fyrir aðgerðum. Á ég þar við flutningatæki fyrir búnað okkar og fjarskiptatæki af fullkomnustu gerð, en þessir hlutir kosta mikið fé, og hefur því verið sett á laggirnar fjáröflunarnefnd hjá félaginu. Hefur henni orðið vel ágengt og þökkum við þann almenna áhuga sem okkur og starfi okkar hefur verið sýndur. Við höfum nú þegar pantað fjarskiptabúnað af VHF-gerð sem væntanlegur er nú í apríl. Ennfremur hafa verið pantaðir björgunargallar og bifreið af fullkomnustu gerð og vonum við að við verðum aðstoðaðir fjárhagslega við þessi verkefni eins og hingað til.
Mikið hefur verið unnið við lagfæringar á húsnæði félagsins og að koma sem haganlegast fyrir þeim tækjum og búnaði, sem fyrir er.
Við Björgunarfélagið hafa gefið sig fram og verið skráðir 47 frískir og duglegir menn sem lýsa sig viðbúna að vera ávallt til taks ef hætta steðjar að og veita þá aðstoð sem mannlegur máttur fær áorkað og tækjabúnaður leyfir. Ég veit að þið getið tekið undir með mér að betra er að geta sagt að við gátum bjargað öllumt af því að við höfðum fullkomnustu tæki, heldur en að við hefðum getað bjargað hefðum við verið með betri tæki í höndunum.
Ég vil að endingu þakka öllum velunnur-um félagsins veitta aðstoð í starfi þess og vonast til að við njótum áfram velvildar og stuðnings allra Vestmanneyinga, og verum minnug þess að enginn veit hver er sá næsti, er þarf aðstoðar við.

Með vinsemd og virðingu
Kristinn Sigurðsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja