Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Þegar slysið varð á mb. Portlandi 17. október 1906

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 09:51 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 09:51 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
JÓN SIGURÐSSON:


Þegar slysið varð á mb. Portlandi


17. október 1906.


Eftir þann góða árangur, sem varð hér í upphafi vélbátaaldarinnar, einkum þá aflasæld, sem m/b Unnur náði vertíðina 1936. fóru menn að mynda með sér félagsskap til að kaupa báta, í hópi þeirra voru hinir fyrstu eigendur að m/b Portlandi, en það voru eftirtaldir menn: Guðjón Jónsson í Ormskoti undir Eyiafjöllum (síðar á Heiði í Vestmannaeyjum), Björn Erlendsson í Gerði, Jóhann Jónsson á Brekku, Ingvar Árnason í Hólshúsi, Friðrik Benónýsson í Gröf, Þórarinn Gíslason á Lundi og Magnús Magnússon á Landamótum.

Magnús Magnússon.

Þeir pöntuðu sér bát frá Danmörku, og var það samkomulag þeirra, að Magnús á Landamótum yrði formaður með bátinn. Hann hafði þá undanfarnar vertíðir verið með vertíðarskipið Hauk og farnazt vel. Guðjón Jónsson hafði róið hjá Magnúsi undanfarnar vertíðir á Hauki, og var það fastmælum bundið hjá þeim félögum, að þeir skyldu verða saman í framtíðinni, því það féll vel saman með þeim. Guðjón var ráðinn formaður austur á land þetta sumar, og var svo umtalað hjá þeim, að Magnús skyldi verða heima þetta sumar til að taka á móti bátnum, sem var væntanlegur í ágúst.
Fer nú Guðjón austur og er þar um sumarið. Í ágúst fær hann bréf frá Magnúsi, og í því er frá því greint, að báturinn sé kominn til Vestmannaeyja og sé mjög álitleg fleyta, 8,45 rúmlestir með 8 hestafla Dan-vél. Þóttu Guðjóni þetta góðar fréttir. Engu að síður endaði hann sitt úthald þar fyrir austan eins og til stóð, en kom aftur til Eyja í septemberlok. Fljótlega eftir að hinn nýi bátur kom til Eyja, fór Magnús á honum í ferð austur í Mýrdal, en þaðan var hann upprunninn úr Dyrhólahverfinu, í ferð þá tóku sér far með Magnúsi Gísli J. Johnsen kaupmaður, Ísleifur Guðnason bóndi á Kirkjubæ og Matthías Finnbogason járnsmiður á Jaðri (síðar á Litlu-Hólum), og þótti þetta nýjung að geta farið á vélknúnu skipi til meginlandsins.
Í þessari ferð skírir Magnús bátinn Portland.
Líður nú tíminn fram til septemberloka, að Guðjón kemur austan af landi. Þá er Portlandið fullfermt gaddavír, sem átti að fara upp undir Eyjafjöll. Þennan gaddavír átti Magnús Sigurðsson í Hvammi og ætlaði hann að girða alla landareign sína með 5-settum snúrum, og mun það hafa verið fyrsta girðing þessháttar undir Eyjafjöllum, en Magnús var mikill framfaramaður. Eitthvað munu Yzta-Skálamenn hafa átt í þessmn vírfarmi líka.
Nú er beðið eftir leiði undir Fjöllin, unz upp rennur norðanátt hinn 17. október með björtu veðri og sandadauðum sjó.
Portlandið leggur nú af stað og er haldið út víkina. Þegar út fyrir Klettsnef er komið er norðan kaldi. Þar eru sett upp segl og haldið austur Flóann eins og leið liggur.
Þarna er á bátnum unglingsmaður, Elías að nafni, sonur Friðriks í Gröf. Hann langar að stýra, og veitir Magnús formaður honum það. Þarna eru sumir af eigendum Portlands með í förinni; þeir Friðrik í Gröf og Ingvar í Hólshúsi auk Magnúsar formanns og Guðjóns. Einnig er þarna með Jón Stefánsson, bóndi í Gerðakoti undir Eyjafjöllum, síðar í Úthlíð hér í Eyjum.
Haldið er austur á milli Eyja. Alltaf er sama blíða, sléttur sjór og aðeins andvari við norður. Er nú farið að hita kaffi í lúkarnum, og eru allir í góðu skapi og líta björtum augum til framtíðarinnar og þessa nýja skips.
Þegar kaffið er heitt orðið, fara allir í lúkarinn, nema Elías einn, sem stýrir. Var nú kaffið drukkið og þótti það hin bezta nýjung að drekka þannig kaffi á sjó. Síðan fara þeir upp Magnús og Guðjón. Ganga þeir aftur eftir þilfarinu og aftur í ganginn við vélarreisnina og eru þar að spjalla saman og gera að gamni sínu um hlut, sem skeð hafði þá fyrir tveimur dögum.

Elías Friðriksson.

Veit Guðjón þá ekki fyrr til en Magnús dettur útbyrðis, án þess að hann sæi til þess nokkurt sérstakt tilefni. Þrífur Guðjón þegar stjaka, en þar eð ferð var á bátnum var Magnús þegar flotinn aftur fyrir bátinn. Hleypur Guðjón þá að lúkarsopinu og kallar alla menn á dekk. Segl eru tekin niður í skyndi og sveigt í hring að Magnúsi, en áður en bátinn bar að honum er hann sokkinn og sáu þeir hann ekki eftir það.
Hér skipaðist fljótt um milli lífs og dauða og er sem þarna hafi ekki mátt feigum forða, því enginn sem þekkti Guðjón á Heiði lætur sér til hugar koma að björgunartilraun hafi farið í handaskolum. Við þetta sviplega slys sló óhug á þá félaga sein vonlegt var. Mun þetta hafa verið fyrsti mannskaðinn, sem varð á mótorbát hér í Eyjum, en því miður urðu þeir margir síðan á fyrri árum vélbátanna.
Eftir slys þetta var ferðinni þó haldið áfram austur undir Eyjafjöll og gekk að óskum, öllu skipað upp með eðlilegum hætti, enda var sjór dauður. Síðan var haldið til Eyja og komið heim undir kvöld. Og lauk þar með þessari Fjallaför. Við formennsku á Portlandi tók síðan Friðrik í Gröf og var hann með bátinn í þrjár vertíðir og síðan Guðjón á Heiði í eina vertíð. Eftir það seldi Guðjón sinn hlut í bátnum. Síðar voru ýmsir formenn með Portlandið allt til 1920. Þá var það sett hér upp í Botninn og þar stóð það í nokkur ár, unz það var að lokum rifið.

M/b Portland VE 47.

Magnús Magnússon á Landamótum kom hingað til Eyja laust fyrir síðustu aldamót. Byrjaði hann hér strax sjómennsku og varð fljótt formaður með opið skip, vann sér fljótlega tiltrú í því starfi og var talinn í fremstu röð formanna. Jafnhliða var hann talinn með beztu bjargveiðimönnum hér.
Kona Magnúsar var Kristín Jónsdóttir, er síðar var fjölda ára í Hólshúsi. Hún og Magnús eignuðust einn son, er Magnús heitir, og er hann búsettur í Reykjavík.