Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Árni Árnason frá Grund: Minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 12:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 12:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Árni Árnason frá Grund


MINNING


„Er hann dáinn“? Eyjan spyr með tárum,
„aldavinur minn frá bernsku árum.
Hver mun skipa sæti heiðursmanns,
hver mun feta í hreinu sporin hans?“

Hallfreður.

Árni var fæddur á vestri Búastöðum 19. marz 1901. Hann andaðist á sjúkrahúsi í Reykjavík 13. október 1962. Foreldrar hans voru Árni Árnason frá Vilborgarstöðum og kona hans, Jóhanna Lárusdóttir á Búastöðum. Börn þeirra hjóna voru fjögur er upp komust, Lárus, Bergþóra, Árni og Guðfinna.
Árið 1901, um haustið, fluttu þau hjónin í nýbyggt hús, sem þau nefndu Grund. Við þann stað var Árni ætíð kenndur síðan, og fram eftir ævinni oftast kallaður Addi á Grund.
Í foreldrahúsum var Árni alinn upp í guðsótta og góðum siðum, léttum störfum og hollum leikjum. Á uppvaxtarárum Árna var lífsbaráttan hér hörð og fæstir, sem höfðu nema til hnífs og skeiðar. Þau þægindi, sem létta nú fólki störfin, úti og inni, þekktust þá ekki. Börn og unglingar voru því fljótt látin fara að hjálpa til við vinnu eftir því sem orka og aldur leyfði.
Á sumrin við fuglareytslu, saltfiskþurrkun og kálgarðavinnu, en á veturna við fiskaðgerð, línubeitingu, matar- og kaffifærslu, því þá var sá siður hér, að færa mönnum mat og kaffi á vinnustað, er þeir unnu frá bæ, því ekki voru þá hitabrúsarnir til.
Hér munu hafa verið um 60 börn á skólaskyldualdri, 10 til 14 ára, er Árni var að alast upp. Þeim hópi var skipt í 3 bekki. Starfaði skólinn 6 mánuði ársins, frá septemberbyrjun til febrúarloka, 4 til 5 tíma á dag.
Er Árni kom í skólann varð fljótt ljóst, að hann var góðum gáfum gæddur, og oftast var hann efstur eða mjög ofarlega í sínum bekk. Þó Árni hefði sérstaka námshæfileika, leyfði ekki efnahagurinn langskólasetu, enda minna um framhaldsskólanám þá heldur en nú. En ekki sló hann slöku við að afla sér þekkingar og mennta, með lestri góðra bóka og tilsagnar. Tímakennslu fékk hann til að læra erlend mál, enda varð hann vel fær í ensku og Norðurlandamálum ásamt þýzku, en það tilheyrði hans ævistarfi að vera fljótur til svara á þessum málum með morsestafrófinu.
Árið 1919 gerðist Árni starfsmaður hjá Landsímastöðinni hér. Símstöðvarstjóri var þá A. L. Petersen. Hann reyndist honum mjög góður lærifaðir og bar Árni ávallt til hans hlýhug og þakkir.
Árið 1921 varð Árni símritari á stöðinni og hafði það starf á hendi í 40 ár. Áður en hann tók það starfi að sér, var hann á stuttu námskeiði í Reykjavík og við Loftskeytastöðina þar til þjálfunar í starfi sínu. Það var álit margra, er til þekktu, að Árni hefði verið einn allra færasti loftskeytamaður landsins. Oft bar það við, að hann heyrði fyrstur manna neyðarkall frá skipum og varð þeim oft fyrir hans glöggu eftirtekt og atbeina komið til hjálpar. Hann var mjög skyldurækinn í sínu starfi og sjómennirnir voru hans vinir, enda var hann af þeim kominn, og báðir afar hans drukknuðu hér við Eyjar i fiskiróðri.

Þegar talstöðvar voru settar hér í fiskibátana, mátti heita að Árni væri tengiliður þeirra og heimamanna. Marga frívaktina mun hann hafa staðið, áður en fastur næturhlustunarvörður var ráðinn á símstöðina hér, þegar vond veður voru og seint komið í höfn. Hann var alltaf reiðubúinn til að ná í sambönd við skip og fá þau til að leita og aðstoða báta, sem óttazt var um og ekki náðu landi, og má telja víst, að í nokkur skipti gat hann talizt bjargvættur báta og áhafna. Það er því ekki of sagt, að allir Eyjasjómenn báru hlýjan þakkarhug til Árna símritara og blessa minningu hans.
Árni var mikill hæfileikamaður. Hann var og mjög félagslyndur og var hér í mörgum félögum. Um fermingaraldur gekk hann í Íþróttafélagið Þór og gerðist þar fljótlega virkur og kraftmikill félagi um fleiri ára skeið. Hann æfði margar íþróttagreinar og tók þátt í þeim á sýningum, svo sem Þjóðhátíðinni. Hans beztu fög voru spjótkast og knattspyrna, þar skaraði hann fram úr. Einnig var hann ágætur spretthlaupari.
Í mörg ár var hann í Lúðrasveit Vestmannaeyja. Ungur lærði Árni að spila á harmoniku og þótti mjög leikinn í þeirri list. Hann spilaði hér oft á dansleikjum í gamla Gúttó og víðar. Í Leikfélagi Vestmannaeyja var hann virkur félagi um ára bil og lék mörg hlutverk, og þótti honum takast það vel og í sumum hlutverkum ágætlega. Árni skrifaði Sögu leiklistar í Vestmannaeyjum. Í fræði- og skólaritinu Blik 1962, birtist kafli af þeirri sögu, frá upphafi leikstarfsemi hér 1852 til 1909.
Í Akoges- og Oddfellowreglunni var hann góður félagi. Hann var einn af stofnendum Vestmannaeyingafélagsins Heimakletts og ritari þess alla tíð.
Innan tíu ára aldurs fór Árni fyrst með föður sínum til lundaveiða í Álsey. Þar kynntist hann fljótt hinu glaða, frjálsa og holla úteyjalífi. Af því varð hann svo heillaður, að hann fór á hverju sumri upp frá því í Suðurey eða Álsey; oftar þó í Álsey. Þar var hann á hverju sumri öll sín síðustu æviár, meðan heilsan leyfði. Um fermingaraldur fór hann að veiða með lundaháf, og varð fljótt lipur og snarpur lundaveiðimaður, enda átti hann ekki langt að sækja það, þar sem faðir hans var afburða snjall veiðimaður og mikill sigamaður. Í hópi veiðifélaga átti Árni sína beztu vini, sem ávallt munu sakna hans.
Árni var aðalhvatamaður að stofnun Bjargveiðimannafélags Vestmannaeyja og formaður þess frá stofnun. Hann mun hafa lokið við að skrifa Sögu bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum. Vonandi verður hún prentuð áður en langt um líður. Í Byggðarsafnsnefnd Vestmannaeyja átti Árni sæti síðastliðiu 10 ár. Þar vann hann af áhuga og þekkingu við myndaskýringar og fl. í flestum frístundum sinum, meðan heilsa og orka leyfði. Hann var sannur Eyjasonur og unni þeim af heilum hug. Hans yndi var að grafa úr gleymsku gamlar sögur og sagnir um þær, íbúa þeirra og atvinnuhætti. Í Reykjavík kom hann oft í Landsbókasafnið til að grúska þar í gömlum kirkjubókum og öðrum heimildaskjölum, til að auka við þá þekkingu sína. Hann var mikill ættfræðingur og ritsnillingur, einnig góður hagyrðingur.
Árni var kvæntur Katrínu Árnadóttur, Ásgarði, og lifir hún mann sinn.
Þar áttu þau hjón lengst af sitt heimili. Þau eignuðust eina dóttur, Hildu, sem er gift og búsett á Akureyri.
Með Árna Árnasyni frá Grund hafa Eyjarnar okkar misst einn sinn bezta og mætasta son, sem vildi þeirra hag sem mestan á öllum sviðum.
Vertu sæll, frændi og vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Eyjólfur Gíslason.