Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Togaratakan við Vestmannaeyjar 23. marz 1914

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2016 kl. 10:45 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2016 kl. 10:45 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
ÁRNI J. JOHNSEN:


Togaratakan við Vestmannaeyjar 23. mars 1914


Upp á síðkastið hefur margt og mikið verið rætt og ritað um landhelgismál vor, og að voninn borið æði margt á góma. Við Íslendingar verið sakaðir um allar vammir og skammir, er við höfum af veikum mætti verið að reyna að verja fiskimið okkar fyrir erlendum veiðiþjófum, við sakaðir um að beita allskonar ofbeldi í viðureigninni við þá, þar á meðal bornir þeim sökum, að gera ítrekaðar tilraunir til þess að sigla í kaf stærðar herskip, allt að því 20 til 30 sinnum stærri skip en hin litlu varðskip okkar. Sjómenn okkar sakaðir um að fara ekki eftir neinum gildandi alþjóðasiglingarreglum á hafinu, til þess að koma hinum stóru erlendu hersnekkjum, er sendar eru hingað upp að landsteinum til þess að stjórna og vernda og aðstoða veiðiþjófana á alla lund — fyrir kattarnef.
Það kveður nákvæmlega við sama tón nú hjá veiðiþjófunum og gerði fyrir 46 árum síðan er neðangreind togarataka átti sér stað við Vestmnannaeyjar árið 1914, vorum við, er að togaratökunni stóðum. í sumum heimsblöðunum og þá sérstaklega þeim þýzku, kallaðir ófyrirleitnir sjóræningjar, en botnvörpungurinn er þá var tekinn við ólöglegar veiðar, var þýzkur og hét „Burgmeister Mondeberg“ H. C. 2, frá Cuxhaven, skipstjóri Benjamín Modersitzkí, 32 ára gamall.

Árni J. Johnsen.

Skal nú að nokkru greint frá töku þessa botnvörpungs, en ég, sem þessar línur rita var einn af „köppum kóngs“ — við tilheyrðum nefnilega þá Hans Hátign Danakonungi — og átti ég að heita túlkur, þó að ég væri að vísu ekki stálsleginn í þýzkunni — skárri að skömminni til í enskunni, enda er að heiman var haldið, var helzt búizt við að hitta fyrir brezkan eða öllu heldur brezka veiðiþjófa, en þeir voru hér að staðaldri í stórhópum alveg uppí landsteinum við hina þokkalegu ólöglegu iðju sína, — en raunin varð sú að við lentum á „þýzkara“.
Lagt var úr heimahöfn kl. að ganga 4 e. h. sunnudaginn 23. marz, á tveim vélbátum „Hlíf“, V.E. 166, eigendur Gísli J. Johnsen kaupmaður og Þórarinn Gíslason gjaldkeri frá Lundi og fl. „Sæfari“, V.E. 157, með 12 hestafla Gideonvél 12 smálestir að stærð, „Hlíf“ var 8,97 smálestir með 12 hestafla Danvél. Eigandi „Sæfara“ var Sveinn Jónsson á Landamótum og fleiri, en Sveinn var sjálfur með bátinn, en skipstjóri á „Hlíf“ mun hafa verið Kristinn Ingvarsson frá Junkaragerði, en hann fór sem betur fór með okkur upp í botnvörpunginn, og var þá vélstjórinn Vilhjálmur Magnússon frá Fögruvöllum, einn eftir í bátnum, fylgdi hann síðan eftir okkur allan tímann, eða þar til „Sæfari“ kom aftur, en hann var sendur í land til að sækja liðsauka og helzt sýslumann, s. s. síðar getur.
Haldið var sem leið liggur inn fyrir „Al“, því að þar hafði sézt til veiðiþjófa um morguninn, enda þurfti ekki lengi að leita, því að brátt sást til 2ja slíkra milli Elliðaeyjar og lands eða innan við „Rófu“, sem er mið n.a. af Elliðaey.
Var annar þessara sá þýzki er við tókum, en hinn gríðarstór frakkneskur.
Minnir mig að hann héti „Notre Dame de la Mere“, eða eitthvað þessu líkt og mun á honum hafa verið um eða yfir 40 manna áhöfn. Vildum við sumir helzt taka þá báða, þó við værum ekki nema 12, vildum fara 6 í hvorn, en fyrirliði okkar, Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, var hyggnari maður en svo, þótt harður væri í horn að taka, og hefði gjarnan viljað hafa hendur í hári sem flestra slíkra „kalífa“, en lét það ekki eftir okkur sem betur fór, enda hefði þá ver farið, svo sem síðar kom í ljós.
Var nú Iagt að þeim þýzka og gekk það mjög greiðlega, því ládeyða var og mátti heita logn, skipið á lítilli ferð enda með vörpuna í eftirdragi hálf fulla af fiski.
Er við vorum allir komnir upp í skipið, var þegar haldið í „brúna“ undir forystu Sigurðar og lögðum hana undir okkur og settumst allir þar að.
Var nú skipstjóra, sem var aleinn á stjórnpalli, tilkynnt. að hann væri hérmeð tekinn fastur fyrir landhelgisbrot og honum skipað að draga þegar inn vörpuna og halda til hafnar til að svara til sakar. Lét hann þá þegar draga inn vörpuna og var mikill fiskur í henni. Ekki man ég nú hve margskipt var, minnir þó að það hafi verið fjórskipt, en aflinn var að minnsta kosti mikill, mestmegnis þorskur. Hinsvegar neitaði skipstjóri algjörlega að hlýðnast því að halda til hafnar, eins og honum var fyrirskipað, til þess að standa þar fyrir máli sínu. Taldi hann okkur ekki hafa neina heimild til að fyrirskipa sér eitt eða neitt og var hann í því dyggilega studdur af fyrsta vélamanni, er var hinn dólgslegasti og stappaði í hanu stálinu, um að hlýðnast okkur ekki. Ég þóttist hafa grun um, að vélamaðurinn væri Dani, sennilega frá Slésvík. Stóð nú alllengi í þessu þófi, en skipstjóri lét sér ekki segjast, heldur krafðist að við yfirgæfum skip sitt hið fljótasta, því ella mundi verra af hljótast. En við vorum ekki alveg á því að gefast upp fyrir „kalla“, fyrr en í fulla hnefana, síður en svo, enda forustumaðurinn traustur. Þegar hann þóttist viss um, að við ætluðum ekki að yfirgefa skipið fríviljuglega, kallaði hann skipshöfn sína sér til aðstoðar og héldu þeir eflaust, að þeir hefðu allt ráð okkar í hendi sér, þar sem liðsmunur var mikill, við aðeins 12 en þeir 16. Var nú gerð harkaleg atlaga að „brúnni“, þar sem við dvöldum ásamt skipstjóra, - voru skipsmenn vopnaðir allskonar bareflum og hnífum, en við að mestu vopnlausir, nema eina „pístólu“, með tveimur skotum í höfðum við s. s. síðar getur. Við höfðum hinsvegar miklu betri aðstöðu, þar sem við höfðum stjórnpallinn, „brúna“, á okkar valdi og þurfti ekki nema 2—3 af okkar mönnum til þess að verjast uppgöngu á hvorn brúarvæng. Höfðum við nóg af hraustum drengjum til þess, drengjum er ekki voru neinir veifiskatar eða „sjoppulýður“, heldur harðduglegir og hraustir, enda stóðu þeir sig eins og til var ætlazt og hrundu árásinni í „brúnni“ sá Sigurður einn um skipstjóra og var hann ekkert öfundsverður af þeim „selskap“, því að sá gamli þjarmaði duglega að honum þótt aldursmunur væri rétt og slétt 30 ár. Atlagan misheppnaðist með öllu. Urðu skipverjar að hrökklast frá og niður á dekk við lítinn orðstír, margir með vondar skrámur og dasaðir mjög eftir væn kjaftshögg og harða viðureign.
Í fremstu víglínu hjá okkur voru á stjórnborða þeir bræðurnir Kristinn og Stefán Ingvarssynir og Magnús Guðmundsson frá Hlíðarási. Kom enginn að tómum kofunum þar sem þessum „drengjum“ var að mæta, allir samanrekin heljarmenni, tveggja manna makar, ofurhugar, snarir og ákveðnir. Á bakborða voru í fremstu víglínu, þeir Árni Sigfússon, kaupmaður og útgerðarmaður frá Löndum, þá Kjartan Ólafsson síðar yfirfiskimatsmaður frá Miðhúsum, nú til heimilis á Urðarveg 28 hér. Þar næst kom Guðni J. Johnsen frá Frydendal, síðar kaupmaður og útgerðarmaður að Ásbyrgi hér, og þá Jakob Sigurðsson, ættaður af Austurlandi að mig minnir, en mun hafa verið formaður hér þessa vertíð. Allir voru þessir piltar hin mestu hraustmenni og létu enda Þjóðverjana kenna duglega á því. Fór fyrir þeim eins og félögum þeirra stjórnborða, að þeir urðu allir frá að hverfa við sízt betri orðstír en hinir og sízt betur útleiknir, barðir og marðir „greyin“.

Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Þegar Sigurður sá að hverju fór, að skipstjóri ætlaði ekki að hlýðnast og halda skipi sínu til hafnar, skipaði hann svo fyrir að Sæfari héldi tafarlaust heim til þess að sækja sýslumann og liðsauka. Var heppilegt, að Sigurður valdi Svein til þessara erinda ef vel átti að fara, enda leysti Sveinn erindið vel og dyggilega af hendi eins og hans var von og vísa. Var nú um tíma hlé á slagsmálum og var þá reynt að koma vitinu fyrir skipstjóra og fá, hann til að halda til hafnar, en reyndist árangurslaust. Á meðan á þessum viðræðum við skipstjóra stóð, voru skipverjar að jafna sig og taka saman ráð sín um tilhögun á næstu atlögu. En þá skeður það, að sá franski, er áður var nefndur og nú hefur eflaust verið búinn að fá fullt dekk og þess utan óefað farið að huga að sér, er hann á, að annar báturinn var sendur í land, hefur eflaust búist við hinu versta sér til handa, enda í fullri sök, ekki síður en sá þýzki. Kom hann nú á mikilli ferð og stefndi beint til hafs. En er þeir þýzku sáu til ferða hans, hugðu þeir sér eflaust gott til glóðarinnar um að fá þá til að hjálpa sér til þess að losa sig við okkur. Drógu þeir þegar upp neyðarflagg til þess að láta líta svo út, að við værum að misþyrma þeim. En sá franski skeytti því engu, vissi sjálfan sig sekan, en vinátta varla mikil milli þeirra þjóða, frekar en vant var, eins og enda skömmu síðar kom á daginn.
Neyðardulan var heldur ekki lengi látin hanga uppi, því að Kristinn réðist þegar til niðurgöngu með hníf í hendi til þess að skera niður flagglínuna, ruddi þeim þýzku frá sér eins og fisum og tókst fljótlega að skera hana niður, en hún var höfð milli mastra. Voru það falleg og hressileg handtök, þótt ekki væru þau beinlínis mjúk, er hann ruddi þeim þýzku til hliðar, án þess að meiða þá eða nota hnífinn til annars en að skera niður flagglínuna svo sem áður segir. Hef ég aldrei séð hressilegri handatiltektir eða snarari og meira áræði en Kristinn sýndi, er hann ruddist aleinn gegn 12—14 manns, því skipverjar voru allir á dekki nema vélamaður og skipstjóri er var vel geymdur í „brúnni“, undir „verndarvæng“, Sigurðar, en þeim skipverjum hefur ekki þótt hann beint árennilegur, þótt einn væri, enda raumur að vexti, fríður sýnum og hið mesta glæsimenni, ofurhugi og afrenndur að afli.
Skömmu eftir að Kristni hafði svo giftusamlega tekizt að skera niður neyðarflaggið, gerðu skipverjar aðra tilraun til þess að ná af okkur „brúnni“, og helzt að varpa okkur öllum fyrir borð.
Til þess að undirstrika áform sín svo ekki væri um að villast, hótuðu þeir að sprauta á okkur sjóðandi vatni og gufu, ef við létum ekki undan eða hreint og beint gæfumst upp fyrir þeim og hótunum þeirra. En allt kom fyrir ekki. Okkur datt vitanlega alls ekki í hug, að láta undan síga og þvi síður að gefast upp þótt hótanir væru ferlegar, en vorum hinsvegar alveg ákveðnir í því að koma togaranum til hafnar með illu eða góðu, til þess að hægt væri að draga skipstjóra fyrir lög og dóm og fá hann dæmdan að lögum fyrir veiðiþjófnaðinn og láta hann svara fyllilega til sakar. Að vísu var ekki sérlega skemmtilegt að standa í þessu þófi, orðið dimmt af nóttu og skipið látið vera algjörlega ljóslaust, stýrið fast afturá og skipið látið hafa aftur á bak til þess að komast austur með söndum og dýpra, því að þar vissi skipstjóri af mörgum þýzkum togurum, er voru þar á meðal margra brezkra togara að ólöglegum veiðum, var auðvitað tilætlun skipstjóra að ná sambandi við landa sína, til að fá þá í lið með sér til þess að koma okkur frá borði með einhverju móti.
En bæði var það, að við vorum ákveðnir um að koma þrjótnum til hafnar, og þvi ekki sízt fyrirliði okkar Sigurður, þótt orðinn væri 62ja ára, og við vissum, að fyllilega var óhætt að treysta honum í hvívetna, enda var kjarkur hans og hugrekki óbilandi og forusta hans öll hin ákjósanlegasta. Hefði eflaust illa farið fyrir okkur, ef við hefðum ekki notið hyggni hans og fyrirhyggju.
Það fór svo með þessa árás, að hún fór algjörlega út um þúfur, en ekki notuðu þeir þó heita vatnið á okkur eins og þeir höfðu hótað, það máttu þeir þó eiga greyin.

Brezki landhelgisbrjóturinn Montgomery lávarður í Vestmannaeyjahöfn. Harrison skipstjóra var sleppt gegna 779.400 kr. tryggingu. Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Þriðja og síðasta árásin var gerð þegar aldimmt var orðið. Hafði stýrimaður forustuna og ætlaði auðsjáanlega að ryðjast upp í „brúna“, hvað sem það kostaði, skeytti ekki um spörk eða þung högg, en þeir voru þar til varnar Árni, Kjartan og Guðni, s. s. áður getur. Árni var með „pístólu“ er ég átti og hafði ég eiginlega af tekið hana með í „túrinn“, en ekki átti ég nema tvö skot í hana. Stýrismaðurinn vildi ekki gefa sig, þrátt fyrir hin hraustlegustu kjaftshögg. Skaut þá Árni einu skoti úr byssunni rétt yfir höfði hans, og lét hann þá loks undan síga, og var þar með þriðju og síðustu atlögunni lokið með fullum sigri okkar. Bar nú um stund ekkert til tíðinda. Ekki kom báturinn að heiman með sýslumann og aðra, er hann átti að sækja. Var nú komið kolamyrkur, svo að jafnvel mátti búast við, að Sveinn fyndi okkur ekki, þar sem skipið var algjörlega ljóslaust, eins og áður getur. Þó mun einhver ljóstýra hafa verið á „Hlíf“ hjá Villa, en það hvarf okkur oft sjónum, svo að við héldum jafnvel stundum, að hann hefði týnt okkur eða hreinlega yfirgefið — og var það þó ekki Villa líkt, enda reyndist það svo, því Villi kallinn kom alltaf aftur til okkar utan úr myrkrinu, var okkur þó stundum nokkuð farið að lengja eftir honum. Loks kom svo Sveinn á „Sæfara“, einnig utan úr myrkrinu, og var okkur náttúrlega mjög farið að lengja eftir honum. En aðdragandi var talsverður til að ná saman mönnum til fararinnar og vegalengdin orðin talsverð, þar sem skipið hélt stöðugt út og SA, svo sem að framan getur. En Sveinn kom heldur færandi hendi, því að auk þess að koma með sjálfan sýslumanninn, Karl Einarsson, kom hann með ágætan túlk, Alexander Jóhannesson, síðar prófessor og háskólarektor, en þá orðinn doktor í þýzkri tungu, svo að honum varð ekki skotaskuld að tala yfir hausamótunum á sökudólgnum. Skipstjórinn var þá allmikið farinn að dasast eftir fangbrögðin við Sigurð, þóttist meðal annars vera rifbrotinn eftir hann, en reyndist við læknisskoðun er í land kom, vera óbrotinn. Læknir sá er skoðaði hann, var hinn landskunni ágætislæknir Halldór sál. Gunnlaugsson, þá héraðslæknir hér. Aðrir er að heiman komu með Sveini voru: Hannes lóðs Jónsson á Miðhúsum, Matthías Finnbogason járnsmiður og þá orðinn ágætis vélamaður, þá búandi á Jaðri hér en nú búsettur að Litlu-Hólum hér, Konráð Ingimundarson frá Götu, er einnig var vélamaður, hafði eitthvað fengizt við gufuvélar til sjós. Klukkan var nú orðin um 11 að kveldi, er Sæfari kom aftur til okkar með liðsaukann. Auk framangreindra manna komu að heiman með „Sæfara“ nokkrir fleiri, er ég man ekki nú hverjir voru. Höfðum við þá staðið í stórræðum, er okkur barst liðsaukinn, má heita óslitið í fullar 7 klukkustundir, án þess að bragða vott eða þurrt, því að segja má að risna hafi verið með lélegra móti á skipi þessu, enda kannske ekki að undra, þar sem við vorum í slíkum erindagerðum. Stóð enn nokkuð lengi í þófi, þótt sýslumaður væri sjálfur mættur með ágætis túlk, en þó kom að því að lokum, að skipstjóri féllst á að halda skipi sínu til hafnar, til að svara þar til sakar. Var loks lagzt hér á ytri höfn kl. um 3 e. miðn. Voru þá liðnar um 12 klukkustundir frá því að við komumst upp í skipið. Voru þá þegar settir varðmenn í skipið, minnir mig að það hafi verið Jóhannes Hannesson á Miðhúsum, sonur Hannesar lóðs og hefur Hannes sennilega verið meðal vaktmanna, að minnsta kosti þessa nótt, en skipstjóri var ekki tekinn í land eða fyrir rétt, fyrr en daginn eftir. Sýslumaður hér var svo sem áður getur Karl Einarsson og yfirheyrði hann skipstjóra, en ritari réttarins var Magnús Stefánsson skáld (Örn Arnar). svo að það eru ekki svo fáir menn, er síðar urðu landskunnir, er viðriðnir voru handtöku þessa botnvörpungs. Skipstjórinn meðgekk nokkuð fjótlega, þó ekki fyrr en eftir nokkrar vitnaleiðslur, er allar gengu honum í mót. Hann var að lokum af sýslumanni dæmdur í 1500 ríkismarka sekt, eða kr. 1335.00 íslenzkar, svo að þið sjáið, að krónan okkar var þá ekkert blávatn eins og nú. Afli og veiðarfæri var gert upptækt. Skipstjóri áfrýjaði ekki dómnum, svo að aflinn og veiðarfærin voru flutt hér í land og allt selt á opinberu uppboði. Uppboðshaldari var Sveinn Scheving lögregluþjónn. Fékk margur þarna ódýra soðningu, ekki sízt sveitamenn er söltuðu það er þeir hrepptu, og fluttu svo með sér heim að vertíðarlokum. Ekki er mér kunnugt um hvort hið opinbera áfrýjaði sjálft dómnum til hæstaréttar, sem þá mun enn hafa verið í Kaupmannahöfn, fluttist ekki til landsins fyrr en 1918. Til fróðleiks get ég hér um miðunina, þar sem botnvörpungurinn var staddur með vörpuna úti er við tókum hann, og var hún sem nú greinir:
Litli-Þríhyrningur rétt upp á Seljalandsmúla, Hrauney við Upsaberg og Helgafell fast vestan við austur kant Bjarnareyjar og Hellutá — (austur táin á Stórhöfða) — um Hellisey að vestan.
Þeir sem þátt tóku í þessari eftirminnilegu „togaratöku“ voru þeir er nú skal greina: Vélbáturinn „Sæfari“ V.E. 157, 12 smál. með 12 h. Gideonvél, skipstjóri Sveinn Jónsson (Sveinn á Landamótum), nú til heimilis á Bakkastíg 7 hér, mesti dugnaðar- og sómamaður, en vélstjóri var Finnbogi Finnsson, bróðir Friðfinns kaupmanns á Oddgeirshólum hér, en Finnbogi er var ágætis vélamaður, varð síðar vélstjóri við Ísfélag Vestmannaeyja og lézt þar af slysförum. V/B „Hlíf“ V.E. 166, 8,97 smál. með 12 h. Danvél, skipstjóri Kristinn Ingvarsson, en sem betur fór réðist hann til uppgöngu í togarann með okkur, svo sem áður getur, því Kristinn var harðduglegastur af mannskapnum, að öllum öðrum ólöstuðum, var því vélstjórinn, Vilhjálmur Magnússon frá Fögruvöllum, aleinn í bátnum allan tímann og reyndist hinn ágætasti.
Þeir eru til uppgöngu í botnvörpunginn réðust voru:
1. Fararstjórinn, Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, útgerðarmaður og bóndi á Vilborgarstöðum, en bjó þá á Heiði, þá orðinn 62ja ára gamall, stórmerkur maður fyrir margra hluta sakir, skarpgáfaður, enda skáld gott, fylginn sér og harðskeyttur er við lagabrjóta og annað illþýði svo sem veiðiþjófa bæði erlenda og innlenda var að eiga, marghertur sjógarpur og með lærðustu skipstjórnarmönnum þeirra tíma hérlendra, brautryðjandi í vélbátaútgerð og landbúnaði, harðduglegur baráttumaður í bindindismálum og öðrum menningarmálum og í hvívetna hinn mesti sóma- og heiðursmaður, ágætis heimilisfaðir í alla staði, er fór sérlega vel með vinnuhjú sin. Hef ég er þessar línur rita, átt tal við fólk er hjá honum vann og enn er ofan moldar, og ber öllum saman um, að hann hafi verið hinn ákjósanlegasti heimilisfaðir í alla staði, síkátur og gamansamur og veitti hjúum sínum rausnarlega í mat, sem á þeim tímum vildi þó oft vera misbrestur á, þótt á ríkisheimilum væri.
Það tók eflaust margur feil á Sigurði hreppstjóra er ekki þekktu hann vel, enda vill oft fara svo, að þeir menn, er öðrum fremur beita sér fyrir velsæmis- og menningarmálum, verða fyrir ýmiss konar aðkasti og sleggjudómum frá þeim, er lítilmenni eru sjállir og vilja láta allt slíkt reka á reiðanum. Synir Sigurðar eru þeir Högni bóndi í Vatnsdal hér, um mjög langt skeið vélamaður við Ísfélag Vestmannaeyja og mun vera fyrsti Íslendingur, er lærði að stjórna frystivélum.

Þetta bátslíkan er af m.b. Kap VE 272. Guðmundur Ásgeirsson frá Litlabæ gerði líkanið. - Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Hann er nú kominn á gamals aldur en vinnur enn eitthvað við búskapinn. Hann er vel skáldmæltur eins og faðir hans. Einar útgerðarmaður og stóriðjuhöldur nú búsettur í Reykjavík, landskunnur atorku- og dugnaðarmaður, nú um skeið alþingismaður, þá Baldur, bifreiðarstjóri er um langt skeið hefur unnið við Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, en hún er eign Einars bróður hans. Allt eru þetta ágætis drengir eins og öll þeirra ætt.
2. Magnús Guðmundsson síðar útgerðarmaður frá Hliðarási.
3. Ólafur Eyjólfsson, síðar útgerðarmaður í Garðstöðum.
4. Árni Sigfússon, síðar útgerðarm. og kaupmaður, Löndum.
5. Guðni Hjörtur Johnsen, útgerðarm. og kaupm. frá Frydendal, síðar á Ásbyrgi.
6. Árni J. Johnsen, útgerðarm. og kaupmaður frá Frydendal, nú til heimilis á Heimagötu 28.
7. Kjartan Ólafsson, síðar yfirfiskimatsmaður frá Miðhúsum, nú til heimilis á Urðaveg 28, Húsavík.
8. Kjartan Eyjólfsson, undan Eyjafjöllum, þá vertíðarmaður hér.
9. Kristinn Ingvarsson, skipstjóri og útgerðarmaður, einn af eigendum „Hlífar“ og bróðir hans.

Efnahagsreikningur Sjómannadagsráð Vestmannaeyja


31. desember 1959.


Þrír kappróðrabátar.......... kr. 12.000,00
Bátaskýli.......................... 85.000,00
Ýmis áhöld....................... 2.000,00
Tíu Hafnarskuldabréf........ 10.000,00
Sjóður 31. desember 1959 170.700,29

Bókfærðar eignir 31. desember 1959...... 242.096,18
Tekjur umfram gjöld 1959....................... 37.604,11

Kr. 279.700,29......................................... 279.700,29

10. Stefán Ingvarsson, Kalmanstjörn hér, nú búsettur í Reykjavík. 11. Jakob Sigurðsson, skipstjóri, að mig minnir ættaður af Austfjörðum, þá vertíðarmaður hér, líklega formaður.
12. Eyþór Þórarinsson, síðar kaupmaður, síðar verkstjóri hér við höfnina og nú um langt skeið verkstjóri í Reykjavík og búsettur þar, nú nýlega orðinn 70 ára.

Eitt er ákaflega líkt nú og fyrir 46 árum, er framangreindur veiðiþjófur var staðinn að verki og tekinn fastur og látinn sæta sektum samkvæmt landslögum, eftir að hafa viðurkennt brot sitt, því að við sem að handtöku þessari stóðum, vorum í sumum heimsblöðum þeirra tíma t. d. þýzkum, blátt áfram kallaðir örgustu ofbeldismenn og sjóræningjar, er bókstaflega rændu skipum og mönnum „Hans Hátignar“, Vilhjálms Þýzkalandskeisara. Nú eftir 46 ár eru hinir árvökru ágætis varðskipsmenn okkar, er nú eiga við ennþá gífurlegra ofurefli að etja, en láta þó hvergi undan síga, frekar en við, er við áttum í höggi við þann þýzka. Hann hafði engin stærðar herskip eða bryndreka til þess að verja og vernda veiðiþjófnað sinn, svo sem þeir brezku hafa nú. Nú eru menn okkar bornir hinum hjákátlegustu sökum, svo sem að þeir kunni ekki almennar alþjóða siglingareglur og meðal annars sakaðir um, að ætla vitandi vits að sigla niður hinar geysistóru hersnekkjur, sem sumar hverjar munu vera 20 til 30 sinnum stæni en hinir litlu varðbátar okkar. Allur þessi vaðall og allar þessar ofbeldisaðgerðir og ranglæti í okkar garð, hinnar litlu óvopnuðu þjóðar, er á bókstaflega allt undir fiskimiðum sínum og ríður það á hennar lífi, að þau verði ekki bókstaflega upp um af erlendum veiðiþjófum. Allt þetta ofbeldi er okkur er sýnt af hálfu Breta, og allur veiðiþjófnaðurinn er framinn í nafni „Hennar Hátignar“ Bretadrottningar. Fyrir 46 árum síðar vorum við kallaðir ofbeldismenn og sjóræningjar fyrir að verja fiskimið okkar og reyna að veikum mætti eins og nú, að hafa hendur í hári veiðiþjófa í nafni „Hans Hátignar“ Vilhjálms Þýzkalandskeisara. Margt er líkt með skyldum. Vill ég nú að lokum leggja til við Sjómannadagsráð og aðra góða borgara þessa bæjar, að það og þeir hafi forgöngu um, að hinum stórmerka heiðursmanni. Sigurði Sigurfinnssyni hreppstjóra, verði reistur hér á góðum stað (t. d. á torginu austan við Heiði) veglegur minnisvarði, ungum og óbornum sjómönnum og öðrum til fyrirmyndar, enda yrði af slíkri styttu mikil bæjarprýði og bænum og bæjarbúum til mikils sóma. Vil ég skora á alla sanna Vestmannaeyinga og aðra velunnara Eyjunnar okkar yndislegu, að bregðast vel og drengilega við og leggja sitt af mörkum í ofangreindan minnisvarða til heiðurs hinum framliðna brautryðjanda og merkismanni, sóma sjómannastéttarinnar hér fyrr og síðar, að öllum öðrum ólöstuðum. Legg ég hér með ávísun að upphæð kr. 1.000.00, sem mitt framlag til málsins.
Lifið heil og skemmtið ykkur eftir beztu getu á Sjómannadaginn. Heill sé ykkur vestmannaeysku sægarpar og aflakóngar