Sigurveig Vigfúsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. febrúar 2016 kl. 21:47 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. febrúar 2016 kl. 21:47 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Sigurveig Vigfúsdóttir húsfreyja í Götu fæddist 29. september 1862 í Klausturhjáleigu (Norðurhjáleigu) í Álftaveri og lést 24. september 1946 í Vík í Mýrdal.
Foreldrar hennar voru Vigfús Jónsson bóndi og skáld á Söndum í Meðallandi, f. 11. maí 1836, d. 1869, og kona hans Ingibjörg Bjarnadóttir húsfreyja, f. 23. maí 1834, d. 4. ágúst 1920.

Sigurveig var með móður sinni í Klausturhjáleigu til ársins 1865, á Eystri-Lyngum 1865-1872, í Skálmarbæ 1872-1876. Hún var niðursetningur á Söndum 1876-1878, vinnukona í Skurðbæ 1878-1881, í Skálmarbæ 1881-1882, í Langholti 1882-1883.
Sigurveig fluttist til Eyja 1883 og varð þá vinnukona á Gjábakka, en 1884 og 1885 var hún vinnukona í Túni. Ingimundur var þar vinnumaður 1885
Þau Ingimundur voru í Götu við fæðingu Konráðs 1886, húsfólk í Nýborg 1888.
Hún var komin að Gamlabæ (Syðri-Steinsmýri) í Meðallandi 1889 og var þar vinnukona til næsta árs. Þar ól hún Bjarnfreð Jóhann, en fluttist að Þinghól í Mjóafirði 1890. Bjarnfreður varð eftir, sveitarbarn.
Í Mjóafirði eignaðist hún barnið Jóhannes 1891, en það dó 1892, og faðirinn Jón Þorsteinsson snikkari, húsmaður í Haga, ættaður úr Skagafirði, f. 29. ágúst 1858, lést um mánuði áður en barnið dó.
Þau Ingimundur bjuggu húsfólk á nokkrum bæjum í Mjóafirði á árunum 1892-1899, í Steinsnesi, Hvammi, Félagshúsi, Sléttu, Holti, Brekkuborg og víðar.
Í Mjóafirði eignuðust þau tvö börn, Gunnar Ingiberg 1894 og Brynhildi 1897.
Þau fluttust til Eyja 1899 frá Brekkuborg með Gunnar Ingiberg og Brynhildi, sennilega með viðkomu í Borgarfirði eystra, og Konráð kom til Eyja frá Borgarfirði eystra.
Sigurveig fluttist með synina Gunnar Ingiberg 7 ára og Konráð í Ása í Skaftártungu 1900. Þar var hún vinnukona í Gröf til 1903, í Þykkvabæ í Landbroti 1903-1905, í Hraunkoti þar 1905-1907, í Þykkvabæ 1907-1908.
Hún var með manni sínum Bjarna Jóhannesi í Presthúsum í Mýrdal 1908-1910, á Felli þar 1910-1913, húsfreyja í Vík í Mýrdal 1913-dd.
Sigurveig lést 1946.

I. Sambýlismaður Sigurveigar var Ingimundur Árnason sjómaður í Götu, f. 18. júlí 1859, d. 1. október 1923.
Börn þeirra hér:
1. Konráð Ingimundarson sjómaður, f. 26. júní 1886 í Eyjum, d. 6. júlí 1957. Hann bjó síðast í Reykjavík.
2. Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson bóndi á Syðri-Steinsmýri, f. 12. september 1889 í Gamlabæ (Syðri-Steinsmýri) í Meðallandi, d. 16. mars 1962 í Reykjavík.
3. Gunnar Ingiberg Ingimundarson verkamaður í Eyjum, f. 17. apríl 1894 í Hvammi í Mjóafirði, d. 4. mars 1965, síðast í Reykjavík.
4. Brynhildur Ingimundardóttir húsfreyja á Kjalarnesi og í Reykjavík, f. 20. maí 1897 í (Gunnars)Holti í Mjóafirði, d. 27. september 1973.

II. Barnsfaðir Sigurveigar var Jón Þorsteinsson snikkari, húsmaður í Haga í Mjóafirði, f. 29. ágúst 1858, d. 7. ágúst 1892.
Barn þeirra var
5. Jóhannes Jónsson, f. 10. nóvember 1891, d. 24. september 1892.

III. Eiginmaður Sigurveigar, (2. nóvember 1907), var Bjarni Jóhannes Jónsson tómthúsmaður , f. 22. júlí 1869 í Háagarði í Eyjum, d. 10. janúar 1960 í Reykjavík. Hann var sonur Sigríðar Steinmóðsdóttur og Jóns Hannessonar í Steinmóðshúsi. Þeir Ingimundur Árnason voru því systrungar.
Sigurveig og Bjarni Jóhannes voru barnlaus, en fóstruðu um skeið sonarbarn Sigurveigar
6. Jón Einar Konráðsson frá Götu.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Manntöl.
  • Mjófirðingasögur. Vilhjálmur Hjálmarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1987-1990.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.