Sigurbjörg Sigurðardóttir (Boðaslóð)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. apríl 2020 kl. 19:32 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. apríl 2020 kl. 19:32 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sigurbjörg Sigurðardóttir.

Sigurbjörg Sigurðardóttir (Stella) húsfreyja, talsímakona á Símstöðinni fæddist 7. febrúar 1929 á Hrófbergi.
Foreldrar hans voru Sigurður Þórðarson verkamaður, f. 24. janúar 1894 á Sléttabóli í Prestbakkasókn í V-Skaft., d. 10. ágúst 1978, og kona hans Margrét Stefánsdóttir húsfreyja, f. 10. febrúar 1898 á Norðfirði, dáinn 18. september 1979.

Börn Sigurðar og Margrétar:
1. Margrét Sigurðardóttir, f. 15. nóvember 1918, d. 17. nóvember 1918.
2. Sigurgeir Sigurðsson yfirverkstjóri, f. 17. september 1920 í Vík í Mýrdal, d. 20. febrúar 1994.
3. Magnús Sigurðsson sjómaður, f. 29. apríl 1924 í Hlíð, d. 18. nóvember 1987.
4. Sigurbjörg Sigurðardóttir húsfreyja, talsímakona á Símstöðinni, f. 7. febrúar 1929 á Hrófbergi.
5. Hávarður Birgir Sigurðsson verkstjóri, f. 27. júlí 1934 á Hrófbergi.

Sigurbjörg var með fjölskyldu sinni í æsku. Hún lauk gagnfræðaprófi við Gagnfræðaskólann 1946, vann á skrifstofu Bæjarins, en var talsímakona á (,,Miðstöð‘‘) á Símstöðinni 1948-1950.
Þau Guðni giftu sig 1950, eignuðust tvö börn, Sigurð 1949 og Margréti 1951.
Guðni fórst með mb. Guðrúnu VE-163 23. febrúar 1953.
Sigurbjörg hóf að nýju störf við Símstöðina í Eyjuum 1953 og vann þar til 1962, er hún fluttist til Reykjavíkur og hóf störf hjá Langlínumiðstöð Landsímans þar á því ári, var lánuð skamma stund til Innheimtu Landsímans, frímerkjasölu Póstsins og Ritsímans. Hún vann um skeið á 03 1993.
Hún giftist Geir 1975. Hann lést 1991.

Sigurbjörg var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (15. júlí 1950), var Guðni Rósmundsson sjómaður, stýrimaður frá Skála, (Litla-Hlaðbæ) við Austurveg, f. 26. nóvember 1926, drukknaði 23. febrúar 1953.
Börn þeirra:
1. Sigurður Guðnason húsgagnasmíðameistari í Reykjavík, f. 18. desember 1949 að Boðaslóð 2. Kona hans er Guðlaug Pálsdóttir frá Hvassafelli u. Eyjafjöllum, húsfreyja, skrifstofumaður, f. 11. maí 1952.
2. Margrét Guðnadóttir leikskólakennari, listamaður, kaupkona í versluninni Kirsuberjatréð ásamt fleiri, f. 21. febrúar 1951 að Boðaslóð 2. Maður hennar er Uggi Þórður Agnarsson læknir í Reykjavík, f. 19. nóvember 1949.

II. Síðari maður Sigurbjargar, (16. desember 1975), var Geir Kristjánsson leikritahöfundur og skáld, f. 23. júní 1923 í Héðinsvík á Tjörnesi, S-Þing., d. 18. september 1991. Foreldrar hans voru Kristján Ólason skrifstofumaður á Húsavík, f. 27. júlí 1894, d. 25. október 1975 og kona hans Rebekka Pálsdóttir húsfreyja, f. 25. maí 1894, d. 25. desember 1977.
Þau Geir voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Heimaslod.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Stelpurnar á stöðinni. Ásthildur Steinsen. Útg. Alfa Gamma 1996.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.



Stella símamær

Viðtal Pjeturs Hafstein Lárussonar við Sigurbjörgu Sigurðardóttir sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu þann 18. apríl.


„Sigurbjörg Sigurðardóttir”, stendur í símaskránni og starfsheitið símastúlka, þar fyrir aftan. Og víst heitir hún Sigurbjörg, þótt aldrei sé hún annað kölluð en Stella, þessi Eyjasnót. Það heiti hæfir vel í þessu tilfelli, því orðið, sem komið er úr latínu, þýðir stjarna. Og ekki meira um það. Langt er nú liðið síðan Stella flutti upp á land og tók sér bólfestu á Seltjarnarnesi. En eins og fram kemur í þessu viðtali Pjeturs Hafstein Lárussonar við hana, eru tengslin við Vestmannaeyjar enn órofin, sem og ættarbönd við Mýrdalinn.

Mig langar til að byrja á því Stella, að spyrja þig um ætt þína og uppruna og byrja á móðurættinni. Móðir mín var frá Norðfirði. Það var svoleiðis, að amma, Jónína Sigurbjörg Jónsdóttir, átti heima á Neskaupsstað. Hún var af Longætt. Afi minn, Stefán Þorkelsson, ættaður úr Skaftafellssýslu, kom þangað austur. Nú, og þau kynnast og giftast eins og gengur. Þau eignuðust þrjú börn, Þórð, Guðfinnu og mömmu, sem hét Margrét. Þegar börnin voru öll lítil, þá fær afi krabbamein og getur ekki annast sína fjölskyldu. Þá var hann bara sendur á sína sveit, sem var í Skaftafellssýslu. Konan og börnin fylgdu svo með. Þannig voru nú lögin þá. Þau fóru með skipi og voru ferjuð í land eins og tíðkaðist á þeim tímum. Börnunum var komið fyrir; Þórður lendir hjá Vigfúsi Brandssyni og konu hans, Guðrúnu Hjartardóttur í Reynishjáleigu. Þau reyndust honum mjög góð. Guðfinna fór í Hjörleifshöfða og ólst upp hjá Markúsi Loftssyni og Áslaugu Skæringsdóttur. Þau reyndust henni afar góð. En mamma fór svona á flæking. Stundum var hún með mömmu sinni og stundum ekki, en amma var í vist hér og þar í sveitinni. Garðakot var einn bærinn, þar sem amma var í vist. Þar bjó Jónatan Jónsson, bróðir Eldeyjar-Hjalta. Hann gerðist síðar vitavörður í Vestmannaeyjum og Guðfinna Þórðardóttur kona hans. Þau fréttu, að það væri farið illa með mömmu, þar sem hún var lítil í gæslu. Ég held, að hún hafi verið þriggja ára. Ég ætla ekki að nefna neinn bæ í þessu sambandi. En Guðfinna tók sig upp og sótti mömmu. Þá var hún í búri og hætt að geta staðið í fæturna og hafði dúsu. Ég held að það hafi verið nokkuð algengt, að börn og geðsjúklingar hafi verið geymd í búri, ef enginn var til að hugsa um þau. Það var bara slegið utan um fólkið, svo það hlypi ekki út í buskann. Þarna gat það svo bara verið. En sem sagt, Guðfinna tók barnið og fór með það heim til sín, þar sem amma var vinnukona. Mamma leit alltaf á Guðfinnu sem lífgjafa sinn.


Var hún lengi ósjálfbjarga eftir harðræðið? Nei, hún fór strax að styrkjast og þjálfast, enda var vel hugsað um hana þar. Ég held hún hafi verið þarna í fjögur ár. Svo var annar bær, sem amma hélt mikið upp á, þar sem hún var vinnukona með mömmu með sér. Það var á Hvoli í Mýrdal hjá Eyjólfi Guðmundssyni rithöfundi og Arnþrúði Guðjónsdóttur konu hans. Þau reyndust henni ákaflega vel. Ég held hún hafi verið þar í önnur fjögur ár.


Hafðir þú samband við þetta fólk? Já, ég hafði samband við þetta fólk, því sonur Eyjólfs á Hvoli, kom til Vestmannaeyja og bjó hjá okkur fyrsta veturinn. Og síðar, þegar hann kom, var hann alltaf heimagangur hjá okkur. Þegar bræður mínir fóru að fara í sveit, þá fór einn þeirra alltaf að Hvoli. Þar hafði fólkið mikið uppáhald á honum og hann á því. Svo fór sonur hans líka í sveit þangað og þriðja kynslóðin fór líka í sveit að Hvoli. Þannig að sambandið rofnaði aldrei. Síðar fluttu svo Jónatan og Guðfinna frá Garðakoti út í Vestmannaeyjar og urðu þar vitaverðir, eins og ég sagði áðan. Þá varð samgangur við þeirra heimili. Amma, sem fluttist til Eyja, eins og foreldrar mínir, fór alltaf í orlofsferð til þeirra suður í Stórhöfða, eina viku á sumri. Þaðan kom hún alltaf til baka með fulla tösku af dönskum blöðum. Þú hefur þá lært döns ku af þessum blöðum? Ja, þannig lærði ég að lesa hana, en ég get ekki skilið Dani.

Þú minntist áðan á Þórð móðurbróður þinn. Bjó hann ekki í Vík í Mýrdal? Jú, hann kvæntist konu, sem hét Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var fædd í Steinholti á Eskifirði, en ættuð m.a. úr Meðallandinu og kom þangað með móður sinni á fyrsta ári. En þau Þórður bjuggu alla tíð í Vík. Hann var bókavörður þar og söng í kirkjukórnum. Ég man að hann skrifaði mjög fallega skrift. Þórður kom oft á vertíð í Eyjum og bjó þá hjá okkur.

Hvenær fluttu foreldrar þínir til Eyja? Ég ætla fyrst að segja þér frá mömmu og pabba. Mamma fór sem vinnukona að Neðridal og þar kynntust þau. Þau eignuðust barn, Kötlugosárið 1918. Það barn dó. Síðan flytjast þau til Víkur í Mýrdal og fara að búa þar. Og þar eignast þau elsta bróður minn, Sigurgeir. Þau bjuggu þarna uppi á Bökkunum, sem kallað er, í Víkinni. En það var lítið um atvinnu í Vík í Mýrdal. Samt réri pabbi til fiskjar á Péturseynni og svo var hann í vegavinnu og öðrum þeim störfum, sem til féllu. En þetta var ekki nóg til að lifa af, en pabba langaði til að gerast bóndi. En það var ekki auðvelt að fá jörð. Þess vegna fluttust foreldrar mínir til Vestmannaeyja. Þar fæddist Magnús bróðir minn árið 1924. Hann varð síðan sjómaður alla sína ævi. Yngsti bróðir minn, Hávarður, fæddur 1934. Hann var lengst af yfirverkstjóri Vestmannaeyjabæjar og stjórnaði lögninni að Vatnsveitu Vestmannaeyja undir Eyjafjöllum. En Sigurgeir, elsti bróðir minn, sem fæddist í Vík árið 1920 var símvirki og alltaf starfandi á símstöðinni í Vestmannaeyjum.


Þar hefur verið næga vinnu að hafa? Þar var miklu meiri vinna og þar bjuggu þau eftir það. Pabbi vann í fiskvinnslu. Hann var í Hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar, eftir að hún var stofnuð.

Er það rétt, að Einar hafi sýnt starfsfólki sínu meiri ræktarsemi, en gengur og gerist meðal atvinnurekenda? Hann hafði mjög gott samband við sitt verkafólk. Ég man eftir því, að á sumrin bauð hann fólkinu í siglingu inn undir Löngu og var þar með veitingar. Svo var hann með matstofu, bókasafn og gufubað fyrir fólkið. Ég heyrði aldrei annað en að fólkinu, sem vann hjá honum, væri mjög hlýtt til hans.


Voru ekki alltaf mikil samskipti milli Eyja annars vegar og Eyjafjalla og Skaftafellssýslu hins vegar? Jú, því Vestmannaeyingar eru mikið til undan Eyjafjöllum og úr Skaftafellssýslu. Ég man t.d. eftir því, að ég fór á hverjum sunnudagsmorgni með pabba niður á símstöð til að hringja til foreldra hans í Neðradal. Ég man þegar við biðum eftir símtalinu, að þá voru símastúlkurnar alltaf að segja; „miðstöð, miðstöð, miðstöð.” Þetta þótti mér furðulegt og datt síst af öllu í hug, að ég ætti eftir að sitja þarna og segja „miðstöð, miðstöð, miðstöð.” Ég þekkti enga miðstöð, nema miðstöðvarofnana heima hjá mér. Aftur á móti fór ég ekkert í Mýrdalinn, nema þegar ég var fjögra ára gömul. Þá fór ég með mömmu. Við fórum auðvitað á báti og vorum ferjaðar í land á öðrum báti. Við fórum að heimsækja afa og ömmu. Þetta var í eins skiptið, þegar ég var krakki, að ég fór í Mýrdalinn.

Manst þú eftir þeirri ferð? Já, ég man svona eftir punktum úr henni.

Manstu hvað þú varst lengi í Mýrdalnum í þessari ferð? Ekki nákvæmlega, en þetta voru svona tvær til þrjár vikur.


Manstu eftir lendingunni í fjörunni? Nei, ég man ekkert eftir lendingunni. En ég man eftir sjóferðinni frá Eyjum og til lands. Svo man ég eftir því, hvað það var gaman að koma til afa og ömmu og leika sér úti á túni. Og ég man eftir því, að hafa komið að Hvoli. Þá man ég, þegar ég kom í heimsókn til Þórðar frænda í Víkinni. Hann bjó í húsi sem var rafstöð. Það var stór hleri í eldhúsgólfinu. Og það sást milli hlerans og gólfsins, niður í kjallara, og þar var rafstöðin. Húsið var byggt yfir ána, sem knúði rafstöðina. Þetta hefur aldrei fallið úr minni mínu. Það var svo merkilegt, að horfa þarna niður og sjá bullandi ána og vélarnar snúast.

Hafði Þórður umsjón með rafstöðinni? Nei, það held ég ekki, hann bara bjó í þessu húsi.

Hittir þú Eyjólf á Hvoli í þessari ferð? Já, við mamma fórum að Hvoli, að heimsækja Eyjólf og Arnþrúði. Þau voru mömmu alltaf mjög góð.

En hafðir þú samskipti við þau síðar á ævinni? Ég kom þangað nokkrum sinnum eftir að ég var orðin fullorðin manneskja. En eins og ég sagði áðan, þá bjó Sigurður sonur þeirra hjá okkur, þegar hann kom fyrst á vertíð til Eyja. Þú varst að segja frá henni móðurömmu þinni áðan. Er ekki meir af henni að segja? Já, eftir að foreldrar mínir fluttust til Eyja, fæddist Magnús, næst elsti bróðir minn og síðan ég. Þórður, elsti bróðir pabba, hann kvæntist Guðfinnu systur mömmu. Þau fluttu líka til Eyja og bjuggu í sömu götu og við, svona skáhallt á móti húsinu okkar. Það var alltaf mikill samgangur og kærleikur á milli heimilanna. Þórður fórst með mótorbátnum Ófegi 1. mars árið 1942. Amma hafði þá verið vinnukona, svona hér og hvar í Mýrdalnum, en nú kom hún út í Eyjar. Hún bjó hjá Guðfinnu og Þórði. Hún var orðin fullorðin kona. Samt gekk hún í hús, þarna í Vestmannaeyjum, alla daga vikunnar nema sunnudaga og spann og gerði við föt. Hún var alltaf fullbókuð. Og allir sem hún vann þessa vinnu fyrir urðu vinir hennar. Hér er ég með teikningu af henni eftir listamanninn Engilbert Gíslason. Þú sérð, að hún er að spinna. Þetta gerði hún árið um kring, nema þessa einu viku á sumrin, þegar hún fór í orlof í Stórhöfðann.

Var hún í mörg ár við þessa iðju sína? Já, hún varð gömul kona, og vann svo gott sem til dánardags í desember árið 1942.

Hvernig minnist þú hennar? Hún var dálítið beisk, kannske buguð. Þú sérð, að hún er slitin upp með rótum frá öllum sem hún þekkir á Norðfirði og flutt suður í Mýrdal, þar sem hún þekkir ekki nokkra manneskju. Og þar var fjölskyldunni sundrað, afi dó og börnin sett hvert á sinn stað, nema hvað amma fékk stundum að hafa mömmu en stundum ekki.


Heldurðu að hún hafi haft sambandi við fólkið sitt fyrir austan? Það hefur þá verið lítið. En hún vissi vel af því. Einn bræðra hennar, Sigmundur, fluttist út til Eyja og átti þar konu og börn, en hann dó þar af slysförum. Svo bjó Friðbjörg systir hennar ásamt sonum sínum í Vestmannaeyjum á tímabilinu milli 1930 og 1934. Það var alltaf samband og kært á milli systranna. Ég man að synir hennar komu í heimsókn til okkar, þegar þeir voru á ferð í Eyjum.

Þannig að móðir þín hefur ekkert haft af föðurfólki sínu að segja? Nei, samgöng-urnar buðu ekki upp á neitt slíkt. Reyndar kom skyldfólk hennar til Eyja, eins og t.d. Jóhannes Long. Hann rak verslun ásamt Georg Gíslasyni, en fórst í flugslysi á leið frá Eyjum til Reykjavíkur árið 1948. Það var góður samgangur milli heimilanna. En Jóhannes var skyldur ömmu í móðurætt hennar.

Samskipti þín við þessa ættingja að austan hafa þá væntanlega ekki verið teljandi?

Nei, þó hef ég kynnst svona einum og einum ættingja þaðan, ekki síst í gegnum Longættina.


En hvað segir þú mér af föðurætt þinni?

Föðurafi minn, Þórður Magnússon, bóndi í Neðradal í Mýrdal, hann kom utan úr Flóanum og kynntist ömmu minni, Eygerði Magnúsdóttur. Hún átti heima á Orrustustöðum á Brunasandi. Þau fara að búa saman og reistu bú á Sléttabóli á Brunasandi. Þar fæddist pabbi og bræður hans fimm. Þar bjuggu þau þangað til að pabbi fermist. Það ár flytjast þau í Neðradal í Mýrdal. Pabbi sagði mér oft sögur frá Sléttabóli. Ég man, að hann hafði mjög gaman af, að segja mér frá melskurðinum á Brunasandi.


Vannst þú með skólagöngu þinni í Eyjum?

Já, það var svoleiðis, að þegar ég er sjö ára, þá veikist ég af berklum. Þá lendi ég inni á spítalanum í Eyjum og var þar í hér um bil ár. Þetta voru ekki smitandi berklar, en nóg til þess, að ég varð veik. Þess vegna held ég að mamma hafi aldrei viljað láta mig fara í sveit, eins og bræður mínir gerðu. Hún var eitthvað hrædd um mig. Svo náttúrulega komst ég til heilsu og byrjaði í skóla ári seinna, en ég hefði átt að byrja. En svo var ég líka að vinna sem krakki og mín krakkavinna var sú, að ég fór daglega, svona alla vega yfir sumartímann, niður að Ráðagerði. Þar bjó Ísleifur Sigurðsson, hann var úr Landeyjum og Fríða; gott fólk. Ég fór í sendiferðir fyrir Fríðu. Hún sendi mig gjarnan niður í bakarí, að kaupa fyrir sig vínarbrauð. „Og góða, hafðu það hanakamba, ef það er til”, sagði hún þá við mig. Ég fór í bakaríið og keypti vínarbrauð, en ég þorði aldrei að biðja um hanakamba.


Hvað voru þessir hanakambar, eiginlega?

Nú, þú ert bara eins og ég var, veist ekki hvað hanakambar eru. Jæja, ég sagði Fríðu alltaf, að því miður væru bara ekki til hanakambar. Og ég var sakleysið uppmálað. En hanakambar eru nú bara ein tegund vínarbrauða. Stundum sendi Fríða mig í bókasafnið. Einu sinni sem oftar, þegar hún gerði það, átti ég að biðja um „Sólon Íslandus.” „Sólon Íslandus”, hugsaði ég með mér. „Það getur ekki verið til bók, sem heitir „Sólon Íslandus.” Svo ég bað um „Sól á Íslandi”. En bókavörðurinn, hann séra Jes, áttaði sig á því hvers kyns var, svo ég fékk rétta bók. Svo áttu þau Ísleifur og Fríða nokkrar kýr. Þær voru þrjár eða fjórar. Ég rak þær ekki í tún. En aftur á móti fór ég, svona um klukkan tvö eða þrjú, ef það var sólskin, vestur á Brimhóla, þar sem túnið var, til að sækja þær. Þá rak ég þær heim að Boðaslóð 2, þar sem ég átti heima. Þá var ég búin að fylla þvottabala af vatni og gaf þeim að drekka. Svo rak ég þær til baka aftur inn í tún. Um kvöldið sótti ég svo kýrnar og rak þær niður að Ráðagerði. Pabbi og mamma fengu svo mjólk í kaup og ég fékk efni í kjól eða eitthvað svoleiðis. En ég var svoddan krakki, meira að segja innan við fermingu, að ég kunni ekki að sauma; mamma sá um það. Ísleifur var ekki bara kúabóndi, hann var líka útgerðarmaður. Hann átti stakkstæði og ég tók þátt í því, að breiða fiskinn og taka hann saman. Ég var þó aðallega í því, að taka hann saman, því ég nennti ekki að vera á fótum snemma á morgnana. Svo fór ég líka með Ísleifi niður í Kró. Þar var ég að breiða sundmaga. Þá fór ég upp á þakið á Krónni og breiddi sundmagann þar. Það varð að breiða hann rétt á bárujárnið. Ég tók líka þátt í hey-skapnum á túninu á Brimhólum, rakaði og snéri heyi og batt heyið með Ísleifi. Ísleifur var ákaflega góður við mig og mér þótti vænt um hann. Það var ekki þannig, að ég væri ráðin þarna í vist allan daginn, heldur var ég bara svona til taks.


Hvernig var skólagangan?

Já, hún var mjög góð. Það var mjög gaman í barnaskóla og góðir kennarar þar. Eftir að barnaskólanum lauk, fór ég í gagnfræðaskólann. Þar var Þorsteinn Víglundsson skólastjóri. Hann var mjög góður skólastjóri. Eins var hann frábær kennari, bæði í reikningi og íslensku. En þannig var, að minn árgangur í gagnfræðaskólanum var miklu stærri, en nokkurn tíma áður hafði verið, svoleiðis, að Þorsteinn gaf okkur nafnið „Sterki stofninn”. Við vorum alltaf mjög stolt af því og höfum verið alla tíð. Það var ægilega gaman í gagnfræðaskóla og þar mynduðust góð samskipti milli okkar bekkjarsystkinanna. Við höfum haldið sambandi alveg fram að þessu. Hópurinn hittist enn hér um bil árlega. Gagnfræðaskólinn var haldinn í Breiðabliki. Það voru skólaböll á hverju einasta laugardagskvöldi. Annað kvöldið hélt gagnfræðaskólinn ballið en Iðnskólinn hitt kvöldið. Hann var líka til húsa í Breiðabliki. Iðnskólinn var reyndar kvöldskóli. Við máttum mæta á böllin hjá Iðnskólanum og þeir mættu á böllin hjá okkur. Þetta var voðalega gaman. Við, þessi „Sterki stofn”, tókum upp á ýmsu. Oftar en einu sinni urðum við okkur úti um pallbíl og létum keyra okkur í bíltúr út um alla eyju og sungum eins og við ættum lífið að leysa.


Manstu að segja frá einhverjum kennurum þarna?

Já, það voru margir góðir kennarar í Eyjum, bæði í barnaskólanum og gagnfræðaskólanum. Loftur Guðmundsson skáld var einn af þeim, sem kenndi mér. Hann var mjög góður við mig. Ég man eftir handavinnukennara, sem hét Jóhanna Hjaltadóttir. Ég hélt mikið upp á hana, en hún kenndi ekki lengi í Eyjum. Karl Guðjónsson, síðar alþingismaður var kennari minn, þrjú síðustu árin, sem ég var í barnaskóla. Nú svo höfðum við alltaf voðalega góðan leikfimikennara, Friðrik Jesson. Já, og svo kenndi Einar Bragi skáld okkur.

Söngurinn hefur alltaf fylgt Eyjamönnum. Hvernig heldur þú, að standi á því?

Ja, nú veit ég ekki, þetta hefur bara alltaf verið svona. Fólk var bara söngelskt og músíkalskt.


Tengist þetta ekkert trúarhópum, sem lengi hafa verið öflugir í Eyjum?

Nei, nei. En þarna voru margir trúarhópar. Ég stundaði mikið Betel, þegar ég var stelpa. Þá fór ég í K.F.U.M. klukkan ellefu á sunnudagsmorgnum. Svo fór ég heim að borða hádegismatinn og fór í Betel klukkan tvö. Þaðan fór ég svo beint í þrjúbíó. Og svo fór ég kannske á aðventistasamkomu klukkan átta um kvöldið.


Það hefur sem sagt verið nóg að gera í trúarlífinu á sunnudögum með smá innskoti í þrjúbíói. Varstu að leita fyrir þér í trúnni?

Nei, þetta bara var svona. Krakkar fóru yfirleitt á K.F.U.M.-samkomur. Maður fór þangað í sparifötunum. En það var ekki eins almennt að fara í Betel. Það var þannig með mig, að nágrannar okkar voru í Betel og aðrir nágrannar okkar voru aðventistar. Það var þess vegna sem ég fór á þær samkomur. Þá var ég ekki að fylgja jafnöldrum mínum, heldur nágrönnum. Og þetta var ljómandi gaman. Maður var að syngja og svo var okkur sett fyrir að læra sálma. Ég var fljót að læra þá, 23. Davíðssálm og annað því um líkt. Ég fékk meira að segja verðlaun fyrir að vera fljót að læra sálmana.


Var ekki margt eftirminnilegt fólk í Eyjum, þegar þú varst þar?

Ja, það var bara voðalega gott fólk. Ég eignaðist mjög góða vinkonu eftir að ég byrjaði í skóla, Jóhönnu Herdísi Sveinbjörnsdóttur, skáldkonu. Við vorum jafnöldrur, en hún er því miður dáin. Pabbi hennar var mjög gott skáld, Sveinbjörn Ágúst Benónýsson, hét hann. Hann var úr Húnavatnssýslu. Bræður hennar, Sigurður og Herbert voru miklir tónlistarmenn. Það var gaman að koma á það heimili og vera með þeim. Annars var bara gott nágrenni og gott fólk í Eyjum. Þetta var vinalegt umhverfi. Það tæki mig heila bók, að segja frá góðum vinkonum mínum, vinum og nágrönnum í Eyjum.


Fannstu fyrir einangrun úti í Eyjum?

Aldrei!


En hvernig voru samgöngurnar upp á land?

Framan af voru þær lélegar. Ég man, að þegar vertíðarmennirnir voru að fara upp á land, þá var verið að hlaupa vestur á Hamar og vita hvort það bryti á skerinu Nafar. Þá var ekki fært í land. En svo voru skipsferðir, það voru skip eins og Esjan og fleiri skip. En þau komu ekki á ákveðnum dögum. Það varð bara að sitja um ferðir með þeim. Svo má ekki gleyma Stokkseyrarbátnum. Hann gekk til Stokkseyrar, alla vega meðan ég var unglingur og kannske lengur, ég man það ekki. Ég fór svo lítið upp á land, að ég man ekki hvað oft hann fór á milli.


Var mikið talað um fólkið í Mýrdalnum og undir Fjöllunum, í Eyjum?

Já, mér fannst eins og tengslin þar á milli væru mikil. Og það er ekkert skrýtið; annar hvor maður í Vestmannaeyjum var undan Eyjafjöllum eða úr Skaftafellssýslu og margir úr Mýrdalnum. Og svo kom margt fólk þaðan á vertíð, oft sama fólkið ár eftir ár og settist gjarnan að í Eyjum.


Hvernig var afkoma fólks í Eyjum? Hún var auðvitað slæm í kreppunni, eins og allsstaðar . En ég var of ung til að kynnast því. En eftir það, held ég að hún hafi bara verið alveg þokkaleg.

Var mikið um sjálfsþurftar-búskap í Eyjum?

Það voru nokkrir sem áttu beljur og svo gerðu menn út. Það komu tímabil á haustin, þegar lítið sem ekkert var að gera. Þá voru ekki eins miklir sjóróðrar, eins og yfir vertíðina. Nú, svo voru menn í eggjatöku og á lundaveiðum. Pabbi minn var reyndar aldrei í slíku, en ég kynntist því síðar. Hávarður bróðir minn var mikið í því.


Hvað um stríðið, kom herinn til Eyja?

Jú, reyndar kom hann, en það var ekki mikið. Maður varð ekki mikið var við stríðið í Vestmannaeyjum. Og ég held að það hafi örugglega ekki breytt neinu varðandi atvinnu. Ég man bara eftir einum og einum hermanni, það var ekki meira en svo.


Hvað tók við að lokinni skólagöngu?

Já, þegar ég var búin í gagnfræðaskóla, þá fór maður út að vinna. Fyrst vann ég eitt ár á bæjarskrifstofunum, en svo bauðst mér vinna á Símanum. Ég vildi nú fyrst ekki fara þangað, mér fannst þetta allt svo tæknilegt, að ég þorði varla að koma nálægt þessu. En svo snérist mér hugur og ég fór að vinna á símstöðinni. Það var ægilega gaman. Þarna unnu frábærar stúlkur og góðir stöðvarstjórar, fyrst Þórhallur og síðan Magnús, sem síðar varð bæjarstjóri í m.a. gosinu og loks ráðherra. Það var alveg yndislegt að vera þarna. Þetta var stór símstöð, ég held að við höfum verið hátt í tuttugu, stúlkurnar, sem unnum þarna og svo loftskeytamenn, símvirkjar og sendlar. Þetta var vaktavinna til miðnættis. En þá tók næturvörðurinn við og hann sá líka um loftskeytastöðina. Það var ægilega mikið að gera á símstöðinni yfir vertíðna. Á sunnudögum fylltist forstofan, sem við kölluðum „boxið” af vertíðar-mönnum. Þeir voru að hringja heim til sín, út um allt land. Það var mikil „traffík”. Og stundum þekkti maður þarna sömu andlitin, vertíð eftir vertíð. Það var mjög skemmtilegt, þegar það gerðist.

Vertíðin hefur auðvitað sett sinn svip á Eyjarnar.

Það er nú líkast til, vertíðin bókstaflega skall á. Dansleikirnir urðu troðfullir og símstöðin líka. Þetta var ægilega gaman.


Hvar dvaldi vertíðarfólkið? Flest bjó það í sjóbúðum, sem útgerðarmennirnir sáu því fyrir, hér og þar. Ég veit ekkert hvar það var.


Manstu hvað margar fiskvinnslustöðvarnar voru?

Það má Guð vita. Það voru auðvitað Vinnslustöðin, Hraðfrystistöðin og Ísfélagið. Svo voru aðrir minni, þar að auki.


Hvað með þjóðhátíðina?

Æ, ég nenni eiginlega ekki að tala um hana; það vita allir hvernig hún var og er. Ekki það, hún var voða skemmtileg. Það var mikill undirbúningur. Allir áttu tjald og auðvitað pabbi og mamma, eins og aðrir. Það var farið með tjaldið inn eftir fyrir þjóðhátíð og tjaldað. Svo var flutt með stólana og koffortið og matinn. En eiginlega fannst mér þjóðhátíðin byrja 1. ágúst. Þá var ég alltaf boðin í afmælisveislu til Bússu vinkonu minnar, en hún er dóttir Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds. Þá kynnti pabbi hennar alltaf nýja þjóðhátíðarlagið sitt, en eins og þú veist eru fallegu þjóðhátiðarlögin öll eftir hann. Svo fór maður í Dalinn á þjóðhátíðina í bekkjabíl, en vörubílstjórarnir í bænum settu bekki og jafnvel púðabekki á bílpallinn sinn. Það var farið á tréstiga upp á bílpallinn. Það var ævintýri út af fyrir sig, á þessum tíma, að fara í bekkjabíl, ég tala nú ekki um, ef maður var svo heppinn, að lenda í pallabíl með „púðabekki í fúnkístíl”, eins og segir í bragnum.

En þjóðhátíðin var bara fyrir Vestmannaeyinga, þannig að það er ekki hægt að líkja þessu saman við það sem nú er. Maður mætti í sparifötunum í Herjólfsdal. Þetta var fjölskylduhátíð heimamanna. Núna er þetta ungmennahátíð. Auðvitað mæta heimamenn, en aðkomufólk er í miklum meirihluta. Þetta fór að smá breytast upp úr 1960 og svo alltaf meira og meira ár frá ári.


Varstu lengi á símstöðinni?

Ekki í þetta sinn, því ég gifti mig og eignaðist tvö börn. Maðurinn minn hét Guðni Rósmundsson. Við giftum okkur árið 1950. Þá höfðum við eignast son, hann Sigga. Hann fæddist 18. desember árið 1949. Þá hætti ég að vinna á símstöðinni. Við leigðum íbúð og svo fjölgaði enn, þegar við eignuðumst Möggu 21. febrúar árið 1951. En þegar hún var tveggja ára gömul, drukknaði Guðni. Hann var þá orðinn stýrimaður á aflahæsta bátnum í Eyjum, Guðrúnu, þannig að framtíðin blasti við okkur. Við vorum byrjuð að byggja okkur hús. En þá fórst báturinn í óveðri. Þetta gerðist rétt austan við Elliðaey. Fjórir björguðust en fimm drukknuðu. Þeir sem björguðust komust í gúmmíbát, sem lenti uppi í Landeyjasandi. Lík Guðna rak upp á Dyrhólafjöru, rétt vestan við Dyrhólaey. Hann hafði verið í sveit í Reynishverfi, á bænum Reynisholti, þegar hann var strákur og þegar hann fór síðast heim úr sveitinni, þá fór hann einmitt á bæinn Norðurgarð í Dyrhólahverfi og beið þar eftir bátnum frá Eyjum. Út á þetta kynntist ég voðalega góðu fólki í Mýrdalnum, hjónunum Guðrúnu Erlendsdóttur og Jóni Guðmundssyni sem átti heima í Norðurgarði. Það var þannig, að Jón vildi senda Valdimar son þeirra á fjöru, til að gá að reka, en Guðrún vildi ekki að drengurinn færi. Jón spurði þá, hvað hún hefði á móti því. Hún svaraði því til, að sig hafi dreymt sjórekinn mann í fjörunni. Jóni fannst það ekki geta staðist og sendi strákinn á fjöru. Og þar gekk hann fram á lík Guðna. Síðar var Siggi sonur minn alltaf í sveit hjá þessu góða fólki. Nú er búið að jafna Norðurgarð við jörðu, en hann var þarna á leiðinni út í Dyrhólaey. Þetta var náttúrulega mikið áfall. Við stóðum uppi húsnæðislaus, því það var búið að segja okkur upp húsnæðinu. Það var ekkert leiguhúsnæði að fá. En ég átti mjög góða foreldra og fékk að búa hjá þeim. Strax eftir þetta áfall, kom Þórhallur símstöðvarstjóri til mín og sagði, að ég væri velkomin aftur niður á símstöð, hvenær sem ég vildi. Sem betur fer gat ég þegið það, vegna hjálpar foreldra minna. Þau voru mér einstaklega góð. Það var mikil andleg hressing að koma aftur á símstöðina og vera þar innan um þessar góðu stúlkur. Þetta var svo skemmtilegur og líflegur vinnustaður, að það var ekki hægt að hugsa sér neitt betra. Svo hætti Þórhallur og Magnús tók við. Hann var ekki síðri yfirmaður og símstöðin hélt áfram að vera alveg yndislegur vinnustaður. Og þarna var ég í u.þ.b. tíu ár. Þá bara snéri ég við blaðinu og ákvað að flytja til Reykjavíkur. En ég hélt áfram að vinna hjá Símanum, því ég lét bara flytja mig á símstöðina í bænum.


Saknar þú Eyjanna?

Á vissan hátt geri ég það. Ekki það, að auðvitað hefði ég getað flutt aftur til Eyja og hefði svo sem aldrei þurft að fara þaðan. En ég sé samt alls ekki eftir því, að hafa flutt og hef aldrei gert. En auðvitað hafa tengslin við Eyjar aldrei rofnað. Við Hávarður bróðir minn tölum t.d. saman á hverjum einasta degi og ég á líka vinkonur í Vestmannaeyjum. Þannig að það vantar ekkert upp á sambandið þangað, enda þykir mér mjög vænt um Eyjarnar. Ég verð að segja frá því, að þegar ég flutti til Reykjavíkur, þá þótti mér svolítið undarlegt, að lenda í gleðskap. Það var nefnilega þannig, að þegar Vestmannaeyingar héldu „partý”, þá var bara söngur og gleði, eins þótt maður smakkaði ekki áfengi, sem ég gerði ekki á þeim tímum. En þegar maður kom í „partý” í Reykjavík, þá var allt svo stíft. Það þótti bara „púkó” ef einhver vildi fara að spila á gítar og syngja. Ég átti svolítið erfitt með að venjast þessu.


En foreldrar þínir, urðu þeir eftir í Eyjum?

Já, já. En auðvitað komu þau í bæinn í gosinu. Ég var svo heppin, að geta tekið á móti þeim. Það hefði enginn annar getað gert, því þau áttu aðeins mig að í Reykjavík. Hávarður bróðir minn og foreldrar okkar bjuggu saman, svo það væsti ekkert um þau, eftir að þau fluttu aftur til Vestmannaeyja eftir gosið. Nú eru þau bæði löngu látin. Pabbi dó árið 1978 og mamma árið eftir. Meðan þau lifðu fór ég oft til Eyja, bara til að heimsækja þau.


Ferðu enn þá oft til Eyja? Nei, ég geri það nú ekki lengur, kannske svona einu sinni á ári, eða ef það er afmælisveisla eða jarðarför.


En þið Eyjamenn í Reykjavík haldið hópinn?

Já, það er náttúrulega Kvenfélagið Heimaey, sem ég er í. Við komum reglulega saman. Svo held ég auðvitað sambandi við gamlar vinkonur, sem flutt hafa upp á land, eins og ég. Já, mér þykir ákaflega vænt um Vestmannaeyjar og auðvitað eru Vestmanneyingar í sérflokki, eins og þú náttúrulega veist, segir Stella að lokum og brosir sínu blíðasta til blaðamanns, sem svo vill til, að er fæddur í Eyjum.