Sigríður Nikulásdóttir (Beykishúsi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Sigríður Nikulásdóttir húsfreyja í Beykishúsi fæddist 12. nóvember 1788 og lést 16. maí 1859.
Faðir hennar var Nikulás bóndi í Narfakoti í Innri-Njarðvík, skírður 29. janúar 1762, drukknaði, Snorrason bónda í Narfakoti, f. 1721, d. 1794, Gissurarsonar bónda á Hofi á Kjalarnesi, f. 1691, Bragasonar, og konu Gissurar á Hofi.
Móðir Nikulásar í Narfakoti og kona Snorra var Margrét húsfreyja, f. 1724, d. 21. mars 1811, Jónsdóttir bónda í Engey, Erlendssonar.

Móðir Sigríðar Nikuládóttur var Margrét húsfreyja, f. 1767, d. 8. mars 1845, Runólfsdóttir bónda í Sandgerði í Gull., f. 1740, d. 21. ágúst 1787, Runólfssonar bónda og lögréttumanns í Sandgerði, f. 1719, d. 26. mars 1792, Sigurðssonar, og konu Runólfs lögréttumanns, Þórunnar húsfreyju, f. 1715, Kortsdóttur.
Móðir Margrétar og kona Runólfs bónda var Margrét húsfreyja, f. 1740, d. 19. júní 1821, Guðnadóttir sýslumanns í Kirkjuvogi í Höfnum, f. 1714, d. 6. janúar 1780, Sigurðssonar, og konu Guðna, Auðbjargar húsfreyju, f. 2. nóvember 1766, Oddsdóttur.

Sigríður var 13 ára með foreldrum sínum í Narfakoti 1801, með móður sinni og stjúpa á Brekkum í Holtum 1816.
Hún var barnfóstra í Kornhól 1822 og 1823.
Eftir brottför Sigurðar Breiðfjörðs úr Eyjum 1828 bjó hún með með Otta Jónssyni og eignaðist barn með honum 1832, var skráð „42 ára ekkja‟ í Beykishúsi 1840 með Otta og dóttur hennar Nikolínu 9 ára. Hún var bústýra í Garðinum 1845.

I. Barnsfaðir: Vilhelm Veiser snikkari í Kornhól. Sigríður var þá vinnukona í Kornhól.
Barnið þeirra var
1. Karólína Vilhelmsdóttir, (líka Vilhjálmsdóttir), f. 7. september 1820, ógift vinnukona á Oddsstöðum 1840 og 1845, d. 25. október 1847. Hún var fyrri kona Sveins Sveinssonar á Kirkjubæ.

II. Barnsfaðir: Skúli Markússon bóndi í Pétursey, f. 1797, d. 1. desember 1848.
Barn þeirra var
2. Margrét Skúladóttir húsfreyja, ljósmóðir, f. 11. nóvember 1824, d. 16. október 1859. Hún var fyrri kona Vigfúsar Jónssonar í Hólshúsi. Móðir hennar var vinnukona í Kornhól, er hún fæddist.
Margrét var hálfsystir, af sama föður, Jórunnar Skúladóttur á Kirkjubæ konu Eyjólfs Eiríkssonar, en þau voru foreldrar Jóels á Sælundi, Gísla á Búastöðum, Guðjóns á Kirkjubæ, Margrétar húsfreyju í Gerði og Rósu húsfreyju í Þorlaugargerði.

III. Maður hennar, (1. júní 1826), var Sigurður Breiðfjörð beykir og skáld, f. 4. mars 1798, d. 21. júlí 1846.
Tungur sögðu, að kaupmaðurinn hefði fengið Sigurð til að gangast við barninu Andríu Kristínu og kvænast Sigríði. Eignaðist Sigurður Beykishúsið og bjó þar með Sigríði. Hann hvarf frá henni 1828 án löglegs skilnaðar og seldi Otta húsið fyrir 150 ríkisdali.
Hann kvæntist 1837 Kristínu Illugadóttur, var lögsóttur vegna tvíkvænis og átti í löngu og erfiðu málastappi.
Barn þeirra hér (talið vera dóttir Andreasar Petreus verslunarstjóra):
3. Andría Kristín Breiðfjörð, f. 24. nóvember 1826, d. 1. desember 1826 úr „Barnaveiki“.

IV. Sambýlismaður Sigríðar var Otti Jónsson verslunarmaður og húsmaður í Beykishúsi, (Ottahúsi), f. 2. febrúar 1790, d. 29. desember 1841.
Barn þeirra var
4. Nikolína Ottadóttir húsfreyja í Hólshúsi, f. 12. júní 1832, d. 21. apríl 1912. Hún var síðari kona Vigfúsar Jónssonar tómthúsmanns í Hólshúsi.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Í veraldarvolki – Íslenzkir örlagaþættir. Ástmögur Iðunnar. Sverrir Kristjánsson. Forni. Reykjavík 1966.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.