Saga Vestmannaeyja II./ Verzlun Dana. Konungsverzlunin í Vestmannaeyjum, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. maí 2012 kl. 20:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. maí 2012 kl. 20:56 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




V. Verzlun Dana. Konungsverzlunin í Vestmannaeyjum.
(Síðari hluti)


Til þess að herða ennþá betur að, gaf konungur út boðskap, sem stílaður var til prestanna í Vestmannaeyjum, bænda og allrar alþýðu þar, 23. maí 1586.²⁶) Við verzlun konungs, segir í téðum boðskap, hefir ætíð verið, eins og öllum sé kunnugt, á boðstólum mjöl, malt, klæði, léreft, kopar og tin og aðrar nauðsynjar, og lánsverzlunin rekin til hagræðis fyrir eyjabúa. Samt hafi konungur fengið að kenna á því, að þegar að því komi, að eyjamenn eigi að greiða skuldir sínar við konungsverzlunina, fari þeir á laun með fisk sinn út í skip til Englendinga og annarra, sem liggi við eyjarnar, og selji þeim fiskinn og taki sjálfir andvirðið. Og komi að litlu gagni, þó að á hverju ári séu brýnd fyrir eyjabúum með opinberum tilkynningum bönn konungs gegn því að selja Englendingum fisk. Í nefndum boðskap var ströng áminning til eyjamanna um að þeir láti fisk sinn ganga til greiðslu skulda þeirra við konungsverzlunina, og þeim harðlega bannað að selja fisk til Englendinga eða annarra útlendinga, sem komi til eyjanna. Segir konungur, að hann hafi falið kaupsveini sínum að hafa jafnan góðar vörur, og að verðlag skuli haldast sama og áður. Næsta ár, 1587, birti fógeti konungs, Kristofer Jörgensen, að nýju bann konungs gegn því, að eyjamenn flyttu skreið til landsins, og var þá einnig bannað, að bátar eyjamanna gengju utan vertíðar. Þetta bann gegn sumarútgerðinni mun hafa komið fram til þess að hindra það, að eyjamenn seldu fisk sinn nýveiddan til enskra kaupmanna eða fiskimanna, sem voru á skipum sínum á miðunum umhverfis Vestmannaeyjar. En sumarveiddan fisk og fisk, sem veiddur var á útmánuðum, er hlýna tók í veðri, var erfitt að herða. Maltur fiskur var eigi gild verzlunarvara, sbr. eldri lög, Alþingissamþykkt 1545. Má geta nærri, hversu mikið hagræði eyjamönnum var að því, að geta selt blautfisk til Englendinga með hærra verði en konungsverzlunin gaf, og gegn staðgreiðslu. Konungsverzlunin hefir auðvitað lagt sig í framkróka með að fá keyptan blautfisk, er jafnan var mikil arðsemi að fyrir kaupmenn. Eins og áður getur var salt lítt fáanlegt nema til að salta með fugl. Blautfiskur var eigi tekinn eftir vigt, heldur eftir mati kaupmanns, miðað við gildan harðfisk. Hafði kaupmaður öll ráð í hendi sér við þessa sölu og hafa hinir fátækari fengið að kenna á því, en það var lengi venja, að þeir „lögðu inn“ blautan fisk af því að þeir fengu eigi keypt salt. Vor- og sumarfiskur var saltaður í tunnur, „Kabliau“, eða sem staflafiskur, „Bunkefisk“.
Bannið gegn flutningi á skreið til landsins hefir komið hart niður bæði á eyjamönnum og landmönnum, er vanir voru að skiptast á framleiðsluvörum. Einkum keyptu eyjamenn mikið af smjöri og tólg af landi fyrir fisk, gildan fisk, málsfisk, því að trosfiski, er til féll, nægði ekki alltaf til slíkra viðskipta. Sendu eyjamenn nú konunginum bænarskrá. Stóðu að henni prestarnir með fimm eyjabændum og sýslumanni. Bænarávarp þetta er samið á almennu þingi í Vestmannaeyjum 14. júlí 1587.²⁷) Í téðu ávarpi er því neitað, að óleyfileg verzlun við Englendinga hafi átt sér stað, og ennfremur, að flutt hafi verið úr eyjunum meira af skreið til landsins en nauðsynlegt hafi verið „til viðbitis“. Á þessum tímum voru smjörkaup eyjamanna af landi mikil til neyzlu með harðfiski og öðru fiskharðmeti, sem var ein aðalfæða eyjabúa. Þá segja eyjamenn og, að bannið gegn vor- og sumarútgerð þeirra á eigin skipum sé konungi til tjóns. Er auðsætt, að neyða hefir átt eyjamenn til að halda úti konungsbátunum einum, einnig utan vertíðar, en þeir voru, eins og áður segir, flestir stórskip eða vertíðarskip, en hér hefir það verið venja þá eins og síðar að stunda sumarfiski á smærri bátum, og hlaut bannið því að verða þess valdandi, að sumarútgerð eyjamanna legðist mikið til niður, þeim til stórtjóns. Af þessu hlaut og konungur að bíða ærinn skaða, meðal annars með missi fisktíundar. Í greindu bænarávarpi er talið, að utan vetrarvertíðar séu aðeins notaðir tein- eða tólfæringar eftir fugli. Er hér átt við ferðir í úteyjar eftir súlu og lunda, sem og eggjum. Voru þessar ferðir farnar á stórskipum, eins og alltaf hefir tíðkazt um ferðir í Súlnasker. Lundaveiðin var á þessum tímum stunduð af miklum mannfjölda í sömu úteynni í senn, og fuglinn fluttur heim á konungsskipunum einu sinni í viku að minnsta kosti. Fyrir þessar ferðir í úteyjar á konungsskipunum voru greiddir skipshlutir til konungsverzlunarinnar í fugli og eggjum. Mun eyjamönnum hafa orðið það ágengt með bænarskrá sinni, að þeir hafa áfram fengið að stunda sumarfiski á smáferjum.
Oluf Madtzen hafði á hendi forstöðu konungsverzlunarinnar til 1590. Eigi er fullkunnugt um, af hvaða ástæðum hann hefir farið frá, en hans er getið á vanskilaskrá 1592 og 1593, sjá bréf 14. ágúst 1592.²⁸) Segir þar, að hann hafi eigi gert reikningsskil yfir sölu fiskjar konungs frá Vestmannaeyjum 1589, og honum hótað málssókn, ef þessu verði eigi þegar kippt í lag. Má vera, að Madtzen hafi misst forstöðu konungsverzlunarinnar fyrir þessar sakir í sambandi við aðrar gerðir hans, er konungi hafði og mislíkað.
Forstaða konungsverzlunarinnar var nú falin Poul Pedersen, er var borgari í Árósum. Erindisbréf hans er frá 14. nóv. 1590.²⁹) Í því eru endurteknar sömu reglur og skipanir um skyldur forstöðumannsins, er settar voru í erindisbréfi Oluf Madtzens, fyrirrennara hans.
Sjálfum bar forstöðumanni að standa rentumeistara konungs í Kaupmannahöfn reikningsskil. Endurnýjuð eru ákvæðin um eftirlit með því, að skipsmenn á konungsskipunum flyttu ekki með sér vörur til sölu í Vestmannaeyjum, né vörur þaðan. Hert var á bönnum gegn Englendingum og boðið að taka fiskibáta þeirra hér og gera þá upptæka sem eign konungs, í stað þess eins og áður, sbr. bannið frá 1586, að hrinda þeim á sjó út og láta þá reka til hafs. Endurtekið var og bannið gegn verzlun við útlendinga, að viðlögðum sektum. Skyldu nöfn þeirra manna, er uppvísir urðu að brotum, og ídæmd sektarupphæð, innfærð í reikninga verzlunarinnar. Forstöðumaður skyldi semja skýrslu yfir öll útlend skip, er kæmu til eyjanna eða væru þar í grennd og til næðist, og senda hana konungi ásamt nánari greinargerð um það, í hvaða erindum skipin hafi verið. Hert var og á ákvæðunum um það, að eigi væri fluttur burtu frá eyjunum fiskur; einnig sett bann við brottflutningi á lýsi og fiðri eða öðrum vörum. Eigi skyldi heldur leyft, að þeir, er sóttu verzlun til eyjanna, — hér átt við landmenn, — gerðu út báta frá eyjunum á hvaða tíma sem var til jafns við konungsbátana. Loks var forstöðumanni falið að rannsaka nákvæmlega ástand og horfur hér, athuga sem bezt möguleika verzlunarinnar og hvernig hægt væri að hafa sem mestan hagnað af henni. Brýnt var og fyrir forstöðumanni að sjá um það, að verzlunin hefði jafnan góðar vörur á boðstólum, og að eyjamenn væru engu misrétti beittir af verzlunarþjónunum eða umboðsmanni. — Laun forstöðumanns voru nú ákveðin 260 rd. árlega fyrir hann sjálfan og svein hans, og tveir einfaldir hirðklæðnaðir, frá páskum 1590 að telja.
Samtímis erindisbréfi Poul Pedersens gaf konungur út að nýju boðskap til Vestmannaeyinga 14. nóv. 1590.³⁰) Er hér ítrekað bannið frá 1586. Segist konungur hafa fengið vitneskju um það, að fjöldi Englendinga, þvert ofan í gerða samninga milli Danmerkur og Englands, svo og einnig menn af öðrum þjóðum, en hér mun vera átt við Þjóðverja, komi með vörur á skipum sínum til Vestmannaeyja og reki þar kaupskap, til stórtjóns fyrir verzlun konungs. Bannar konungur harðlega eyjamönnum að hafa nokkur verzlunarviðskipti við útlendinga, nema þá, er sýni leyfi frá konungi þar til. Skyldi þeim, er uppvísir yrðu að brotum gegn téðu banni, refsað fyrir mótþróa við konung, og vörur þeirra gerðar upptækar. Var forstöðumanni konungsverzlunarinnar skipað að taka öll útlend skip með farmi, er kæmu í leyfisleysi til eyjanna og væru að fiskveiðum við þær. Ef forstöðumaður treysti sér eigi til að taka skipin og færa til hafnar, skyldi hann þó sjá um, að fullkomnar skýrslur væru fengnar af skipstjórum og þar tilgreind nöfn og heimkynni skipanna. Þessar skýrslur bar að senda konungi, svo að hann gæti náð rétti sínum gagnvart eigendum skipanna, er þeir kæmu til Danmerkur. — Máttu hinir brotlegu skipstjórar eða skipaeigendur skuldbinda sig til þess skriflega, að mæta fyrir ríkisráðinu í Kaupmannahöfn, til þess að gert yrði út um málin, eins og sést af bréfum. Þannig höfðu tveir Englendingar, Joen Skroter og Johan Vilkensen, borgarar frá Hadvig (Harwich) á Englandi, verið staðnir að því að hafa sumarið 1589 rekið fiskveiðar við Vestmannaeyjar og verzlun við eyjabúa án konungsleyfis. Þessir menn höfðu skriflega skuldbundið sig til þess fyrir forstöðumanni, að mæta fyrir jól í Kaupmannahöfn og skýra mál sitt í hans viðurvist fyrir ríkisráðinu þar. En með því að þessir ensku menn höfðu eigi mætt á tilsettum tíma, var tollurum falið að senda skuldbindingarskjal þeirra til Poul Pedersen, svo að hann hefði það í höndunum, ef hann seinna næði til þeirra í Vestmannaeyjum. En tollararnir fengu skipun um það frá konungi, að taka þessa menn fasta og skip þeirra með farmi, ef þeir færu um Eyrarsund. Sjá bréf konungs til tollheimtumanna á Helsingjaeyri 6. jan. 1591.³¹)
Bannið frá 14. nóv. 1590 var ítrekað með konungsbréfi 8. maí 1592³²) til Poul Pedersen. Er því lýst hér, að ennþá haldi Englendingar áfram að koma til Vestmannaeyja og reka þar kaupskap, þrátt fyrir bönn konungs, er hvað eftir annað hafi verið birt eyjamönnum. Vísar konungur hér og til verzlunarsamnings milli Danmerkur og Englands.³³) Í bréfi þessu er lagt fast að forstöðumanni, um leið og kvartað er yfir því, að verzlun Englendinga aukist ár frá ári í Vestmannaeyjum, að liggja nú eigi á liði sínu, heldur handtaka nú alla Englendinga, er til Vestmannaeyja komi til að reka þar verzlun án leyfis, og taka einnig skip þeirra og góss og flytja til Kaupmannahafnar. Skip þau, er aðeins væru að veiðum við eyjarnar, skyldu þó látin í friði.
Um Poul Pedersen má segja það, að hann gekk duglega fram í því að útiloka Englendinga og aðra útlendinga frá verzlun og fiskveiðum við eyjarnar eftir boði konungs. Þann tíma, er hann dvaldi í eyjunum á sumrin, hefir hann með tilstyrk tveggja varðbáta, er hann hafði, tekið mörg skip fyrir Englendingum, og það áður en landhelgisbannið var sett. Hafði konungur sum árin mikinn hagnað af upptækum fiski, en venjulegast mun í stað þess að gera skipin upptæk hafa komið sektagreiðsla. Allmörg þessara skipatökumála hafa komið fyrir konung og ríkisráðið í Danmörku. Sjá áðurnefnt bréf 6. jan. 1591.
Í bréfi 26. nóv. 1592 til Jens Nielsen, fógeta í Vestmannaeyjum, sbr. bréf 26. apríl 1593 til Poul Pedersen, sbr. bréf 30. ágúst 1593,³⁴) hafði Poul Pedersen, er hann kom til Vestmannaeyja sumarið 1591, tekið tvö skip ásamt fiski, sem í þeim var, af enskum kaupmanni, Raymondt King, er rekið hafði fiskveiðar og ólöglega verzlun í Vestmannaeyjum. King þessi mun hafa verið formaður fyrir stóru útgerðarfélagi, er rekið hefir fiskveiðar við Ísland. Töldu Englendingar, að með þessu væru rofnir samningar milli þeirra og Dana, og kærðu mál sín fyrir ensku ríkisstjórninni. Skarst þá Elísabet Englandsdrottning í málið, og lét konungur þá laus skip Raymondt King, og var fógeta boðið að afhenda skipsbáta og fiskibáta, sem téður kaupmaður átti hér. Árið eftir að skipatakan átti sér stað var Raymondt King veitt fiskveiðaleyfi við Vestmannaeyjar.³⁵) Sama manni var og með konungsbréfi 31. maí 1594³⁶) veitt leyfi til fiskveiða við Noreg fyrir norðan Vardöhus og við Ísland. Var þetta framlenging á eldra leyfi. Hafði King lengi haft konungsleyfi til fiskveiða við Noreg og Ísland gegn tilteknu gjaldi. Eru og tveir aðrir Englendingar tilgreindir, er höfðu sama leyfi. Auðsætt er, að skipatakan 1591 hefir byggzt á því, að umgetið verzlunar- og fiskveiðaleyfi fyrir R. King hafi eigi átt að ná til Vestmannaeyja, af því að það er eigi sérstaklega tekið fram í samningnum, er hljóðar um leyfi fyrir atvinnurekstri við Ísland, en Vestmannaeyjar eigi taldar sérstaklega. Ennþá er Vestmannaeyja getið sem beztu verstöðvar fyrir „Stochfish, Codd and Linge“, sbr. bréf 13. okt. 1590.
Í ofannefndu bréfi frá 30. okt. 1593 til hermarskálks konungs, Arild Hvidtfeldt, svarar ríkisráðið í Kaupmannahöfn fyrirspurn Hvidtfeldts um það, hvað gera skuli við hinn enska kaupmann, sem Poul Pedersen (Paul Skriver) hafi tekið þá um sumarið í Vestmannaeyjum ásamt skipi hans. Var kaupmaður þessi nú kominn til Kaupmannahafnar frá Hamborg og hafði Hvidtfeldt látið taka hann höndum. Ákvað ríkisráðið, að maðurinn skyldi látinn laus, með því að konungur hefði fengið skip hans og vörur, en lofa skyldi hann því hátíðlega, að reka eigi framar verzlun í Vestmannaeyjum. — Með bréfi dags. 18. des. 1593 er borgarstjórum og ráði í Kaupmannahöfn falið að dæma endanlega í máli milli Laurentz Clotan og Poul Pedersen borgara í Árósum um þau ensku skip, er tekin hafi verið við Vestmannaeyjar.³⁷)
Með opnu bréfi 8. maí 1596³⁸) var enn hert á verzlunarbönnunum gagnvart Englendingum í Vestmannaeyjum. Og með bréfi 10. maí 1598³⁹) setti konungur landhelgisbann við Vestmannaeyjar milli lands (Menlandet) og eyja, og bauð Poul Pedersen að taka öll ensk skip, er væru þar að fiski og á svæði, er náði 2 vikur sjávar norðaustur frá eyjunum, og flytja þau til Kaupmannahafnar.
Barátta sú, er konungur hafði tekið upp, til þess að rýma enskum kaupmönnum og útgerðarmönnum frá Vestmannaeyjum, svo að hann gæti því betur aukið verzlun sína og útgerð, virðist lítinn árangur hafa borið lengi vel, ef trúa má umsögnum í ofannefndum bréfum og tilkynningum, sem að vísu eru ærið einhliða og stundum bornar til baka. En víst mun, að allmikil launverzlun hefir haldizt áfram og fiskveiðar Englendinga við eyjarnar, að minnsta kosti fram um 1590, þrátt fyrir öll bönnin og kærumálin, er einnig var beint að eyjamönnum sjálfum. Ríkti hinn mesti glundroði um verzlunarmálin. Erlendir kaupmenn fengu víðtæk leyfi til verzlunar og fiskveiða við Ísland, og stundum tekið fram sérstaklega, að Vestmannaeyjar fylgdu með og stundum ekki. En þeir, sem leyfi höfðu við Ísland, töldu það og ná til Vestmannaeyja, en það vildu umboðsmenn konungs eigi viðurkenna, og hlutust oft af þessu deilur. Eyjamenn hafa sótzt eftir verzlun við Englendinga, er veittu þeim bæði betri kjör og bættu oft úr sárri vöruvöntun. 1590 voru nokkrir eyjamenn dæmdir í sektir fyrir að hafa verzlað við Englendinga. En sleppa skyldu þeir við sektina, ef þeir gætu fært fullar sannanir fyrir því, að þeir hefðu eigi getað fengið hjálp hjá kaupmanninum, en eyjamenn höfðu borið það fyrir sig í þessu máli, að þeir hefðu orðið að kaupa af enskum vegna yfirvofandi hungursneyðar.⁴⁰) Sést af þessum málum, að konungsverzlunin hefir eigi alltaf þótt vel birg af nauðsynjavörum, svo sem veiðarfærum, salti o.fl., líkt og seinna gerðist oft á dögum einokunarkaupmanna.
Með því að herða fastar og fastar að hnútunum með ári hverju gegn erlendri verzlun og fiskveiðum við eyjarnar á síðasta áratug 16. aldar, hefir tekizt að útiloka verzlun Englendinga og alla verzlunarsamkeppni hér. Mun þetta hafa verið mikið að þakka dugnaði og harðfylgi Poul Pedersens. Í þessari baráttu kom Pedersen að ómetanlegu liði vígbúnaður sá, er hér var, virkið með fallbyssunum. Vígbúin herskip hafði hann og sér til aðstoðar á sumrin við eyjarnar. 1595 hafði Poul Pedersen 2 vígbúin skip í þjónustu sinni við eyjarnar. Voru á öðru þeirra 9 byssuskyttur og 22 skipsmenn aðrir, en á hinu 2 byssuskyttur auk 17 dáta.⁴¹) Í Vestmannaeyjum hefir á þessum tímum verið eins konar hernaðarástand og ráðstöfunum beint bæði út á við og gegn eyjabúum sjálfum. Auðséð er, að konungi hefir þótt nóg hér að gert, svo að hann afsakar, sbr. bréf konungs til Englandsdrottningar 8. júlí 1595,⁴²) aðgerðir sínar með því, að honum sé nauðugur einn kostur vegna útgerðar sinnar og verzlunar að banna útlendingum að fiska við eyjarnar. Var þó betur hert á þessu síðar. Fiskimiðin við Vestmannaeyjar, er útlendingar stunduðu, munu mest hafa verið nærmið, og hefir verið erfitt fyrir eyjabátana að haldast þar við, meðan útlendingar og sóttu sömu miðin. Að líkindum myndi eigi hafa tekizt að halda ensku fiskiskipunum („The Iceland Fleet“), sem á hverju vori um tvö hundruð ár hafði siglt upp til landsins, frá miðunum við Vestmannaeyjar, ef eigi hefði sjálfkrafa dregið úr sókn Englendinga hingað til lands, eftir að farið var að stunda hin auðugu fiskimið við Newfoundland og fiskveiðar aftur farnar að aukast í Norðursjónum. Samt er talið, að fiskveiðar Englendinga hér við land hafi aukizt aftur fram eftir 17. öldinni, enda voru þær nú og leyfðar samkvæmt milliríkjasamningum, þó með ýmsum skilyrðum, og ákvæði sett um landhelgi og bönn gegn viðskiptum enskra duggara við landsmenn, er einkum voru fólgin í vöruskiptaverzlun. Voru töluverð brögð að þessu, einkum eftir Tyrkjaránið, því að lítið var um siglingar kaupskipa hingað til lands þau árin af hendi einokunarkaupmanna af ótta við ræningja.
Svo er að sjá sem ástandið, að því er fiskveiðarnar snertir, hafi á þessum tímum, undir lok 16. aldarinnar, verið mjög svipað og nú á seinni tímum, er varðskip verða að halda vörð um netjabátana frá Vestmannaeyjum á vertíð, þar sem þeir fiska á tiltölulega litlu svæði vestur af eyjunum, vegna ásóknar erlendra skipa og jafnvel innlendra. Að vísu er þetta svæði nokkru fyrir utan landhelgi, því að fiskimiðin eru nú lengra frá landinu og miklu lengra sótt en áður.
Konungsverzlunin í Vestmannaeyjum stóð fram til ársins 1600, og veitti Poul Pedersen henni forstöðu til þess síðasta. En hann mun hafa dáið um þessar mundir, og konungur eigi séð sér lengur fært að halda verzluninni áfram, enda vandfyllt í skarðið eftir Poul Pedersen. Og síðustu árin hefir arðsemin af verzluninni verið minni og hefir þótt of áhættusamt að halda henni áfram. Hafði Pedersen drjúgum aukið arðsemi verzlunarinnar með ýmsu móti, eins og áður er lýst, með skipatökum og sektagreiðslum frá enskum skipum, upptækum fiski o.fl. Barst konungsverzluninni hér sum árin svo mikið af fiski, er upptækur var ger af enskum skipum, er fiskuðu í landhelgi, að konungur gat látið bæjarstjórninni í Kaupmannahöfn í té ókeypis töluvert af fiski, er hann fékk með þessum hætti hér í Vestmannaeyjum, en bæjarstjórnin lét útbýta þessum gjafafiski meðal fátæklinga í Kaupmannahafnarborg. Þessar miklu skipatökur minna á hinar miklu tökur enskra togara hér í landhelgi á fyrsta þriðjungi þessarar aldar, og mikið gert upptækt af fiski.
Poul Pedersen naut mikillar hylli hjá konungi og ríkisstjórninni. Voru honum veitt ýms fríðindi fyrir dugnað sinn, eins og venja var að sæma slíka menn. Meðal annars má telja, að sonur hans var tekinn í Sóreyjarskóla. Konungur veitti og Poul Pedersen sem lén hluta af korntíundum konungs frá Nordby á Samsö, sbr. bréf 10. jan. 1598,⁴³) og nokkur önnur fríðindi, sem sérstaklega er getið.
Dönskuhús, „Kgl. Majest. Dansk Hus paa Vespenoe“, nefndust konungsverzlunarhúsin. Hafa þar verið sölubúð, vörugeymsluhús og fiskhús. Í Dönskuhúsum hefir og forstöðumaður verzlunarinnar eða verzlunarstjórinn búið og þjónar verzlunarinnar. Forstöðumaðurinn var og umboðsmaður og fógeti, innheimti skatta og tolla. Hann hafði og lögreglustjóravald. Sýslumaður eyjanna var á þessum tímum búsettur á landi og kom hingað sjaldan. Dönskuhús hafa staðið vestanvert og neðan við Skanzinn og plássið þar niður undir sjó nefnt Danska eyrin. Húsakynni hafa verið hér mikil. Stórastofa, er nefnd er í kirkjusamþ. frá 1607, var í Dönskuhúsum. Hér virðist hafa verið fundarstaður og hér líklega haldin hreppsskila- og manntalsþing. Múrhúss er getið í Tyrkjaránssögunni. Mun það hafa verið múrsteinsbygging eða bundið múrsteini, og sennilega ein elzta slík bygging hér á landi. Í Tyrkjaráninu var fólkið rekið til Dönskuhúsa, og er sagt, að þrjú húsin hafi verið full af fólki. Dönskuhúsin voru brennd í Tyrkjaráninu og reist aftur inni í Skanzinum. Og eftir að umboðsmaður hafði tekið jörðina Höfn til ábúðar eftir 1600, var bústaður hans nefndur Kornhóll á íslenzku, en á dönsku Courenholm. Nafnið á ef til vill ekkert skylt við korn. Jörðin síðan og nefnd Kornhóll. Oft sjást í bréfum viðhöfð hátíðleg nöfn um heimili kaupmannsins eða umboðsmannsins, svo sem ritað „Cornholmskandtze“ eða „Courenholmskandtze“. Löngu seinna var kaupmannsbústaðurinn nefndur Danski Garður, „Gaarden“, og færður úr Skanzinum.
Heimilið í Kgl. Majestatis Dönskuhúsum hefir verið stórt og umsvifamikið. Heimilisfólkið hefir verið margt, þar á meðal búðarþjónar, verkstjórar og vinnumenn danskir, er unnu við verzlunarbúið og útveginn. Margt af störfum, er féllu undir verzlunarbúið og verzlunar- og útgerðarreksturinn, var unnið af eyjamönnum með dagsverkakvöðum, en þeir, sem skylduvinnu inntu af hendi, voru fæddir af búinu. Verzlunarmenn eða verzlunarþjónar hafa venjulegast verið 2 eða 3. Auk þeirra voru að minnsta kosti 5 aðrir fastir starfsmenn, „Dagligtjenere“. Voru það verkstjóri eða ráðsmaður, beykir, smiður og 2 vinnumenn, „Pulsmenn“. Árskaup þessara starfsmanna var 12 rd. og 12 álnir vaðmáls, annar vinnumannanna fékk 10 rd. og vaðmálsálnir jafnmargar og hinir.
Vinnan, sem eyjamenn inntu af hendi sem skyldudagsverk fyrir búið, var ýmisleg: Vinna við skipdrætti, setningur á skipum undir Skiphella, Skanzasmíði, heyskaparvinna, heimflutningur á heyi o.fl. Verkamenn voru fæddir á búinu. Þeim var úthlutað einum harðfiski hverjum á dag og mörk af smjöri. Söltuð súla og lundi og fleira matarkyns. Sýrudrykk höfðu þeir eftir vild. Öl var stundum gefið og brennivínsstaup til hressingar. Ölheita var í Dönskuhúsum og mun hafa verið mikið bruggað af öli.
Risnu allmikilli hefir verið haldið uppi hjá verzlunarstjóranum í Dönskuhúsum, bæði fyrir eyjamenn og landmenn. Þá var siður að veita fólki af landi, er var í kaupstaðarferð, að minnsta kosti eina máltíð á dag í Dönskuhúsum. Sjómönnum hefir og verið veittur glaðningur á vertíð, einu sinni eða oftar, og öl og vín við ýms tækifæri.
Ég tilfæri hér tillag til heimilisins í Dönskuhúsum fyrir nær hálfri fjórðu öld síðan, fyrir fardagaárið 1600—1601: Af íslenzkum afurðum: 3½ tn. af smjöri. 10½ fjórðungur af tólg. Þess má geta, að smjörtunnan er hér talin í útgjöldum 400 fiska virði, sem er töluvert hærra verð en eftir taxtanum 1702. Virðist smjörverðið tilfært fullhátt í reikningunum, en að vísu lækkaði smjörverð hér á seinni tímum. Þá er talin 9½ tn. af sýru. Er auðséð, að þá hafa menn vel kunnað — og það hér við sjávarsíðuna — að meta sýrudrykk. Er þetta næsta athyglisvert fyrir alla, er áhuga hafa fyrir því að kynna sér mataræði landsmanna fyrrum frá heilsufræðilegu sjónarmiði. Mjög mikið var notað af fiski, bæði blautfiski og harðfiski, alveg eftir þörfum. En harðfiskur var aðalfæða þeirra, er hjá búinu unnu. Harðfiskur, smjör, sýra og kjötmeti. Sýrutunnan kostaði þá 15—20 fiska. Lengi hélzt það við hér og alveg fram um aldamótin síðustu hjá mörgum eyjabændum, að þeir öfluðu sér árlega til búa sinna sýrutunnu eða kvartels af landi. Þá eru talin 4 naut lögð búinu og 20 kindur. Nautið kostaði þá 2½ hndr. fiska. Sauðkindin 30 fiska. Taldar eru og nokkrar nautshúðir. Verð þeirra var 50 fiskar og sauðskinn á 5 fiska. Hafa skinnin verið notuð sem skæðaskinn handa heimilisfólkinu. Af fugli, súlu og lunda, og eggjum hefir verið mikið búsílag. Hafði konungsbúið stóra fuglahluti, sóknarhluti fyrir sókn á eggjum og fugli á konungsbátunum í úteyjar. Fuglinn var aðallega notaður handa verkamönnum, er skylduvinnu unnu fyrir búið.
Tillag af útlendum vörum fardagaárið 1599—1600: 2 skpd. af svínsfleski, 2 tn. síldar, 6 tn. af bygggrjónum, 2 baunatunnur, 1/2 tn. af bókhveitigrjónum, 1/2 tn. af ediki, 1/2 tn. af matarsalti. Malt 24 tn. og 24 skpd. af humlum. Er auðséð, að ölgerð hefir verið hér mikil. Allmikið er þó flutt inn af öli og víni. Margar tunnur af rúgi voru lagðar til búsins.
Danskir og norskir bátasmiðir og utanbúðarmenn unnu við konungsverzlunina. Sumir þessara manna ílentust hér og hafa gerzt bændur hér. Undir lok 16. aldar bera 7 bændur hér erlend nöfn, norræn eða ensk. Um fleiri erlenda menn er kunnugt, t.d. Jón Lister skipstjóra hér um 1600, er mun hafa verið bróðir Péturs List (eða Lister) fyrrnefnds.
Hér verða taldir munir og áhöld, er fylgdu Dönskuhúsum, „Inventariet i Kgl. Majest. Dansk Hus paa Vespenoe“, undir lok 16. aldar, og er allfróðlegt að athuga þetta:
4 bruggker og 4 ölker, „Pryssingfade“. Einnig stór bruggketill, er tók 2½ tunnu. Smiðjubelgur, steðji og hverfisteinn. 4 sleggjur og hamar. 6 tengur. 2 laðir. 2 lifrarkör. 4 tunnur til að bera lifur í. 1 fjórðungstunna. Kútar til að mæla í lifur, löggilt mál. 5 gamlir fiskhnífar. Maltkvörn. 11 tréskálar og 11 trédiskar. Járnfleinn með 5 teinum, eldunaráhald. 8 eirkatlar, 1/2 skpd. að vigt. 2 steikarfleinar. Járnpottur til að steikja í. Rist. Þrífótur (eldavél). Deigtrog. Kertamót. Gamlar léreftsdýnur. Skálarvigt með járn, blý og steinlóðum, 59 pd. 4 eirpottar, er vógu 3 lýsipd. Dönsk Bismervog og íslenzk reizla með einu blýlóði. Gamlir kertastjakar. Sekkur með púðri. 8 fallbyssukúlur. Gömul „Lanterne“. 2 litlar skipskanónur, „Emkenfalconetten“. Þær voru lengi til hér í eyjunum, munu nú vera á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Varðveitzt hefir og eitthvað af fallbyssukúlunum. 5 hestar eru taldir tilheyra Dönskuhúsum, „Danskhusit“. — Vertíðarbátar eru taldir 17, þeim tilheyrandi 20 bátasegl, 15 tylftir af árum og allmörg möstur.
Mikilsvert er það, að meðal skilagreina og reikninga konungsverzlunarinnar frá lokum 16. aldar er að finna vörutaxta eða kaupsetningu, er var hér í gildi á þessum tímum. Vöruverð á landsvísu: 1 pd. af járni 1 fiskur. Alinin af striga 1 f.; sennilega hálmstrigi. Léreftsalinin 1 f. og 4 f. Hollenzkt léreft 8 f. Skeifur, 1 gangur á 5 f. Enskt klæði 40 f. alinin. Mynsterklæði 30 f. Byttersklæði 20 f. Fóðurdúkur 15 f. alin. Klæði á 9 f. alin. Gróf skyrta 20 f., fín skyrta 30 f. Silki, „Pussement“, var selt í álnum. Hnífapör með hjartarbeinssköftum á 6 f. parið, aðrir á 8 f. Skálarpund í eirkötlum og pottum var 8 f. Í tináhöldum, unnið tin, 8 f. Haldfæri 25 f. Seglgarnshnykill 4 f. Í Einokunarsögunni segir, að seglgarns geti ekki í kaupsetningu fyrr en 1684. Stórir hnífar (fiskihnífar) 6 f. st. Kvenbelti 2 f. Raspir og þjalir 4 f. st. Trédiskar 1 f. st. 1 lóð svart silki 6 f. 1 tylft nálarreimar 2 f. 1 sokkaband 1 f. Sængurklæðnaður 30 f. Gömul fatakista 50 f. Gamlir önglar 5 f. hndr. 1 greniborð stórt 10 f. Eikarborð 7 f. Leglar 12 f. st. Bátsmöstur 20 f. st. 1 al. í borðvið 1 f. Borð á 12 f. st. 1 tn. rúgmjöls 70 f. 1 tn. Sundistöl 80 f. Sama selt í pottatali 1 f. pt. 1 tn. Rínarvín 100 f. Sama verð á rauðvíni og Pryssingöli (þýzku öli). Brennivínsáttungur 70 f. 1 salttn. 40 f. Stór skæri 3 f., meðalskæri 2 f. 1 klaufhamar 4 f. Smálásar 6 f. st. Saumnálar 30 f. borðinn. Hattar, filt, meðal og sjóhattar 20 f., 15 f. og 8 f. st. 1 skófla 8 f. 1 pd. flæmskt garn 32 f. Stórt kefli, hvítur tvinni 1 f. Hárkambur 1 f. Messingföt, skálarpd. 8 f. 1 öxi 15 f. 1 karlmannsskór 16 f., kvenskór 10 f. parið. Spil 4 f. Títuprjónabréf 1 f. Kertastjakar 10 f. st. Pappír, bókin 6 f. Litlar árar 3 f. st. Brýni 1 f. Eikartré, 12 áln. löng, 60 f. st.; munu vera kjaltré. Sama, 8 áln., 20 f. Furuborð, 7 áln., 12 f. st. — Þessi kaupsetning hefir ekki verið kunn áður.
Í yfirliti um vörubirgðir má sjá margs konar aðrar vörur en þær, er taldar eru í kaupsetningunni: Bátaviður alls konar. Tjargaðir kaðlar. Botnstengur til að halda uppi stauravörpu (Bundgarn). Reknaglar og hnoðnaglar. Húsasaumur. Tunnur og ámur. Léttavarningskistur. Svigakerfi og bönd. Hnífar (Stenbrecker Kniffer), þ.e. Messerhnífar af sérstakri gerð, smíðaðir í Ruhla (Ruhl) í Thuringen. Vogarskálar og bjöllur. Silkiþráður og kantabönd. Lissabonolía. Steinkol, lítilsháttar. Nokkrir glergluggar. Kalk. Krít. Ger, margar tunnur. Harleki (Haarleken), hollenzkur dúkur úr hári; var algeng vara á þessum tímum. Stórnaglar og plankar. „Threfey“, líklega „triumfey“, er var algeng vefnaðartegund, er var að hálfu leyti léreft og að hálfu leyti ull.⁴⁴)
Við samanburð á vöruverðinu á dögum konungsverzlunarinnar við taxtann 1619 sést, að verðið er svipað, þó hærra á ýmsum varningi hjá konungsverzluninni. Hið hækkaða vöruverð, sem kemur fram eftir kaupsetningunni 1619, hefir verið komið á hér í Vestmannaeyjum fyrir alllöngu. Mjöl er samt ódýrara hér 70 f. tn., en eftir taxtanum 1619 80 f. tn. í einkaupi á fiskihöfnum, miðað við 2½ vætt tunnan. Mjölið er samt mjög dýrt hér og vísast til þess, er að framan segir um hið hækkaða vöruverð, samanborið við eldri kaupsetningar. Þá er og aðgætandi, að 1619 var mjölverðið í hundraðskaupi 50 f. tunnan, og sést af því, hvílíkt óhagræði það hefir verið fyrir eyjamenn að vera bundnir við að verzla í einkaupi. Auk þess, sem áður er talið, má geta þess, að færi voru mun dýrari hjá konungsverzluninni en eftir taxtanum 1619. Á mjaðartunnu var verðmunurinn 20 f.
Eins og sést af framanskráðu hafa verzlunarkjörin hjá konungsverzluninni verið slæm, hátt verð á útlendu vörunni og lágt verð á innlendri vöru, eins og sýnt verður. Boð og bönn á alla vegu, svo að menn vissu naumast, hvernig þeir máttu sitja eða standa. Að Vestmannaeyingar hlutu að sæta einkaupi í verzlunarviðskiptum, sem víst er að þeir urðu að sætta sig við þegar frá fyrstu tíð, sýnir, að skuldaverzlunin hefir alltaf verið hér og sama ófremdarástandið í verzlunarmálunum.
Forstöðumaður konungsverzlunarinnar innti af hendi árleg reikningsskil fyrir verzluninni til rentumeistara konungs í Kaupmannahöfn. Fógeti hér gerði reikningana í hendur forstöðumanni. Tekjurnar runnu í fjárhirzlu konungs sem gjöld af fatabúrslénum krúnunnar. Stundum sést hversu tekjunum frá Vestmannaeyjum er ráðstafað, er seldir voru fiskfarmar. Oluf Madtzen var t.d. með bréfi 1. júlí 1589 boðið að borga 750 dali af tekjum konungs af Vestmannaeyjum til bæjarfulltrúa eins í Hamborg, upp í kostnað við byggingu húss, „Gaard“, í Hamborg, er konungur átti.⁴⁵)
Gjaldamegin kemur kostnaður við sjálfan verzlunarreksturinn og umboðið. Eru það aðallega laun forstöðumanns, kaupsveinsins og annarra starfsmanna, kostnaður af húsum, bátasmíði, viðgerðum, seglaumbúnaði o.fl. Nam viðgerðarkostnaður bátanna oft yfir 100 rd. á ári. Nýsmíði ekki talin hér. Bátasmiðum var greitt kaup, er náði sum árin samtals yfir 20 hndr. fiska. Þá kemur og til greina verkun og aðgerð á fiski, formannskaup, framlög til verzlunarbúsins o.fl. Kostnaðurinn var alls um 1000 rd. yfir árið, er miðað er við 3½ rd. fyrir hvert fiskhundraðsvirði í útlögðum kostnaði. Þess má geta, að sum árin urðu útdráttarsöm vegna ráðstafana, er taka varð upp vegna Englendinga, t.d. rekstur fallbyssubátanna, er hafðir voru hér við eyjar, og á þeim byssuskyttur og fjölmenn áhöfn. Með Hans Holst liðsforingja voru hér um lengri tíma 14 menn við Skanzbygginguna og það kostað af verzluninni.
Árlega námu jarðabótartekjur konungs og skipshlutir um allt að 1/4 af útflutningsfiskinum, er oft nam 100 lestum og þar yfir. Árið 1599—1600 nam fiskútflutningurinn 113 lestum, l½ hndr., 3 f. Af þessu magni voru rúmar 86 lestir innlegg eyjamanna og landmanna fyrir keyptar vörur, um 27 lestir afgjalds- og tíundarfiskur og skipshlutir konungs. Vöruúttekt öll við verzlunina var greidd með fiski og vöruverð miðað við fiskverðið. Um þessar mundir var markaðsverð erlendis 12 sterlingspund fyrir fisklestina af fullverkuðum harðfiski, „stockfisk“. Fyrir lest af „Habardiner“-fiski, er var stórfiskur, er ýmist var saltaður eða hertur, var gefið 16½ pd. sterl., 100 löngur gengu á 3½ pd. sterl. Árið 1589 kom inn fyrir seldan fisk, þar af rúmar 74 lestir af harðfiski, 1143 pd. sterl., 19½ sh. Það jafngilti 5148 dölum. 1 sterl.pd. 4½ rd. Að meðtöldu lýsi og fiðri nam heildarverðið 6166 rd. Lýsistunnan er seld fyrir 7½ rd., í innkaupi er hún virt á 130 f. Útsöluverðið á fiskinum er um 9 rd. skpd. Innkaupsverðið á fiskinum er í verzl.reikningunum alltaf í hlutfalli við útsöluverð erlendu vörunnar og innkaupsverð innlendu vörunnar. Í skilagreinum sínum til konungs telur forstöðumaðurinn hndr. af fiski 3½ rd, og það er með þessu verði, sem reiknað er, þegar fisklestin er metin á 35 rd. Eyjamenn hafa fengið lægra verð fyrir fiskinn, og verð það, er greint er í reikningunum, ekki hið raunverulega innkaupsverð. Kaupmaður gat og sett afföll á fiskinn og með því fært verðið niður. Með hndr. er átt við stórt hundrað.
Konungur hætti verzlun sinni í Vestmannaeyjum og seldi hana á leigu ásamt jarðabókartekjum eyjanna 4 borgurum í Kaupmannahöfn 29. okt. 1600. Líklegt er, að afhending hafi farið fram vorið 1601. Kaupendurnir voru Christian Albritsen, Diderik Möller, Baldtzer Berntz og Mikkel Vibe. Þeir voru kaupmenn og komu víða við kaupsýslu í Danmörku og við verzlun Íslands er þeirra og mjög viðgetið. Sama ár og þeir leigðu af konungi Vestmannaeyjar fengu þeir kaupréttinn á byggi af konungsjörðum í Danmörku, sbr. bréf 19. apríl 1600.⁴⁶) Baldtzer Berntz átti fé inni hjá konungi og fékk hann eitt árið rúguppskeruna á stórgörðum konungs á Jótlandi upp í skuldagreiðslu. Mikkel Vibe varð seinna borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Var hann talinn einn helzti af kaupmönnum hér á landi á fyrstu áratugum einokunarinnar. Þeir félagar allir, er við eyjaverzluninni tóku, voru þaulreyndir kaupsýslumenn og áttu mikið undir sér. Vibe var einn af stofnendum elzta verzlunarfélagsins, „Det islandske, færöiske og Nordlandske Kompagni“. Hann var kvæntur dóttur Simonar Surbech. Mun Vibe hafa verið talinn fyrir eyjaverzluninni.⁴⁷)
Vestmannaeyjar voru þannig leigðar í sérleigu og komu ekki undir tilskipunina 20. apríl 1602, er einokunin var innleidd. En engan mismun gerir það, því að verzlunareinokun hafði verið hér lengi. Ákveðið var, að kaupmenn greiddu 35 rd. fyrir hverja fisklest í vissum og óvissum jarðabókartekjum. Umboðsmanni bar að standa konungi reikningsskil fyrir óvissum tekjum. Fyrirskipað var kaupmönnum að selja góðar og óskemmdar vörur með sama verði og tíðkazt hafði, og nota íslenzkan mæli og vog. Mál út af téðum sökum skyldu lögð undir úrskurð Alþingis. Kaupmenn skyldu sjá um, að verzlunarþjónar þeirra væru hóglátir og alúðlegir við fólk, hið sama og brýnt fyrir skipstjórum kaupskipanna og skipverjum.
Ákveðin var árleg leiga fyrir verzlunina í eyjunum og konungsbátana 400 rd. Konungsbátarnir fylgdu allir með í leigunni og máttu kaupmenn nota þá eftir þörfum, en halda bátunum við og skila þeim jafnóðum aftur við lok leigutímabilsins.⁴⁸) Í leigubréfið voru og tekin upp gildandi ákvæði gegn verzlun útlendinga og fiskveiðum. Máttu kaupmenn eigi leyfa Englendingum eða öðrum útlendum þjóðum fiskveiðar við Vestmannaeyjar og verzlun við almúgann þar.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
26) Canc. Brevb. 1584—1588, bls. 511.
27) Alþb. Ísl. II, bls. 32—34.
28) Canc. Brevb. 1593—1596.
29) Canc. Brevb. 1588—1592, 488—491.
30) Canc, Brevb. 1588-1592, bls. 491.
31) Canc. Brevb. 1588—1592, bls. 524.
32) Canc. Brevb. 1588—1592, bls. 774.
33) Mun hér átt við samninginn frá 22. júní 1583.
34) Canc. Brevb. 1588—1592 og 1593—1596, bls. 888, 51 og 158.
35) Ríkisskjs. Dana, Supplem. 2, 1592.
36) Canc. Brevb. 1593—1596.
37) Canc. Brevb. 1593—1596, bls. 197—198.
38) Canc. Brevb. 1593—1596, bls. 575.
39) Canc. Brevb. 1596—1602, bls. 272.
40) Alþb. Ísl. II, 169 og 207; J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi.
41) Regnskaber for Vespenoe 1595.
42) J.S. 373, 4to, bls. 283.
43) Canc. Brevb. 1596—1602.
44) Sbr. Ordbog over det gamle danske Sprog IV, 397.
45) Canc. Brevb. 1588—1592.
46) Canc. Brevb. 1596—1602, 745.
47) Leiðarbréf var gefið út 13. maí 1603 til handa Mikkel Vibe fyrir 2 skipum til eyjanna, „Den röde Löve“ og „Den sorte Hund“. Þess má geta, að undir lok 17. aldar var hér umboðsmaður Peder Wibe.
48) Í lénsbréfi Johan Buchholdts 10. maí 1597 (Canc. Brevb. 1596— 1602, bls. 157) er honum boðið að hafa gát á, hvernig skipverjar á kaupskipum konungs, er sigli til Vestmannaeyja, hegði sér.

Til baka



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit