Saga Vestmannaeyja II./ VI. Afgjöld og skattar, 3. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Gjöld til sveitarframfærslu (þurfamanna- og fuglafiskur).


Fátækramálum hefir lengi verið að ýmsu leyti öðruvísi háttað hér en annars staðar á landi voru. Um skyldmennaframfærslu hafa að vísu gilt ákvæði lögbókar, Jónsbókar, og framfærsla sveitarómaga hefir hvílt á niðursetu sem annars staðar, og dagatala ómaga hjá hverjum búanda miðuð við eignaframtal. Eiginleg fátækratíund sem skiptitíund var eigi greidd, en til að standa undir ýmsum nauðsynjamálum sveitarfélagsins var snemma komið á sérstöku gjaldi, er lagt var á framleiðsluna, í fiski, þurfamannafiskur, og í fugli og eggjum. Að sumu leyti mun og umrætt gjald hafa komið í stað matgjafa til fátækra. Til fátækraframfærslu var og lögð sveitartíund, tekin af lausafé. Þurfamanna- og fátækragjaldið, er seinna var greitt sem spítalagjald eða rann saman við það, tilféll fátækrasjóði, en svo var sveitarsjóður eyjanna nefndur, að minnsta kosti á seinni tímum.
Þurfamannagjaldið, fátækra- eða þurfamannafiskur, var einn fiskur, hinn mesti, af hverjum báti í róðri á vertíð, þegar einn fiskur að minnsta kosti var í hlut á mann. Þannig var gjald þetta greitt á síðari hluta 16. aldar, og þá fylgt gömlum venjum og reglum, er myndazt höfðu hér um fyrir æfalöngu, svo að víst er, að þessi tilhögun hér er afargömul.¹) Þurfamannagjaldið, er stundum var kallað skips- eða skriffiskur, var innfært á skrár við afla hvers báts.
Um tíundir í Vestmannaeyjum og spítalagjald er greint í Bessastaðasamþykktinni 1. júlí 1555. Í niðurlagi 3. gr. samþykktarinnar, er fjallar um tíundir, segir svo um tíund í Vestmannaeyjum: „Að allir þeir, er búa í Vestmannaeyjum og þar eru heimilisfastir, svo og þeir, er róa á þeirra skipum, skulu gjalda venjutíund, hvort heldur þau skip eiga þar innbyggjendur í eyjunum eða útlendir menn þar aðrir vistfastir. En þessi venjulega tíund er hver tíundi fiskur í fjöru, og skal skiptast í fjóra parta, og skal fátækraparturinn leggjast til þeirra manna spítala, sem stiftaður verður í Sunnlendingafjórðungi. En þann fjórðung tíundar, sem tekst af fugli og eggjum og þurfamönnum tilheyrir, skulu þeir fátækir sjálfir hafa, sem í eyjunum hafa skylduga framfærslu“. Með samþykktinni voru jarðir konungs undanskildar tíund, en hins vegar tekið fram, að bændur tíundi lausafé sitt eftir landsins vana.
Ákvæði Bessastaðasamþykktarinnar, er að eyjunum lutu, hafa eigi fengið þar gildi, enda lítt framkvæmanleg þar og lýsa ærnum ókunnugleika á umgetnum málefnum eyjanna. Þar höfðu fyrir löngu myndazt sérstakar venjur um tíundirnar í samræmi við staðhætti þar, en þeim hefði orðið að breyta, ef ákvæðum samþykktarinnar hefði verið framfylgt, og hefði það komið niður á prestalaununum, en prestarnir nutu, eins og áður segir, tíundanna óskertra. Þess gerðist heldur eigi þörf, að aðskilja fátækrapartinn af tíundinni, fiskatíundinni, því að í stað hans hefir verið komið á öðru gjaldi til þurfamanna, þurfamanna- eða fátækrafiskinum, en til framfærslu þurfamanna eigi ætlað neitt af hinni eiginlegu fiskatíund. Af fugli, súlum, hefir verið haldið áfram að greiða fátækrahlut og sveitartíund, er miðuð var við fiskgjald.
Ákvæðið í leiðbeiningarbréfi 20. marz 1555, er studdist við hinar gömlu venjur, er myndazt höfðu hér, hefir orðið ráðandi áfram hér, að því er tíundarmálin snerti á þá leið, sem segir í nefndu leiðbeiningarbréfi, að fullkomin tíund greiddist til kirkjunnar áfram, og byggt á skýrslu konungsfógetans hér um þessi mál og látið þar við sitja. Hefir hér vissulega engin skipting á tíundinni verið gerð seinna. Hið gamla gildandi fyrirkomulag studdi og bezt hagsmuni konungs. Ákvæði samþykktarinnar um endurgjald af hendi prestanna í húslánum og vergögnum hefir og heldur eigi komið til framkvæmda á þann hátt, heldur fylgt þeim venjum, er fyrir voru um slík lán til útvegsmanna af landi, af hendi umboðsmanns eða fógeta konungs. Er hér enn eitt dæmi um sérstöðu eyjanna, er um var að ræða almenna lagasetningu á landi voru.
Þurfamannafiskurinn, fátækragjaldið, hefir mjög lengi verið undirstaðan undir framfærslu sjúklinga, holdsveiklinga einkum og annarra, unz hið eiginlega spítalagjald er hér lögleitt. Holdsveiklingar héðan munu eigi hafa verið sendir til spítalanna á landi. Tíundin af fugli og eggjum, hinnar síðarnefndu getur eigi á seinni tímum, verður að fuglagjaldi, er og rennur til þurfamannaframfærslu, holdsveiklinga.²) Í fyrrnefndu riti Halldórs Einarssonar: Værdi-Beregning og Tiendeydelse i Island, segir, að tíundirnar af fugli og eggjum séu nú, 1833, lagðar niður, svo að enginn vilji nú taka fuglaveiðiréttinn á leigu. Auðséð er, að hér er eitthvað málum blandað og að höfundurinn hefir verið ókunnur þessum málum. Um sérstakan veiðirétt, undanskilinn jörðum, var ekki að ræða, nema veiðirétt í Yztakletti, umboðsjörðinni, er umboðsmaður seldi hæstbjóðanda á uppboði fyrirfram með ákveðnu verði fyrir eitt sumar í senn. Á þetta ekkert skylt við greiðslu þurfamannagjaldsins af fugli. Gjald af fugli voru aðeins súluhlutir úr tveimur eyjum, Súlnaskeri og Hellisey. Hefir þannig eigi verið farið eftir ákvæðum tilsk. 29. maí 1746. Er líklegt, að fuglatíundir til fátækra hafi verið greiddar þannig frá fornu með súlnahlut. Með útkomu konungsbréfs 26. maí 1824 voru sett ný ákvæði um fuglagjaldið og hér eftir greitt og af lunda og fýlunga.
Með Alþingissamþykkt 30. júní 1652 var gerður aukahlutur til spítalanna árlega af hverju skipi, er gengur til sjós, af allra hlut, sem á því róa, einn dag á vertíð í Sunnlendingafjórðungi og í Vestmannaeyjum, á þann næsta dag, sem róið verður eftir Maríumessu á langaföstu og nokkuð aflast. Í nefndri samþykkt er og ákvæði um forlagseyri hreppanna fyrir spítalalimi.³) Þetta ákvæði hefir eigi komið til framkvæmda hér, en svipuð hefð um greiðslu var fyrir. Greiðsla þurfamannagjaldsins með einum fiski úr róðri hefir haldizt áfram og eigi greitt til spítalanna á landi, sbr. og spítalareikninga, er að vísu ná eigi langt fram. Í reikningum Klausturhólaspítala 1692—1753 sést ekki, að greitt hafi verið spítalagjald frá Vestmannaeyjum. Aðeins fyrstu árin eftir að tilskipunin frá 29. maí 1746 var gefin út eru skýrslur um spítalagjald í Vestmannaeyjum.⁴) En í eyjunum sjálfum mun hafa verið starfrækt alllengi sjúkrahús eða spítali fyrir holdsveika, hið svokallaða „Lazaret“ á Löndum, sem búið var þó að leggja niður fyrir byrjun 18. aldar. Með tilskipun 29. maí 1746 var svo ákveðið, að allir bátar skyldu leggja spítölunum hlut af öllu, sem aflaðist, hverju nafni sem nefndist, vissan róðrardag á vertíðinni, og var sá dagur tiltekinn frá Eystra-Horni til Búlandshöfða á Snæfellsnesi, að meðtöldum Vestmannaeyjum, fyrsti róðrardagur eftir páska eða næsti, ef eigi gaf. Hér var og ákvæði um, að spítölunum skyldi leggjast til fugl, sem veiddist á einum degi, bæði í Vestmannaeyjum og Drangey.⁵)
Eftir að tilskipunin 1746 kom út hefir verið gerð gangskör að því, að spítalahlutirnir frá Vestmannaeyjum greiddust til spítalans, og gjaldið reiknað samkvæmt tilskipuninni 1746 fyrir árin 1747—1748. Spítalahlutir af landskipum, er gengu úr eyjum, hafa verið greiddir til Klausturhólaspítala.⁶) — Búið var, eins og áður segir, að leggja niður spítalann eða „Lazarettið“ í eyjunum, en eyjamenn vildu samt vera lausir við að greiða til spítalanna á landi, og sóttu um það fyrir forgöngu Böðvars sýslumanns Jónssonar og séra Guðmundar Högnasonar í Kirkjubæ, að mega vera lausir við að greiða spítalahluti af fugli og fiski, er til féllu hér, til spítalanna í Sunnlendingafjórðungi. Segir presturinn, að eyjamönnum sé öldungis ókleift að koma sjúklingum sínum til spítalanna á landi, og hefði það ætíð verið svo, að eyjamenn hefðu eigi haft not af spítalanum. Biskupinn, Ólafur Gíslason í Skálholti, tók vel undir þessa beiðni og mælti með henni við stjórnina. Á þessum tímum hefir verið margt um holdsveiklinga hér. Voru hér taldir 30 manns sjúklingar og þurfalingar, er góðs nutu af spítalahlutunum. Margt var ennþá um holdsveiklinga fram um 1800, sbr. dánarskýrslur. Eftir að hafa ítarlega rannsakað mál þetta ákváðu stjórnarvöidin, sbr. úrsk. 20. febr. 1750, að framvegis skyldu Vestmannaeyingar lausir við að greiða spítalahluti til spítalans á landi, gegn því að þeir sæu öldungis sjálfir fyrir þörfum holdsveiklinga eyjanna og annarra sjúklinga með þeim peningum, sem hefðust upp úr spítalafiskinum og fuglafiskinum svokallaða.⁷) Nokkuð löngu seinna er þess getið, að holdsveiki fari enn vaxandi. Lét Sigurður sýslumaður Sigurðsson þá taka þingsvitni um það og hinar bágu ástæður manna hér yfirleitt, er stafi af hinu mikla fiskileysi, er þá var. Segir sýslumaður, sbr. rentuk.br. 31. des. 1782, að bændur flýi burtu af jörðum sínum og til lands, vegna hinna miklu sveitarþyngsla og kostnaðar vegna sjúklinga. Voru þá nokkrar jarðir, sumar með beztu eyjajörðunum, er eigi leigðust út um nokkurn tíma, og var slíkt nýlunda. Fór sýslumaður þess á leit, að nú yrði tekið á móti holdsveiklingum frá Vestmannaeyjum á spítalann í Sunnlendingafjórðungi. Málaleitun þessari vísaði stjórnin til stiftamtmanns með tilvísun til úrsk. 20. febr. 1750.⁸) Að fengnum tillögum stiftamtmanns 10. ágúst 1783 gaf rentukammerið út bréf 15. nóv. 1783, og var eyjamönnum neitað um að senda sjúklinga til spítalans, með því að þeir hefðu skuldbundið sig til þess að annast sjúklingana sjálfir, sbr. úrsk. frá 20. febr. 1750, og eigi greitt neitt til spítalans síðan; einnig talið, að greiðsla myndi eigi fást í Vestmannaeyjum fyrir spítalalimi, sökum hins bága ástands þar, þótt teknir væru á spítalann. Var nú bæði stiftamtmanni og biskupi falið að sjá um, að sveitarstjórnin þar gætti skyldu sinnar um að standa straum af holdsveikum og öðrum sjúklingum, er þurfandi voru. Um þessar mundir var, eins og oft hefir verið getið hér að framan, hið mesta harðæri vegna undanfarins fiskileysis, og hafa þá tekjur fátækrasjóðsins hrokkið skammt til að standa straum af sjúkra- og þurfamannakostnaðinum; mun þá og hafa verið mikið um veikindi hér, einkum skyrbjúg. Hefir orðið að jafna kostnaðinum vegna sjúkra niður á bændur sem öðru ómagaframfæri.⁹)
Með konungsbréfi frá 26. maí 1824 um ákvörðun þess hlutar, sem með tilsk. 27. maí 1746 af fiski og fugli er ákveðinn hospítölum á Íslandi, var gerð sú breyting á fuglagjaldinu, að ákveðið var, að það skyldi hér eftir vera 4 af hundraði hverju, er veiddist af bjargfugli.¹⁰) Ákvæði tilskipunarinnar um gjald af hákarli og hákarlslýsi kom hér og til greina; hins vegar hafði ákvæðið um gjald af hrognkelsum litla þýðingu fyrir eyjamenn. Fuglagjaldið var lækkað 1855, en bæði það ár og næstu árin er framtalið miklu hærra, svo að lækkunin vannst vel upp.
Þurfamannafiskinn og kirkjufiskinn afhentu formenn eftir hvern róður konungsfógeta eða umboðsmanni með skipshlutum konungs eða kaupmanna, og var fiskurinn verkaður með þeim. Andvirðið afhenti fógeti síðan hreppstjóra og kirkjuumsjónarmanni, og var fiskandvirðinu skipt í tvo jafna hluti, kirkjuhlut og fátækrahlut. Hinum síðarnefnda var svarað út í vörum, mjöli og öðrum nauðsynjavörum, er úthlutað var til fátækra og sjúkra. Á síðasta hluta 16. aldar náði þurfamannafiskurinn stundum 4 hndr. stórum og svipaðri tölu fram eftir 17. öldinni í góðum fiskiárum.
Spítalagjaldið — eftir að það kom til sögunnar — var afhent sýslumanni, og var notað á sama hátt og þurfamannagjaldið áður, til þess að standa straum af sjúklingum og þurfandi gamalmennum, er eigi voru á sveit. Eftir að holdsveiki var útrýmt hér í eyjum að mestu á 19. öld, var spítalagjaldið notað í þarfir sveitarinnar.


Sveitartíund. Framkvæmd ómagaframfœrslunnar.


Með hverjum ómaga var ætlað visst gjald yfir ákveðið tímabil. Gjaldið var reiknað í fiskum, en eigi í álnum. Gjaldendur héldu ómagana með niðursetu að tiltölu við sveitartíundina, er þeim var ætlað að greiða. Fram um miðja næstliðna öld var meðalmeðlag með ómaga um 180 fiskar yfir misserið.¹¹) Sveitartíundin kallast og aukasveitartíund, seinna aukaútsvar, reiknað í álnum og fiskum, og gekk til ómagaframfærslu ásamt lausafjártíundinni. Hreppstjórar ákváðu sveitartíundina eftir tíundarlista, er saminn var eftir að búið var að leggja í tíund fiskafla og kvikfénað, bátaeign o.fl. Meðalmeðlag með ómaga var einn fiskur á dag, miðað við gildan málsfisk.
Almenn árleg niðurjöfnun útsvara fór eigi fram hér fyrr en eftir að búið var að svipta sveitarfélagið þeim tekjum, er fólgnar voru í spítalagjaldinu.¹²)
Af skýrslum um árlegar tekjur og gjöld fátækrasjóðs eða sveitarsjóðs frá öndverðri 19. öld sést, að tilhögunin um innheimtur og greiðslur úr sjóðnum hafa hvílt á gömlum venjum og reglum. Aðalgjaldstofninn er sveitar- eða fátækratíundin, spítalahluturinn og aukasveitartíundin, og frá verzluninni lítils háttar gjald. Sjóðurinn stóð undir umsjón hreppstjóra og sýslumanns. Reikningsskil sjóðsins heyrðu undir sýslumann. Inneign sjóðsins stóð á vöxtum í jarðabókarsjóði. Spítalahlutirnir, sem voru svokallaður spítalafiskur og fuglafiskur, voru árlega boðnir upp á opinberu uppboði fyrirfram fyrir árið, eins og gert var um landsskyldarfiskinn, og seldir hæstbjóðanda. Fuglahlutir úr hverri útey seldir sér og miðað við visst verð á fuglinum. Á uppboðum frá seinni hluta 19. aldar var verð á lunda 2 aurar og á fýlunga 5 aurar; var þetta lítið eitt undir gangverði.
Á fiskileysisárunum undir lok 18. aldar voru tekjurnar af spítalahlutunum örlitlar, en fóru smám saman hækkandi, er leið á öldina, einkum eftir útkomu konungsbréfs 26. maí 1824, því að þá jukust fuglatíundirnar mjög. Spítalahlutirnir í fiski, sbr. tilsk. 1746, námu árin 1747—1748 1 hndr. 77 málsf. og 1 hndr. 80 málsf. Á landsvísu 1 hndr. 70 f. og 1 hndr. 75 f. Fuglafiskur 1749, súlnahlutir úr Hellisey og Súlnaskeri, 36 súlur, metnar samtals á 27 fiska.¹³) 1824—1825 hljóp spítalafiskurinn 10 rd. 38 sk., fuglagjaldið nokkrar súlur. 1829 hljóp spítalafiskurinn 8 rd. og fuglafiskurinn 12 rd. 47 sk. 1832 nam spítalafiskurinn 10 skpd. af blautum fiski og 2 skpd. af verkuðum fiski, harðfiski, eða alls rúmir 40 rd.¹⁴) Um miðbik 19. aldarinnar var sjóðsveltan orðin miklu meiri. Skal hér sýnd greinargerð um tekjur og gjöld fátækrasjóðsins fyrir árin 1853—1860. Árleg inneign í sjóði og árlegir vextir af inneign fátækrasjóðs í jarðabókarsjóði er meðtalið:

Ár Tekjur Gjöld
1853—1854 300 rd. 141 rd.
1854—1855 375 — 247 —
1855—1856 336 — 317 —
1856—1857 194 — 105 —
1857—1858 255 — 128 —
1858—1859 173 — 96 —
1859—1860 255 — 128 —


Tekjur í peningum samt. 1888 rd., gjöld samt. 1162 rd. Nefnd ár er fuglagjaldið samt. 463 rd., hæst 87 rd. 1856 og lægst 44 rd. 1854. 1856 og 1857 voru mjög mikil veiðiár. Hið fyrrtalda ár nam framtalið af lunda 331,000. Spítalafiskurinn nam lægri upphæð en fuglatalið framantalin 7 ár, hæst 59 rd. á ári.¹⁵)
Til fátækrasjóðs sem almenns sveitarsjóðs runnu ýmsar greiðslur, svo sem hlutdeild í helgidagaveiði, fjárútlát og sektir; sjá reglug. 8. jan. 1834, augl. 13. júní 1787 um bann gegn sölu tóbaks og brennivíns, tilsk. 26. maí 1803 og tilsk. 25. sept. 1849 um veiði o.fl., — andvirði seldra óskilakinda, endurheimt lán, dánareignir sveitarómaga, gjafir, áheit og öll venjuleg sveitarsjóðsgjöld, aukaútsvör og fátækratíund. Aukaútsvarið var greitt með sveitarómögum og sem styrkur til fátækra heimilisfeðra. Úr fátækrasjóðnum var og úthlutað styrk fátæklingum, einkum einhleypum gamalmennum, er vörðust sveit, og var því sem eins konar ellistyrkur. Hér var og algengt, að slík gamalmenni og fátæklingar væru styrktir með gjöfum í fiski og fugli frá einstökum mönnum og skipshöfnum. Stundum jafnvel skipt gjafahlutum. Þessu fólki gáfu unglingar Maríufiska sína. Úr sjóðnum var styrkveitingin til gamalmenna á seinni tímum venjulega 5—6 rd. árlega handa hverjum. Samkvæmt gamalli venju var styrkurinn greiddur með vöruúttekt, t.d. rúgi og öðrum kornmat, auk útláta í fugli. Borgað var og úr sjóðnum fyrir læknishjálp og meðul fátækra, einnig fatnað. Bráðabirgðalán voru og veitt úr sjóðnum fátækum landsetum á jörðum til að forðast fjárnám vegna ógoldinnar landsskuldar, eða útburði af jörðinni, sem átti sér og stað um tómthúsmennina. Varð oft að gefa þessi lán eftir. Einnig var bágstöddu fólki veitt lán til kornkaupa og annarra nauðsynja. Ýmiss annar kostnaður, svo sem flutningur á ómögum frá eyjum til lands og greftrunarkostnaður ómaga, sem þá var venjulegast 4—5 rd.
Um þessar mundir, um miðbik 19. aldarinnar, var töluverð umferð af umrenningum og flökkufólki milli lands og eyja, þrátt fyrir ströng bönn til formanna um að flytja ekki þess konar fólk á milli. Það kom og fyrir, að greiða varð heimflutning eyjamanna, er flækzt höfðu til útlanda og lentu þar í kröggum. Laun hreppstjóra voru greidd úr sjóðnum, sem og húsaleiga handa sýslumanni til réttarhalda og þinghalda, áður en þinghúsið var byggt; kaup manns, er hafði á hendi að hreinsa og þrífa til við fiskkrærnar á vertíðinni; lítils háttar til aðgerða á vegum og skipadrætti; laun yfirsetukonu voru og greidd úr fátækrasjóði.¹⁶)
Þá er eyjamenn sóttu um það 1820, að fá lækni um stundarsakir í eyjarnar, ákváðu forráðamenn fátækrasjóðs að leggja fram úr sjóðnum fé til að kosta dvöl læknisins. Með ýtrustu sparsemi og aðgætni þeirra, er höfðu umráð sjóðsins, safnaðist honum töluvert fé með samhjálp og þannig, að eigi var gengið um of á stofninn. Sést það hér, sem í svo mörgu öðru, hversu sýnt Vestmannaeyingum var um að búa að sínu og að skipuleggja og hagnýta atvinnuvegina, t.d. fuglaveiðarnar, svo að sem mest gagn yrði að og varanlegast.
Inneign sjóðsins var um 1500 rd. um miðja 19. öld. Fór mikið orð af þeim fjárplóg, er Vestmannaeyingar ættu í spítalagjaldinu, er létti svo mjög undir sveitarbyrðinni, og jafnframt væru þeir lausir við almennar tíundir af lausafjármunum. Fasteignatíund galzt hér og eigi, svo að neinu næmi, af þeim eðlilegu ástæðum, að framteljendur hér áttu eigi fasteignir.
Nokkru eftir miðja öldina var af Alþingi og stjórn gerð ný skipan um spítalahlutina; er þá og skömmu síðar lögfestur nýr tíundarmáti hér, í samræmi við það, er annars staðar gilti.
Þegar á Alþingi 1847, er frumvarpið um nýja læknaskipun, er varð að lögum árið eftir, var rætt, komu fram tillögur þess efnis, að taka spítalahlutina hér til notkunar í þarfir læknasjóðsins. Málið kom loks fyrir Alþingi 1861, og var þangað sent af stjórninni, en nokkrum árum áður, 1857, hafði Alþingi sent konungi bænarskrá þess efnis, að spítalahlutirnir hér, eins og aðrir spítalahlutir á landinu, væru látnir ganga inn í læknasjóð þann, er stofnaður var með konungsúrskurði 12. ágúst 1848, en úrskurðurinn frá 20. febr. 1750, er áður getur, upphafinn. Stjórnin hafði sent málið til sýslumannsins, kafteins von Kohl, er mælti eindregið á móti því, að þessi gjaldstofn yrði tekinn frá sveitarsjóði eyjanna, og skrifaði um það stiftamtmanni, er og tók í sama streng. — Á Alþingi var málið sett í þriggja manna nefnd, og voru í henni Páll Sigurðsson í Árkvörn, þingm. Rangæinga, og Jón Hjaltalín landlæknir, en þeir, sem meiri hluti nefndarinnar, lögðu til, að spítalahlutirnir í Vestmannaeyjum skyldu renna í læknasjóðinn, en úrskurðurinn frá 20. febr. 1750 upphafinn. Þriðji nefndarmaðurinn var Árni Einarsson á Vilborgarstöðum, þingmaður Vestmannaeyja, og barðist hann ósleitilega fyrir málstað eyjamanna og lagði til, að allt mætti standa sem verið hefði um spítalahlutina, og segir hann í greinargerð sinni, að ef spítalahlutirnir af fugli og fiski verði teknir frá sveitarsjóði Vestmannaeyja, verði sveitin svipt aðalhjálp þeirri, sem hún hafi haft til framfæris og lífsbjargar svo mörgum fátæklingum, og biður þess einnig, að þingið að minnsta kosti fresti aðgerðum í þessu máli, þangað til Vestmannaeyingar geti haft ráðrúm til að sjá sveitinni borgið með öðru móti. Um þessar mundir átti fátækrasjóður á vöxtum 500 rd. Var þá nýbúið að eyða úr honum 1000 rd. til þinghússbyggingarinnar, vegabóta og til kornlána handa fátækum.
Um málið urðu alllangar umræður á þingi, og kom þar fram ýmislegt um hagi manna í Vestmannaeyjum, og voru þingmenn eigi sammála þar um. Sumir héldu því fram, að eyjarnar væru lífvænlegasta og bezta pláss landsins, svo „að enginn, sem rétti út handlegginn frá síðunni þar, þyrfti að vera svangur“, eins og einn þingmanna komst að orði. Aðrir töldu hins vegar, að Vestmannaeyjar væru eitt af fátækustu og verst settu héruðunum á landinu, sökum einangrunarinnar og annars. Álit meiri hluta þings var það, að efnahagur eyjabúa væri í góðu hlutfalli við aðra sjávarhreppa á Suðurlandi. Þingmaður Rangæinga, er var framsögumaður nefndarinnar, barðist einna mest fyrir því, að spítalahlutirnir væru teknir af eyjamönnum, enda rak hann og þar erindi kjósenda sinna margra, því að umgetin kvöð kom og niður á landskipum eða útgerðarmönnum í eyjunum af landi. Kom það og til tals í umræðunum, að breytingin næði aðeins til tíundarinnar af landskipum. Konungsfulltrúi var hlynntur málstað eyjamanna og studdist þar við álitsskjal sýslumanns v. Kohl frá 4. ágúst 1859 og bréf stiftamtmanns 3. febr. 1860.
Málið fór svo, að þingið lét uppi það álit sitt með miklum meiri hluta, „að hospítalshlutirnir í Vestmannaeyjum, bæði af fugli og fiski, skyldu renna frá 1. degi janúarm. 1865 inn í hinn almenna læknasjóð, er stiftaður er með konungsúrskurði 12. ágúst 1848, en að konungsúrskurður 20. febr. 1750, viðvíkjandi þessum hlutum, verði úr lögum numinn“, — og var málið þannig afgreitt til stjórnarinnar. Segir í greinargerðinni, að þingið sjái ekki neinar ástæður, er gefi tilefni til að breyta þeirri ályktun, er Alþingi gerði um mál þetta 1857, því að Vestmannaeyingar séu nú, að því er ráðstafanir um læknishjálp snertir, miklu betur farnir en ekki einasta allir aðrir hreppar á landinu, heldur einnig þó miðað væri við margar sýslur, sem nú voru læknislausar.¹⁷) Hér segir og: „Þingið verður að álíta, að efnahagur eyjabúa sem sveitar eða fátækrafélags sé í góðu hlutfalli við aðra sjávarhreppa á Suðurlandi, og verði það eigi séð, að erfiðara sé fyrir eyjamenn að annast forsorgun á fátækum mönnum, þó að fátækrasjóður þeirra beri eigi úr býtum tíund af fasteign og lausafé, því það kemur í sama stað niður, hvort bændur fæða þurfamenn sína á tíund og aukaútsvari til samans eða á aukaútsvari að öllu, þegar tíundin er ekki lögboðin“.¹⁸)
Gaf stjórnin loks út 24. marz 1863 opið bréf um spítalahlutina í Vestmannaeyjum með sömu hljóðan og álitsskjal Alþingis, er að ofan greinir, en með þeirri viðbót, að frá sama tíma, þ.e. frá 1. jan. 1865, skuli fyrst um sinn 30 rd. á ári greiddir úr læknasjóðnum til launa handa yfirsetukonu í Vestmannaeyjum.¹⁹) —Þriggja ára fresturinn á framkvæmd þessa nýja fyrirkomulags var miðaður við það, að á meðan gætu bændur gert ráðstafanir viðvíkjandi sveitarstjórn sinni, er þeim þætti henta.
Eyjamenn sendu bænarskrá til Alþingis 1865 um að breytt yrði ákvæðum opins bréfs frá 24. marz 1863 um spítalahlutina, en fengu þar enga áheyrn. Bænarskráin er undirrituð 6. júní 1865. Segir í bænarskránni, að á síðastliðinni vertíð hafi verið fiskileysi mikið, svo að aðeins eitt skip hafi fengið 1½ hundrað tólfrætt til hlutar. Kaupstaðaskuldir séu miklar og mikil sveitarþyngsli: 726 rd. jafnað niður á 100 búendur. Fiskfæð hafi og verið undanfarin 10 ár.²⁰)
Greiðsla spítalahlutanna af fugli og fiski til sveitarsjóðs eyjanna hafði þannig staðið í 115 ár, frá því um miðja 18. öld, sbr. úrsk. 20. febr. 1750, með umgetnum hætti. Líkt fyrirkomulag um sjúkra- og fátækramálefni eyjanna mun hafa gilt frá fornum tímum, sbr. það, er áður segir um þurfamannafiskinn, er greiddur var, áður en spítalafiskurinn var tekinn upp. Það má segja með vissu, þótt meiri hluti þingmanna 1861 liti öðruvísi á, að með spítalahluti eyjamanna, er þeim guldust, gegn því að þeir sæu farborða fátækum og sjúkum mönnum héraðsins, gegndi töluvert öðru máli en um aðra spítalahluti, er til spítalanna sjálfra guldust. Þar sem engin lögboðin tíund til fátækra var til og spítalahlutirnir hér teknir sem tíund af framleiðslunni, eins og átt hafði sér stað með þurfamannafiskinn, sbr. það er að framan getur, í stað eignatíundar. Ástæða virðist að minnsta kosti hafa verið til að undanskilja fuglagjaldið eða fuglafiskinn, sem sennilegt er, að upphaflega hafi verið goldinn sem eiginleg þurfamannatíund. Um þessar mundir var lundaveiði ákaflega mikil. 1861 komst framtalið hjá þeim, er mest tíundaði, upp í 22,000 lunda; fiðurinnlegg hans var 1100 pund.²¹)
Með tilskipun 10. ágúst 1868, um breytingu á ákvörðunum um spítalahlutina, var ákveðið samkv. 1. gr., að af öllum bátum og skipum, sem gerð væru út til fiskveiða, skyldi hér eftir greitt: Af hverju tólfræðu hundraði af þorski, ýsu, steinbít og háf hálf alin, og af hverri lýsistunnu ein alin. Skyldi gjaldið eins og áður renna til læknasjóðsins. Um spítalahlutina segir í 6. gr. tilskipunarinnar, að ákvæði konungsbréfs frá 26. maí 1824 gildi framvegis.²²) Samkv. tilsk. 1868, 3. gr., skyldi skipseigandi greiða spítalagjaldið, ef hann er innanhrepps, annars formaður.
Vestmannaeyingar sendu Alþingi beiðni 1871 um að ákvæðum téðrar tilskipunar frá 1868 yrði breytt á þann veg, að hálf alin yrði framvegis greidd af hverjum hlut af hverju tólfræðu hundraði og hálf alin af lýsistunnu í stað heillar. Þessari beiðni eyjamanna um niðurfærslu gjaldsins vildi Alþingi eigi sinna.²³) Eftir staðfestingu laga 15. okt. 1875 um læknahéraðaskipun o.fl. var læknasjóðurinn tekinn inn í landssjóð eftir lok fjárhagstímabilsins 1876—1877.²⁴)
Um spítalahlutina kom út ný tilskipun 12. febr. 1872, um spítalagjöld af sjávarafla, og voru hér gerðar nokkrar breytingar á þessu gjaldi, svo sem mismunandi gjald af söltuðum fiski og hertum, og sérstaklega ákveðið gjald af fiski, sem saltaður var í tunnur. Skyldi gjaldið sem áður renna í læknasjóðinn.²⁵) Undir ákvæði tilskipunarinnar kom allur sjávarafli, þar með talin síld, sbr. landsh.br. 26. júlí 1880 til amtmannsins í Suður- og Vesturamtinu.²⁶)
Með tilskipun um veiði útlendinga hér við land frá 12. febr. 1872 var útlendum mönnum leyft á sex tilgreindum stöðum hér, þar á meðal Vestmannaeyjum, án þess að greiða lestargjald, með leyfi lögreglustjóra að leggja upp þá hluti, sem þeir höfðu til atvinnu sinnar, gegn allt að 50 rd. gjaldi til fátækra þar á staðnum.
Eftir að búið var að upphefja læknasjóðinn var spítalagjaldið afnumið og nú lögleitt útflutningsgjald, sbr. lög 4. nóv. 1881, um útflutningsgjald af fiski og lýsi, og var með téðum lögum upphafin tilskipunin frá 1872 um spítalagjaldið af sjávarafla frá fardögum 1882. Sömuleiðis var úr gildi numið konungsbréf 26. maí 1824 um spítalagjald af fuglatekju.²⁷) — Eftir að fyrrnefnd breyting var komin á og sveitin svipt spítalagjaldinu, er að sumu leyti hafði komið í stað almennrar tíundar, hlutu aukaútsvörin að hækka, en eigi var búið að lögleiða hér ennþá neina almenna tíund. Sendu eyjamenn nú beiðni til stjórnarinnar um það, að framvegis yrði greidd tíund af konungsjörðunum til handa sveitarsjóði, og farið fram á 50 rd. greiðslu árlega um 3 ára bil fyrst um sinn. Var amtið þessu meðmælt, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins til stiftamtmanns 25. ágúst 1869 og bréf þess 21. febr. 1870.²⁸) Eigi vildi stjórnin verða við þessari beiðni, sbr. áðurnefnd bréf dómsmálaráðuneytisins. Var áfram um nokkurt skeið eigi tekin upp fasteigna- eða lausafjártíund hér. Stjórnin veitti í 3 ár allríflegan styrk til nýræktar á túni, Nýjatúni, er var að skoða sem eins konar atvinnubótavinnu, er fátækir menn voru látnir fá. Fjárveiting sú, er stjórnin ætlaði til þessa, 500 rd., var þó eigi öll notuð.
Sveitarsjóði bættust fyrst 1878 hinir afnumdu tekjustofnar, spítalahlutirnir með fátækratíundinni, eða þeim hluta lausafjártíundarinnar, er ákveðið var með lögum um lausafjártíund 12. júlí 1878 að falla skyldi til fátækra og greiðast sveitarsjóði.²⁹) Fátækratíund af fasteign og lausafé var numin úr gildi með lögum nr. 46, 2. nóv. 1914,³⁰) sbr. og lög 22. nóv. 1907 um afnám fátækratíundar af fiskafla.³¹)
Tíund af fasteign og lausafé var loks lögleidd hér með lögum nr. 25 frá 14. des. 1877, 2. gr., um skattgjald í Vestmannaeyjum, og segir svo: Hina sömu skatta og gjöld, bæði af fasteignum og lausafé, sem annars staðar á landinu skal greiða í Vestmannaeyjum til landssjóðs, kirkju og fátækra. Komið hafði fram frumvarp til laga um tíundargjald í Vestmannaeyjum með þeirri hljóðan, að tíundargjaldið skyldi vera hið sama hér sem í öðrum landshlutum. Þessu frumvarpi, er þingmaður eyjanna bar fram, var breytt þannig og hlaut staðfestingu sem lög um skattgjald í Vestmannaeyjum.
Frá tíundargjaldi af fasteign veittist engin undanþága af þeirri ástæðu, að tíund hafði eigi að undanförnu verið greidd af jörðum hér. Eyjamenn, sem, eins og áður getur, sátu við erfið og óhagstæð ábúðarkjör, vildu vera undanþegnir því að greiða ábúðar- og lausafjárskatt, og fóru fram á það við umboðsmann, að fasteignatíundin af jörðum þeirra væri greidd úr landssjóði, er nú var orðinn eigandi jarðanna. Fóru bréf um þetta milli sýslumanns og stjórnarvaldanna, og var málaleituninni neitað, sbr. landsh.úrskurð 9. marz 1880 með tilvísun til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 25 frá 14. des. 1877.
Þess skal getið, að árið 1865 höfðu eyjamenn fengið kornlán, 400 rd. til kaupa á 25 tn. af rúgi og 25 tn. af bankabyggi, og skyldi lánið greiðast af inneign fátækrasjóðs í jarðabókarsjóði. 10 árum síðar, 1875, fengu eyjamenn 1000 kr. lán hjá landssjóði til kaupa á 50 tn. af rúgi til þess að koma í veg fyrir hungursneyð á í hönd farandi vetri. Lánið skyldi greiðast að fullu á tveim árum. Sýslumaður hafði og farið fram á að fá handa eyjabúum 50 tn. af rúgi sem gjöf, en því var neitað.³²)
Með lögfestingu laga nr. 25 frá 14. des. 1877, sbr. lög 12. júlí 1878, voru Vestmannaeyjar loks komnar undir sömu lög og aðrir landshlutar hér á landi um skattgreiðslur og tíundir.
Úrskurðarvald í sveitarstjórnarmálum heyrði undir landshöfðingja frá 1875, en áður undir íslenzku stjórnardeildina í Kaupmannahöfn. Sýslunefndir og amtsráð voru skipuð, sbr. tilskipun 4. maí 1872. Amtsráðin voru síðar ákveðin fjögur í stað þriggja áður, og amtsráðsmaður kosinn úr hverju sýslufélagi, nema Vestmannaeyjum.


Stutt yfirlit um síðari tíma framlög.


Meðaltal yfir tímabilið 1836—1846:
Sveitartíund (aukaútsvar og lausafjártíund) um 3400 fiskar, þar af um 1/6 lausafjártíund.
Óvissar tekjur, þar með innstæða fátækrasjóðs, vextir m.m.

Sjóðseignin fer stöðugt vaxandi og er 1849 yfir 2000 rd. Lausafjáreign eyjabúa, sem tíund er dregin af, nemur á nefndum tíma frá 120—200 hndr. á landsvísu.
1860: Aukaútsvar 16½ hndr. Lausafjártíund engin nú.
1870: Aukaútsvar 54 hndr.
1880: Aukaútsvar 2529 kr. Aðalupphæð (hér með talin inneign í sjóði) 4347 kr.
Inneign (eftirstöðvar af tekjum, vextir o.fl) nemur oft árlega álíka upphæð og aukaútsvarið. 1900: Aukaútsvar 2485 kr. Aðalupphæð 5367 kr. 1910: Aukaútsvar 4262 kr. Aðalupphæð 10945 kr.
1920: Aukaútsvar 98090 kr. Vestmannaeyjar nú orðnar kaupstaður, sbr. lög nr. 26, 1918. Eignir bæjarsjóðs samtals 326,427 kr., skuldir 294,062 kr. Nettóeign 32,365 kr.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Sjá athugasemdir á reikningi umboðsmanns í skilagrein umboðsins 1586—1601.
2) Um þurfamannafiskinn sjá umboðsskilagreinir frá lokum 16. aldar og skýrslur yfir tímabilið 1631—1704, Reikningsbók Landakirkju, Þjóðskjs.
3) Lovs. I, 246—247.
4) Reikningar Klausturhólaspítala og Kaldaðarness 1692—1797, Þjóðskjalas.
5) Norske Reg. 35, 489—495; tilskipun um hospítölin á Íslandi, Lovs. II, 581—588. Um spítala sjá og lögþingisb. 1657, nr. 29.
6) Sjá t.d. spítalareikninga fyrir árið 1716.
7) Norske Tegn. XXXII, 372—373; Lovs. III, 34.
8) Isl. Kopieb., Litra T., nr. 1224, 1228 og 1210; Lovs. IV.
9) Um 1800 er dánartala hér há af völdum skyrbjúgs og holdsveiki, sbr. dánarskýrslur í kirkjubók.
10) P. Pétursson: Hist. Eccl. Isl., 246; Lovs. VIII, 500.
11) Leiga af 3 1/2 hndr. og 2 1/2 hndr.: 42 og 30 álnir.
12) Reglug. 1834 um fátækramálefni m.m.
13) Spítalareikn. 1692—1753, Þjóðskjs.
14) Sýsluskjöl V.E. frá fyrri hluta 19. aldar, Þjóðskjs.
15) Hreppsreikningar Vestmannaeyja 1853—1861, Þjóðskjs.
16) 1861—1862 voru Solveigu Pálsdóttur greiddir 25 rd. í laun og Önnu Benediktsdóttur 5 rd. — Greiddur var og úr sjóðnum ferðakostnaður yfirsetukvennaefna til dvalar við fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn 1853 og 1861.
17) Tíð. frá Alþ. Ísl. 1861, 16—18, 101, 484—489, 503—516, 1039—1041.
18) Tíð. frá Alþ. Ísl. 1861.
19) Isl. Porest. og Resol. Protok. 1863, nr. 9; Tíð. um stjórnarmálefni Íslands I, 693—696; Lovs. XVIII, 521—525.
20) Tíð. frá Alþ. Ísl. II, 1865.
21) Hreppsreikningar Vestmannaeyja.
22) Isl. Forest. Resol. Prot. 1868, nr. 21; Tíð. um stjórnarmálefni Ísl. 1868; Lovs. XX, 87—91.
23) Tíð. frá Alþingi 1871.
24) Stjórnart. 1875, B, 102.
25) Isl. Forest. og Resol. Prot., nr. 8; Lovs. XXI, 165—168.
26) Stjórnart. 1880, B, 120.
27) Lagas. III, 1872—1886.
28) Kopieb. 1869 og 1870, nr. 766 og 797; Tíð. um stjórnarmálefni Ísl. II, 815—816; Lovs. III, 15—20, 429 og 456.
29) Reglugerðir fyrir skattanefndir frá 15. maí 1878.
30) Stjórnart. 1914, A, 59.
31) Stjórnart. 1907, A, 74.
32) Tíð. um stjórnarmálefni Ísl. 1865, II; landsh.br. 22. okt. 1875; Stjórnart. 1875, 13, 86.

4. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit