Saga Vestmannaeyja II./ IX. Yfirlit og niðurstöður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




IX. Yfirlit og niðurstöður


Í Vestmannaeyjum voru náttúruskilyrði góð, útgerð mikil og fiskisæld. Af eðlilegum ástæðum hefði því mátt vænta sæmilega góðrar fjárhagslegrar útkomu og að safnazt hefðu hér fyrir smám saman töluverðar eignir, svo sem í húsum, mannvirkjum og öðrum verðmætum, er komið hefðu niðjunum til góða. En því fór fjarri, að þessu væri svo varið. Fljótt var seilzt til þessa arðsama héraðs og jörðum þess og lendum ásamt helztu atvinnutækjum komið undir erlend yfirráð. Með þessu voru mótuð örlög eyjanna um margar aldir. Eins og sjá má af því, er lýst hefir verið hér að framan, settu hin opinberu eignarumráð sinn ákveðna svip á atvinnulíf eyjabúa og reisti sjálfsbjargarviðleitni þeirra miklar hömlur. Ofan á stjórnarfarslegt einræði og verzlunaránauð bættist drottinvaldið í raunverulegri mynd og hlóð kvöðum og álögum á leiguliðana, er voru næsta ófrjálsir á landi sem á sjótrjánum eða sjónum, er þeir eigi máttu sækja á eigin skipum.
Eyjarnar mátti skoða sem heimalendu konungs eða góss, er undir krúnuna lá. Eyjabændurnir voru á dögum konungsverzlunarinnar — en þá var líka verulega farið að herða á — kallaðir bændur krúnunnar, „Kronens Bönder“. En fremur mátti líkja þeim við danska hjáleigubændur, „Hoveri Bönder“, en eiginlega kóngsbændur í þeirri merkingu, sem þetta orð hefir annars staðar. Bændurnir máttu yrkja jarðakríli sín, róa út á sjóinn, þar sem þeim var niðurskipað. Vörur voru þeim skammtaðar frá verzluninni gegn framleiðsluvörum þeirra. Aðstaða þeirra var eins og daglaunamanna, en ekki framleiðenda, sem þeir í raun og reynd voru. Minnir þetta á aðferðir stjórna í ýmsum nýlendum Suðurálfu. Eyjarnar voru eins og hérað í Danmörku sjálfri. Þar var tekin upp varzla á sjónum, þótt ekki væri hún annars staðar hér við land, og tolleftirlit eins og við Eyrarsund. Lögreglustjórinn hér var ekki íslenzkur embættismaður. Til þess að verja auðlindir sínar í Vestmannaeyjum hafði konungur og seinna einokunarkaupmenn ýmsar aðgerðir í frammi. En einokunarkaupmennirnir voru arftakar konungs hér. Þeir fengu í sínar hendur öll réttindi konungs í eyjunum og þar með skipastól konungs. Vegna hinna miklu hlunninda og yfirráðanna yfir aðalatvinnurekstrinum og yfir jörðum og lendum hér, hlaut konungur töluvert hærri verzlunarleigu af eyjunum en af öðrum verzlunarstöðum. Að eyjamönnum virðist hafa verið svo búið, að þeir gátu ekki eignazt neitt. Hér var öldum saman einhliða lánsverzlun, er hremmdi með föstu tangarhaldi hvern drátt úr sjónum. Arðurinn rann út úr héraðinu til kaupmannanna, er voru stórauðugir borgarar í sínu landi og margir þeirra sæmdir heiðurs- og tignarmerkjum fyrir rausn og stórgjafir til opinberra þarfa í heimalandi sínu. Þetta og margt fleira uppskáru þeir af þeim auði, er þeim barst héðan.
Í fullu samræmi við þá hagsmunapólitík fyrir konung sjálfan og danska kaupmenn, er hér var rekin, var hið sérstæða tíundarfyrirkomulag, um tíundir af afla og ávöxtum, en eigi af lögleigu. Ekkert var hér til að skattleggja nema framleiðslan, á henni hvíldu og launagreiðslur allar. Af hinum sameinuðu presta-og kirkjutíundum hlaut konungur lengi 1/3 hluta til uppbótar á skattana. Ekkert var afgangs til nauðsynlegra framkvæmda fyrir héraðið, vegabóta, húsabygginga eða annars. Af sjónum hafði þorri manna bjargræði sitt. Fólkinu fjölgaði í góðu árunum og ný tómthús risu upp. Þegar árferði versnaði hvarf fólkið héðan á braut aftur, rétt eins og hjú, sem sagt er upp vistum, enda kipptu kaupmenn þegar að sér hendinni, er fiskur tregðaðist, og minnkuðu útgerðina. Ekkert var til að mæta með hörðu árunum. Ástandið hér í eyjunum, sem alltaf hafði farið versnandi alla 18. öldina, var orðið mjög bágborið á síðustu áratugum aldarinnar, sem raunar alls staðar hér á landi, en ekki mæddu hér plágur móðuharðindanna. Hér var t.d. enginn fénaðarfellir. Meira að segja er það í frásögur fært, að hér hafi engin skepna drepist af orsökum eldplágunnar. En það, sem ekki var betra, virtist nú á daginn komið: fiskistofninn sýndist þrotinn. Fólkið flúði héðan. Eftir voru af tómthúsmönnum þrír eða fjórir. Sem betur fór rættist bráðlega úr aftur. Fiskur gekk í ála og tók að veiðast aftur. Munu þá hafa verið teknar upp nýjar veiðiaðferðir. Á hverri öld hafa komið hér tímabil, er verið hefir fiskitregða mikil, en alltaf hefir rætzt úr aftur.
Jarðabændurnir voru þeir einu, er hér gátu setið af sér óáran og plágur, er á eyjunum mæddu. Þess sést naumast getið, að þeir nokkurn tíma yfirgæfu jarðir sínar. Er fróðlegt að svipast um og sjá, hversu þeim farnaðist hagnýting landsnytjanna. Hér var eingöngu um smábýlabúskap að ræða, en því aðeins gat hann komið að fullum notum, að menn snéru bökum saman og tækju upp víðtæka samvinnu. Það er harla lærdómsríkt fyrir okkur, þessarar aldar menn, að athuga hve haganlega gömlu eyjabændurnir höfðu komið málum sínum í horf á samvinnugrundvelli. Mjög snemma hafa hér myndazt fastar reglur og venjur, er fylgt var kynslóð eftir kynslóð. Fuglaveiði og eggjatöku venjulega stillt svo í hóf, að stofn nytjafuglsins rýrnaði eigi, svo að stöðugt varð haldið við allarðsamri atvinnugrein, er skilaði góðu búsílagi, er bætti mikið upp fæð kvikfénaðarins. Það þurfti að vísu meira en meðalmannshyggindi og búskaparvit að kunna að leifa af og hætta stundum t.d. þegar hæst stóð, eins og átti sér stað stundum við lundaveiðina, og geyma ókomna tímanum sitt. Hins vegar gat og of mikil friðun valdið stórtjóni, svo að fuglinn hafði það til að hrynja niður í of þéttsettum fuglabyggðum og við of nauman ætis- eða sílakost úr sjónum. Hér var vandratað meðalhófið. Tilhögunin öll og reglurnar um veiði mátti heita allflókið viðfangsefni, a.m.k. fyrir ókunnuga, en var eyjabúum sem óskrifað lögmál. Hér hefir löngum búið atorkusamt og þróttmikið fólk. Vér höfum séð, hvernig menn hafa sótt föng í fjöllin og út á hinn sollna sæ, og hvergi látið bugast af hættum og erfiðleikum, sem hin stranga lífsbarátta lagði fólkinu á herðar. Í hið skipulagsbundna form yfir athöfnum, í fjalla- og sjósókn, var haldið fast af ráðandi mönnum meðal bænda og sjómanna. Með félagslegum samtökum og samlögum var útgerð eyjamanna sjálfra loks rudd braut.
Einn votturinn um sterkan félagsþroska var það, hversu lengi tókst að halda uppi hinni svokölluðu vöku á Helgafelli. Seinna kom Herfylking Vestmannaeyja til sögunnar, þar sem nær allir vopnfærir menn hér af frjálsum og fúsum vilja gengu í eina samfylkingu í því skyni að gegna skyldum lögreglusveitar og landvarnarliðs gegn árásum og ofstopa af hendi útlendinga, ef til kynni að koma. Út frá þessum viðfangsefnum vaknaði sjálfsmeðvitund fólksins og viðnámsþróttur þess efldist. Í kjölfar Herfylkingarinnar og beinlínis í sambandi við hana fylgdi ýmislegt gagnlegt. Vestmannaeyingar urðu öðrum fyrri til þess að koma á stað ýmsu, er seinna var talið sjálfsagt í baráttunni fyrir aukinni menningu þjóðarinnar; má t.d. nefna vísir að bókasafni, bindindisfélag, íþróttastarfsemi, einnig vátrygg.fél. o.fl.
Fjárhagsleg viðreisn hefst hér smám saman upp úr miðri næstliðinni öld, þegar menn voru sjálfir farnir að standa að mestöllu leyti að útveginum. Bændur fara nú að eignast húsin á jörðunum og ný hús eru reist, betri og veglegri en áður höfðu þekkzt. Á mörgum þarflegum umbótum tekur að brydda, er miða til almenningsheilla, og hneig stöðugt meira og meira í áttina til hinna miklu framfara og breytinga, er hér urðu upp úr aldamótunum síðustu og sífellt gerðust stórstígari eftir því sem fram leið.
Viðreisnarstarfið hefst til fulls með 20. öldinni, og er hinu erlenda verzlunaroki loks var aflétt, var leystur síðasti þáttur þess fjöturs, er legið hafði um aldir yfir atvinnulífi manna. Upp úr nýju öldinni hefst nýtt landnám bæði eyjamanna sjálfra hér, eða það er engu líkara, og ungt og tápmikið fólk úr næstu þremur sýslunum á landi og víðsvegar að, af Austfjörðum og Norðurlandi og víðar, sækir hingað og hér verða framtíðarheimili þess. Er óhætt að fullyrða, að óvíða hefir verið meira og betra einvalalið en hér í Vestmannaeyjum, og margir, sem verulega sópaði að, að dugnaði og framtakssemi. Verzlun og útgerð á eigin höndum eflist stórkostlega með ári hverju. Vélbátar koma í stað árabáta. Ný og fullkomnari tækni á öllum sviðum og nýjar veiðiaðferðir koma til. Hér gerast í atvinnu-og fjárhagslífinu örskreiðari og stórkostlegri breytingar en nokkurn hefði getað órað fyrir.
Á fyrstu 30 árum aldarinnar fimmfaldaðist fólksfjöldinn í Vestmannaeyjum. Á sama tíma fimmtánfaldaðist fiskútflutningurinn. Fiskaflinn nam (sjá og hér að framan):

1899: 369.000 pd. af þurrum, verkuðum saltf. Vertíðarb. 30
1915: 9.900 skpd. Vélbátar 73
1921: 22.341 — — — —75
1930: 45.696 — — — —95
Meðaltal 1926—1930: 36.678 skpd. (Ýsa, ufsi og smáf. meðt.)
1931—1938: 5859 ½ tonn. (— — — — — — — )

Sem dæmi um hina miklu fiskisæld hér er þess getið, að árið 1928 aflaðist hér rúmlega 2 millj. fiska á tæpum 3 vikum, mest frá 8.—22. apríl. í skpd. fer af vænum þorski innan við hundrað. 45 pottar af lifur er talið að fáist úr jafnmörgum fiskum og fara í skpd.
Húsaverð 1922: Á jörðum kr. 145.000. Skattskyldar húseignir kr. 2.329.400. Opinberar fasteignir kr. 166.900. Húsaverð var 1922 hæst í Vestmannaeyjum af kaupstöðunum.
Árið 1931 nema skattskyldar húseignir hér kr. 6.260.600; skattfrjálsar kr. 405.600. Landverð meðal skattskyldra fasteigna kr. 2.222.900. Landverð meðal skattfrjálsra almenningseigna kr. 29.800. Áður er getið um niðurflokkunina á lendum og lóðum í 8—9 flokka. Hámark veðdeildarlána út á hús í kaupstöðum var um 50% af veðdeildarmati.
1907 námu afgjöld hér af jörðum og tómthúsum í landaurum 3522½ alin, auk peningagreiðslu, kr. 390,70. Greidd var þá lóðarleiga af 53 tómthúsum og 4 verzlunarstöðum. Öll íbúðarhús í kauptúninu voru fram til þess tíma nefnd tómthús. Árið 1937 voru hér 16 þurrabúðir með húslóð og 26 þurrabúðarlóðir húslausar. Þurrabúðarlóðirnar eru stærri en venjulegar húslóðir, en leigugjaldið samt miklu lægra í flestum tilfellum, einkum eftir elztu þurrabúðirnar. Þurrabúðunum hefir fækkað mjög seinni árin og hverfa smám saman, því að engin er leigð sem slík framar. Venjuleg lóð undir íbúðarhús er 240 ferm.
Á 30 ára tímabili, miðað við árið 1907, höfðu tilfallin gjöld af eignum ríkissjóðs í Vestmannaeyjum meira en nífaldazt og námu 1937 kr. 23.756,00. Goldið var eftir 543 húslóðir, 16 þurrabúðir með húslóð, 26 þurrabúðarlóðir, 38 verzlunarlóðir, 185 fiskhús, 227 ræktunarlóðir, 131 lóðarréttindalausa eign, 170 þerrireiti, 4 jarðatún, 44 jarðir. Venjulegar lóðir og ræktunarlóðir eru leigðar með rétti til að selja og veðsetja. Þess ber að geta, að til jarðræktar hér hafa verið veittir styrkir skv. ræktunarlögunum. Ríkissjóður hefir veitt allmikið fé til vegagerðar, vegna nýræktarinnar hér, hina svokölluðu ræktunarvegi.

Manntalsþingagjöldin héðan námu:
1933 kr. 59.113,19
1939 —122.700,00
1942 — 1.239.000,00
Innheimtar ríkissjóðstekjur:
1933 — 568.000,00
1939 — 533.000,00
1942 — 939.000,00

Hér eru auðvitað ekki meðtalin lífeyrissjóðsgjöld og tryggingargjöld, né heldur fiskimálasjóðsgjöld og fiskiveiðasjóðsgjöld.

Reikningur Vestmannaeyjabæjar 1939:
Tekjur kr. 485.917,40. Þar með talið útsvar kr. 212.888,60. Tekjur umfram gjöld kr. 39.525,29. Eignir umfram skuldir kr. 296.315,97.

Reikningur bæjarins 1941:
Tekjur kr. 805.000,00. Tekjur umfram gjöld kr. 199.800,00.
Eignir kr. 1.093.533,63. Eignir umfram skuldir kr. 503.643,80.
Útsvar á lagt 1942 kr. 1.201.690,00.

Hafnarsjóður:
Efnahagsreikningur 1939 kr. 1.848.450,81. Eignir umfram skuldir kr. 1.148.408,85.

Hafnargarðar kr. 738.400,00
Básaskersbryggja — 421.700,00
Bæjarbryggja — 99.000,00
Hafnarfestar — 80.000,00

Efnahagsreikningur 1941 kr. 1.731.979,70. Eignir umfram skuldir kr. 1.185.559,39.

Vörugjöld námu 1941 rúmlega kr. 180.000,00
Hafnargjöld aðkomuskipa um — 30.000,00
Lestar- og festargjöld — — 18.000,00
Tillag ríkissjóðs til hafnarinnar — kr. 36.000,00

Framlög úr ríkissjóði samtals árin 1936—1942 til Vestmannaeyjahafnar kr. 225.000,00.
Ábyrgð ríkissjóðs á lánum 1924 kr. 300.000,00,— 1938 — 150.000,00.

Smíði hafnargarðanna í Vestmannaeyjum var lokið 1922. Eyjamenn kostuðu verkið að 3/4 hl. og ríkissjóður að 1/4 hl. og gekk í ábyrgð fyrir hinu fénu. Alls hafði verið kostað til hafnarinnar, er verkinu var lokið, kr.1.300.000,00.¹)
1928 nam jafnaðarreikningur útbús Útvegsbankans h.f. hér kr. 1.802.617,00.
Víxilskuldir voru kr. 1.427.128,00. Skuldirnar við bankann aukast mikið tvö næstu árin og 1930 nema víxilskuldirnar kr. 3.114.312,00 og ná hæstri upphæð þá, miðað við árabilið 1919—1938.
Jafnaðarreikningur útbúsins nam 1938: kr. 3.842.350,00, — 1942: kr. 6.904.922,00.
Víxlar nema kr. 5.532.275,00. Sparisjóðsfé kr. 3.989.114,00. Hlaupareikningur kr. 1.476.310,00.

Vér höfum séð, hvernig eins konar furðuverk gerðust hér með hinni stórauknu fiskiframleiðslu, eftir að farið var að nota hin nýju veiðitæki og nýjar veiðiaðferðir. En öflun þessara miklu verðmæta kostaði og geysimikið fé. Frá útveginum hér hefir jafnan runnið mikið fé í kaupgreiðslum til utanhéraðsmanna. Þegar útgerðarkostnaðurinn tók nokkuð að lækka eftir 1920, þá fór fiskverð að lækka, sem var enn tilfinnanlegra. Útgerðarmennirnir, sem margir byrjuðu með lánsfé, áttu erfitt með að komast úr skuldum. Veiðarfæratap olli oft miklu tjóni. Oft voru þorskanetin að vísu lögð um víðan sjó, svo sem t.d. austan frá Pétursey og vestur fyrir Þjórsá. En einatt hefir fiskurinn verið á takmörkuðu svæði, svo að bæði heimabátar, 70—80 að tölu, hver með 3 netatrossur að jafnaði, með frá 10—18 net, tugir togara og seglskipa hafast við á sama svæðinu. Hefir þá stundum lent í hinu mesta fári og hlotizt af gífurlegt veiðarfæratjón. Í þessu tilliti hefir þó margsinnis verið hin mesta hjálp að eftirlitsskipinu.
Góðæri mikil til sjávarins voru hér 1924 og 1927, en komu þó eigi að fullum notum, einkum árið 1927, vegna verðfallsins árið á undan. Þungi kreppuáranna lagðist hér að. Erfiðleikar útgerðarinnar fóru stöðugt vaxandi, þrátt fyrir fiskisældina. Árið 1930 verður einkum minnisstætt og árið 1931, verðfallsárið mikla, og 1932. Svipað ástand hélzt áfram hér sem annars staðar á landinu næstu árin. 8 útgerðarmenn hér í eyjum og 1 útgerðarfyrirtæki fengu skuldaskil á árunum 1936 og 1937 á vegum skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda.
Viðskiptatálmanir og markaðshömlur torvelduðu fisksöluna, en útgerðarkostnaðurinn jókst stórum. Útgerðin var hjá mörgum rekin með tapi og skuldir hlóðust upp. Bæjarfélagið hér átti við mikla örðugleika að etja. Ástandið í útgerðarmálunum má telja að hafi farið batnandi á næstu árum fyrir 1940. Menn freistuðu að finna nýjar leiðir út úr ógöngunum, sem verðfallið á saltfiskinum og markaðstregðan hafði skapað, svo sem með aukinni ísfisksölu og með aukinni og bættri hagnýtingu fiskafurða. Hér kom einnig að miklu liði hin stöðugt vaxandi framþróun á ýmsum sviðum í þeim málum, er lúta að útgerð og sjósókn, og virtist sem menn gætu öruggir horft til framtíðarinnar og bættrar afkomu.
Á þeim sex árum, sem liðin eru frá því seinni heimsstyrjöldin hófst, sem nú er lokið, hafa eins og kunnugt er orðið stórkostlegar breytingar og útþensla í atvinnu- og fjárhagslífi hinnar íslenzku þjóðar, og í miklu ríkari mæli en í fyrri heimsstyrjöldinni, — þjóðartekjurnar hafa margfaldazt og þjóðareignirnar aukizt stórum. Vestmannaeyingar hafa lagt sinn skerf og vel það til þessarar aukningar. Verður eigi frekar út í þetta farið hér eða rætt viðhorfið eftir styrjöldina. Vestmannaeyingar hafa lagt allmikið fé af hinum nýfengna gróða í endurbætur og viðhald skipaflotans og húsa og í nýbyggingar, og reyna þannig að búa í haginn fyrir ókomna tímann.
Fiskimiðin hér hafa löngum verið uppspretta, sem innlendir og erlendir hafa ausið af. Fyrstu landhelgislögin hérlendis voru sett fyrir Vestmannaeyjar einar, og héðan eru fyrstu frásögur um landhelgisbrot. Sama ásælni hefir haldizt síðan. Framtíðarmarkmiðið er fullkomin varzla landhelginnar, sem nauðsynlegt er að verði stækkuð að fengnum löglegum samþykktum þar um.
Nota verður í fyllsta mæli, bæði við veiði og vinnslu fiskjar og fiskafurða, fullkomnustu nútímatæki, að því er snertir báta, vélar og tæki til að vinna úr sjávarafurðum, og við framsendingu varanna á heimsmarkaðinn. Skylt er að notfæra sér þá beztu vísindalegu þekkingu, sem kostur er á, til varðveizlu fiskstofnsins, og til styrktar í ýmsu öðru, er að útvegsmálum lýtur.
Allerfitt hefir verið á síðustu árum að fá nægan liðsafla til að manna út bátana, og virðist hér vera töluvert vandamál á ferðinni.
Útfærsla fiskimiðanna, t.d. með bættri aðstöðu og réttindum til veiða og hafna við Grænland, virðist mjög þýðingarmikið atriði fyrir útveginn í framtíðinni, því að svo sýnist, sem þrengist fremur um fiskimiðin og meiri fiskitregðu verði vart. Búast má og við, að stöðugt vaxandi fiskiskipafloti frá ýmsum löndum sæki hingað aftur á miðin, er hafa verið hálffriðuð nú um nokkur ár, og sama þröngbýlið og öngþveitið á fiskimiðunum hefjist aftur.
Vestmannaeyjahöfn er fyrsta höfn, sem komið er að, og síðasta frá, á ferðum til og frá landinu í utanlandssiglingum. Hún er og einasta höfnin fyrir Suðurlandsströndinni. Hér er mikil þörf fullkominnar og öruggrar hafnar, sem í verzlunar- og siglingabæjum, bæði af greindum ástæðum og vegna hins mikla atvinnurekstrar og útgerðar í eyjunum. Þörf tímans krefst nýtízku hafnar, þar sem öll skip, er hingað leita, geta lagzt og farið ferða sinna á hvaða tíma sem er. Þegar búið er að koma þessu í kring og byggja traustan flugvöll til afnota við flugferðir, opnast ný framtíðarviðhorf í atvinnu- og siglingamálum eyjanna, og þá jafnframt gert ráð fyrir, að búið verði að koma upp togaraútgerð svo um muni hér í eyjum, og raforka nægileg til alls konar iðnaðarþarfa og iðjuvera.
Gera má og ráð fyrir auknum ferðamannastraumi til eyjanna, þegar samgöngurnar eru komnar í viðunarlegt horf, og þarf að hefjast þegar handa um ýmsan undirbúning í þessum efnum.
Æskilegt væri, að haldizt gæti í hendur framvegis, eins og var áður á blómatímum eyjanna, aukinn sjávarútvegur og aukin ræktun landsins, og kúm fjölgað að stórum mun svo að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf eyjabúa, og jafnframt verði framleidd nægileg mjólk til afnota fyrir væntanlega fiskniðursuðuverksmiðju hér.
Lausn þessara mála, er hér er vikið að, miðar að aukinni tryggingu og öryggi, ekki einungis til hagsmuna fyrir eyjarnar, heldur og fyrir þjóðarheildina.

Heimildir neðanmáls í þessum kafla:
1) Lög nr. 23, 1926 um bæjargjöld í Vestmannaeyjum; reglug. nr. 23, 1938; lög nr. 66, 1938 um vörugjöld fyrir Vestmannaeyjakaupstað; sjá og seinni lög og reglugerðir um sama, einnig hafnarlög og reglugerðir.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit