Saga Vestmannaeyja I./ VIII. Þjóðlífslýsingar, 5. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. desember 2011 kl. 21:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. desember 2011 kl. 21:07 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Matföng og matarhæfi.


Gott hefir ætíð verið hér til matfanga, bæði af landafurðum og einkum þó af sjávarafla og fugli. Matarhæfi hjá bændum hér mun hafa verið öllu betra og fjölhæfara en gerðist í sjávarþorpum. Tómthúsmennirnir voru ver settir, en þeir höfðu samt og fuglinn til að bæta sér upp. Mataræði var nokkuð misjafnt eftir árstímum, mest einhliða, er út á dró, á vertíð og á vorin. Sjómenn voru vanir því fyrrum að fara fastandi á sjóinn, og þegar heim var komið að kvöldi voru allar dagsmáltíðirnar étnar í einu. Var þetta rótgróinn siður. Stundum voru tvær dagsmáltíðirnar af fiski, önnur af saltfiski og hin af nýjum fiski. Hjá viðlegumönnum í úteyjum var mataræði einhliða.
Almennt matarhæfi á seinni hluta 19. aldar: Á morgnana drukkið kaffi, molakaffi, stundum haft síróp út í. Grasavatn drukku sumir. Morgunmatur var étinn kl. 10, mest saltfiskur, trosfiski, ýsa, stundum söltuð í bútung, keila, söltuð og verkuð, langa, ufsi og skata. Á vertíð nýr fiskur, þar á meðal lúða. Á sumrin veiddist mikið af soðfiski, stútung og keilu, lúðu, skarkola o.fl. Með fiskinum voru skammtaðar gulrófur og kartöflur, eftir að farið var að rækta þær til muna eftir miðja öldina.
Kálgarðar, þar sem ræktaðar voru gulrófur og grænkál og fleira grænmeti, voru fyrrum við bæi og oft getið á öndverðri 19. öld. Bjarni Stefánsson bóndi á Búastöðum lærði garðrækt erlendis um 1820, mun hafa farið utan á vegum landbúnaðarfélagsins danska. Mun hann síðar hafa leiðbeint við garðrækt hér, en stjórnin sendi lengi rófna- og grænkálsfræ m.m. hingað til útbýtingar meðal bænda. Ein af endurbótatillögum stjórnarinnar um það leyti, er einokuninni var létt af, var að koma á kornrækt hér í eyjum og auka mjög garðrækt. Ekkert varð samt af þessu annað en að haldið var áfram kálfræsendingunum. Mikið hefir og verið notað af hvönnum og hvannarótum og höfðu margir fyrrum hvannagarða. Eimdi nokkuð eftir af þessu lengi. Stórir hvannagarðar voru til skamms tíma á tveim helztu býlunum hér. Á seinni hluta 18. aldar var einum bónda hér, Halli Hróbjartssyni á Búastöðum, veitt verðlaun af stjórninni fyrir framkvæmdir í jarðrækt.
Kartöfluræktun hér hóf fyrst Jóhanna Roed veitingakona um 1850. Útsæðið var frá Skotlandi, blárauðar kartöflur, er reyndust hér mjög vel og voru lengi við líði hér. Frá eyjunum barst kartöfluræktunin til nærsveitanna á landi. Árið 1853 voru hér 60 kálgarðar, frá 7 ferföðmum að stærð. Langstærsti garðurinn var 61 ferfaðmur. 1859 var kálgarðatalan komin upp í 100 og margir garðanna yfir 60 ferfaðmar og upp í 110 ferfaðma. 1907 voru kartöflugarðar hér alls að stærð 15519 ferfaðmar. Uppskera þá af garðávöxtum hjá þeim, er mest höfðu, 20—30 tunnur og þar yfir. Sigurður Sveinsson í Nýborg skaraði fram úr í kartöflurækt. Kartöflurækt er nú orðin allmikil hér. Ræktun á matarkáli er nú töluverð, sem og rabarbara.
Með fiskinum voru og borðaðar soðkökur og hrognakökur, gerðar af hrognum og mjöli. Einnig soðkökur úr rúgi eða hveiti. Þær voru og hafðar með saltkjöti. Viðbit var mest bræðingur.
Miðdegismatur var borðaður um kl. 3, oft saltaður fugl eða nýr á sumrin, mjólkurgrautar, soðinn fiskur, súrt slátur og súr hvalur. Kjöt með kartöflum eða kjötsúpur, baunir og kjöt, bankabyggsgrautar. Baunir heitar eða kaldar.
Vinnufólk var mjög næmt fyrir viðurgerningi öllum í mat og lagðist fljótt slæmt orð á þá staði, þar sem matarvist var léleg og lítið um undirstöðumat. Fyrr á tímum og fram á vora tíma var mjög mikið étið hér af harðfiski og smjörát mikið með harðfiskinum. Smjörflutningar voru miklir hingað af landi og skreiðarvörur oft látnar í skiptum fyrir smjör. Í umboðsskjölum frá 16. öld sést oft getið mikilla smjörflutninga af landi á kóngsbátunum. Verkamenn, sem unnu skylduvinnu við bú dönsku verzlunarinnar, fengu á þessum tímum einn harðfisk og eitt pund af smjöri útmælt daglega. Auk þess var þeim veitt kjöt af súlu og lunda og nokkuð af brauði. Ósvikin var fæðan meðan harðfisks- og smjörátið var svona mikið.
Kvöldverður var um kl. 7. Var það venjulega fuglasúpa af söltuðum fugli, lunda eða fýl, mest fýlasúpur. Stundum þunnur mjólkurgrautur. Útákast á súpur var malað bankabygg. Handkvarnir voru á flestum bæjum þar til fram um aldamótin síðustu. Vindmylla var síðast á Vilborgarstöðum, þar malaður rúgur og fleira. Vindmylla var og í Stakkagerði, á Ofanleiti og víðar. Út á fuglasúpur voru notuð söxuð hvannablöð. Á kvöldvöku var stundum drukkið kaffi. Söl voru notuð til manneldis og stundum fjörugrös í brauð.
Sem vetrarforða áttu mörg heimili auk sauðakjötsins fullar tunnur og kagga af söltuðum lunda og fýlunga. Venja hafði verið lengi að skammta í máltíðina karlmanni 2—3 heila lunda, bútungslunda, en kvenmanni einn fugl. Karlmenn fengu hálfan fýl eða þrjá bita, það er bringuna og annað lærið, en kvenfólk hálfa bringu eða annað lærið, eða kríkinn, einn bita eins og sagt var. Í súpu var fýllinn skorinn sundur í tvennt eða fernt. Hreinlæti og vandvirkni þurfti til að matbúa fýlunga svo að vel væri og yfirleitt allan bjargfugl. Mátti segja um eyjakonur margar, að þær voru snillingar í þessu. Var það algengt, að aðkomumenn og það eins útlendingar, er þeir vöndust bjargfugli, eins og hann var framreiddur hér, tóku hann fram yfir annan mat, og þá sérstaklega fýlinn.
Við skömmtun voru 2 lundar látnir jafngilda 1 svartfugli og 3 lundar 2 álkum. Í Færeyjum jafngiltu 6 lundar 2 svartfuglum og 3 álkum. 3 lundar þar talin karlmannsmáltíð¹).
Á sumum heimilum náði fýlungaforðinn saman frá ári til árs, og þótti annað helzt eigi sæma góðum búmönnum, sérstaklega vegna feitinnar, viðbitsins, er kom í smjörs stað.
Við reytslu á fýlunga fengu reytslukonur, ef fengnar voru að, 1 fugl reyttan af hverjum 10 fuglum, er þær reyttu. Fyrir lundareytslu var reytslukonu borgað 2—3 reyttir fuglar af hverjum 10 fuglum, og alltaf reiknað þannig af hverjum tug. Fiður var aldrei látið í reytslukaup, heldur fuglamaturinn, reyttur fugl. Góðar reytslukonur reyttu og krufðu rúmt hundrað fugla á dag. Sumar þó enn meira. Við fuglareytslu voru notaðir sérstakir hnífar, reytsluhnífar, stuttir hnífar, bitgóðir, þverhníptir fyrir odd og með sterku haldi og skaraðri járnþynnu á skaftendanum til að dýna með. Kvenfólk sat við fuglareytslu alla daga á sumrin um fuglatímann. Verkið var eitt hið erfiðasta, og héldu fáar út við það „að sitja í fugli“ dögum saman, nema konur, er hér voru uppaldar og höfðu vanizt reytslu frá því þær voru unglingar, og náðu sumar ótrúlegum flýti við þetta verk.
Nýr lundi var soðinn „í bútung“. Hafði það tíðkazt áður, að sjóða fuglinn með öllu innvolsi, og þótti hann ljúffengastur þannig. Lundi var og reyktur og fýlungi sérstaklega til hátíðabrigða. Þótti reyktur fýlungi herramannsmatur. Eigi var samt mikið að því gert að reykja fýl, sökum þess, að þá nýttist eigi feitin, sem einna mest þótti varið í af fýlnum. Fýlshausar voru notaðir til matar. Að matbúa þá og gera úr þeim góðan mat, verka þá og hreinsa, þótti ekki á allra færi. Súluhausar og vængir, súlukrakar, voru sviðnir og matbúið sem súlusvið, úr lifrinni súlublóðmör með rúsínum í og ýmsu kryddi, og þótti hvort tveggja ágætur matur.
Kaffi hefir verið farið að nota hér á síðari hluta 18. aldar. Innflutningur á því hingað nam um þær mundir árlega um 100 pd., en jókst mjög seinna. Te var nær eingöngu notað á danska kaupmannsheimilinu á 18. öld, af öðrum að mestu eigi fyrr en á þessari öld.
Með morgunkaffinu var sjómönnum gefinn brauðbiti, aðrir fengu ekkert með. Það var ekki fyrr en seint á 19. öld, að það fór að tíðkast, að sjómenn hefðu með sér á sjóinn sjóbita, sem kallað var, þykkar rúgbrauðssneiðar eða rúgkökur með kjöti eða öðru ofanálagi. Húsmæður tóku til sjóbitann kvöldið áður en róa átti, og kom það sér þá oft vel, að einhver væri veðurglöggur á heimilinu. En sjómenn fóru löngu fyrir dag til róðra. Fór þá einhver af heimakonum á fætur. Hinn gamli siður, að hafa eigi með sér mat á sjó, er talinn fornnorrænn. Þetta tíðkaðist t.d. eigi fram á okkar tíma hjá sjómönnum á vesturströnd Jótlands.
Brauðveitingar með kaffi, af mörgum kallað góðgerðir, kökur og sætabrauð, þekktist hér eigi nema á hátíðum og tyllidögum. Í útdráttarveizlur voru bakaðar stórar jólakökur. Búðarbrauð: hagldabrauð, skonrok með sírópi, var haft með kaffi. Á sumum heimilum hér var kökugerðarlistin, sætabrauð alls konar, tertur og „bakkelsi“ af ýmsu tagi, komin svo langt, að þar hefir ekki verið farið fram úr seinna. Eiginleg köku- og brauðgerðarhús voru eigi stofnsett hér fyrr en eftir aldamótin síðustu og starfa nú þrjú hér. Brauðabakstur fyrir vermenn á vertíð létu verzlanirnar hér starfrækja á seinni hluta fyrri aldar. Litlu brauðgerðarhúsi var komið upp um 1880 og þar bökuð eingöngu rúgbrauð, og aðeins starfrækt um vertíð. Lögðu viðskiptamenn sjálfir til mjölið. Vindmyllan á Vilborgarstöðum malaði korn fyrir eyjabúa.
Sjómönnum var fært kaffi á lendingarstað, er þeir komu af sjó, og var höfð góð gát á bátum, svo að hægt væri að færa mönnum kaffið heitt. Sjómenn drukku kaffið í öllum skinnklæðum, áður en skipt var og skip sett upp. Í seinni tíð var hafður biti með sjókaffinu. Fólk ofan af bæjum flutti með sér kaffibrúsa að heiman og fékk þá hitaða hjá tómthúskonum niðri í Sandi, og þægði þeim fyrir í fugli á sumrum.
Til viðbitis var smjör og tólg, en aðallega bræðingur. Smjör var fengið í skiptum af landi fyrir sjávarafurðir, sem og kæfa, smálki og tólg, eða keypt fyrir peninga. Í bræðing var haft tólg og lýsi alls konar, lýsisbræðingur, sellýsi, hnísulýsi, þorskalýsi, hvallýsi, en algengast var samt að hafa fýlungafeiti saman við tólgina, fýlafeitarbræðingur. Var hann búinn til af feitinni, sem rann af fýlnum við suðu, en eigi af fýlamörnum. Fýlafeitarbræðinginn notuðu mörg heimili árið um kring, einkum handa börnum og unglingum, líkt og svínafeiti er notuð erlendis. Vegna feitmetisins sældust menn til að láta fýlabirgðirnar ná saman árlega. Smjörlíki þekktist eigi fyrr en eftir aldamótin síðustu.
Af fiskfangi notaði fólk og kútmaga, er voru framreiddir sem mjölmagar eða lifrarmagar með tómri lifur eða mjöli hnoðað saman við. Hrogn og greppar og lifraðir hausar voru og í uppáhaldi, sérstaklega nýir lúðuhausar og rafabelti af lúðu. „Rafabelti og höfuðkinn gefur drottinn guð minn“. Súrsaðir sundmagar, signir þorskhausar. Svil úr þorski höfðu og verið notuð til matar, soðin og súrsuð, að minnsta kosti í harðærum, en þótti lélegur matur. Af fiskmeti mátti venjulega hver neyta eins og hann lysti, þótt hverjum væri skammtað.
Bjargfuglaegg höfðu menn framan af sumri. Voru þau lögð í salt og skömmtuð meðan til entust til morgunverðar eða miðdegisverðar, 3—4 egg á mann. Eggjakökur voru og búnar til úr bjargfuglaeggjum. Þóttu þau sælgæti.
Um jólamatinn, er skammtaður var sér í lagi, er áður talað.
Átmatinn, kjöt og fisk, tóku flestir fram yfir vökvun.
Það tíðkaðist hér áður, að húsmóðirin skammtaði hverjum heimilismanni mat sinn á málum. Sameiginlegt borðhald tíðkaðist eigi fyrr en á síðari tímum.
Fiskmeti. Soðfiski, trosfiski, blautfiskur, borðaður nýr eða hengdur upp á útitrönur og látið slá í hann. Þótti mörgum hanginn eða visaður fiskur betri en nýr. Þorskur, er var aðalútflutningsvara, var aldrei notaður til matar. Mundi slíkt hafa verið talinn ærinn búskussaháttur.
Harðmeti, hertur matfiskur, skata, riklingur, ýsa og stútungur, minna um steinbít, var fyrrum og fram á vora tíma geymt í fiskbyrgjum hátt uppi í hömrum. Munu þessi fiskbyrgi vera með elztu fornleifum hér á landi. Fiskur var og geymdur á rám og stögum í kórum og skvompum utan í bergi. Löngu hertu menn á haustin nokkru eftir höfuðdag. Var hún fyrst visuð á trónum og síðan sett upp í byrgin. Skatan var hengd upp, úr sjónum, og rist á börðin, er hún var búin að hanga nokkuð. Sumir kösuðu skötu áður en hún var hengd upp. Öll smálúða var hert, en sjaldnar stórlúða. Hákarlsát var hér lítið og lítið verkað af hákarli þeim, er hér veiddist. Þorskhausar voru allir hengdir upp á trönur, tveir og tveir á hausabandi, og hertir. Hausarnir voru klofnir upp hálfþurrir. Sumir létu þorskhausa liggja í kös í viku eða meira áður en þeir voru hengdir upp. Þóttu þá bragðbetri og meyrari. Yfirleitt töldu menn kasaðan fisk öðrum betri, og vildu eigi öðruvísi verkaðan harðfisk.
Í vöruskiptaverzlun var eitt hundrað af þorskhausum látið fyrir 10 merkur af smjöri. Um 1870 kostaði fjórðungurinn af harðfiski, matfiski, 3 krónur eða sama og fjórðungurinn af hangikjöti. Ein vætt af verkuðum fiski var látin fyrir fullorðna kind. Hálft annað hundrað af þorskhausum fyrir gemling.
Soðfiski þótti mörgum betra hangið eða visað. Þorskur var aldrei notaður til matar, nema úrgangsfiskur.
Á sunnudögum höfðu margir kjöt til miðdegisverðar, saltkjöt soðið með kartöflum eða í súpu eða soðbaunum. Á haustin nýtt kjöt, soðið eða steikt. Á sumrin var étinn nýr fugl.
Vín var haft með höndum, er mönnum var haldinn glaðningur og í veizlum. Oft var kvartað yfir drykkjuskap í Vestmannaeyjum, stöðum og slangri manna í verzlunarbúðunum yfir vínkrananum, eins og komizt er að orði, meðan vín var selt í staupum hverjum, sem hafa vildi. Háværastar voru kvartanirnar yfir ofdrykkju hér fyrir og eftir aldamótin 1800. Fyrr á öldum var flutt inn mikið af öli, lýbsku og dönsku öli. Ölgerð var rekin hér við dönsku verzlunina á 16. öld. Á seinni tímum var mest flutt inn af brennivíni. Árið 1599 var flutt inn hingað af sundistöli, Stralsundsöl, 16 lestir, dönsku öli 4 lestir, rínarvíni einnig 4 lestir. Af malti til ölgerðar 24 tn. og af humlum 24 skpd. Brennivínsinnflutningurinn var mikill á 19. öld, einkum framan af. Sem dæmi um vínbirgðir Garðsverzlunar skal þess getið, að haustið 1832 voru meðal vörubirgða verzlunarinnar taldir 7000 pt. af áttagráðu brennivíni, — 1899: 2683 pt. af átta- og sextángráðu brennivíni, 617 pt. af rommi og koníaki, 78 pt. af whisky, 575 pt. af ratafía og 386 flöskur af portvíni, sherry, líkör o.fl.
Hlóðareldhús voru hér á öllum bæjum fyrrum. Víðast var notaður treifótur, hringur með þrem fótum til að láta pottinn standa á, í staðinn fyrir hófband, er sumir notuðu. Útieldhús til stórsuðu voru víða. Á grútarlampa var mikið notað, í stað þorskalýsis, lýsi af fýla- og súlumör.
Þær miklu breytingar, sem orðið hafa hér á síðustu tímum á matarhæfi fólks og flestu öðru, er hér hefir verið lýst, er ekki rúm til að rekja hér.
Í Vestmannaeyjum hafa menn að jafnaði bjargazt vel og í harðærum betur en víða annars staðar hér á landi. Samt mun hafa sorfið hér stundum allhart að í fiskileysisárunum, og fór þá fjöldi fólks héðan. Eigi er getið mannfellis hér í plágum og harðærum, sem yfir landið gengu, og í móðuharðindunum björguðust menn vel í eyjunum og hingað leituðu menn úr eldsveitunum. Harðast hefir verið hér í Vestmannaeyjum manna á milli fyrir og eftir aldamótin 1800. Manndauði þá töluverður af veikindum, sem samfara eru skorti og bjargarleysi.
Hér verður getið skýrslu frá 1849 um matföng hjá efnabónda í Vestmannaeyjum, þar sem fjórir fullorðnir voru í heimili og eitt barn: 3½ tn. af kornvöru, 3 tn. af söltuðum fýl og 2 tn. af söltuðum lunda, 2 tn. af skyri, smjör og mjólk úr 2 kúm, kjöt af 10 sauðum, fýlungafeiti, fiskur eftir þörfum. Er þetta töluvert meira búsílag en talið er í samskonar skýrslu hjá efnabónda í Rangárvallasýslu. Þau munu samt hafa verið færri heimilin, er svo vel voru birg²).
Skipshafnir af landskipum höfðust hér við í sjóbúðum. Margar gömlu sjóbúðirnar var búið að rífa alllöngu fyrir aldamótin síðustu. Sjóbúð var hjá Sjóbúðarklettum og á Tanganum. Sjóbúð stóð lengi austur á plássi og önnur var í Skanzinum. Þær voru hlaðnar upp af torfi og með torfþaki. Gamlir hjallar og úthýsi voru notuð fyrir sjóbúðir og loftin í vörugeymsluhúsum. Skipshafnirnar höfðu með sér ráðskonu af landi, er matreiddi fyrir mennina og þjónaði þeim. En vermenn voru gerðir út að heiman með mötur og föng. Í mötuskrínuna var drepið smálka eða soðkæfu í annan endann og smjöri í hinn. Hangikjöt höfðu sumir og. Tveir og tveir sváfu saman í rúmum eða rúmfletum andfætis og stóðu skrínurnar við hvorn rúmsenda. Húsakynni voru afar köld og aðbúð slæm, samt var furða, hversu heilsufar var yfirleitt gott hjá mönnum. Mataræði fábreytt. Soðfiski, blautfiskur með soðkökum. Flatkökur með ríflegu smjöri og smálka ofan á. Lýsis neyttu margir. Ráðskonan, er annaðist kökugerðina, skipti flatkökunum niður eftir tölu milli mannanna. Hún var á fæði hjá vermönnum til skiptis. Kaup hennar var 2 krónur á mann yfir vertíðina. Til drykkjar höfðu sumir sýru. Kaffi var drukkið mjólkurlaust. Mjólk höfðu menn enga og spónamat nær aldrei. Vermenn af landi, útgerðarmenn svokallaðir, er ráðnir voru upp á kaup hjá eyjamönnum, höfðu hjá þeim húsnæði og fæði. En þeir, sem gerðu sig út sjálfir, en réru á eyjaskipum, „lágu við“ hjá eyjamönnum. Þeir lögðu á borð með sér kjöt, smjör, fisk, brauðmat og kaffi. Fengu spónamat hjá húsbændum. Gjald það, er „viðliggjarar“ greiddu, var síðast 1 króna á viku og samsvaraði einni lambá, loðinni og lembdri í fardögum. Húsaleiguupphæðar nutu sjómenn af landi hér fyrrum, nokkurra fiska af óskiptum afla. Þetta var dæmt af með dómi 17. júní 1685.

Fatnaður.


Fatnaður manna hér hefir fram eftir 19. öldinni verið svipaður því, sem hann hafði verið alllengi áður, þegar horfið var frá að bera stuttbuxur og mussur, sem að líkindum mun eigi hafa tíðkazt almennt hér meðal alþýðu. Föt voru öll, utast sem innst, hjá flestum úr ull, nema hjá efnafólki, er notaði klæðisföt til spari, léreftsskyrtur og línbrækur. Alsiða var hér, að vinnumenn og þurrabúðarmenn og sumir bændur bæru lérefts- eða tvistúlpur hversdagslega, bláar að lit, náðu þær niður á mjaðmir og hnepptar niður til miðs. Úlpur þessar eða burur voru og notaðar í veiðiförum. Karlmenn voru hversdagslega innst fata í skyrtu úr vaðmáli og í vaðmálsnærbuxum eða prjónabuxum. Milliskyrta úr vaðmáli eða einskeftu. Utan yfir í prjónapeysu og utast í tvíhnepptri vaðmálstreyju og í vaðmálsbuxum, í ullarsokkum, með háleista þegar kalt var. Snjósokka eða skinnsokka í snjó og bleytu. Í miklum frostum og kuldum höfðu menn stór ullarnet um hálsinn og þykkar vaðmálshúfur. Hettur munu lítið hafa verið notaðar hér. Róna sjóvettlinga höfðu karlmenn á höndum eða bolvettlinga. Sumir báru brjóstdúk eða brjósthlíf. Á sumrum var léreftsburan í stað venjulegrar vaðmálstreyju. Burunni klæddust sumir allan ársins hring, hversu sem kalt var. Mátti nærri ótrúlegt heita, hversu sumir menn þoldu vel kulda og vosbúð alla.
Fýla- eða fuglamannaföt. Í fýlaferðum báru göngumenn, fýlamenn, sérstök föt, er nefnd voru fýlaföt. Fýlabrækurnar voru úr vaðmáli, einskeftu eða prjónaðar. Á buxnahnén og sitjandann voru festar svellþykkar prjónabætur til hlífðar, ef menn skullu hart við bergið á böndunum. Buxurnar voru girtar ofan í grófa togsokka, fýlasokka. Neðan á framleistinn var saumaður þykkur prjónaleppur og gengið á sokkunum, er þótti betra í fjöllum en að vera á skóm. Loks var bura, belgbura eða úlpa, fýlaburan. Fýlaföt varð helzt að geyma afsíðis, því að þau máttu eigi koma nærri öðrum fatnaði sökum stækjunnar, fýlabrælunnar, er af þeim lagði. Lundamenn báru lundaburu eða lundatreyju og voru léttbúnir. Þeir voru girtir vænum leðurbeltisólum, er þeir röðuðu fuglinum á, hlóðu á beltið. Eggjaburan var ermavíð og belgvíð úlpa, opin aðeins í hálsmálið, girt ól að neðan eða hert að snæri. Mátti koma fyrir miklu af eggjum í ermum og barmi.
Hversdagslega gengu allir á íslenzkum skóm. Spariskór handa börnum og kvenfólki voru vandaðir mjög. Máttu börnin fara af kirkjuskónum undir eins og komið var heim frá kirkju. Efnamenn og heldri bændur og konur þeirra báru útlenda skó á helgum dögum og við hátíðleg tækifæri. Almennt fór fólk hér eigi að nota útlenda skó, og þá aðeins sem spariskó, fyrr en undir aldamótin síðustu. Skæðaskinn var bæði heimafengið og af landi. Útlendar húðir voru hafðar í karlmannaskó. Skinn voru blásteinsborin, reykt eða eirlituð. Þá voru skinnin lögð í hland og eirsvarfi komið saman við, eða látin liggja að eirþynnu, og snéri holdrosinn að. Eirþynnur fengu menn stundum í frönsku skútunum. Svo er að sjá eftir hinum gömlu vöruskrám sem erlendir skór hafi fyrrum verið miklu meira notaðir heldur en síðar gerðist.
Höfuðföt voru úr vaðmáli, heimagerðar derhúfur og prjónahúfur. Kulda- og loðhúfur. Hinar svokölluðu ensku húfur voru notaðar hér almennt á seinni tímum. Hatta notuðu fáir. Á sunnudögum og tyllidögum báru bændur sumir svarta hatta. Eldri mennirnir fylgdu flestir gamla móðnum að láta hárið vaxa uppi á höfðinu og stýfðu það þvers fyrir að aftan niður við hálskragann. Margir báru alskegg eða höfðu skeggkraga. Síðustu mennirnir, er fylgdu gömlu tízkunni, eru nú látnir fyrir fáum árum. Áður en rakarastofum var komið upp, önnuðust handlagnir menn eða konur án borgunar hárklippingar, og var þeirra leitað af bæ, er enginn var til heima.
Tvær rakara- og hárskerastofur eru nú starfræktar hér og ein hárgreiðslustofa. Samþykkt um lokun rakara- og hárgreiðslustofa hér er frá í júní 1931.
Fatnaður kvenna hefir verið hér hinn sami og tíðkaðist í öðrum landshlutum. Mun um tilhaldssemi eyjakvennanna í fatnaði og um búningsskraut, kvenskart, mega segja svipað og annars staðar. Í hinum elztu kauptöxtum og vöruskrám frá 15. og 16. öld er getið um innflutning hingað á erlendu klæði og léreftum. Var sumt af þessu klæði mjög dýrt og vandað. Ýms nöfn eru á klæði eftir því, hvaðan varan var: Bytters- og Limpersklæði, Mynstersklæði og enskt klæði, gott varningsklæði. Sparifötin voru vandlega geymd í fatakistum og höfðu konur þar angandi deshús og reyrgrös. Föt voru iðulega viðruð og burstuð úti. Búningur margra kvenna var hinn vandaðasti og snyrtilegasti og mikils hreinlætis gætt. Konur voru prúðbúnar, í peysufötum eða í upphlut, í veizlum og á mannamótum og við kirkju jafnan. Mikið og vel hirt hár þótti jafnan mesta prýði. Til þess að hár héldist jafnvaxið, var talið snjallræði að klippa neðan af því agnarlítið við hverja tunglkomu. Lyfjagras eða hleypisgras, seyði af því, var notað við hárroti. Konur báru kvenskraut, belti og sylgjur, festar og eyrnagull. Faldbúningurinn gamli tíðkaðist hér fram á seinni hluta 19. aldar. Kristín Einarsdóttir í Nýjabæ, d. 1899, bar hér síðust kvenna gamla skautið. Viðhafnarbúningur hennar er nú á Þjóðminjasafninu í Reykjavík.
Eldri konur í heldri bænda stétt og embættismannakonur báru um miðja síðustu öld hversdagsbúning slíkan: Hárið var slegið, húfa fylgdi augnabrúnum með stuttu skotti og vírsilfurhólkur á. Spunaþráður í skúfnum. Húfan prjónuð úr bandi. Utan yfir bundinn rósaklútur undir kverk. Í prjónaskyrtu innst fata. Skyrtan var hvít og notuð einnig sem upphlutsskyrta, hneppt upp í hálsinn. Upphlutur rauður eða svartur, á honum myllur og festi með eyrnaskafa. Dökkt vaðmálspils, breiðfellt mjög, stutt með breiðum streng. Útsaumaður lyklapoki var bundinn yfir um mittið undir svuntunni. Röndótt dúkofin svunta með breiðu haldi. Spjaldofin bönd fest við svuntuna til að binda hana. Utan yfir upphlutsskyrtunni var vaðmálsúlpa, hneppt með einum stórum silfurhnapp. Hvítt nærpils úr vaðmáli, vaðmálsnærbuxur girtar ofan í sokkana, ofnum sokkaböndum vafið utan um þá og brugðið utanfótar undir. Íslenzkir skór, afturþvengjaðir. Spariskórnir voru krossþvengjaðir með hvítu eltiskinni. Seinna kemur hinn almenni fagri peysufatabúningur kvenna.
Nýja skautbúninginn, eftir að hann var kominn í hefð, baldýraðar treyjur og samfellur, báru konur sem mesta viðhafnarbúning, á giftingardaginn og við önnur hátíðlegustu tækifæri. Allar fermingarstúlkur báru íslenzka skautbúninginn og hélzt sá siður fram yfir aldamót. Þjóðbúninginn báru allar konur.
Við hversdagsstörf klæddist fólk óbreyttari búningi, dagtreyju og pilsi af grófu vaðmáli. Ullarklúta og skýluklúta hafði kvenfólk við útistörf. Lýti þóttu að því, að vera útitekinn og sólbrenndur í andliti. Við grófari vinnu, svo sem fiskvinnu, var notuð svunta af striga, olíuborin, eða af skinni, slorsvuntan, háir sokkar af sömu gerð, vandlega vafðir, belgvettlingar af togi, slorvettlingar. Slorplögg öll voru þvegin úr sjó og gall notað í sápu stað. Plöggin barin upp úr sjó með klöppu.
Setið var við tóvinnu hér á vökunni frá haustnóttum og fram á vertíð og unnið kappsamlega. Heimaunnið var mest allt til fatnaðar. Góðir vefarar voru eftirsóttir. Dagkaup vefara, sem oftast var miðað við hverja ofna alin, náði rúmlega krónu á dag hjá þeim, sem duglegastir voru, og sáu þeir sér fyrir fæði.
Fatnaður allur var saumaður heima. Misjafnlega þótti það fara úr hendi. Óþægilegt kvabb var oft á þeim konum, er færari voru öðrum í saumaskap. Öll föt voru handsaumuð áður en saumavélarnar komu til sögunnar. Í prjónaskap alls konar var kvenfólk mjög leikið, og fáar munu þær konur hafa verið, er eigi kunnu að minnsta kosti illeppaprjón og venjulegt sokkaprjón. Ýmsar konur kunnu og útprjón alls konar, hekl og flos, og á síðasta hluta 19. aldar voru hér hannyrðakonur, er kunnu útsaum alls konar, baldýringu og skatteringu³).
Til litunar voru á seinni tímum almennt notaðir útlendir litir, en margar konur kunnu að lita úr íslenzkum jurtalitum og jurtarótum. Mest mun hafa verið notað: litunarmosi, heimula og rótin, hófblaðka, krækiberjalyng, mjaðarjurt, blágresi o.fl. Stundum voru notuð samtímis innlend og útlend litunarefni, svo sem þegar litað var gult úr heimulu og fíflum og síðan sett saman við „indígólit“, og varð þá fagurgrænt, en með rauðalit dumbrautt.
Rúm- og sængurfatnaður var hjá bjargálnamönnum góður. Undirsængur með grófu lundafiðri, ver af þykkum dúk, yfirsængur með lundafiðri, oft bringufiðri einu. Aðrir notuðu heydýnur með striga eða vaðmálsverum, vaðmálsrekkjuvoðir og brekán yfir. Vinnukonur, er lengi höfðu verið í vistum, áttu oft góðan sængurfatnað. Fýlungafiður var aldrei notað á þrifaheimilum. Það mun hafa verið algengt meðal almennings, að menn klæddu sig úr öllum fötum og svæfu allsberir. Lokrekkjur tíðkuðust hér áður.
Skinnklæði eða sjóklæði. Fram að lokum 19. aldar klæddust allir skinnklæðum til sjóróðra. Skinnstakkar voru hempuskinnstakkar eða laskaskinnstakkar. Hinn fyrrnefndi mun hafa verið algengari. Á honum var hrygglengjan á skinninu látin ganga upp handlegginn, hálsinn á skinninu snéri upp. Hempuskinnstakkurinn var heill á öxlum og ermum fram, en saumurinn neðan á. Þótti hann leka síður en laskaskinnstakkurinn, sem hafði sauminn ofan öxlina, mættust þar tveir saumar í olbogabót. Í laskaskinnstakknum gekk saumurinn niður olbogamegin. Laskinn var tunga, sem gekk eins og spjald frá hálsi og fram í ermi. Hálsinn á skinninu fer þá niður með síðunni undir hendinni og myndar hliðargeira, var sett við hann ferkantað stykki, saumað svo langt niður og maður vildi hafa stakkinn síðan.
Í skinnstakkana vildu menn helzt hafa þunn skinn, ærskinn og jafnvel væn lambskinn í ermar, þóttu þau liðlegri. Í seinni tíð súteltu margir skinnin í sjóklæði, í stað þess að reykja þau, sem mjög var tíðkað, eða blásteinsbera. Þegar skinn voru sútelt var borin í þau fernisolía eða lýsi. Í skinnstökkunum var fyrirboðangur og bakboðangur. Hálsborg var kallað þar sem dregið var í hálsmálið, og til þess að það gæti dregizt nógu vel saman, voru hafðar smálykkjur á kraganum, sem saumaður var á stakkinn, og sylgja í að framan. Í ermunum að framan voru vindingar svokallaðar úr togi. Þeim var spólað upp utan um ermina, að framan var skinninu bundið um beran úlnliðinn, helzt blautu, komst þá ekkert vatn inn. Þegar menn bjuggust við mikilli ágjöf, drógu menn saman um beran hálsinn og bundu utan um trefli og þar utan yfir sjóhattinn og bundið undir kverk. Ef nógu vel var hert hálsmálið og ólarbeltið um mittið, þá komst enginn sjór að, þótt menn lentu í kafi, og bjargaði þetta stundum lífi manna.
Skinnbrókin var oftast úr sauðskinnum af gömlum sauðum, setskautinn úr kálfsskinni eða nautshúð. Lífstygillinn var saumaður sitt hvorum megin við setskautann og náði upp undir geirvörtur, bróklindi var fyrir neðan um mittið og dreginn í sylgjur. Miðseymi var haft í saumum. Við skinnklæðasaum voru notaðar leggjatangir af sauðaleggjum og skinnbjörg sem fingurbjörg. Saumað var oft með hvalseymi eða nautseymi.
Karlmenn önnuðust allan skinnklæðasaum á vökunni jafnhliða því er kvenfólk var að tóvinnu.
Góð skinnklæði entust yfir eitt ár og jafnvel lengur. Skinnbrók var seld á 8—12 krónur og skinnstakkur á 4 krónur fyrir aldamótin síðustu. Sjóskór voru úr þykku, sútuðu, útlendu leðri. Sjófatnaður eftir erlendri fyrirmynd, er farið var að nota síðar, úr lérefti og borin í fernisolía, var allur heimaunninn fyrst, áður en innflutningur hófst á honum erlendis frá.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Sjá J.C. Svabo: Föroyaferdin 1781-82.
2) P.A. Schleisner, Khöfn 1849. Hér mun átt við heimili Magnúsar Austmanns í Nýjabæ.
3) Sjá Daniel Bruun: Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Khöfn 1928; J.J.: Ísl. þjóðhættir.


6. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit