Saga Vestmannaeyja I./ IV. Vestmannaeyjaprestar, 3. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Prestar í Vestmannaeyjaprestakalli.


Jón Jónsson Austmann, áðurnefndur, 1837—1858. Hann var sonur séra Jóns Jónssonar prests að Kálfafelli og Guðnýjar Jónsdóttur prófasts Steingrímssonar að Kirkjubæjarklaustri og konu hans Þórunnar Scheving, dóttur Hannesar sýslumanns Scheving. Séra Jón á Kálfafelli var sonur Jóns Runólfssonar óðalsbónda að Höfðabrekku í Mýrdal, af Dalverja- eða Höfðabrekkuætt, sbr. ætt séra Benedikts Jónssonar á Ofanleiti, frá Eyjólfi lögmanni Einarssyni og goðorðsmönnum, og hafði ættin lengst setið á Höfðabrekku og átt hana í mörg hundruð ár með fleiri jörðum og Holt á Síðu. Þeir bræður, séra Jón á Kálfafelli og séra Runólfur á Stokkalæk á Rangárvöllum, seldu Höfðabrekku úr ættinni, síðar keypti hana Magnús sýslumaður Stephensen og bjó þar. Þar fæddist Magnús Stephensen landshöfðingi.
Séra Jón Austmann var 5. maður frá séra Pétri Gissurarsyni á Ofanleiti og konu hans Vilborgu Kláusdóttur Eyjólfssonar lögsagnara. Séra Jón var bróðir Páls í Arnardrangi, föður Lárusar Pálssonar læknis.
Séra Jón útskrifaðist úr Reykjavíkurskóla 1809. Varð fyrst aðstoðarprestur að Sólheimum í Mýrdal, fékk síðan Skúmsstaða- og Stórólfshvolsþing. 1817 hafði hann brauðaskipti við séra Sigurð Thorarensen prest að Mýrum í Álftaveri og fluttist séra Jón að Mýrum í fardögum 1817, og þjónaði þar til þess, að hann fékk veitingu fyrir Ofanleitisprestakalli 1827. Kona séra Jóns var Þórdís Magnúsdóttir umboðsmanns og klausturhaldara Andréssonar á Þykkvabæjarklaustri. Þau giftust 1811.
Séra Jón þótti kennimaður ágætur og mjög samvizkusamur í sínu starfi. Hann fylgdist vel með og las mikið útlend guðfræðirit. Var honum mjög sýnt um læknisdóma eins og afa hans, séra Jóni Steingrímssyni. Sveinn Pálsson læknir í Vík hafði falið séra Jóni Austmann umboð til að framkvæma ýmsar læknisaðgerðir í eyjunum, sem kom sér vel þar, og ávann séra Jón sér almenningslof fyrir læknisstarf sitt.²⁷) Séra Jón tók mjög mikinn þátt í héraðsmálum eyjamanna, og var þeirra einlægur talsmaður gegn kaupmannavaldinu, og hikaði aldrei frá réttum málstað. Sáttasemjarastörfum gegndi hann frá 1827 til dauðadags. Var mikið orð á því gert, hversu laginn hann hefði verið að sætta menn.
Séra Jón var strangtrúarmaður mikill og tók hann þegar upp ósleitilega baráttu gegn kenningum mormóna, er hann taldi hina römmustu villutrú. Er þessu lýst hér annars staðar. Hann ritaði sóknarlýsingu Vestmannaeyja árið 1843, ítarlegt rit, svo, að Jónas Hallgrímsson hefir tekið upp úr þessu riti Vestmannaeyjalýsingu sína og fylgt þar að mestu texta séra Jóns. Mun Jónas Hallgrímsson hafa dvalið á Ofanleiti hjá Jóni Austmann, en þeir voru sömu ættar frá Lárusi Scheving sýslumanni, er hann fór rannsóknarför sína til Vestmannaeyja. Séra Jón samdi og lýsingu af Kötlugosinu 1823, hann var þá prestur að Mýrum í Álftaveri. Ritgerð þessi er prentuð í riti um jarðelda á Íslandi. Hann skoðaði fyrstur eldstöðvarnar og gjána eftir Kötlugosið 1823 og samdi ritgerð um ferðina. Séra Jón var skáldmæltur.²⁸)
Jón Austmann naut mikilla vinsælda hjá eyjabúum. Vildu þeir fá hann fyrir fulltrúa sinn á fyrsta löggjafarþingi þjóðarinnar eftir endurreisn Alþingis 1845, en formleg kosning gat eigi farið fram sökum þess, hve kosningarrétturinn var takmarkaður, sbr. tilsk. 8. marz 1843, svo að hér voru aðeins 1—2 atkvæðisbærir menn. En búendur hér sömdu áskorun til stjórnarinnar og voru fyrir henni sex bændur og tómthúsmenn í umboði „alþýðunnar í Vestmannaeyjum“, eins og komizt er að orði, og báðu um að mega senda séra Jón Austmann sem alþingismann á þingið, en þessu var neitað, sökum þess að eyjarnar gætu ekki verið prestslausar og enginn fáanlegur til að þjóna meðan séra Jón væri á þingi. Magnús Jónsson Austmann, sonur séra Jóns, sat fyrstur á Alþingi sem fulltrúi Vestmannaeyja 1851.
Séra Jón beitti sér fyrir stofnun barnaskóla hér og ritaði biskupi um það, en biskup var því máli eigi hlynntur og komst það eigi til framkvæmda.
Heimilið á Ofanleiti var fólksmargt athafnaheimili. Þau hjón voru mjög gestrisin. Var svo sagt, að enginn ókunnugur maður hefði komið svo hingað til eyja, að eigi kæmi hann að Ofanleiti. Séra Jón var vel efnum búinn. Munu þeir séra Jón Högnason og hann hafa verið ríkastir eyjaprestanna á seinni tímum. Dánarbú Jóns Austmanns hljóp um 4—5000 rd. Hafði þó prestur haft allmikinn tilkostnað af ýmsu, borgað út heimanmund dætra sinna m.a. Séra Jón gerðist mjög sjóndapur með aldrinum og feitur sem sumir móðurfrændur hans, svo að varla bar hann nokkur hestur, en hann hafði lengi farið ríðandi til kirkjunnar frá Ofanleiti. Fékk hann aðstoðarprest, séra Brynjólf Jónsson. Séra Jóni er svo lýst, að hann hafi verið með hærri meðalmönnum á vöxt, vel vaxinn og hraustmenni mikið, augun skörp og tindrandi. Hárið dökkt og hrokkið. Hefir hann verið líkur frændum sínum, gömlu Mælifellsklerkunum í Skagafirði. Söngmaður var hann svo góður, að hann átti fáa eða enga sína jafningja í þeirri list, segja samtíðarmenn hans. Dóttursonarsonur séra Jóns er Pétur Jónsson óperusöngvari.
Faðir séra Jóns Austmanns, Jón prestur Jónsson frá Kálfafelli í Fljótshverfi, dó háaldraður hjá syni sínum á Ofanleiti 6. marz 1839. Eftir hann orti séra Páll skáldi erfiljóð, sem eru á Landsbókasafni. Hann orti og erfiljóð eftir Helgu dóttur séra Jóns,²⁹) prentuð í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1925.
Jón Austmann dó á Ofanleiti 1858 og kona hans þar ári síðar. Silfurskjöld gáfu sóknarmenn til minningar um þau.
Dætur þeirra hjóna:
Helga, f. 1812, gift Ringsted verzlunarstjóra við Garðsverzlun. Helga dó barnlaus 1839. Í erfiljóðum eftir hana segir séra Páll skáldi: „Vaktu nú viðkvæmi eða vaknaðu aldrei, sjáðu hann Jón Austmann sárt harmanda, manninn, sem aldrei stóðst mann að líta, huggunarlausan í hörmum sínum.“ — Guðný, f. 1816, giftist fyrst Sigurði Einarssyni, bróður Árna á Vilborgarstöðum. Sigurður sigldi og lærði járnsmíði. Eftir lát hans giftist hún séra Ólafi Magnússyni presti að Einholti í Hornafirði, og loks að honum látnum giftist hún í þriðja sinn frænda sínum Jóni Brynjólfssyni í Þórisdal í Lóni. Þau hjónin voru systkinabörn. Guðný átti ekkert barn á lífi. Hún var fósturmóðir Jóns Sigurðssonar föður Vilmundar Jónssonar landlæknis. Guðný var skáldmælt. Til Guðnýjar orti Sigurður Breiðfjörð kvæðið: „Fyrir bón fríða þín, fallega stúlkan mín“. — Jórunn, f. 1821, tvígift, bjó í Jómsborg. Fyrri maður hennar var Jón Salómonsen verzlunarstjóri og síðari Engilbert Engilbertsson. Barnlaus. Fósturdætur Jórunnar voru Kristín Árnadóttir, systurdóttir Engilberts, kona Jóhanns heitins Jónssonar húsasmiðs á Brekku, og María Tranberg. Fóstursonur Jórunnar var Gísli Bjarnasen. — Guðfinna á Vilborgarstöðum, f. 1823. Meðal barna Guðfinnu voru Jóhann J. Johnsen í Frydendal og þeir Vilborgarstaðabræður. Sjá um hana og afkomendur hennar nánar í kaflanum um Herfylkinguna. Hjá Guðfinnu á Vilborgarstöðum dvaldi á unglingsárum sínum frændkona hennar Guðrún Þorkelsdóttir, er síðar giftist Jósef Valdasyni skipstjóra. Voru þau hjón foreldrar Jóhanns Þorkels Jósefssonar alþingismanns og þeirra bræðra.
Allar voru dætur séra Jóns og Þórdísar mikilhæfar konur og vel menntaðar.
Synir þeirra prestshjónanna:
Magnús stúdent og alþingismaður í Nýjabæ, f. 1814. —Jón bóndi í Þorlaugargerði. Þeir voru tvíburar. — Lárus, f. 1818, drukknaði 16 ára 5. marz 1834 á tenæringnum „Þurfaling“. — Vigfús, f. 1826, dáinn s.á. — Stefán bóndi í Draumbæ, f. 1829, drukknaði 1874. — Sjá um bræðurna Magnús, Jón og Stefán nánar í kaflanum um Herfylkinguna.
Brynjólfur Jónsson prestur að Ofanleiti 1858—1884. Hann var sonur séra Jóns Bergssonar prests á Hofi í Álftafirði og konu hans Rósu Brynjólfsdóttur, af Heydalaættinni yngri, sem komin er af séra Sigurði Sveinssyni Jónssonar á Svínafelli í Öræfum. Séra Brynjólfur Jónsson útskrifaðist af prestaskólanum í Reykjavík 1850. Fékk veitingu fyrir Reynistaðarklaustri 1852 og vígðist þangað, en til brauðsins fór hann eigi og afsalaði sér því og gerðist aðstoðarprestur hjá séra Jóni Austmann á Ofanleiti, þar til séra Jón dó 1858. Komst til tals, að prestakallið yrði veitt með því skilyrði, að sóknarpresturinn tæki sér aðstoðarprest. Séra Brynjólfur fékk veitingu fyrir brauðinu 1860, skilyrðið um töku aðstoðarprests var fellt niður. Séra Brynjólfur sótti um Stokkseyrarprestakall og var veitt það 25. maí 1875, en afsalaði sér því og fékk þegar aftur veitingu fyrir Vestmannaeyjaprestakalli, er hann þjónaði til dauðadags.
Séra Brynjólfur þótti góður kennimaður, strangur og siðavandur rétttrúnaðarmaður, barnafræðari ágætur og gekk ríkt eftir, að börn og unglingar héldu vel við barnalærdómi sínum. Séra Brynjólfur var mormónum í eyjunum þungur í skauti. Hann lét sér og mjög annt um að bæta kirkjusönginn, er verið hafði hér mjög gamaldags. Tengdasonur hans, Sigfús Árnason, var fyrsti organleikari við kirkjuna hér.
Bindindisfélag Vestmannaeyja var stofnað af séra Brynjólfi 1862. Séra Brynjólfur lét mjög til sín taka öll héraðsmál í Vestmannaeyjum, og átti mjög mikilsverðan þátt í þeirri umbótastarfsemi, sem á mörgum sviðum var hafin í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Sama árið og Bindindisfélagið var stofnað, stofnaði séra Brynjólfur með Bjarna sýslumanni Magnússyni Lestrarfélag Vestmannaeyja. Efldist félagið fljótt og vel og var það mest áhuga séra Brynjólfs og stjórnsemi hans að þakka. Þess má geta, að lestrarstofu fyrir „herfylkingarmenn“ eyjanna hafði kapteinn Kohl komið upp. Séra Brynjólfur átti mikinn þátt í stofnun Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja. Hann lét byggja upp prestssetrið á Ofanleiti og gerði ýmsar framkvæmdir á jörðinni með þúfnasléttun og aukinni garðrækt, keypti plóg. Þrátt fyrir dugnað sinn varð séra Brynjólfur samt aldrei fjáður maður, enda var og gestrisni mikil á Ofanleiti og heimilið mannmargt. Séra Brynjólfur hefir skrifað sóknarlýsingu Vestmannaeyja 1873, er hið ísl. Fræðafél. gaf út 1918. Séra Brynjólfur var þingmaður eyjanna 1859 og 1863.
Kona séra Brynjólfs var Ragnheiður Jónsdóttir Salómonssonar kaupmanns í Kúvíkum. Þau giftust í Vestmannaeyjum 19. júní 1853. Hún deyði 1921, 92 ára. Hún var systir Jóns Salómonsens, manns Jórunnar Austmann.
Séra Brynjólfur deyði 14. nóv. 1884. Vegna samgönguleysis við meginlandið, svo að eigi náðist í prest, var séra Brynjólfur eigi jarðsunginn um veturinn og eigi fyrr en af eftirmanni sínum í brauðinu, Stefáni Thordersen, 22. apríl 1885. Lík hans var staursett á meðan.
Börn séra Brynjólfs og Ragnheiðar Jónsdóttur voru:
Rósa, dó uppkomin á Ofanleiti. Var heitmey Einars Árnasonar frá Vilborgarstöðum. — Gísli læknir í Kaupmannahöfn, d. 1933. — Kristín fyrri kona séra Kjartans Kjartanssonar prests að Stað í Grunnavík, d. 1918. — Jóhanna, dó ógift á Löndum hjá Jónínu systur sinni. — Jónína Kristín Nikólína kona Sigfúsar Árnasonar bónda og alþingismanns að Löndum. — Ingibjörg kona séra Magnúsar Bjarnarsonar prófasts að Prestsbakka, d. 1920. — Sigríður, giftist Páli Símonarsyni, bjuggu í Blaine, Wash., U.S.A., d. 1932.
Stefán Helgason Thordersen 1885—1889. Hann var sonur Helga biskups Thordersen og konu hans Ragnheiðar dóttur Stefáns amtmanns Stephensen. Séra Stefán fór fyrst utan til lögfræðináms og var lengi við lögfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn, en lauk eigi embættisprófi. Hvarf hann svo heim og var um tíma settur sýslumaður, þar á meðal um tíma settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann fékk veitingu fyrir Kálfholtsprestakalli 1863, en fékk lausn frá prestsskap 1876, og var um hríð embættislaus, þar til honum var veitt Vestmannaeyjaprestakall eftir lát séra Brynjólfs og þjónaði hann því þar til hann lézt 3. apríl 1889, 60 ára að aldri.
Séra Stefán var talinn gáfumaður, mjög skemmtilegur í viðræðum og fjörmaður mikill. Hann þótti ágætur prestur og prédikari, og var einkar vel liðinn af öllu sóknarfólki. Barnafræðari þótti hann ágætur. Séra Stefán lét mjög til sín taka sveitar- og héraðsmál eyjanna. Hann var kjörinn þingmaður fyrir Vestmannaeyjar árin 1858—1861.
Kona séra Stefáns var Sigríður, er fyrr hafði verið gift Pétri Havstein amtmanni, dóttir Ólafs jústitsráðs Stephensen í Viðey. Börn þeirra: Ragnheiður, f. 1871, kona Hannesar Hafsteins sýslumanns og síðar ráðherra. — Helgi Thordersen trésmíðameistari í Rvík. — Ólafur Thordersen söðlasm. í Hafnarfirði.
Brynjólfur Gunnarsson, síðar prestur að Stað í Grindavík, var settur til að þjóna Vestmannaeyjaprestakalli 3. maí 1889 og þjónaði þar það ár, unz séra Oddgeiri Gudmundsen var veitt brauðið samkvæmt kosningu safnaðarins.

Anna Guðmundsdóttir, (d. 1919), kona séra Oddgeirs Guðmundsen.
Sr. Oddgeir Guðmundsen, (d. 1924).

Oddgeir Þórðarson Gudmundsen 1889—1924. Hann var sonur Þórðar Guðmundssonar sýslumanns og kammerráðs í Árnessýslu og konu hans Jóhönnu Knudsen. Séra Oddgeir útskrifaðist af prestaskólanum í Reykjavík 1872 og hafði hann þjónað þrem prestaköllum áður en honum var veitt Vestmannaeyjaprestakall af landshöfðingja 29. ágúst 1889. Séra Oddgeir þótti ágætur kennimaður. Í hans tíð jukust mjög prestsverkin við hina miklu fólksfjölgun í Vestmannaeyjum. Samt tókst séra Oddgeir að rækja prestsstörfin af mikilli prýði og dugnaði.
Séra Oddgeir hafði á hendi barnakennslu í barnaskóla Vestmannaeyja og um tíma hafði hann einn barnakennsluna. Átti hann miklum vinsældum að fagna sem barnakennari. Í sýslu- og sveitarmálum tók hann jafnan mikinn þátt. Þótti hann jafnan úrræðagóður og hinn tillögubezti, samvinnuþýður og áhugamaður um velfarnaðarmál eyjanna. Sáttasemjari þótti séra Oddgeir ágætur. Hann ritaði stundum fréttir úr Vestmannaeyjum í blöð.
Samkvæmismaður var séra Oddgeir, enda fjörmaður og mælskur. Þótti allt vanta, þar sem mannfagnaðir voru haldnir hér, ef hans naut eigi við til að setja hátíðir og halda ræður. Hann þótti yfirleitt góður ræðumaður og sérstaklega þóttu tækifærisræður hans góðar.
Séra Oddgeir reisti nýtt prestsseturshús að Ofanleiti af timbri og fékk til þess embættislán, er seinna var aukið nokkuð. Þessu láni fylgdu hinar þungu kvaðir embættislána presta, og kom það til að hvíla þungt á dánarbúi séra Oddgeirs, er eftir lögum mátti gera kröfu til að skilaði aftur eftir 20 ár húsinu í góðu standi. Ríkið lét reisa vandað steinsteypuhús að Ofanleiti 1925.
Sumarið 1919 11. ágúst átti séra Oddgeir 70 ára afmæli. Hafði hann þá verið 45 ár prestur. Héldu eyjamenn sjötugsafmælið hátíðlegt.
Kona séra Oddgeirs var Anna Guðmundsdóttir prests í Arnarbæli í Ölfusi Einarssonar. Hún dó 2. des. 1919. Séra Oddgeir lézt 2. jan. 1924, 75 ára að aldri. Safnaðarmenn gáfu fagran silfurskjöld til minningar um þau.
Af börnum þeirra hjóna komust 10 til fullorðinsaldurs:
Guðmundur verzlunarmaður, lézt í Suður-Ameríku. — Jóhanna Andrea, d. 1906, miðkona Magnúsar Jónssonar sýslumanns í Vestmannaeyjum, síðar bæjarfógeta í Hafnarfirði.
Guðrún, síðasta kona fyrrnefnds Magnúsar Jónssonar sýslumanns. — Þórður prestur og prófastur á Sauðanesi, kvæntur Ragnheiði Þórðardóttur. — Guðlaug, ógift. — Margrét, gift og búsett í Bandaríkjunum. — Björn, í Kanada. — Páll kaupmaður og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, kvæntur Matthildi Ísleifsdóttur frá Kirkjubæ. — Áróra, d. 1945, gift Þorvaldi Guðjónssyni útvegsmanni. Þau skildu. — Sigurður, kvæntur Ágústu Þorgerði Högnadóttur.
Lýkur hér að segja frá gömlu eyjaprestunum.

Sigurjón Árnason prestur (1924-1944).
Halldór Kolbeins sóknarprestur.

Sigurjón Þorvaldur Árnason. Veitingabréf hans er frá 3. maí 1924. Hann er sonur séra Árna Björnssonar prófasts í Görðum á Álftanesi og konu hans Líneyjar Sigurjónsdóttur óðalsbónda Jóhannessonar á Laxamýri. Séra Sigurjón er kvæntur Þórunni Kolbeins, dóttur séra Eyjólfs Kolbeins Eyjólfssonar að Melstað í Miðfirði. Þau hjón eiga sjö börn.
Jes A. Gíslason fv. sóknarprestur hefir gegnt prestsstörfum hér í forföllum sóknarprestsins. Hann er sonur Gísla kaupmanns Stefánssonar í Hlíðarhúsum og konu hans Soffíu Andersdóttur. Kona séra Jes var Ágústa Eymundsdóttir. Börn þeirra hjóna fimm eru á lífi.
Séra Sigurjón Árnason stofnaði hér 1926 Kristilegt félag ungra kvenna og fyrir forgöngu hans stofnaði séra Friðrik Friðriksson Kristilegt félag ungra manna 1924. Séra Sigurjón Árnason hefir verið skipaður sóknarprestur í Hallgrímssókn í Reykjavík, og er nú fluttur héðan til Reykjavíkur eftir rúmra 20 ára vel unnið starf, er eigi verður nánar lýst hér.
Söfnuður sjöunda dags adventista var stofnaður hér 1924. Forstöðumaður er O.J. Olsen. Söfnuðurinn heldur uppi barnaskóla. Innan safnaðarins starfar kvenfélagið Alfa að líknarstörfum.
Betel-söfnuðurinn var stofnaður 1926. Kirkja safnaðarins byggð sama ár. Fyrsti forstöðumaður safnaðarins var Eric Åsbö. Núverandi forstöðumaður er Ásmundur Eiríksson frá Reykjarhóli í Fljótum. Líknarstarf er starfrækt innan safnaðarins. Söfnuðurinn heldur uppi sunnudagaskóla á vetrum.

Tilvísanir neðanmáls í þessum kafla:
27) Sjá óprentað æfiágrip séra Jóns í eigu niðja hans.
28) JS 382—384, 8vo; ÍB 422, 8vo; Lbs.
29) Lbs. 1200.



Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit