Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumur Sigríðar Sumarliðadóttur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.


Draumur Sigríðar Sumarliðadóttur.


Þórður hét maður, Ívarsson. Hann bjó í Rifi undir Jökli. Sigríður hét kona hans, Sumarliðadóttir. Ingibjörg hét dóttir þeirra. Þá er hún var á fyrsta árinu og lá í vöggu, dreymdi Sigríði, að hún sá 11 dúfur ofan á barninu í vöggunni. Þótti henni ein þeirra vera dauð, en allar hinar lifandi. Hin dauða þótti henni vera næst sér, og þóttist hún geta handleikið hana. Hún vildi líka handleika hinar, en náði ekki til neinnar af þeim. Þá er Ingibjörg var vaxin, sagði Sigríður henni drauminn og sagðist ráða hann svo, að Ingibjörg mundi eiga 11 börn, en sér mundi eigi auðnast að sjá nema eitt þeirra. Þetta kom fram. Ingibjörg giftist Karli Lúðvík Möller, trésmið í Ólafsvík. Hann varð síðar kaupmaður í Vestmannaeyjum. Þau áttu 11 börn. Hið fyrsta þeirra fæddist andvana. Þá var Sigríður á lífi hjá dóttur sinni í Ólafsvík. Litlu síðar andaðist hún, en þau fóru til Vestmannaeyja. Þar áttu þau 10 börn, öll lifandi. Yngstur þeirra er Haraldur Lúðvík Möller, trésmiður í Reykjavík. Hann hefir sagt mér frá þessu. En móðir hans sagði honum.
(Brynjólfur Jónsson: Dulrænar smásögur, bls. 4—5).
(Karl Lúðvík Möller var verzlunarstjóri við Tangaverzlun um nokkurt skeið. Hann andaðist árið 1861, og voru þá öll börn þeirra Ingibjargar í ómegð. Eftir lát manns síns bjó Ingibjörg, Maddama Möller, í Túni, við mikla fátækt).