Sæfífill

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Sæfífill (Anthozoa)

Um 24 tegundir sæfífla er að finna á grunnsævi við Ísland og er Sænellikan líklega einna mest áberandi þar, einnig er töluvert af Sænetlu og Hnúðafífli.

Stærð: Sænellikan getur náð allt að 30cm búklengd en Sænetla og Hnúðafífill eru talsvert minni.

Lýsing: Sænellikan getur haft allt að 500 arma, en armafjöldi er mjög breytilegur. Hún er oftast gul eða hvít á litinn. Sænetlan er fallega rauð á litinn og ber allt að 160 digra arma. Hún er einnig frekar stórvaxin. Hnúðafífill er mun minni og hefur aðeins hnúða á efri hluta búksins. Sæfíflar eru algengastir í holsepaformi en finnast einnig í kórallaformi. Sæfíflar eru lang fjölmennasti undirhópur holdýra og eru um 6000 tegundir þekktar. Líkamsbyggingu þeirra er háttað þannig að þeir hafa aðeins eitt op sem þeir éta með og losa sig við úrgang. Þeir hafa ekki innri eða ytri kalkstoðgrind, en halda sinni lögun með vatnsþrýstingi og vöðvaafli. Í örmum sæfífla eru stingfrumur (nematocysts) svipað og marglyttan býr yfir, sem þeir nota til að lama bráðina.

Heimkynni: Sæfíflar eru botnfastir og eru mjög útbreiddir. Þeir finnast á grunnsævi og allt niður á 5000 metra dýpi. Þeir halda til aðallega í hlýjum sjó og eru allt í kringum Ísland.

Lífshættir: Sæfíflar lifa oftast nær á hörðum botni, klettabotni eða sitja á skeljum og kuðungum oft þeim til varnar.

Fæða: Fæða sæfífla getur verið margvísleg eða frá agnarsmáum krabbadýrum upp í sæmilegustu fiska sem þeir lama með stingfrumum á örmunum. Þegar hann hefur fangað einhverja bráð með sínum fjölmörgu örmum þá stingur hann örmunum ofan í kokið á sér og hreinsar allt ætilegt af og skilar síðan úrganginum aftur út um sama opið.

Æxlun: Sæfíflar geta fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Þeir geta fjölgað sér með því að mynda flipa á fæti. Flipinn losnar frá dýrinu og myndar nýjan einstakling og er þá um klónun að ræða. Við kynæxlun gefa einstaklingar frá sér kynfrumum sem síðan frjóvgast í sjónum. Okfruman þroskast og verður að lirfu sem síðan festir sig við botninn og umbreytist í fullorðinn holsepa.

Nytsemi: Nytsemi er engin nema þá að mörg dýr leggja sæfífla sér til munns m.a. fiskar og ýmsar tegundir sæsnigla.