Ritverk Árna Árnasonar/Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 15:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 15:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum, síðari hluti“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
Fara í flakk Fara í leit

Ritverk Árna Árnasonar/Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum, síðari hluti


Úr fórum Árna Árnasonar


Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum, síðari hluti


Dansinn


Árið 1924 kom svo fyrsta danshljómsveitin til sögunar hér í bæ, Jazzinn svonefndi. Fyrstu menn hans voru: Ingi Kristmanns, píanó, Filippus Árnason, Ásgarði, trompet, Kristján Kristjánsson mandolín, Aage Nielsen banjómandolín, Árni Árnason, fiðla, Jón Ásgeirsson, fiðla, Eyjólfur Ottesen trommisti (janitzer) síðar H. Stolzenwald banjómandólin, Alfreð Sturluson, banjó. Þetta þótti hin mesta nýlunda og varð Jazzinn að spila á hverju balli sem ball vildi heita. Kaupið var 5 kr. pr. mann fyrir nóttina og þótti offjár, enda þótt spilað væri stanslaust frá kl. 21 til 04.00 og 05.00. Þetta þótti mjög góð dansmúsik, enda þótt flestir spilararnir væru lítt lærðir og þess vegna í ýmsu ábótavant. En þá var fjör í tuskunum og dansað af hjartans lyst og má með sanni segja eins og Örn Arnarson:

„Dansinn tróðu teitir þar
tóbaksskjóðu bjóðar.
Hnjáskjóls tróður hýreygar
hlupu á glóðum rjóðar.“

Svo fór að jazzararnir þreyttust á þessu næturgöltri og aðrir yngri tóku við. Aðal fiðlari varð þá Oddgeir Kristjánsson. Hann hafði lært á tónlistarskólanum í Reykjavík og náð ágætum árangri í leikni, hljómfræði og frumsmíðum laga. Hann er löngu landsþekktur fyrir lög sín og lagaútsetningar fyrir ýms hljóðfæri. Má segja um Oddgeir, sem sagt var um Ole Bull, „ hann spilar á allan fjandann, horn og klaufir.“


Í sambandi við hljómlist Eyjanna fyrrum verður ekki komist hjá að minnast örlítið á dansinn nokkru nánar. Ég hefi áður minnst á söngdansinn danska „að vefa vaðmál“, sem snemma hefir borist hingað, ásamt öðrum slíkum. Annar dans, svo sem Polka, Vals, Polka-marsúrka hefir borist hingað síðar og þá auðvitað með farmönnum eða dönsku embættismönnunum, er hér voru alla tíð.
Í tíð M.M.L. Aagaard sýslumanns hér í Eyjum árin 1872 til 1891 kenndi kona hans Agnes Aagaard samkvæmisdansinn Les Lanciers. Fór sú kennsla fram á heimili sýslumanns, er þá voru Uppsalir. Allmargt ungt fólk tók þátt í þeirri framabraut, að læra dans, t.d. Jóhann Bjarnasen verzlunarstjóri og Margrét Þorsteinsdóttir kona hans, Gísli Eyjólfsson, Búastöðum, Jóhanna Árnadóttir í Stakkagerði Diðrikssonar, Gísli Lárusson á Búastöðum, síðar maður Jóhönnu í Stakkagerði, Ólöf Lárusdóttir, Búastöðum og Steinvör, er báðar voru systur Gísla og börn Lárusar hreppstjóra Jónssonar o.m.fl. Fyrir dansinum spilaði dönsk stúlka á harmoniku Signe Hansen, og var dansað eftir laginu og þessu íslenska viðkvæði:

„Þau voru rekin út með staur,
hún Eva og hann langi gaur...“

Nokkru eftir aldamótin kenndu hér þennan sama samkvæmisdans, þau Sigfús Johnsen og Sigurveig Sveinsdóttir snikkara Jónssonar. Um undirleik veit ég ekki, en trúlega hefir verið notuð harmonika og sama danslagið notað.
Aðrir útlendir dansar, sbr. hér að framan, munu fyrst hafa verið séðir hér í brúðkaupsveislu Árna Diðrikssonar og konu hans Ásdísar Jónsdóttur, en þau giftu sig 8. okt. 1858. Voru það dönsk hjón er dansinn sýndu og þótti gestum mikið til koma, (frásögn Fríðar Lárusdóttur). Ekki lærðist fólki þá þessi kúnst, en smám saman greip dansinn um sig og þá sérstaklega í og út frá dansæfingunum í Uppsölum hjá frú Aageard. Sýslumaður varð fertugur 30. jan. 1879. Þar var fjöldi gesta og mikið dansað, etið og drukkið langt fram á nótt. Þá lærðu margir sporið og dönsuðu eftir það, þar sem því varð við komið.
Um 1890 var svo farið að halda svonefnda erfiðisdansleiki. Þeir voru haldnir af fólki, sem stundaði erfiðisvinnu, t.d. saltvinnu, kola- og ballastvinnu í skipum, stafla þar fiski eða losa timbur. Þegar svo Austfirðingar fóru að koma hingað, voru haldin svonefnd Austfirðingaböll, sem orðlögð voru fyrir fjör og mikla skemmtan.
Enn síðar komu svo Eiðisdansarnir til sögunar, þegar Brilloin var að byrja þar hinn fyrirhugaða atvinnuveg, útgerð og beinavinnslu, sem þó allt fór út um þúfur. Þær skemmtanir voru viðfrægar og hlutu slæma dóma almennings.
Danskennari kom hér 1912-13. Það var Stefanía Guðmundsdóttir leikkona. Hún kenndi almenna dansa við góða aðsókn. Einnig lék hún í 2-3 leikritum.
Stuttu síðar kom hér Sigurður Guðmundsson danskennari úr Reykjavík og kenndi um tíma almenna og samkvæmisdansa, en þátttaka var ekki mikil.
Árið 1916 kom Guðrún Guðmundsdóttir verzlunarmær og danskennari. Hún kenndi nýja samkvæmisdansa, svo sem Les Lanciers, sem ávallt var í tísku, franskan vals, Mirella, Anglodane o.fl. Aðsókn var mikil og ungrfrúin leikin í listinni. Undirleik annaðist Sigríður Ottesen, síðar kona Kristjáns Gíslasonar að Hóli. Þá kom hér Sófus Guðmundsson árið 1922 og rak dansskóla 1922, 1923 og 1924 yfir haustmánuðina. Sófus var skósmiður að iðn, en rak dansskólann í hjáverkum, en hann var fullskipaður hvert haut. Auk fyrrnefndra dansa Guðrúnar, kenndi hann og Bostonvals, Sommerfuglestep, Twostep með tilbrigðum o.fl.
Fleiri danskennarar komu hér síðar, en ekki varð þátttaka góð hjá þeim, enda þótt um allgóða kennara væri að ræða.
Að endingu þessa máls skal getið glæsilegasta og fjölsóttasta dansskóla, er getur í sögu byggðarlagsins. Hann var starfræktur af gagnfræðaskóla Eyjanna 1960, og sóttu hann öll börn skólans af ýmsum aldursflokkum. Forgöngu um það mál hafði skólastjórinn Þorsteinn Þ. Víglundsson, er sá nauðsyn þess að hrífa börnin frá allskonar götulífi, en sameina þau um allsherjaráhugamál þeirra í heimkynnum skólans. Þetta reyndist mjög farsæl ráðstöfun og mæltist vel fyrir, til hróðurs skólastjóra og til heilla nemenda.


Lúðrasveitir


Árið 1902 markaði merk tímamót í tónlistarsögu Eyjanna, en fram að þeim tíma hafði tónlistarlíf verið hér fremur fábrotið. En um haustið það ár, fóru nokkrir unnendur hljómlistar að minnast á það, að gaman væri að reyna að stofna hér lúðrasveit. Var talað við nokkra menn í þorpinu um þetta og virtist áhugi manna fyrir þessu vera mikill. En fljótlega kom þó í ljós, að við margskonar erfiðleika yrði að stríða og kostnaður verða mikill. Engir lúðrar voru vitanlega til, og enginn maður í þorpinu, sem kunni að spila á slík hljóðfæri. Menn ræddu þetta sín á milli og á fundi, og voru allir sammála um að reyna að hrinda þessu í framkvæmd með hjálp góðra manna. Aðalhvatmenn þessarar hugmyndar og þróunar hennar voru Sigfús Árnason organisti, Magnús bæjarfógeti Jónsson, Gísli J. Johnsen kaupmaður, sem studdi að þessu með ráðum og dáð, Gísli Lárusson gullsmiður í Stakkagerði, meðlimur söngkórsins, Jón Ingimundarson í Mandal, bassasöngmaður úr kirkjukórnum, Kristján bróðir hans í Klöpp, einnig söngmaður í kirkjukórnum, prímobassi, Pétur Lárusson, Búastöðum, þá tenóristi í söngkórum Sigfúsar , Árni Árnason, Grund, bassisti úr kórunum, Arngrímur Sveinbjörnsson, Kirkjubæ, prímobassi úr kirkjukórnum og karlakórnum, Brynjólfur Sigfússon organleikari o.fl.
Undirbúningsnefnd var kosin til framkvæmda þessu máli og fjáröflunar með samskotum almennings og hlutaveltu og safnaðist nokkuð fé, og voru því lúðrar pantaðir frá C.C. Möller í Kaupmannahöfn. En svo kom fyrsta óhappið. Skipið Skotlandið (Scotland), sem lúðrarnir voru sendir með frá Höfn, strandaði við Færeyjar og fóru lúðrarnir þess vegna þar í land. Kennari hafði verið ráðinn frá Reykjavík. Það var Gísli Guðmundsson lúðraspilari, (síðar þekktur undir nafniu Gísli Gúmm og söng manna mest einsöng, t.d. hjá þjóðkórnum lagið um Þórð malakoff-) og var hann kominn til Eyja þá í byrjun vetrar 1903. Hann varð þess vegna að fara aftur til Reykjavíkur, þareð svona tókst til um lúðrana. En Eyjamenn lögðu ekki árar í bátinn. Þeir pöntuðu sér nýja lúðra. En um haustið eða í byrjun vetrar 1904 komu strönduðu lúðrarnir frá Færeyjum heilu og höldnu. Þessir nýju voru þá seldir út á land og allt fór vel. Gísli Guðmundsson var pantaður aftur og kom hann starax og hóf þegar kennslu. Í raddir hafði verið valið á lúðrana og var það þannig:
1. Pétur Lárusson, Búastöðum, lék piccolo, dáinn 18. okt. 1953.
2. Árni Árnason, Grund, lék á 1. cornet, dáinn 19. jan. 1924.
3. Guðni J. Johnsen, lék á althorn, dáinn 18. jan. 1921.
4. Lárus J. Johnsen, lék á soletenor, dáinn 15. okt. 1930.
5. Páll Ólafsson, Sunnuhvoli, lék á tenor, dáinn 29. júlí 1923.
6. Brynjúlfur Sigfússon, Löndum, lék á túbu, dáinn 27. febrúar 1951.
Æfingapláss lúðraflokksins var hingað og þangað, t.d. í Tangahúsunum, Austurbúðarhúsunum, Garðsfjósinu, sem þá var sjóbúð, í fleiri slíkum húsum, en síðast fékk flokkurinn að æfa í barnaskólahúsinu, nú Borg, sem var ágætt húsnæði, sérstaklega í þingsalnum, leikfimisalnum, niðri. Oft var nær óbærilegur kuldi á æfingastaðnum svo að þeir urðu að vera með vettlinga, frökkum og vel dúðaðir. Samt var æft af mesta kappi og allt gert til þess að komast sem fyrst „upp á lagið“ með blástur, nótnalestur og takt. Hvar og hvenær sem þeir æfðu, safnaðist fólk að æfingarstaðnum og hlustaði hugfangið. Þegar svo sexmenningarnir höfðu æft sig í mánuð, varð ekki lengur komist hjá því að spila opinberlega, spila fyrir fólkið. Fór sú merka athöfn fram við húsið Godthaab. Fólkið þyrptist þangað svo margt sem á stærðar héraðsmót, ungir og gamlir, konur og karlar.
Lúðrarnir voru blásnir til, hitaðir og skolaðir með spritti, því að nokkurt frost var og kalt. Síðan hófst blásturinn. Leikin voru róleg lög svo sem Lofið vorn drottinn, Eldgamla Ísafold, Nú er glatt í hverjum hól o.fl. Hrifningin var auðsæ á hverju andliti og fólkið klappaði lof í lófa. Þetta var dásamlegt og fáir höfðu heyrt annað betra. Já, fólkið var ánægt og sá ekki eftir að hafa af fátækt sinni látið nokkra aura af hendi til lúðrakaupanna. Þeir höfðu þó kostað 320,00, sem var allmikið fé í þá daga, og sumir gefið meira en fátækt þeirra leyfði.
En vitanlega voru þó ýmsir smágallar á þessu, sem fólkið hvorki sá eða heyrði. Sumir voru dálítið góðglaðir af sprittinu, sem hafði máske farið meira ofan í þá, heldur en inn í lúðranna, og þessvegna ekki nógu vissir í nótnalestrinum. Aðrir rugluðust í gripunum eða jafnvel voru með öfugar nótur, þegar byrjað var. Einn spilaranna hafði t.d. spilað eitt lagið þannig að ein „baulan“ á lúðri hans var ekki betur sett í en svo, að hún var utan við pípuna öðrumegin. Geta allir hugsað sér, að þeir tónar, sem hann framleiddi úr lúðrinum þannig á sig komnum, hljóta að hafa verið all einkennilegir. En hvað um það. Fólkið var innilega hrifið og þótt einhverjir hafi ef til vill haft eyra fyrir góðum samhljómum, gerðu þeir sér enga rellu vegna svona smávægilegra mistaka.
Gísli Guðmundsson var hér röskan mánaðartíma við kennsluna, en varð svo að fara vegna aðkallandi anna. Þá tók Brynjólfur Sigfússon við kennslu og stjórn lúðrasveitarinnar og fórst það vel úr hendi. Þeir æfðu vel, spiluðu oft fyrir þorpsbúa og vitanlega um allar stórhátíðir og á Þjóðhátíðinni á hverju ári.
Árið 1906 komu hér 2 mormonatrúboðar, þeir Loftur Bjarnason og Jón Torfason. Þeir gengu í flokk lúðraspilaranna. Spilaði Jón á flautu, en Loftur á cornet-horn. Þetta varð lúðrasveitinni mikill styrkur og þeir mormónarnir báðir vel heima í blæstri og tónlist, svo að heimamenn tóku miklum framförum við tilsögn þeirra og reglubundnar æfingar.
Ávallt voru það húsnæðisvandræðin til æfinga, sem mjög háðu lúðrarsveitinni að mestu frá upphafi til þess dags, er Halldór Guðjónsson leyfði henni að æfa í húsi barnaskólans. Þar mun hún enn í dag til húsa.
Árin 1910-1912 fóru að verða mannaskipti í lúðrasveitinni. Þeir elstu drógu sig í hlé, en nýliðar komu í stað þeirra og raddaskipti urðu. Snemma gékk Árni J. Johnsen í lúðrasveitina. Lék hann fyrst á althorn, en síðar á bassahornið og gerði í mörg ár. Má telja hann til fyrstu manna sveitarinnar, þótt ekki væri hann stofnandi. Síðar komu svo Páll Oddgeirsson Guðmundsens prests, Helgi Árnason múrari, Árni Árnason yngir á Grund, Kristinn Jónsson á Mosfelli o.fl.
Brynjúlfur Sigfússon stjórnaði Lúðrasveitinni til 1916 eða í 12 ár. Um það leyti hljóðnuðu lúðrarnir. Ekki veit ég, hversvegna, en sennilega hafa tíð mannaskipti valdið þar miklu um, breyttir atvinnuhættir eða þeir gömlu hafa vilja draga sig til baka. Það kostaði ávallt mikla fyrirhöfn að æfa upp nýliða, langan tíma, sem hinir gömlu og þjálfuðu spilarar hafa ekki getað fellt sig við, hvað eftir annað.
Árið 1918, um haustið, komt til tals milli nokkurra ungra manna að reyna að endurvekja lúðrasveitina og fá lúðrana hjá þeim gömlu. Þetta hafðist í gegn og með þá hugmyd, að Hjálmar Eiríksson, sem var vel að sér í hljómfræði og söngvinn, gæti kennt, var hafist handa um æfingar. Þessir menn völdust í Lúðrasveitina:
1. Kristinn Jónsson á Mosfelli, 1. cornet,
2. Árni Árnason yngir á Grund, 2.cornet,
3. Filippus Árnason, Ásgarði, 1. alt,
4. Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ, 1. tenor solo,
5. Hjálmar Eiríksson, 2. tenor,
6. Guðmundur Helgason, Steinum, tubu, bassa.
Um þessar mundir var staddur hér í þorpinu Helgi Helgason tónskáld og bjó í Ásgarði. Bauðst hann okkur til kennslu og var það þakksamlega þegið. Brátt urðu nokkrar raddbreytingar og menn látnir skipta um lúður. Guðmundur Helgason hætti í flokknum, en við túbunni tók þá Hjálmar Eiríksson, en Yngvi Þorkelsson nýliði tók við tenórnum. Æfingar voru 2-3svar í viku, og tóku menn miklum framförum undir stjórn Helga Helgasonar. Hann skrifaði nótur handa flokknum, lög, sem voru eftir hann sjálfan og ýmsa erlenda höfunda. Við og við var spilað fyrir fólkið og tókst það oftast ágætlega.
Árið 1921 fluttist Helgi Helgason tónskáld frá Eyjum til Reykjavíkur þá orðinn heilsuveill, enda 73 ára gamall. Við burtför hans færðist nokkur kyrrstaða yfir lúðrasveitina. Að vísu var mætt til æfinga, sem Hjálmar Eiríksson stjórnaði, en það var eins og allt vantaði, þegar nú gamla manninn vantaði. Mannaskipti urðu og nokkrar tilfærslur milli radda. Um haustið, ég held í september, var komið saman og ákveðið að hressa upp á mannskapinn og byrja á nýjan leik. Þá gengu í félagið Ingi Kristmanns, Steinholti og Ragnar Benediktsson frá Mjóafirði. Hann var mjög söngvinn og ágætlega fær í hljómfræði. Tók hann nú að sér stjórn lúðrasveitarinnar og fórst það prýðilega. Æft var vel og reglulega, stundum á Íshúsloftinu, stundum í ganginum á Nýjabíó og víðar. Húsnæðisvandræðin voru ávallt fylgjandi lúðrasveitinni og var henni fjötur um fót. Var spilað úti, þegar færi gafst, fyrir dansi í Gútto o.s.frv. við góðar undirtektir.
Lúðrasveitin var þá skipuð þannig:
1. Haraldur Eiríksson, Vegamótum, Clarinett,
2. Ingi Kristmanns, Steinholti, 1. cornet,
3. Árni Árnason, Grund, 2. cornet,
4. Filippus Árnason, Ásgarði, 1. alt,
5. Gísli Finnsson, Sólbakka, 1. tenor,
6. Hjálmar Eiríksson, Vegamótum, 2. tenor,
7. Kristinn Jónsson, Mosfelli, 3. tenor
8. Ragnar Benediktsson frá Mjóafirði, tuba, stjórnandi sveitarinnar,
9. Haraldur St. Björnsson frá Rvík, trumba.
Þetta haust kom frá Reykjavík Ásbjörn Einarsson félagi úr Lúðrasveit Reykjavíkur, mjög flínkur blásari, cornet, og leiðbeindi hann hér til áramóta 1924-25. Var hið mesta líf og fjör í lúðrasveitinni um þennan tíma. Árið 1926 fara þeir eldri að draga sig í hlé og nýir menn taka við. Þá hættu Hjálmar og Haraldur Eiríkssynir og Filippus Árnason. Það ár voru keyptir nýir lúðrar frá Þýskalandi og mörgum nýliðum bætt inn í flokkinn. Þá komu t.d. Ólafur og Oddgeir Kristjánssynir, Hreggviður Jónsson, Hlíð, Willum Andersen, Sólbakka, Sigurður Scheving, Hjalla, Þorst. L. Jónsson, síðar prestur, Jóhannes Gíslason, Eyjarhólum, Eyjólfur Ottesen, Dalbæ, Ólafur Björnsson, Kirkjulandi o.fl.
Árið 1927, um sumarið, kom Hallgrímur Þorsteinsson tónskáld og lúðrasveitarstjórnandi hingað frá Rvík og æfði og stjórnaði sveitinni hér.
Fyrstu stjórn skipuðu: Formaður Hreggviður Jónsson, gjaldkeri Oddgeir Kristjánsson, ritari Karl Guðjónsson. Oddgeir var í upphafi ráðinn stjórnandi sveitarinnar og kennari og hafa þessir 3 menn æ síðan verið endurkjörnir frá ári til árs.
Árið 1940 var sveitin þannig skipuð:
1. Hreggviður Jónsson formaður, Hlíð, Jónssoar,
2. Oddgeir Kristjánsson gjaldkeri og stjórnandi, Jónssonar,
3. Karl Guðjónsson ritari, Breiðholti, Einarssonar,
4. Guðlaugur Kristófersson, Guðjónssonar frá Oddsstöðum,
5. Sigurjón Kristinsson, Hvíld, verslunarmanns Jónssonar
6. Árni Guðjónsson, Breiðholti, Einarssonar,
7. Björn Sigurðsson, Hallormsstað, Sæmundssonar,
8. Gísli Kristjánsson frá Breiðaholstað, Jónssonar,
9. Sigurður Guðlaugsson, Laugalandi, Þorsteinssonar,
10. Jóhann Gíslason, Uppsölum, Jónssonar,
11. Kjartan Bjarnason, Djúpadal, Árnasonar,
12. Jónas Dagbjartsson, Jaðri, Gíslasonar.
Þessi lúðrasveit lét fyrst til sín heyra opinberlega 29. maí 1939. Eins og áður, var aðal vandamál hennar húsnæðisleysi til æfinga. En úr þessu leystist þegar skólastjóri barnaskólans Halldór Guðjónsson léði henni húsnæði, sem áður getur.
Lúðrasveitin hefur farið margar meginlandsferðir og víða spilað við hinn besta orðstír, t.d. um Suðurnesin, á Stokkseyri, í Fljótshlíð, í Reykjavík, leikið í útvarpið og víðar. Hún hefir á seinni árum sótt landsmót lúðrasveita á meginlandinu og sjálf séð um framkvæmdir að einu slíku móti í Eyjum 1960.
Auðvitað hefir svo lúðrasveitin leikið á hverri þjóðhátíð og öðrum útiskemmtunum, haldið sérstæða hljómleika og fleiri skemmtanir sér til hins mesta hróðurs. Er sveitin nú talin til þeirra bestu á landinu, þrátt fyrir margháttaða erfiðleika í hinu víðfeðma starfi. Sannar það best hæfni og elju stjórnandans og kennara, formanns og annarra starfsmanna hennar.
Saga Lúðrasveitar Vestmannaeyja verður ekki rakin hér nánar. Var og heldur ekki ætlunin að segja hana nákvæmlega, heldur aðeins fara yfir nokkur atriði hennar.

Að síðustu


Hér að framan hefir nokkuð verið minnst á hljómlistarsögu Eyjanna í stórum dráttum fram um 1930-40. Mörgu hefi ég orðið að sleppa, sem þó hefði verið ástæða til að minnast á, en þá hefði grein þessi orðið miklum mun lengri.
Hefði til dæmis verið ástæða til að geta frk. Rögnu Pálsdóttur á Sunnuhvoli, sem lék hér á slaghörpu fyrir dansi svo árum skipti 1925-35 við mjög góða dóma.
Einnig hefði mátt geta frekar Ragnars Benediktssonar frá Mjóafirði, en hann hefir lagt mikinn skerf til hljómlistar hér með ágætum söng sínum, orgelleik í Landakirkju, kennslu í orgelleik og miklu starfi í Lúðrasveit Vestmannaeyja.
Þá kenndi hér orgelleik frk. Ingibjörg Tómasdóttir kaupkona frá Reyðarvatni svo árum skipti og naut mikilla vinsælda sem kennari.
Hin síðari árin hafa veirð hér margir hljómlistarmenn og konur, leikið á margskonar hljóðfæri og sungið, en út í það verður ekki farið í grein þessari. Það yrði allt of yfirgripsmikið mál, enda nútímafólki hér vel kunnugt.
Að síðustu skulu upptaldir meðlimir Lúðrasveitar Vestmannaeyja, sem vitað er um tímabilið 1904 til 1949.
Alfons Björgvinsson, Klöpp,
Ágúst Pétursson, Jómsborg,
Árni Árnason eldri, Grund,
Árni Árnason yngri, Grund,
Árni Guðjónsson, Breiðholti,
Árni Guðmundsson, Háeyri,
Árni J. Johnsen, Vertshúinu,
Baldur Kristinsson. Herjólfsgötu 6 ,
Björn Sigurðsson, Hallormsstað,
Brynjólfur Jónatansson, Breiðholti,
Brynjólfur Sigfússon söngstjóri, kennari og stjórnandi L.V. í 12 ár ,
Erlendur H. Eyjólfsson, Jaðri,
Erling Ágústsson, Brekastíg,
Eyjólfur Ottesen, Dalbæ,
Filippus Árnason, Ásgarði,
Friðrik Erlendur Ólafsson, Gilsbakka,
Gísli Ágústsson, Ásnesi,
Gísli Brynjólfsson, Boðaslóð,
Gísli Finnsson frá Borgarnesi,
Gísli Kristjánsson, Breiðabólstað,
Gíslí Bryngeirsson, Búastöðum,
Guðjón Hjörleifsson múrari,
Guðjón Kristófersson, Brekastíg,
Guðlaugur Kristófersson, Brekastíg,
Guðmundr Helgason, Steinum,
Guðmundur Helgason, Heiðarbýli,
Guðni J. Johnsen, Vertshúsinu,
Hafsteinn Ágústsson, Varmahlíð,
Hafsteinn Snorrason, Hlíðarenda,
Harald St. Björnsson frá Reykjavík,
Haraldur Eiríksson, Vegamótum,
Haraldur Kristjánsson, Breiðabólstað,
Haraldur Ragnarsson, Litla Hvammi,
Helgi Árnason múrari,
Herbert Sveinbjörnsson, Faxastíg,
Hjálmar Eiríksson, Vegamótum,
Hreggviður Jónsson, Hlíð, formaður L.V. síðan 1939,
Högni Ísleifsson, Helgafellsbraut 19,
Ingi Krsitmanns, Steinholti,
Jóhann Gíslason, Uppsölum,
Jóhann Vilmundarson, Hlíð,
Jóhannes Gíslason, Reyjarhólum,
Jón A. Thordarson, trúboði,
Jón Rafnsson, Valhöll,
Jón Þorleifsson, Hlíð,
Jónas Dagbjartsson, Jaðri,
Karl Guðjónsson, Breiðholti,
Kjartan Bjarnason, Djúpadal,
Kristinn Jónsson, Mosfelli,
Lárus J. Johnsen, Vertshúsinu,
Loftur Bjarnason, trúboði,
Nikulás Illugason, Sædal,
Oddgeir Kristjánsson, Breiðabólstað, stjórnandi síðan 1939,
Ólafur Björnsson, Kirkjulandi,
Ólafur Kristjánsson, Breiðabólstað,
Ólafur úrsmiður Sveinsson, Rvík,
Óskar Guðjónsson, Strandbergi,
Óskar Þór Sigurðsson,
Páll Oddgeirsson, Ofanleiti,
Páll Ólafsson, Sunnuhvoli,
Pétur Lárusson, Búastöðum,
Ragnar Benediktsson frá Mjóafirði,
Ragnar Sigurðsson, Skuld,
Rúrik Haraldsson, Sandi,
Sigurður Guðlaugsson, Laugalandi,
Sigurður Markússon,
Sigurður S. Scheving, Hjalla,
Sigurjón Kristinnsson, Hvíld,
Sigurþór Margeirsson,
Steinar Júlíusson, Mjölni,
Svanur Kristjánsson, Tanganum,
Sveinbjörn Guðlaugsson, Lundi,
Sæmundur Jónsson, Jómsborg,
Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ,
Willum Andersen, Sólbakka,
Yngvi Þorkelsson, Eiðum,
Þorsteinn L. Jónsson, Litlu-Hólum,
Þórarinn Sigurðsson, Hallormsstað,


Til baka


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit