Ritverk Árna Árnasonar/Hjálmar Jónsson, - í gamni og alvöru

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. ágúst 2013 kl. 17:41 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. ágúst 2013 kl. 17:41 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Hjálmar Jónsson, - í gamni og alvöru“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Hjálmar Jónsson


Árla morguns hinn 5. júní 1899 sló felmtri miklu á Eyjabúa og Mýrdælinga, er mönnum bárust til eyrna afkáralega ámátleg eymdarvæl og rámar hrinur, sem virtust koma úr austurátt til Eyja. Líktust óhljóð þessi einna helst rámum hrinum í súlu og stundum fannst mönnum sem um óhugnanlegt útburðarvæl væri að ræða.
Flöskupóstur var sendur á land upp og spurst fyrir um, hvaða fyrirbæri hér væri um að ræða, og biðu menn í ofvæni svars.
Eftir tvo daga barst svohljóðandi flöskubréf frá Vík í Mýrdal:
„Undravæl þetta kom frá drengsnáða, sem skaust í heiminn, austur í Bólstað hér, með brölti og bramli, sérkennilegum hrinum og væli, svo óhugnanlegu að ljósmóðir og heimafólk allt flýði í felur, en húsdýr öll og stóðhross fældust í flóð og pytti.
Sýslumaður og Hjalti á Fossi voru sóttir, ef verða mætti til einhvers gagns gegn ófögnuði þessum, og kom þeim saman um, að snáði þessi væri kominn af ættum bergkonunga Eyjanna og mundi einhverntíma verða jarðabændum Eyjanna og fuglalífi þar skeinuhættur Þrándur í Götu. Í blússi var svo snáðanum skellt í fullan vatnsballa og hann skírður skemmstu skírn og hlaut nafnið Hjálmar, sem úleggst fjallaköttur.“
Þá var það föstudaginn 12. júlí 1904, að öskur mikið heyrðist hér í byggðarlaginu, svo að mönnum lá við öngviti af hræðslu. Varð fljótt vitað, að þetta kom frá skipinu Pétursey, sem var í austurflóanum, nálægt Bjarnarey, og var að koma til Eyja austan frá Vík í Mýrdal.
Hjá fuglaveiðimönnum í Elliðaey og Bjarnarey varð allt á tjá og tundri vegna öskurs þessa. Fugl allur flaug á sjó niður, og veiðimenn flýðu sem aftók til bóls og læstu dyrum ramlega. Varð mönnum tíðrætt um ófögnuð þennan og hverju sæta mundi.
Þá stóð upp Jón nokkur í Dölum, síðar búandi hér í Brautarholti og sagði: „Ekki hræðumst vér væl þetta eður hrinanda. Hér mun vera kominn Hjálmar frændi minn frá Bólstað og vera að flytja búferlum hingað til Eyjanna.“ „Ó, já,“ sögðu hinir karlarnir með hryllingi, ekki var á verri sendingu von. Þrifu þeir gamla Grallarann ofan af hillu og sungu varnaðarvers, sem ætluð voru illum sendingum, svo sem Þorgeirsbola og Akurdraugnum.
En í land fór Hjálmar, og ekki var hann gamall, þegar hann fór að tildrast, fyrst í Hrafnaklettum, og flýðu þá þegar allir hrafnar þaðan og hafa aldrei sést þar síðan.
Enginn hænsnakofi hafði friðhelgi fyrir honum. Tók hann egg öll þar og bar þau upp í Dalakletta, kom þeim fyrir á syllum og lék sér að því að þykjast vera að ræna fýl.
Enginn fugl átti friðland í Lambaskorum, Litlahöfða, Kervíkurfjalli eða Stórhöfða, því að allsstaðar var Hjáli.
Engar hirtingar eða kaghýðingar höfðu minnstu áhrif á strákinn. Varð hann svo slyngur að klifra að fágætt var og aflasæll með fádæmum.
Oft komst hann í hann krappann og hefir þrisvar hrapað, en aldrei dáið, verið brotinn og bramlaður, skakkur og snúinn, en jafnskjótt og hann komst á kreik eftir fallið, var hann þotinn upp um fjöll og aldrei kræfari en einmitt þá. Var reynt að tjóðra hann á túninu eins og kálf, en hann nagaði þá sundur öll bönd og slapp.
Berfættur og buxnalaus var hann hafður heima, en ekkert dugði. Hann tók þá í bessaleyfi, af snúrum eður úr skúffum, kvenfatnað, þaut svo yfir stokk og steina, í máske hárauðum litklæðum að sið fornmanna, upp í kletta eða suður í Stórhöfða. Vissu þá engir, hvort þar var á ferðinni hinn alræmdi draugur Rauðpylsa eða Ömpustekkjarrauðbuxinn.
Hjálmar hefir farið um öll fjöll á Heimalandinu og í allar úteyjarnar, bæði frjálst og ófrjálst og getið sér hinn mesta orðstír í hvívetna. Er sagt, að hingað til hafi enginn yfirstigið hann í þokukenndum næturathöfnum bjargveiða, nema ef vera kynni einhverjir vistarmenn hins fornheitna Skálholtsstaðar, sem sökum ágengni, hlutu héraðsfrægð slíka sem Hjálmar í Dölum, og Þorgeir skorargeir, er hann vá Landeyingana í skorunni forðum daga.
Hjálmar er sigamaður með afbrigðum góður og landfrægur, meðal annars fyrir að hafa sigið fyrir sjálfan forseta Íslands, sem lét þau orð falla, þegar hann sá Hjálmar síga í Fiskhellanefinu í hvítum og svörtum sigamannabúningi, kastast til og frá í berginu og langt út í loftið, að þessi undramaður í leikni minnti sig helst á flugfráa hafsúlu, ókrýndan konung bjargfuglanna í Vestmannaeyjum.
Þannig viljum vér líka helst minnast þessa afburðamanns.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit