Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsta úteyjaferðin og góðir bjargmenn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 15:29 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 15:29 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrsta úteyjaferðin
og góðir bjargmenn


Það var árið 1908, að ég fékk í fyrsta sinn að fara til fuglaveiða með háf með föður mínum. Hann var einn af snjöllustu bjargveiðimönnum Vestmannaeyja á sinni tíð, f. 1870, d. 1924.
Var þessi fyrsta úteyjaför, auk þess að hafa verið mín heitasta ósk eins og allra stráka, allsögulegur viðburður í veiðimannalífi mínu. Ég var þá 7 ára gamall og þótti því tilhlýðilegt, að ég fengi lundaveiðiháf og færi að kynnast því að bjargast upp á eigin spýtur, læra hvers konar bjargveiðar, eins og þá var siður stráka. Draumur minn var sem sé orðinn að veruleika.
Ég átti að fá að taka þátt í, – ef hægt er að nota svo stór orð um byrjunarstörf mín, sem voru harla lítilsvirði – í landsfrægum lifnaðarháttum veiðigarpanna, kynnast af sjón og raun þessum kattfimu fjallasnillingum, sem ekki kunnu að hræðast. Þeir buðu öllum hættum byrginn og voru gæddir, í óskiljanlega ríkum mæli, þeim svo mjög eftirsóttu eiginleikum, að kunna að fara varlega þótt fljótt væri farið yfir, hugsa leifturfljótt og framkvæma þær hugsanir með eldsnöggum viðbrögðum, sem voru hnitmiðuð framhjá hættunni, sem ósjaldan geystist að þeim. Öryggi hvers handtaks og fótmáls var treyst af ótrúlegum næmleika og hraða og virtist oft skynjað fyrirfram á einhvern yfirnáttúrulegan hátt eða óskiljanlegan.
Ekki voru allir bjargmenn gæddir þessum sérstæðu einginleikum. Voru þeim annaðhvort ekki gefnir í vöggugjöf eða þeir höfðu ekki numið þá, ef hægt er að komast svo að orði – á fullnægjandi hátt. Einmitt þess vegna fyrirkomu hin tíðu slys við bjargveiðarnar. Mátti oft heimfæra þau til vangæslu eða óvarfærni, hugarbrests við framkvæmd króks mót hættubragði. Hér skal tilfært eitt dæmi af mörgum, sem sanna umrædda eiginleika, dæmi um snarræði er varð viðkomandi mönnum til lífs. Sjá: Ritverk Árna Árnasonar/Hætt komnir í jarðskjálfta.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit