Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsta ferð mín í útver

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 15:12 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 15:12 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsta ferð mín í útver“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrsta ferð mín í útver


Frásögn Einars Sigurfinnssonar
Árni Árnason skráði


VETURINN 1901 hafði stjúpi minn ráðið mig sem vertíðarstrák til Gissurar Bjarnasonar söðlasmiðs á Litla-Hrauni við Eyrarbakka. Ég var þá 17 ára gamall og var hjá móður minni og stjúpa að Lágu-Kotey í Meðallandi, smávaxinn, kjarkvana og kraftalítill. Ég var þó talinn vera orðinn nógu gamall og þroskaður til þess að fara í útver og létta undir í þurftir heimilisins.
Það var mjög nálægt miðþorra, að ákveðið var að leggja upp í þessa fyrirhuguðu ferð. Á næsta bæ við mig var bóndason, Árni Erasmusson að nafni. Hann var maður á besta aldri, fjörmikill, dugnaðarforkur og hinn besti drengur. Hann ætlaði til útvers og ætlaði að vera á skútu frá Reykjavík. Þessum manni var ég nú falinn til umsjónar og aðstoðar, á meðan leiðir okkar lægju saman. Með okkur var og piltur á líkum aldri og ég, sem hét Björn Bjarnason, léttur á fæti og vel duglegur.
Morgunn einn í björtu veðri lögðum við þremenningarnir svo af stað austan úr Meðallandi. Nokkur snjór var kominn, en þó ekki svo mikill að veruleg ófærð gæti kallast. Kúðafljót var allt ísi lagt, nema áll einn breiður og straumþungur. Yfir hann fengum við ferju frá Söndum, sem var bær, er stóð á hólma í fljótinu. Nokkrir smáálar voru svo auðir í vesturhluta Fljótsins, en yfir þá komumst við tafalítið. Við héldum svo áfram vestur Álftaverið, og tók ég mér náttstað þar í Holti. Þar bjó þá Einar Jónsson og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir, og var hún móðursystir mín.
Næsta dag var dimmt í lofti og gekk að með slydduéljum. Við fengum lánaða hesta nokkuð út á sandinn, og með okkur reið kunningi okkar Bjarni Sverrisson til þess að reka hestana til baka. Bjarni kom okkur út yfir Miðkvíslar, en þar sneri hann aftur og árnaði okkur fararheilla. Þá lögðum við pokana á axlirnar og tókum til fótanna. Ekki var þó hlaupið, heldur þrammað áfram jöfnum skrefum, en með smáhvíldum út yfir Múlakvísl, þaðan út með Höfðabrekkuhömrum, yfir Kerlingardalsá, út með Víkurhömrum og allt til Víkurkauptúns. Eins og venjulega fékk ég gistingu hjá góðvinum mínum, Erlendi Björnssyni trésmið og hans ágætu konu Ragnhildi Gísladóttur.
Næsta morgun, þegar út var litið, var komið hið versta veður, norðaustan stormur og mikil snjókoma. Var ekkert ferðaveður, og héldum við félagarnir kyrru fyrir í Vík þann dag. Daginn eftir var frostlaust veður og regnhraglandi. Þá lögðum við af stað frá Vík snemma dags. Allar smáár Mýrdalsins voru stíflaðar og uppbólgnar vegna bylsins daginn áður. Samt komumst við tafalítið yfir þær allar og allt að Hafursá. Þegar þangað kom, var ekki álitlegt að horfa eftir leið. Hafursá er allstraumþung jökulsá og rennur í mörgum kvíslum um stórgerða malaraura. Nú var þetta annars tiltölulega meinlausa vatnsfall, fullt af krapa, þ.e. álarnir sjálfir, en vatnsflaumurinn streymdi um allar eyrar. Þó ekki væri árennilegt að leggja út í þetta, þótti okkur hins vegar ekki gott að hverfa frá ánni að óreyndu. Við ákváðum að freista yfirkomunnar. Árni fór á undan og valdi vöð, þar sem álitlegt þótti. Í aðalálnum var snjókrapið svo samanþjappað að það hélt manni uppi með því að hnoða hvert spor undir fætinum, áður en skrefið var að fullu stigið. Sums staðar varð að skríða á höndum og hnjám, því að þannig kom þungi manns á stærri blett. Þannig sigum við áfram fet eftir fet, uns loks öll Hafursá var að baki. Fegnir urðum við að komast yfir, og kalt var okkur, enda vorum við mjög blautir. Kom sér því vel að skammt var til góðra bæja.
Í Pétursey voru góðir bændur og ekki síður góðar konur. Þar var okkur tekið með alúð og umhyggjusemi. Fengum við Björn náttstað saman, en Árni var á öðrum bæ, allir í besta yfirlæti.
Árni bóndi í Pétursey, sem veitti mér og Birni húsaskjól þessa nótt, varð síðar einn af mínum bestu vinum. Átti ég eftir að þiggja margan greiða á heimili hans og Þórunnar konu hans.
Eftir ágæta næturhvíld og notalegar veitingar, lögðum við svo af stað. Þá var austanstormur og rigning. Stefndum við að Sólheimum og bar hratt yfir, þar eð undan veðri var að sækja. Brátt var komið að Sólheimum. Hittum við þar menn að máli og æsktum hesta og fylgdar út yfir hið illræmda vatnsfall, Jökulsá. Sólheimingar sögðu okkur, að ekki væri til neins að líta að ánni að svo stöddu, því að mesta flug væri í henni. Ekki var það á okkar færi, ókunnugra strákanna, að bera brigður á þennan dóm þeirra góðu og gætnu manna, og sáum við þess vegna þann kost bestan að þiggja framboðin húsaskjól og góðan beina, þótt langt væri til kvölds.
Daginn eftir var komið þurrt og gott veður. Lögðum við því af stað á Sólheimasandinn, og tveir Sólheimabændur okkur til fylgdar. Þegar við komum að Fúlalæk gaf aldeilis á að líta. Kolmórauður jökulgormur veltist fram með feikna boðaföllum og nokkrum jakaburði.
„Jæja, ekki þarf lengi að dvelja hér,“ sagði annar fylgdarmaðurinn, „er ykkur sá einn kostur að snúa aftur til bæja, því að enginn leggur í ána í þessum ham.“
Við létum okkur þetta að kenningu verða og snerum heim til bæja, en þeir Sólheimingarnir riðu niður með ánni og eitthvað austur með sjónum. Þeir ætluðu að skyggnast um eftir líki manns, sem fórst í Jökulsá fyrr um veturinn, en það var enn ófundið.
Við ferðalangarnir komum svo aftur upp að Sólheimum og sögðum frá, hvernig óhemjan hún Jökulsá hefði nú látið. Heimamenn hugguðu okkur með því, að áin yrði betri morguninn eftir, því að veður væri að batna og létta til.
Eftir hádegi þennan dag komu fimm Mýrdælingar út að Sólheimum. Þeir voru að leggja af stað í útver. Allir voru þeir ríðandi, og átti einn þeirra að reka hestana til baka. Þeir fréttu nú, hvernig ástatt var með Jökulsá og þeim þess vegna sjálfgert að enda dagleiðina að Sólheimum.
Um þessar mundir var þar margbýli og svo mun sennilega enn, og því nægur húsakostur fyrir alla þessa strandaglópa austan að. Og ekki skorti þar hjartarúm fólksins. Það vildi allt fyrir okkur sem best gera.
Að morgni næsta dags var komið bjart veður með dálitlu frosti. Var þá fljótt búist til ferðar. Þótti okkur þremenningunum gott að slást í för með þeim Mýrdælingunum. Þeir voru svo drenglundaðir að bjóða okkur að reiða pokana okkar. Kváðust þeir varla fara hraðar yfir en það, að við gætum fylgst með þeim. Þeir ætluðu á hestunum eitthvað út undir Fjöll, þ.e. Eyjafjöll. Við þáðum þetta góða boð þeirra, og var mikill munur að ganga án byrðar.
Þegar við komum að Jökulsá, var svipur hennar mikið breyttur frá því deginum áður. Nú var vatn henni svo mjög þorrið, að vel og greiðlega gekk að komast yfir hana. Þar með vorum við komnir á rangæska grund, sem um þessar mundir var snæviþakinn sandur. Mýrdælingarnir fóru þá að ríða skjögt. Reyndum við, sem gangandi vorum, að fylgja þeim, og gekk það sæmilega fyrst í stað. Þegar kom að Skógaá, var hún auð og ekki djúp, og sama mátti segja um hinar árnar undir Eyjafjöllunum; þó voru þær flestar töluvert spilltar og miklu dýpri en venjulega.
Ekki bar á þreytu hjá þeim félögum mínum, og voru þeir skrefadrjúgir og sporléttir. Ég var aftur á móti skrefstuttur og ekki hlaupalega vaxinn og átti þess vegna erfitt með að halda í við þá. Þó var annað verra. Nærbuxur mínar voru úr vaðmáli. Við bleytuna urðu þær mjög harðar, og saumarnir særðu mig mikið, svo að gangurinn varð mér erfiður.
Þegar komið var út yfir Holtsá, stigu Mýrdælingarnir af hestunum, og fylgdarmaðurinn sneri til baka með þá. Varð þá meiri jöfnuður á farartækjum okkar, þegar allir voru gangandi. Afrifurnar gerðu mér sem sagt mjög erfitt að fylgja félögum mínum, og hef ég þess vegna heldur tafið ferðina. Þó reyndi ég að harka af mér, en kvaldist hastarlega af þessum sökum.
Markarfljót reyndist sæmilegt yfirferðar, þó að sumir álar þess væru nokkuð vatnsmiklir. Vestan fljótsins eru nokkrir bæir, sem nefnast Hólmabæir og tilheyra Vestur-Eyjafjallahreppi. Við skiptum okkur á bæi þessa, og fékk ég náttstað í Steinmóðarbæ. Mikið varð ég feginn að njóta hvíldar og hvíla í góðu rúmi, enda svaf ég vel og nær því í einum dúr til morguns. Vaknaði ég þá vel hress og sem nýr maður, nema hvað læri mín og fótleggir voru næsta aumir viðkomu vegna afrifanna.
Brátt voru allir ferðalangarnir þarna saman komnir og ferðinni síðan haldið áfram, eftir að við höfðum kvatt heimilisfólkið í Steinmóðarbæ og þakkað vel veittar viðtökur í hvívetna.
Ferðin yfir Álana og Affallið gekk vel, og voru báðar árnar allgóðum ísi lagðar.
Þegar við komum að Hemlu, var okkur sagt, að Þverá væri alls ekki væð og naumast ferjufær. Þar kom babb í bátinn.
Við frétt þessa var ákveðið að fara út með Bakkabæjum, ef ske kynni að einhvers staðar mætti takast að komast yfir þessa erfiðu torfæru. Þverá var uppbólgin svo mjög að hún hafði flætt yfir alla bakka sína. Voru þeir ein íshella og sá varla dökkan díl, nema hvað bæir og gripahús stóðu upp úr eins og smá eyjar hér og hvar. Á ýmsum stöðum var leitast við að finna vað yfir ána, en allt reyndist árangurslaust. Loks komumst við þó yfir ána á mjög veikum ís, þar sem Þverá og báðar Rangárnar eru fallnar í eitt. Þóttumst við nú heppnir að hafa öll þessi vötn að baki og hröðuðum ferð okkar upp með Ytri-Rangá á veginn hjá Ægissíðu.
Bar svo ekkert til tíðinda, og gekk ferðin mjög greiðlega allt að Tryggvaskála við Ölfusárbrú, sem var greiðasölu- og gististaður. Man ég ógjörla náttstaði okkar frá Markarfljóti að Tryggvaskála, en þar var síðasti gististaður okkar. Morguninn eftir héldu félagar mínir allir áfram ferðinni áleiðis til Reykjavíkur, en ég slóst í för með tveimur Árnesingum, sem voru á leið til Eyrarbakka. Þeir fylgdu mér svo að húsdyrum á Litla-Hrauni, þar sem ég átti að vera yfir vertíðina. Ég var kominn á leiðarenda.
Sem fyrr getur bjó þá á Litla-Hrauni Gissur Bjarnason söðlasmiður. Hann var ættaður frá Steinsmýri í Meðallandi. Kona hans hét Sigríður Sveinsdóttir. Börn þeirra voru: Bjarni; hann var ekki heima þessa vertíð, Þorvaldur, Skúli, Sveinn, Kristín og Ingibjörg. Þar var líka á heimilinu vinnu- eða lausamaður, er Jón hét og var Erlendsson. Hann var formaður á stórum sexæringi, sem róið var úr Eyrarbakkavörum niður undan Stóru-Háeyri eða mjög nálægt því.
Svo hófst vertíðin, og átti ég að beita á bát Jóns Erlendssonar, ásamt tveim sonum húsbænda minna. Ég kunni ekki neitt til þessa verks og gekk þess vegna fremur illa að vinna það, en reyndi að gera mitt besta og vanda mig vel.
Mér leiddist allmikið á Litla-Hrauni. Heimilið var ekki skemmtilegt og vinnufélagarnir ekki notalegir í framkomu gagnvart mér. Þóttust þeir að vonum talsvert upp yfir mig hafnir, enda kom það greinilega fram.
Einn morgun, þegar við strákarnir vorum búnir að koma línunni niður til skips, og allt var tilbúið að hrinda skipinu á flot, sagði formaðurinn við mig: „Þú skalt koma með okkur á sjóinn, Einar.“
Mig hafði lengi langað til þess að koma á sjóinn og taka þátt í þeim frægu störfum, en nú ..., nú var ég vitanlega alveg óviðbúinn þessari skipan. Ekki datt mér samt í hug að mótmæla skipan formannsins, þorði það alls ekki, þó að ég væri engan veginn búinn þannig, heldur aðeins klæddur venjulegum fötum með húfu á höfðinu og þvælda vettlinga á höndunum. Ég fór því upp í skipið, þegar það flaut og settist undir ár, þar sem mér var sagt. Það var í skutnum. Þar höfðu nýlega verið sett aukaræði, svo að þá voru fjórar árar á borð. Aldrei fyrr hafði ég lagt út ár og gekk þess vegna illa að halda róðrartaktinum, áralaginu, við hina ræðarana. Nokkrum sinnum hlaut ég högg af hendi formannsins, þegar ég fór út af laginu, en þó oftar sár skammaryrði. Auðvitað sagði ég ekki neitt, en ég heyrði suma skipsmennina taka svari mínu og segja, að það væri ekki von á betri róðri hjá mér svona í fyrsta skipti, sem ég legði út ár.
Það hvessti er á daginn leið, kvika óx og talsvert gaf á bátinn. Varð ég því fljótt gegnblautur frá hvirfli til ilja, en reyndi að halda á mér hita með því að róa sem kröftuglegast. Ekki man ég, hvernig fiskaðist þennan dag, en hitt man ég, að mikið varð ég feginn, þegar loks við komum í land. Þá strax sneri formaðurinn sér að mér og sagði: „Flýttu þér nú heim og láttu engan sjá þig á leiðinni.“ Þessu hlýddi ég tafarlaust og var fljótur heim, þótt nokkur spölur væri heim að Litla-Hrauni. Mér var hrollkalt og mjög ónotalegt og kalt var í veðri, en óskemmdur komst ég heim. Fór ég strax upp í rúm og hlýnaði furðu fljótt.
Daginn eftir var stormur og ekki fært á sjóinn. Ég var þá orðinn hress eftir sjóferðina. Um kvöldið fór ég út á Bakka og í sjóbúðina okkar. Margir þar sögðu, að formaðurinn hefði drýgt sannarlegan og refsiverðan glæp, sem og varðaði við lög, að fara með mig á sjó svona búinn eins og ég var í minn fyrsta róður.
Eftir þetta fékk ég svo skinnklæði og sjóvettlinga og fór á sjó hvern róður, sem eftir var vertíðar. Mér hætti að fatast áralagið og kunni allvel við mig á sjónum, þó nokkuð væri ég sjóveikur stundum.
Um lokin kvaddi ég félaga mína og húsbændur. Fór ég þaðan með jafnlétta pyngju og ég kom þangað. Það hafði ekki verið samið um kaup mitt, þegar ég réðist, svo að húsbóndi minn notaði sér það umkomuleysi mitt, og fékk ég ekkert. Þetta voru mér sár vonbrigði, mjög sár. Ég afréð þá að halda suður í leit að vorvinnu. Það gekk vel, og vistaðist ég vormaður að Landakoti á Vatnsleysuströnd. Þar bjó þá fallegu búi Guðmundur Guðmundsson hreppstjóri og Margrét kona hans. Það var fyrirmyndar heimili að öllu leyti og mjög gott að vera þar. Um Jónsmessuleytið fór ég til Reykjavíkur, en þaðan fljótlega heimleiðis. Fór ég með strandferðaskipinu „Hólum“ austur í Vík í Mýrdal með stuttri viðkomu í Vestmannaeyjum. Bátar komu þar út á ytri höfnina, Víkina, með farþega, sem ætluðu með skipinu austur á firði, og tóku farþega frá Reykjavík, sem fóru í land í Eyjum.
Síðan var haldið áfram ferðinni austur með landinu í góðu veðri og var fagurt til lands að líta. Þegar til Víkur í Mýrdal kom, var þar brimlítill sjór og besta veður. Fórum við þar allir í land, sem ákveðið höfðum samferðalag frá Reykjavík með „Hólum“, þegar er við fréttum um ferð þeirra til Víkur. Var mikill munur á slíku ferðalagi eða hinu að eiga að ganga frá Reykjavík austur. Fargjaldið með skipinu var að vísu fjórar krónur, sem var allmikið fé í þann tíð, en eftir þeim krónum sá víst enginn okkar, þótt ekki væri miklum auðæfum fyrir að fara hjá hverjum okkar. Ég sá a.m.k. ekki eftir fargjaldinu, og var ég þó sennilega verst staddur fjárhagslega eftir vertíðina. Skrínukost höfðum við á leiðinni og sæmilega gott lestarpláss, svo að allvel fór um okkur. Kaffi gátum við fengið keypt, en þar eð það kostaði 12 aura bollinn af molakaffinu, eyddu víst fáir okkar í þann munað.
Sigurður fóstri minn tók á móti mér í Vík. Hann var með hesta til austurferðarinnar. Ekki voru klyfjar þeirra þungar af vörukaupum okkar hjá Brydeverslun í Vík fyrir vertíðarkaupið mitt. Hafa það ábyggilega verið sár vonbrigði fóstra mínum, að kaup mitt skyldi ekki hafa verið greitt, hvorki fyrir beitningatíma minn eða róðrartímabil. Það fór líka svo, að kaupið var aldrei greitt þó eftir væri gengið. Skriflegir samningar voru, sem fyrr getur, engir, en munnleg loforð og áætlanir einskis virt, er að uppgjöri kom. Skil ég satt að segja ekki framkomu húsbónda míns, sem var að mörgu leyti besti karl.
Viðstaðan í Vík varð þess vegna ekki löng í þetta skipti. Var ég kominn heim til mömmu og systkini minna daginn eftir og var innilega fagnað.
Lífsreyndari var ég eftir þessa fyrstu verferð mína, og nokkrar krónur átti ég, sem voru kaup mitt fyrir vorvinnu mína hjá Guðmundi í Landakoti.
Þannig fór um sjóferð þá. Hún færði mér lítil auðæfi, en töluverða lífsreynslu og erfiði. Þættu það t.d. sennilega harðir kostir fyrir óharðnaðan ungling að verða að fara gangandi til útvers austan úr sveitum alla leið til Eyrarbakka, Reykjavíkur, Suðurnesja og víðar í nær svartasta skammdeginu. En þetta var siður fyrrum og lengi fram eftir árum, ekki aðeins þarna austan frá, heldur og einnig alls staðar frá og til velflestra verstöðva landsins, og yfir það þvert og nær endilangt.
Hitt mun hafa verið mjög óalgengt, að vermenn fengju ekki vertíðarkaup sitt nálægt vertíðarlokum, og enn óalgengara, að hafður væri sá háttur á, sem viðhafður var gagnvart mér. Þó mun það því miður hafa komið fyrir annars staðar á landinu. Einstaka menn hafa af og til verið til, sem aldrei virtu rétt einstaklingsins og hins minni máttar að neinu leyti. Hefur maður heyrt ekki svo fáar frásagnir um slíka menn og framkomu þeirra við munaðarleysingja og hinn vanmáttuga í lífsbaráttunni.
En sem betur fer heyrir slíkt nú orðið löngu liðinni fortíð til.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit