Ritverk Árna Árnasonar/Drykkjuskapur Íslendinga til forna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. september 2013 kl. 17:32 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. september 2013 kl. 17:32 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Drykkjuskapur Íslendinga til forna
Erindi


Ég hafði hugsað mér að flytja hér erindi um drykkjuskap – ekki á núverandi tíma, því að hann þekkja allir, heldur um drykkjusakp fyrr á tímum, því að um leið og það er fróðlegt að athuga það mál, er það ef til vill ekki almenningur yfirleitt, sem athugað hefir fyrri tíma ástand í þeim efnum. Það er auðvitað sorgarsaga, sem ég ætla að segja ykkur, því að vitanlegt er það, að ef vel er að gáð, er það enginn smáræðis hörmungaskattur, sem Bakkus gamli hefir lagt á oss Íslendinga frá upphafi byggðar lands vors og allt fram á þennan dag. Nei – það eru einhver hin ægilegustu gjöld, er lögð hafa verið á þessa þjóð.
Saga vor Íslendinga hefst vitanlega með byggingu landsins, en um leið hefst þá líka saga drykkjuskaparins, því að ábyggilega voru forfeður vorir engir eftirbátar annarra í víndrykkju fremur en í „öðrum íþróttum“. Þeir gengu, sem kunnugt er, rösklega fram í hverju, sem var, og þeir af þeim, sem í lið Bakkusar gengu, reyndust honum traustir og öruggir liðsmenn. Sagan ber þess ljósan vottinn, að þeir voru margir, sem í það lið gengu. Og svo sem forfeður vorir báru af mörgum erlendum mönnum að hreysti, er um vopnaburð var að ræða og aðrar íþróttir, þannig reyndust þeir og ílögumiklir og þrautseigir, er kappdrykkju skyldi þreyta og vöktu með þessu oft á sér eftirtekt og aðdáun útlendra stórhöfðingja.
Stundum kom það fyrir, að þeir fengu borgið lífi sínu og félaga sinna með því að sigra í drykkju, svo sem Egill Skallagrímsson, er flestum sínum samtíðarmönnum var talinn ílögumeiri við drykk, enda hafa víndýrkendur jafnan til hans vitnað, og talið honum sæmd í því, hve vel hann þoldi að drekka. En Egill mun víst hafa átt marga sína líka, því að drykkju mátti kalla upphaf og endi á öllum mannfagnaði á þessum tímum. Varla var svo fámennt þing eða samkoma, að ekki væri fyrst af öllu hugsað um að afla nægra vínfanga. Þar við þótti mest liggja. Þess er oft getið í sögum vorum, að þegar halda skyldi brúðkaup eða erfidrykkju – erfi –, þá var ekki síst fyrir því séð, að eigi skorti drykkjarföng.
Það er því all-líklegt, að þeir „Hjaltasynir“ hafi þurft að viða vel að sér, er þeir héldu erfðidrykkjuna eftir föður sinn, er boðið var 1200 manns og litlu minna mun dugað hafa sonum Höskulds Dalakollssonar í þeirra föðurerfi, þar sem í veislu sátu 900 manns. En þó er þess getið, að við báðar þessar veislur hafi allt enst prýðilega, enda þótt hvor veisla stæði í hálfan mánuð. Þá áttu og hinar fjölmennu blótveislur og aðrar þesskyns samkomur mikinn þátt í því að auka drykkjuskapinn, enda hvatti sjálf trúin – Ásatrúin – menn til að sýna hreysti við drykkju, eigi síður en að vígum og leikjum, því að allsstaðar þótti hreystin og þolið ómissandi. Það var því síst að furða, þótt menn væru nokkuð þorstlátir, enda var æðsta takmarkið við ævilok að setjast að drykkju í Valhöll með Óðni og Einherjum. Hver samkoma var því venjulega sett með því að drekka skál guðanna og endaði með skilnaðarskál, áður menn kvöddust. Og það voru engir gosdrykkir, sem menn þá drukku. Um það taka sögurnar af öll tvímæli og sýna ljóslega, að karlmenn vildu ekki jafnan drekka mysu eina. Nei – það var kröftugur drykkur.
Það hefði mátt ætla, að með kristnitökunni hefði orðið breyting á þessu til batnaðar, en það er öðru nær. Þeir, sem lesið hafa „Sturlungu“, hafa vafalaust tekið eftir því, að ekki átti bindindi upp á háborðið þá, enda ekki við að búast með þeim ofsa og óstjórn, er þá drottnaði á landi hér í flestum greinum. Og þar sem höfuðból goðanna og annarra mektarmanna voru miðdepill og meginstöðvar drykkjuskaparins í heiðni, þá verður sú breyting á, að þegar kemur fram á Sturlungaöld og þaðan í frá, verða biskupsstólarnir og konungsgarðurinn Bessastaðir aðalaðsetursstaðir Bakkusar, og allmargir ríkismannagarðar að auki. Ekki má gleyma því, að þær fréttir sem við höfum frá þessu tímabili, greina ljósast frá atburðum, er gerast á ofangreindum höfuðbólum. En af öllum þorra manna er fátt eitt sagt. En þar sem fortjaldið er dregið frá, þar sést, að ekki hefir ástandið verið glæsilegra hjá alþýðunni, og sannast hér hið forna spakmæli að „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“ Þá skal játað, að sumir biskupa okkar, voru hinir mestu reglumenn, þótt litlu fengju þeir til vegar komið í bindindisáttina.
Menn segja, að syndin hefni sín sjálf, og eigi er hitt síður alkunna, að syndir feðranna koma fram í börnunum í 3ja og 4ja lið. Þetta eru sígild sannindi, sem alltaf eru að rætast, þar sem vín er um hönd haft. Bakkus leggur skatt á þá, sem hann veitir stundaránægju, og sú snara, sem hann eitt sinni hefur brugðið um háls drykkjumanninum, er ei að jafnaði þaðan tekin, fyrr en hann hefir borgað sinn síðasta skilding og oft meira, enda ósjaldan látið lífið líka. Þennan sorglega sannleika hefir reynsla liðinna alda staðfest og enn í dag staðfestist hann, máske enn betur nú en áður, allsstaðar þar, sem ekki er búið að útrýma þessum óvini mannkynsins, - jafnvel þá, þegar myrkur grúfði yfir allri sagnfræði hér á landi og aðeins fátt eitt var skráð af viðburðum, finnast þá nokkur dæmi, er sanna þetta, og eru þó vafalaust hin miklu fleiri, er engar sagnir frá greina. Ég hef helst hugsað mér að taka þau dæmi, er mönnum hér inni væru máske síður kunn, en sleppa hinum, sem kalla má að allir þekki.
Árið 1298 var Möðruvallaklaustur stofnað af Jörundi Hólabiskupi, er vera þótti mikill skörungur í hvívetna. Þess er getið, að munkarnir væru ódælir og miklir fyrir sér. Haustið 1316, 2 nóttum eftir Krossmessu, brann klaustrið og kirkjan til kaldra kola, og er orsök þess talin sú, að kvöldið áður en brunninn varð komu bræðurnir, munkarnir, utan af Gáseyri og voru drukknir mjög og brúkuðu svall mikið. Kviknaði í tjöldum nokkrum og breiddist eldurinn ört út, svo að við ekkert varð ráðið. Brann klaustrið og kirkjan með mestöllum skrúða og ornamentum. Mannbjörg varð og enginn meiddist og var munkunum komið á vistir og stóð svo um hríð.
Þegar Lárentíus Kálfsson varð biskup, (um 1321), tóku bræðurnir – munkarnir – að heimta að klaustrið yrði endurreist. Urðu úr því deilur miklar, hin svonefndu Möðruvallamál. Hins vegar má fram taka, að Lárentíus biskup var hinn siðavandaðasti biskup sinnar tíðar og bindindismaður. Bannaði hann allt drykkjuslark, bæði heima á biskupsstólnum og í öllu sínu umdæmi, þar sem hann mátti því við koma. Varð hann stundum að leggja hart að sér og margt í sölurnar fyrir það. Af þeim, sem veittu honum mestan mótþróa, má nefna hér tvo, þá Snjólf prest Sumarliðason og Uppsala-Hrólf. Þeir gerðu honum allt til skapraunar, er þeir máttu og hvöttu þá Möðruvallabræður til óhlýðni við hann. Slógust þeir oftar en einu sinni upp á biskup með ójöfnuði og 1326 varð biskup að flýja undan þeim og þóttist víst hólpinn að sleppa, enda voru þeir blindfullir og viti sínu fjær af ofsa. Að vísu vann biskup Möðruvallamál, en það var fleira, sem honum var til mótgangs. Árni, einkasonur hans, varð hinn mesti óreglumaður og lagðist í drykkjuskap og slark, er hann átti að vera við nám erlendis, kom síðan heim til föður síns og varð honum til mikillar mæðu. Fleira mæddi og biskup, svo sem yfirgangur, drykkjuslark og ofsi stórhöfðingjanna, er þá voru uppi, enda var hér á landi þá agaleysi mikið.
Árið 1321 varð „Skurð-Grímur“ biskup í Skálholti, sat hann á stóli 3 mánuði, en eyddi þrem hundruðum hundraða fyrir stólnum í drykkjuskap og óhófsveislur. Viðurnefnið er sagt að hann hafi fengið fyrir það, að hann lét skera 300 fjár um sumarið, meðan kaupmenn sátu í höfnum. Óþarft er að geta um veislur hans og úttekt, en allt var það þessu líkt. Um haustið fór hann alfarinn af Íslandi og þótti að vonum landhreinsun að. Má nærri geta, hvílíkt dæmi hann hefir gefið klerkastétt og alþýðu þessa lands um bindindi og aðra hófsemd.
Árið 1362 var Grundarbardagi. Upphafsmenn hans voru þeir Smiður Andrésson og Jón Guttormsson skráveifa, er voru hinir mestu drykkjumenn og fram úr hófi djarftækir til kvenna, enda voru þeir illa þokkaðir af allri alþýðu manna. Í einni af ferðum sínum komu þeir að Grund í Eyjafirði og vöktu þar sem annarsstaðar óspektir með drykkjuslarki sínu. En háttalag þeirra og framkoma varð þeim dýkeypt. Smiður missti höfuð sitt ofan í mólkurtrog húsfreyju, en Jón var laminn til bana með járnrekum, er hann ætlaði að bjarga lífi sínu með því að skríða út um kamarsaugað og flýja. Báðir höfðu þessir menn mikil völd og kölluðust hirðstjórar. Má nærri geta, er æðstu embættismenn landsins létu sér sæma svona framferði, að almenningur hafi að einhverju leyti fetað í fótspor þeirra.
Saga Jóns Gerrekssonar er svo alkunn, að óþarft er að geta hennar hér. Nefni ég því aðeins það, að hann sjálfur og sveinar hans misstu lífið fyrir illt athæfi við landsfólkið. Er það til marks um, að ærnar hafi þótt sakir á hendur þeim, að enginn treystist eftir þá að mæla, en sagnritarinn telur drykkjuskap sveina hans og þjónustumanna, svo og kvennafar, hafa verið höfuðorsök alls þessa ófagnaðar.
Haustið 1481 heldur Jón lögmaður Sigmundsson hið fyrra brúðkaup sitt í Víðalstungu. Þar varð svo mikið uppþot við víndrykkju, að til víga leiddi, og hafði Jón mikil óþægindi af þeim atburði síðar, því að, þótt hann væri saklaus sjálfur, þá notuðu óvinir hans það slys, er varð, síðar meir sem vopn gegn honum, en það hefðu þeir ekki getað, ef hann hefði ekki óbeinlínis gefið tilefnið með því að veita vínið, enda mjög ólíklegt, að nokkurt uppþot hefði orðið, ef eigi hefði vín verið þar um hönd haft.
Árið 1498 var drepinn Páll Jónsson og var þessi sökin: Páll bjó að Skarði á Skarðsströnd og var bæði auðugur og ættstór. Hann bað þeirrar stúlku, er Guðný hét, af góðum ættum, en hennar hafði áður beðið Eiríkur son Halldórs ábóta á Helgafelli. Hafði hún eigi viljað þýðast Eirík, en lofaðist nú Páli. Þessu reiddist Eiríkur mjög mikið. Hafði Páll vín mikið og flutti á mörgum hestum að norðan til veislunnar, en á Sölvamannagötum gerði Eiríkur honum fyrirsát og hjó niður allt vínið, svo að allt spilltist, og fékk Páll ekki aðgert að sinni. Aftur efndi hann til vínkaupa, því að eigi mátti mjöðinn vanta og kvongaðist hann nokkru síðar. Af þessu efldist hinn mesti fjandskapur milli þeirra og lauk svo, að Eiríkur safnaði að sér hinum verstu mönnum, fór að Páli og drap hann eftir frækilega vörn hans. Var þá hinn agasamasti tími á Vesturlandi og drykkjuöld mikil.
Árið 1504 dó Torfi Jónsson sýslumaður í Stóra-Klofa á Landi. Öll ævisaga hans, það, sem geymst hefir af henni, er ein drykkjuskaparsaga og sýnir ljóslega, að hann hefir verið einn hinn mesti óreglumaður sinnar tíðar, enda var og jafnan margt þess háttar manna á heimili hans, þeirra er ekki hafa átt sér hæli annarsstaðar fyrir sakir óreglu og ójafnaðar, en Torfi veitti þeim fulla vernd og tók þá í þjónustu sína. Sumir segja, að Torfi hafi dáið á Fíflholtaþingi úr drykkjuskap árið 1504, og varð kona hans Helga, að kaupa honum dýrt leg að Skálholti, því að þar hafði hann kosið sér legstað, en Stefán biskup kallaði hann „hvorki húshæfan né kirkjugræfan og litlu betri en þá er farga sjálfum sér“. Varð Helga að greiða ærið fé með líki hans í dýrgripum og jörðum.
Árið 1514, er Stefán Jónsson biskup var staddur í veislu í Viðey, urðu þá sveinar hans ærið drukknir og sinnaðist mjög. Þá varð Erlendur sá, er síðar varð lögmaður, og þá var fremstur sveina biskups og honum kær, saklausum manni að bana. Tók biskup sér það nærri, því að auk vígsins var framin Klausturssaurgun, sem var mjög alvarlegt brot, og varð biskup að bæta vígið miklum bótum til þess að halda virðingu sinni og fá Erlend frá sökum.
Eftirmaður Stefáns á Skálholtsstóli varð Ögmundur Pálsson. Hann var fyrri hluta ævi sinnar skipstjórnarmaður og, eftir því sem honum er lýst, stórtækur á flest og þótti sopinn góður. Sést þetta meðal annars, er hann gekk á konungsfund til þess að sækja um biskupsembættið. Hressti hann hug sinn með því að drekka 3 drykki í nafni heilagrar þrenningar og gekk svo glaður á konungsfund. Er og á hans dögum mikill drykkjuskapur á biskupsstólnum, en biskup hreppti sömu laun og flestir þeir, sem víni eru vinveittir.
Frændi hans og önnur hönd í mörgu, Eyjólfur Kolgrímsson, var oflátungur mikill og ærið drykkfelldur. Þegar biskup vísiteraði um Borgarfjörð í hinsta sinn, sumarið 1538, tók hann veislu að vanda í Reykjaholti. Höfðu sveinar þar drykkjuslark mikið og var Eyjólfur fremstur í flokki. Dag þann, er þeir riðu þaðan, var Eyjólfur mjög drukkinn og leitaði á menn með flangsi og flani, sem drukknum mönnum er títt, en menn hans viku sér allir undan ofstopa hans og látum. Hann hafði spjót mikið í hendi, sem hann veifaði í allar áttir. Stakk hann oddinum óvart í kvið sér svo að nærri gekk út um bakið, og varð það hans bani. Harmaði biskup hann mjög, enda var hann þá orðinn gamall og ellimóður. Mátti slys þetta heita upphafið að mótlæti því, sem honum mætti hin síðustu ár hans, varð því þyngra sem nær dróg andláti hans, og hafa víst fáir biskupar þessa lands, mætt öðrum eins mótgangi á ævikvöldi sínu sem Ögmundur Pálsson, en út í það skal ekki farið hér, enda yrði það of langt mál.
Árið 1504 hélt Björn Guðnason í Ögri, er einna mestur var höfðingi Vestanlands á sinni tíð, veislu mikla og skemmtu menn sér vel, var fólkinu skenkt vín á milli máltíða, því að þá var ensk sigling mikil hingað til lands og vín nóg. Var veislan fjölmenn og óspart drukkið, en höfðingjar sátu við drykkju og skemmtu sér alla daga, svo að til var tekið og hefir þá víst að kveðið, þó að ei séu þær sagnir skráðar.
Ekki voru brúðkaupsveislurnar fyrirferðarminni á þessu tímabili að því er til tekur víndrykkjunnar. Vorið 1530 gifti séra Einar á Staðastað Guðlaugu dóttur sína enskum manni, er Robert hét. Var veislan haldin að Rifi, en þar lágu 9 ensk skip, og gaf hvert þeirra eina tunnu víns til veislunnar, sem stóð í hálfan mánuð og var kappsamlega veitt og drukkið sem nærri má geta, þareð drukknir hafa verið ca. 1600 lítrar af víninu.
Lítum við til Hólastiftis, verður hið sama fyrir oss.
Jón biskup Arsson var gleðimaður og óspar á vínveitingar, enda eru um hans daga margar drykkjuveislur haldnar á Hólum. En illt eitt hafði hann af víninu, eigi síður en Ögmundur biskup. Rafni tengdasyni Jóns biskups, verður vínið beinlínis að fjörtjóni og það á hinn ömurlegasta hátt, því að hann kúgar í ölæði eða hræðir svein sinn til að bera á sig vopn, en sú viðureign veldur dauða Rafns lögmanns. Fráfall Rafns var biskupi hið mesta tjón, því að lögmaður hafði stutt hann sem mest hann mátti, en þess þurfti biskup mjög við, er hann átti í erjum við volduga óvini sína.
Við drykkju víns var það líka, að biskup fastréð að láta til skarar skríða um afskipti sín af Skálholtsstifti. Þá var það og í sama skiptið, að þeim sinnaðist Ara og honum, og Ari tók þá ákvörðun að fylgja föður sínum, þótt hann sæi það fyrir, að það mundi kosta líf þeirra allra, sem og varð sem kunnugt er, því að allir voru þeir feðgar Jón og synir hans Ari og Björn handsamaðir 2. okt. 1550, en af lífi teknir 7. nóvember 1550. Var Jón biskup Arason þá 66 ára, einn hinn merkasti maður, er Ísland hefir átt fyrr og síðar og hafði verið biskup 26 ár.
Af sögum virðist mega ráða, að allmikill drykkjuskapur hafi átt sér stað, bæði heima á Hólum og svo á yfirferðum biskups hin síðustu misseri, er þeir feðgar lifðu og frömdu mest stórvirki. Að vísu voru það sveinar þeirra er óspektirnar vöktu og mest drukku, en ábyrgðina bera þeir þó biskup og synir hans.
Meðferð biskupssveina á Úthlíðarhjónunum sumarið 1550 er hin svívirðilegasta og var auðvitað notuð af óvinum biskups til þess að ófrægja hann, þótt hann ætti þar engan hlut í. En hitt er og nokkurnveginn víst, að varla hefði þetta atvik komið fyrir, ef vínið hefði ekki verið þar sem endranær upphaf og endir alls ófagnaðarins.
Enn má geta þess, að ekki er líklegt að Daði í Snóksdal hefði gengið úr greipum þeim, ef þeir hefðu verið allsgáðir á Staðastað 1549 um haustið, er þeir handtóku Martein biskup og höfðu nær höndum tekið Daða líka, en urðu þá svo háværir af ölæðinu, að Daði komst að ráðagerðum þeirra og gat forðað sér. Jón biskup taldi það og hina mestu óheppni sína, að þeir misstu þá af Daða og að því varð honum, er síðar kom fram.
Þegar dregur fram undir siðaskiptin, fer að bera á því, að sjálfur konungsgarðurinn Bessastaðir, sé ekkert fyrirmyndarheimili um reglusemi og bindindi, og sumir hirðstjórarnir og umboðsmenn þeirra komu þá ekki fram sem stöðu þeirra hefði átt að sæma.
Diðrik frá Minden, umboðsmaður Kláusar hirðstjóra frá Mervitz, er svo hýbýlaprúður, að hann oftar en einu sinni flýgur blindfullur á sóknarprest sinn og skriftaföður, Einar Ólafsson í Görðum, og espaði aðra til óspektar. Þetta athæfi Diðriks gekk svo úr hófi fram, að séra Einari, sem ekki var með öllu óvanur tuski, þótti þó nóg um viðtökur kirkjubóndans og tók það ráð að hóta honum því, að upplesa ævisögu hans að Þingvallakirkju, að áheyrandi öllum þingheimi, þegar allra fjölmennast væri. Er sagt að Diðrik hafi ekki kært sig um þann lestur og batnaði þá nokkuð samlyndi hans og prests, og hætti séra Einar við að framkvæma hótun sína.
Árið 1506 kom hingað til lands höfuðsmaðurinn Herluf Daa og boðaði samstundis til sín að Bessastöðum Jón Jónsson lögmann. Lét lögmaður ekki þá ferð undir höfuð leggjast, en reið þegar suður til höfuðsmannsins, er tók vel á móti honum, og var auðvitað þá drukkið ærið fast. Sagt er, að höfuðsmaður hafi þá heitið lögmanni fylgi sínu til að jafna á Guðbrandi biskupi Þorlákssyni. En til þeirra efnda kom ekki. Lögmanni var um kvöldið fylgt dauðadrukknum til tjalds, en um morguninn eftir fannst hann dauður í sæng sinni.
Stundum urðu veitingar höfuðsmanna sannkölluð hefndargjöf gestunum. Herluf Daa var enginn vinur Odds biskups og er sagt, að hann hafi reynt að koma eitri í bikar biskupsins, er þeir sátu að drykkju að Bessastöðum, en biskup sakaði ekki.
Mörgum varð konungsgarðurinn eins þröngur útgöngu sem hann var víður innkomu. Þannig mátti Hallgrímur Hallgrímsson á Víðimýri þakka hamingjunni að sleppa þaðan óhrakinn. Hann var hávaðamaður og ofstopi við vín og þá oft laus höndin, ef því var að skipta, enda henti hann sú slysni að spretta fingri á Henrik Bjelke höfuðsmanni. Mundi það tiltæki hafa orðið Hallgrími dýrt spaug, ef ekki hefði Brynjólfur biskup mágur hans og fleiri talað máli hans við Bjelke.
Öðru sinni var norðlenskur bóndi gestkomandi á Bessastöðum og drakk með umboðsmanni höfuðsmannsins. Sá hét Jón og hafði hvimleitt viðurnefni. Tók umboðsmaður að stríða honum með viðurnefninu, uns bóndi rauk upp, rak honum rokna löðrung, sem hann svo varð að bæta miklu fé. Slíkar skærur milli landsmanna og höfuðsmanns voru algengar í konungsgarði í þá tíð, nokkurs konar aukageta eða árétting við annan beina og viðskipti Bessastaðamanna við landsmenn. Hins vegar sönnuðu þeir Bessastaðamenn ortakið „Sá vill ekki eiga fiskinn, sem ei tímir að sjá af beitunni í hann“.
Árið 1532 var Gísli biskup Oddsson kosinn biskup í Skálholti. Hann var mjög vel gefinn maður og bráðgáfaður, en ákaflega drykkfelldur og var svo mikið orð ágert, að það barst til eyrna konungs og er mælt, að Gísli hafi orðið að bera af sér þann áburð frammi fyrir konungi og ríkisráði hans, er hann fór utan til að taka biskupsvígsluna. Hverjum þeim, er les ævisögu Gísla biskups Oddssonar, hlýtur ósjálfrátt að renna til rifja, hversu fljótt hann fellur í valinn af völdum vínsins. Aðeins 7 ár sat hann á stólnum og andaðist á besta aldri árið 1639. Hann var svo mikið ljúfmenni, að allir sem hann þekktu, hörmuðu hann mjög. En þótt menn vissu, hver væri sök vanheilsu hans og dauða, þá verður ekki séð, að menn skipuðust við það til batnaðar eða gerðust hófsamari um vínnautn, því að einmitt eftir hans daga, komst drykkjuskapur Íslendinga í almætti sitt, og er þá eins og vínið sé búið að gegnsýra íslensku þjóðina.
Á seinni hluta 15. aldar er uppi Hallur skáld Magnússon. Var hann vel gefinn og talinn skáld gott, en óreglumaður svo mikill, að í annála er fært og segir sagan, að árið 1561 drykki hann sig í hel. Þá er þess getið, „að 1555 drekka 5 menn sig í hel og er þá mikil drykkjuöld hér á landi.“ Stuttort er þetta en þó má af Annálasögninni ráða, að því er líkast sem öll þjóðin sé að láta bugast af völdum vínsins, enda er svo talið, að þá hafi drykkjuskapurinn komist á sitt hæsta stig og allt fram til 1755. Það ár, 1755, hélt Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum jólaveislu og fyrsta jólakvöld gekk upp hálftunna af brennivíni. Boðið stóð í marga daga, svo líklegt er, að öll kvöldin hafi eyðst mikið. Þetta ár var þó hallæri mikið á Norðurlandi. En eins og fyrr er sagt, vínið gekk þá fyrir öllu og var upphaf og endir alls gleðskapar og svo er það enn, að stundum, já, allt of oft, er það látið sitja fyrir, heldur en að kaupa mat í þurftarheimili.
Þeir sem lesið hafa sögu Odds lögmanns Sigurðssonar þekkja vel, hversu gekk til hér á landi í það mund, svo að eigi skal útí það farið. Þó má geta þess, að þótt sumir haldi því fram, að það tímabil sé svartast í sögu lands vors um fyllerí, þá er það engan vegin víst, því að sagnir fara að verða gleggri en áður um hvað eina, er til ber, þegar kemur fram á 18. öldina. Líklegt er þó, að straumurinn hafi borist hingað frá Danmörku, ennþá öflugar en áður, því að þar var þá hin mesta drykkjuöld og má vel segja, að eftir aldarandanum þóttu áflog og ofdrykkja vottur höfðingsskapar og harðfengis „Sá, sem ekki drekkur, hann er öllum mönnum athlægi“, er vel þekkur málsháttur frá þeim dögum. Þetta mundi þykja ótrúlegt nú, ef ekki væru nægar sannanir til að sýna, að svona var nú litið á þessi mál í þann tíma. Og ef við höfum þetta hugfast, má oss ei undra, þótt mörgum yrði hætt við falli. Og ekki megum vér heldur dæma einstaklingana of hart, því að hvað getur hættulegra en svona hugsunarhátt hjá þjóðinni. Að vísu eiga sér stað heiðarlegar undantekningar, en þeirra gætir mesta lítið.
Jón biskup Árnason í Skálholti er sá fyrsti, sem rís gegn ofdrykkjunni. Hann bæði skrifaði stjórninni um þetta mál og sendi umburðarbréf um allt land, þar sem hann heitir á menn til liðsinnis og er víst, að hann hafi mikið gagn gert með baráttu sinni, því að þegar kemur fram á 18. öld miðja, fer drykkjuskapurinn mjög að minnka, þó að mikið vanti þá á að vel sé.
Í yfirliti yfir 18. öldina farast Espólin orð á þá leið, að þá hafi orðið hryðjur minni, er fram yfir miðja öldina leið, við það, að drykkjuskapur minnkaði mikið og þekking tók að vaxa, enda urðu hermdarverk nær engin.
Drykkjuskaparsögu 19. aldarinnar þekkjum vér öll vel og sömuleiðis raddir þeirra, sem létu til sín heyra í „Fjölni“ og víðar bindindinu til liðs. Enfremur voru bindindisfélög stofnuð víða hér úti um land. En treglega hefir það gengið að breyta hugsunarhættinum, og þó margur legði bindindinu liðsyrði, þá lifði brennivínsdrykkjan paradísarlífi í huga mikils hluta þjóðarinnar allt þangað til Góðtemplarareglan kemur til sögunnar.
Ég hefi nú nokkuð minnst á drykkjuskap Íslendinga á liðnum öldum. Mér er það fullljóst, að þetta er mjög ófullkomið yfirlit, en mér er það nokkuð til afsökunar, hve heimildarrita er erfitt að afla sér, þar sem allar hagfræðiskýrslur vantar um þessi efni. Þá er og þekking mín yfirleitt í bókmenntum svona og svona og tími minn takmarkaður eins og þið þekkið. Ég hefði auðvitað getað nefnt fleiri dæmi, en til þess að verða ei alltof langorður, verður þetta að nægja.
Að lokum – það er jafnan talið erfitt og óþakklát verk að ráðast á rótgrónar venjur og eldgamlan hugsunarhátt. Aldarandi og hugsunarháttur hafa reist Bakkusi hið traustasta vígi í huga þjóðarinnar og virðist sá kastali ekki árennilegur eða auðunninn.
Góðtemplarareglan hefir nú starfað ósleitilega í meira en hálfa öld og árangurinn er auðsær. Hún réðist með alefli á aldarandann og hugsunarháttinn, og þó að hún hafi enn ekki sigrað til fulls, er þó byrjað að rofa til og ekki langt til sigurs. Má þar til nefna þann nútíma sigur, að 21 þúsund kjósendur úr 10 stöðum vildu Bakkus feigan. Mætti Góðtemplurum auðnast að sigra fljótt og vel og geta sagt: Nú er Ísland frelsað frá ofdrykkjubölinu, því að nú er algert aðflutningsbann fengið og þjóðin mun kunna að meta það, meta verkanir þess og skilja þær.“
Þökk þeim sem á hlýddu.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit