Ritverk Árna Árnasonar/Vertíðarspjall og aflakóngur í Eyjum 1958

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Úr fórum Árna Árnasonar


Vertíðarspjall og aflakóngur í Eyjum 1958


Vetrarvertíð í Vestmannaeyjum er lokið fyrir árið 1958. Lokadagurinn er í dag. Sú var tíðin, að sá dagur var margt og mikið í senn. Hann var vertíðarlok, allsherjar greiðsludagur, landfrægur gleðidagur, en um leið mörgum skilnaðarstund skemmtilegrar samveru í Eyjum.
Nú er þetta mjög á annan máta. Að vísu lýkur vertíð þennan dag samkvæmt gamalli venju, en allt frá síðustu mánaðamótum, þ.e. apríl-maí, hefur margt vertíðarfólk verið að halda lokin. Það hefur verið að fá endanlegt uppgjör hjá útgerðarmönnum og fiskvinnsluhúsunum, stigið síðan upp í flugvélina og farið upp til meginlandsins í hundraðatali. Einnig fara kaupgreiðslur víðast fram mánaðarlega eða jafnvel vikulega, svo að það fer nú orðið ekki svo mikið fyrir lokadeginum að því leyti.
Allar fyrrum sjálfsagðar lokadagsathafnir dreifast nú til dags á eina viku eða jafnvel tíu daga. Þó er ávallt einhver sérstakur blær yfir þessum fornfræga degi. Þegar engin óhöpp hafa komið fyrir og vel hefur aflast á vertíðinni, er lundin kát og hress þennan dag. Góðir vinir gleðjast saman, þakka samverustundirnar, óska hver öðrum góðrar ferðar og heimkomu og gleðilegs sumars. Já, það er glatt á hjalla á lokadaginn eða um lokin, eins og vera ber. Það er skálað og drukkin minni manna og kvenna, skálað fyrir vaxandi velgengni, fyrir góðra vina samfundum í Eyjum á næstu vertíð o.fl.
Lokin eru líka tímamót, þrungin af alvarlegum hugsunum. Marga vertíðina hafa orðið hér stór slys á mönnum og bátum. Margur hefur oft átt um sárt að binda, og einmitt um lokin rifjast hinir hryggilegu atburðir helzt upp fyrir fólki. Máske voru það atburðir, sem ollu straumhvörfum í lífi þess, í lífi Eyjabúa eða einhverra landsbúa. Þó sjómönnum sé mjög á móti skapi að hugsa eða tala um hætturnar á sjónum, sem ávallt eru við bæði borð farkostsins, hryggjast þeir með hryggum og syrgjandi og taka innilega þátt í sorg þeirra og erfiðleikum. En þeir gleðjast líka innilega með Eyverjum yfir hverri þeirri vertíð, sem lýkur farsællega og án slysa. Auðvitað er skálað fyrir því og minni Eyjanna óspart drukkin.
Vertíðin í Eyjum er liðin. Þessu þýðingarmesta tímabili í árlegri velferðarsögu þeirra er lokið. Þótt fast væri sótt á fjarlæg mið og oft væri ,,þungur róður“ eftir þeim gula, sem ýmist var sóttur vestur á Selvogsbanka eða austur að Ingólfshöfða, þótt veður væru hörð og ygldur sjór, komu allir heilir í höfn. Enginn bátur týndist og ekkert mannslíf misstist í þessum hörðu átökum við úthafið. Er það mikið gleðiefni og þakkarverð forsjá þess, er öllu stjórnar, fyrir lífi og limum skipshafna þeirra 130 vélbáta, sem stunduðu veiðar frá Eyjum í vetur auk fjölda trillubáta. Fyrir þessu er sjálfsagt að skála á lokadaginn.
Mjög eykur það og á gleði almennings, að fjárhagsleg afkoma hans er í flestum tilfellum mjög góð eftir vertíðina og hjá sumum góð með einsdæmum. Margur vermaðurinn fer þess vegna með miklar og verðskuldaðar fjárhæðir, mikil vinnulaun fyrir þrotlaust erfiði og vökur við mikil og góð störf í þágu Eyjanna, lands og þjóðar. Þeir eru líka glaðir og reifir í anda og athöfnum, líta björtum augum til náinnar framtíðar, hlakka til nokkurra daga hvíldar heima hjá ástvinum sínum og að gleðjast með þeim yfir góðum feng og farsælli vertíð í Eyjunum.
Að sjálfsögðu er hlutur manna nokkuð misjafn, þótt góður sé. Afli 130 báta getur vart orðið jafn að magni. Hann mun t.d. í ár vera allt frá 320 til 1200 smál. á bát. Ávallt eru einhverjir óheppnir eða kannske allt að því hálfgerðar ,,fiskifælur“ og aðrir, sem skara fram úr með aflabrögð, t.d. beztu bátarnir, beztu fiskimennirnir og úrvals skipshafnirnar. Þannig er það í hverri verstöð.
Fiskimannshæfileikar eru eftirsóttir eiginleikar sjómannastéttarinnar, sem mönnum eru misjafnlega gefnir. Hér í Eyjum eru þessir kostir tengdir við stéttina í ríkum mæli, og er á engan hallað, þótt svo sé sagt. Verstöðin er þannig í sveit sett, að hún krefst þeirra afdráttarlaust ásamt úrvals farkosti, ef vel á að fara. Afburða fiskimenn og sjómenn hafa verið hér margir síðan vélbátaútvegurinn hófst, fiskiklær og aflakóngar, sem orð fór af víða um landið. Það þykir ávallt mikill vegs- og virðingarauki að hljóta titilinn ,,aflakóngur Vestmannaeyja“ þetta eða hitt árið. Slíkir afburðamenn eiga á öllu völ, t.d. góðum bátum og úrvals sjómönnum. Hins vegar er tignarsess aflakonungsins mikið keppikefli og titillinn vandvarinn frá ári til árs. Einn kemur öðrum meiri eða jafnsnjall, með heppni í stafni og velgengni á bæði borð, rennir sér fram fyrir aflakónginn og tekur sæti hans í tignarsætinu. Það þykir ávallt mikið afrek og aðdáunarvert.
Árið 1954 skeði það, að Benóný Friðriksson frá Gröf í Eyjum varð aflakóngur Eyjanna. Hann var þá fimmtugur að aldri. Oft hafði hann verið hættulegur keppinautur fiskikónganna, en þetta árið hlaut hann titilinn, settist í tignarsætið og hefur trónað þar síðan með heiðri og sóma í fimm vertíðir, þar eð enn varði hann tignarsætið og varð aflakóngur Eyjanna 1958, í fimmta skiptið í röð. Um leið varð hann aflakóngur allra verstöðva íslenskra vélbáta og fiskaði alls 1290 smálestir frá áramótum til 10. maí. Næsti bátur varð Hrafn Sveinbjarnarson úr Grindavík með 1200 smálestir.
Þetta afrek Benónýs Friðrikssonar er algjört einsdæmi í sögu Eyjanna og að dómi almennings og þeirra, er vita bezt, engin tilviljun. Hann er tvímælalaust mesti fiskimaður Eyjanna, einn mesti fiskimaður, sem landið á, fiskimaður af guðs náð. Mætti þess vegna með sanni kalla hann ,,aflakonung aflakonunganna í ríki íslenzkra vélbátaverstöðva“.
Hvað er nú hægt að segja um þennan mann til kynningar og fróðleiks? Það er margt, mjög margt. Það mætti skrifa um hann heila bók, því að þótt maðurinn sé aðeins rúmlega fimmtugur, á hann sér mikla og merkilega sögu. Hann er þekktastur um allar sveitir og verstöðvar landsins og á íslenzka fiskiskipaflotanum. Þeir, sem ekki kannast við Benóný Friðriksson, hafa þó allir heyrt talað um ,,Binna í Gröf“ eða „frá Gröf“. Það er nafn, sem allir kannast við. Vermenn hafa borið hróður hans víða um landið, hann er kunnur af veiðum sínum kringum landið, og blöð og útvarp hafa lofað hann að verðleikum. Þrátt fyrir allar kynningar, vil ég geta hans að nokkru í sambandi við vertíðarlokin, en aðeins minnast fárra atriða úr fiskimannsferli hans.
Benóný Friðriksson, þ.e. Binni frá Gröf, er fæddur í Gröf í Vestmannaeyjum 7. janúar 1904. Hann er sonur merkishjónanna Oddnýjar Benediktsdóttur frá Syðstu-Grund undir Eyjafjöllum og Friðriks Benónýssonar frá Núpi í sömu sveit, formanns og dýralæknis í Eyjum, en þau hjón fluttu til Eyja árið 1902. Þau reistu bú að Gröf og bjuggu þar myndarbúi, rómuð fyrir vinhlýju, glaðværð og gestrisni. Friðrik gerðist snemma formaður, heppinn og vel aflasæll, og var bæði með opin skip og vélbáta. Dýralæknisembættinu gegndi hann af stakri samvizkusemi, meðan hans naut við, og var maður vel fær í því starfi. Þau hjónin komust vel af, þrátt fyrir mikinn barnahóp, og sýnir það eitt framtak þeirra í hvívetna. Alls munu þau hjónin hafa eignazt 22 börn, og komust mörg af þeim til ára.
Enginn sá frú Oddnýju bregða við allar þessar barneignir. Hún var síkát og ungleg, lág vexti og þrifleg kona, létt á fæti og hamhleypa til verka, sem kom sér vel á þessu mannmarga heimili.
Friðrik var léttur á fæti og hýr í lund, fremur lágvaxinn, dökkur á brún og brá og samanrekinn kraftakarl til burða. Eiginleikar, sem mjög hafa gengið í erfðir til sona hans.
Benóný ólst upp með foreldrum sínum og systkinum í Gröf og varð smemma mikill fyrir sér. Varð fljótt auðsætt, að þar var mikið mannsefni á ferðinni og að hugur hans stefndi til sjávar. Innan fermingaraldurs var hann farinn að róa á opnum bátum með félögum sínum, þeim Þorgeiri Jóelssyni frá Fögruvöllum og Magnúsi Ísleifssyni í Nýjahúsi. Allir voru þeir miklar aflaklær, harðfrískir strákar og svo fastsæknir á fiskimiðin, að mörgum eldri manninum þótti meir en nóg um. Formennsku á bátnum önnuðust þremenningarnir til skiptis, og var mikið kapp um hvern róður.
Frá þessum dögum má segja að formennskuferill Benónýs sé óslitinn fram á þennan dag. Raunverulega hefur hann aldrei verið háseti, því að hann gekk beint inn í formannsstöðuna á barnsskónum, þar sem hann hefur síðan starfað með þeim ágætum og glæsibrag, að fáir munu eftir leika.
Fyrsti vélbáturinn, sem Binni frá Gröf var á, hét Friðþjófur Nansen. Var hann eign föður hans og fleiri. Þar var Binni vélgæzlumaður, en gegndi ávallt formannsstöðunni í forföllum og fórst það prýðilega. Síðan var honum svo boðin formannsstaða með vélb. Gúllu, sem hann var með í þrjár vertíðir og aflaði ágætlega. Eftir það var hann með hvern bátinn eftir annan, t.d. enska bátinn Newcastle, Gulltopp, Sjöstjörnuna, Sævar, Andvara o.fl. og fiskaði yfirleitt með ágætum og ávallt með ,,toppbátum“ í afla.
Árið 1954 tók hann við mb. Gullborgu, Re. 38. Er það stór og mikill bátur, rúmlega 80 smálestir, og hefur hann verið með þann bát síðan. Hefur hann reynzt Binna hin mesta happafleyta og sannkölluð afladrottning, sem hann hefur beitt í brimin hvítu og lygnan sæ með frábærum dugnaði og harðfylgi í hvívetna.
Þar hefur ávallt síðan verið valinn maður í hverju rúmi, menn, sem eins og sagt er, kalla ekki allt ömmu sína og taka ekki neinum vettlingatökum á verkunum. Nei, um borð hjá Binna er betra að vera snar í snúningum og handfastur. Það á betur við fangbrögð hans við gömlu Rán og trylltan dans við dætur hennar.
Að vertíðarlokum 1954 var Gullborg sem sagt aflahæsti bátur í Eyjum, og hlaut Binni þá nafnbótina ,,aflakóngur Vestmannaeyja“. Þá var hörð barátta um tignarsessinn milli hans, fyrrverandi aflakóngs og annarra fiskigarpa. Hann flutti þá á land 877 smál. af slægðum fiski með haus, og var það tvöfaldur meðalafli Eyjabáta þá vertíð.
Efalaust hafa mestu fiskimenn Eyjanna hugsað til hefnda á vertíðinni 1955, að komast í sætið, sem þeir annað hvort höfðu skipað eða verið mjög nærri að hreppa. Þetta vissi Binni vel og hitt, að þá myndu verða hörð átök í keppninni. Þeir voru engin lömb að leika við, keppinautar hans. Allt annálaðir dugnaðar- og fiskimenn á góðum bátum með úrvals skipshafnir.
En Binni mætti glaður og reifur til vertíðar, staðráðinn í því að láta ekki hlut sinn fyrr en í fulla hnefana. Þessi veiðikeppni varð ákaflega hörð og tvísýn lengi. Það var róið til austurs og vesturs, út og suður á yztu mið, inn undir Sand og út á heimamiðin. Hvergi átti þorskurinn griðastað. Vertíð þessari lauk á þann hátt, að enn varð Gullborgin aflahæsti bátur í höfn, með 780 smálestir miðað við slægðan fisk með haus.
Hafi fyrrverandi fiskikóngar Eyjanna heitið honum erfiðri keppni 1955, voru heitstrengingar þeirra í byrjun vertíðar árið 1956 öllu ákveðnari. Þá skyldi til skarar skríða, vanda vel sóknina, leggja sig allan fram og sigra kappann frá Gröf í heiðarlegri, drengilegri en harðri keppni.
Strax í byrjun vertíðar hófst þetta árlega íþróttamót skipstjóranna. Það var sótt á yztu mið, þrátt fyrir oftlega váleg veður, og teflt fram allri tækni og góðum tækjum. Hvergi var slakað á í neinu, og afli bátanna jókst. Gullborg tók forystuna, en hinir fylgdu fast eftir, og oft mátti vart á milli sjá. Menn fóru að tala um, að líklega ætlaði Binni að verða hæstur, hann fiskaði daglega vel. En ,,þeir stóru“ komu líka með góðan afla. Hæstu bátarnir voru nú komnir með um 700 smálestir. Munurinn á bátunum var lítill enn. Svo fóru þeir í 800 smál., og jafnt og öruggt þokaðist Gullborgin ofar, 870 smálestir. Já, seigur er Binni. Almenningur var spenntur. Binni hlaut að sigra, hann var efstur. Og svo komu vertíðarlokin, uppgjörið. Benóný á Gullborgu skilaði hæstum afla ennþá! Fiskaði alls 953 smálestir. Hann hafði enn sannað óvéfengjanlega hina miklu fiskimannshæfni sína. Þetta var þriðja vertíðin í röð, sem hann skilaði tvöföldum meðalafla Eyjabáta, og var hann krýndur aflakóngur Eyjanna í þriðja sinn í röð.
Frá fyrstu tíð vélbátanna og fram til ársins 1957 er talið, að þrír formenn hafi orðið aflakóngar Eyjanna þrisvar úr röð, einn þrisvar í röð og fimm sinnum úr röð og tveir þrisvar í röð. Er þar af fullljóst, að tignarsessinn er mjög vandvarinn frá ári til árs, og hörð og mikil keppni.
Árin 1906, 1912 og 1923 var aflakóngur Sigurður Ingimundarson í Skjaldbreið, einn af mestu fiskimönnum Eyjanna á sinni tíð.
Árin 1918, 1920 og 1926 skipar öndvegið Árni Þórarinsson frá Oddsstöðum, síðar hafnsögumaður í Eyjum, þekktur aflamaður sinnar tíðar.
Árið 1943 verður aflakóngur Eyjanna Jóhann Pálsson, skipstjóri á mb. Lagarfossi. Hafði hann verið í öðru sæti árinu áður á sama bát, mikill og snjall fiskimaður. Árið 1944 varð Jóhann aftur aflakóngur og enn árið 1945. Þetta þótti að vonum mikið afrek, og flaug hróður mb. Lagarfoss og Jóhanns Pálssonar víða um íslenskar verstöðvar. Árið 1946 skipti Jóhann um bát, og var þá með Dverg, mótorbát, sem leigður var til Eyja. Þá var Jóhann í öðru sæti. Auðsjáanlega hefur hann ekki kunnað vel þeim sess, því næsta vertíð, þ.e. 1947, skipti hann enn um bát og tók þá við mb. Jötni. Eftir harða sókn og keppni lauk vertíð svo, að enn varð Jóhann Pálsson aflakóngur og hafði þá setið í tignarstólnum fimm sinnum á sjö árum. Þetta þótti bera órækan vott um afburða fiskimannshæfni og dugnað.
Árið 1950 kom nýr aflakóngur til sögunnar, einn af fræknustu fiskimönnum Eyjanna. Það var Óskar Eyjólfsson í Laugardal. Ekki lét hann þar við sitja, heldur varði titilinn 1951 og aftur árið 1952. Það ár fiskaði Óskar 719 smál. í 77 róðrum, sem var álitið einsdæma aflamagn í Eyjum, miðað við slægðan fisk með haus. Menn væntu mikils af þessum unga, dugmikla formanni, en næstu vertíð fórst hann, sem kunnugt er, með mb. Guðrúnu, VE-163, 23. febr. 1953, aðeins 36 ára gamall.
Óskar Eyjólfsson varð aflakóngur þrisvar í röð, annar eftir Jóhanni Pálssyni sem náð hafði þeim frama. Þegar Benóný Friðriksson varð aflakóngur Eyjanna þriðju vertíðina í röð, samfögnuðu Eyjamenn honum og dáðu að verðleikum.
Vertíðin 1957 byrjaði líkt og fyrri ár. Nýir bátar, hvers konar ný veiðitæki, nýjar áætlanir og fyrirheit, sem allt stefndi til aukins afla, sóknar og öryggis. Strax um áramótin hófst þessi árlegi darradans bátaflotans, sem samanstóð af um 100 vélbátum. Benóný lét ekki standa á sér til vertíðar, en hóf róðra 2. janúar ásamt fleirum.
Ekki var langt liðið á vertíð, þegar menn fóru að leiða getum að, hver myndi verða aflakóngur, eða hvort Binna í Gröf tækist að verja sætið fyrir ágengni annarra það árið. Með febrúarmánuði jókst fiskur nokkuð, og mun Binni þá hafa fiskað um 200 smál. Fleiri voru með líkt aflamagn. En er leið á marzmánuð, hækkaði smálestatala Gullborgar mjög ört. Á tímabilinu frá 23. marz til 17. apríl fiskaði hann t.d. rúmar 320 smálestir.
Nokkrir bátar fylgdu fast eftir, svo sem Stígandi VE, Freyja VE, og Kristbjörg, VE, auk Austfjarðarbátanna, sem fiskuðu mjög vel og voru harðir keppinautar Eyjabátanna. Almenningur var orðinn mjög spenntur og fylgdist af ákafa með aflamagninu, sem stöðugt jókst.
Skömmu fyrir mánaðamótin apríl-maí kom Binni með lokasprettinn, og stóðst þá ekkert við honum fremur venju. Síðustu fjóra róðrana kom hann með 51.210 kg, 61.200 kg, 41.970 kg og 43.150 kg. Þetta réði úrslitum. Hann varð þar með aflakóngur Eyjanna þessa vertíð með 1017 smálestir upp úr bát eða 806.305 kg miðað við slægðan fisk með haus. Hann varð um 100 smál. hærri en næsti bátur, sem var mb. Víðir frá Eskifirði. Hinir garparnir á Eyjabátunum hæstu fengu: Stígandi 619.903 kg, Freyja 642.680 kg og Kristbjörg 604.680 kg.
Þannig lauk þessari vertíð. Binni hafði orðið aflakóngur Eyjanna í fjórða sinn í röð, með meira en helmingi hærri meðalafla, og slegið öll met um tignarstöðuna. Enginn hafði haldið tignarsætinu í fjögur ár í röð. Eyjamenn dáðu Binna fyrir afrekið, og sjómannastéttin heiðraði hann að verðleikum. ,,Undraverður fiskimaður er Binni frá Gröf,“ sagði fólkið og skálaði fyrir honum á sjómannadaginn.
Vertíðin 1958 hófst í Eyjum strax upp úr áramótum. Er það einhver sú stærsta í sögu þeirra með tilliti til þess, að 130 vélbátar voru að veiðum þaðan, auk fjölda trillubáta. Af þessum 130 bátum voru 38 aðkomubátar, stórir og smáir. Gert var út á línu, net og handfæri, og varð vertíðin einhver sú bezta og aflamesta nema hjá handfærabátunum. Afli þeirra varð yfirleitt mjög rýr og afkoman slæm fjárhagslega.
Í byrjun vertíðar leit fremur illa út með afla. Þorskur sást helzt ekki, hvar sem leitað var. Þá bjargaði það veiðunum að mjög mikið gekk á miðin af ýsu, keilu og löngu og varð af ágætur afli hjá mörgum bátum. Heldur lagaðist þetta er á leið, en verulegur þorskafli varð þó ekki.
Fyrst í marzmánuði lögðu menn þorskanet vestan ,,undir Sand“, og nú skeði það merkilega, að þar varð strax ágætur afli og batnaði stöðugt. Varð mjög góður afli í þeim mánuði, svo að 31. marz eru margir bátar komnir með 450-550 smálestir. Ekki brást apríl fremur venju, því að segja má að allan þann mánuð hafi verið ágætur afli og allt fram undir lokadag.
Mjög var spjallað um aflakóng Eyjanna á þessar vertíð, og hver hljóta myndi titilinn. Það er nú orðin sú tignarstaða, að menn fylgjast vel með því, hver hreppi hana. Ávallt geta breytingar komið til mála. Búizt var við harðari keppni nú en nokkru sinni áður. Austfjarðabátarnir höfðu sýnt það 1957, að þeir voru hættulegir keppinautar, þar eð þeir urðu fjórir næstir Binna á Gullborgu, þ.e. Víðir frá Eskifirði með 743 smál., Snæfugl SU 711 smál., Björg SU 655 smál. og Gullfaxi NK 653 smálestir. Margir urðu því til að spá sigri þeirra á þessari vertíð. Aðrir trúðu á Binna og enn aðrir á ýmsa Eyjabáta, svo sem Stíganda, Freyju, Erling 3., Kristbjörgu, Hannes lóðs o.fl.
Formenn í Eyjum lögðu fátt til þessa mikla áhugamáls almennings og spáðu engu um. Trú mín er hins vegar sú, að þeir hafi strax í byrjun vertíðar hugsað Binna þegjandi þörfina, stigið á borðstokkinn og strengt þess heit að sýna honum í tvo aflaheimana. Væri og ekki ósennilegt, að þeim hafi fundizt tilhlýðilegt að mannaskipti yrðu í hásætinu.
Hvað Binna viðkemur hygg ég, hann hafi hugsað sín mál í kyrrþey, hann er vanur því, og heitið því með sjálfum sér að gefast ekki upp að óreyndu. Hins vegar þekkti hann keppinauta sína og var fullkunnugt um, að þeir voru engir veiðiglópar. Nei, það var nú eitthvað annað. Þeir voru á góðum, nýjum bátum, sem gengu eins og togarar, og höfðu úrvals skipshafnir innanborðs. En keppnin er skemmtileg, og þar sem enginn verður óbarinn biskup, var bezt að taka mannlega á móti.
Þessir veiðigarpar veittu Benóný fljótt harða atlögu, er á vertíð leið, en hann varðist af mikilli hörku. Veiðisnilldin brást honum ekki, því þótt fyrir kæmu dagar, sem aðrir voru aflahærri, jafnaði hann metin næstu daga og hækkaði aflamagn sitt jafnt og örugglega. Hann fiskaði austur með landinu, þegar aðrir voru vestan Eyja, en þegar flotinn kom austur með, þá flutti hann sig vestur, alveg eins og hann fyndi á sér, að fiskurinn væri að færa sig. Aflinn brást ekki. Um miðjan apríl hafði hann raunverulega fiskað meginpart vertíðarafla síns og var þá örugglega hæstur að mun.
Harða atlögu gerði Ófeigur þriðji með mjög mikilli aflahrotu, svo að ekkert stóðst fyrir honum. Þó náði sú sókn ekki að knésetja Binna á Gullborgu. Lokasprettinn tók hann svo um mánaðamótin og sótti þá austur með landinu, fiskaði vel og endaði vertíðina daginn fyrir lokadag með 65 smál. róðri. Hafði þá aflað alls 1291 smál. yfir vertíðina. Hann hafði orðið aflakóngur Eyjanna í fimmta sinn og slegið öll met; orðið aflahæsti bátur landsins og konungur aflakónganna 1958. Formenn óskuðu kappanum til hamingju og almenningur hyllti hann, en hann lofaði að verðleikum keppinauta sína í fengsælli og drengilegri keppni á vertíðinni.
Benóný Friðriksson er aðeins 54 ára gamall, svo að ástæða er til þess að halda, að hann eigi langan og merkilegan starfsferil framundan. Starfsþrek hans er óbilað og hugurinn til hvers konar veiða mikill. Það munu varla líða margir dagar frá vertíðarlokum, þar til hann fer að búa bát sinn á síldveiðar fyrir Norðurlandi. Í millitíð væri hann vísastur til þess að skreppa á trillubát út á heimamiðin með línustubba eða handfæri.
Hann kann ekki við sig í landi og unir hvergi nema á sjónum. Þar er hans rétti vettvangur að róa og fiska í hvers konar veiðarfæri, troll, herpinót, línu, net, handfæri og flotvörpur. Aflasældin er ávallt sú sama. Ekki veigrar hann sér heldur við að veiða lunda í háf upp um fjöll og firnindi. Í þeirri íþrótt er hann enginn meðalmaður, en talinn til þeirra slyngustu, þótt enn hafi hann ekki orðið lundakóngur. En satt að segja væri honum alveg eins trúandi til þess að hreppa þann titil. Hann er ótrúlegur aflamaður, mér liggur við að segja yfirnáttúrulegur.
Benóný er fremur lágur vexti, dökkur á brún og brá, móeygur og augun full af fjöri. Hann er þrekinn um herðar og þykkur um hönd, vel að kröftum búinn og léttur í skapi. Á fyrri árum var hann lipur knattspyrnumaður og vel þjálfaður fimleikamaður, og býr hann enn vel að þeirri líkamsmennt. Allar hreyfingar hans eru léttar, mjúkar og fjaðurmagnaðar, viðbrögðin snörp og handtökin til allra verka föst og viss. Að þessu leyti hefur hann verið til fyrirmyndar skipshöfnum sínum sem og um alla sjómannshæfni.
Til hans hafa ávallt valizt góðir sjómenn, sem hafa kunnað að beita orku og sjómannssnilli við handtökin. Þeir hafa heldur ekki farið tómhentir frá borði Benónýs, en notið hins bezta framhaldsskóla og fengið auk þess betri laun en nokkur skóli greiðir meisturum sínum. Það er meira en nemendur munu yfirleitt geta státað af.
Benóný Friðriksson er kvæntur Katrínu Sigurðardóttur frá Þinghól í Hvolhreppi, Sveinssonar frá Moshvoli og konu hans, Jóhönnu Jónsdóttur frá Götu í sama hreppi. Katrín er fríðleikskona og mikilhæf og hefur ekki sjaldan orðið að bíða í fjötrum óvissu og kvíða um afdrif manns síns í hildarleikjum hans við æst náttúruöflin. Hafa það trúlega verið þungbærar stundir, er hún þurfti að hugga og hughreysta átta börn þeirra hjóna.
Bæjarbúar voru hins vegar aldrei hræddir um Binna á sjónum, þó að veður væru váleg. Oft var það, að allir bátar voru taldir heim komnir í illviðrum, þó að hann væri ókominn að landi. Það var eins og fólk tryði á afburðarhæfni hans á sjónum, að hann skilaði sér og skipshöfn sinni heilli í höfn. ,,Það eru allir komnir að nema Binni,“ sagði fólkið, sem beðið hafði á Skansinum heimkomu allra bátanna. ,,Ja, það er allt í lagi með hann, hann kemur bráðum.“ Með þá fullvissu fór hver til sinna heimkynna, fullkomlega rólegur.
Að endingu: Ég óska Benóný til hamingju með aflakóngsnafnbótina og óska honum og heimili hans alls góðs í framtíðinni.

Árni Árnason



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit