Ritverk Árna Árnasonar/Um fýlatekjur í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Úr fórum Árna Árnasonar


Um fýlatekjur í Vestmannaeyjum


Fýllinn virðist að mörgu leyti vera undrafugl, hvað átthagatryggð snertir. Hér á Heimaey hefir honum stórfækkað, svo að til algjörrar útrýmingar virðist stefna. Sama er og að segja um úteyjarnar að Álsey og Suðurey undanskildum.
Í báðum eyjum þessum er fýlabyggðin móti norðri og norðvestri, og er útlit beggja mjög áþekkt. Það er grasbrekkubyggð með bekkjum, smáhvömmum og giljadrögum. Nyrst í byggðinni í Suðurey er stórt og fallegt hvannstóð mjög líkt Efra-Hvannstóðinu vestan í Stórhöfða. Í báðum þessum eyjum gat sauðfé gengið niður í fýlabyggðina, og auðvitað hefur þetta stórskemmt varpið.
Svo voru fýlabyggðirnar í báðum þessum eyjum afgirtar með fjárheldum girðingum, og eftir það jókst fýlatekjan stórmikið. Álsey mun hafa verið girt af um aldamótin, en Suðurey um 1921, um sumarið. Verkið tók 3 sólarhringa, og þótti viðlegumönnum það skemmtilegur tími, mikið vegna þess að þar var meðal annarra girðingarmanna Vigfús P. Scheving, alþekktur fræða- og sagnaþulur, er skemmti mjög á kvöldvökunni.
Fyrstu heimildir um fýlatekju í Brandinum hef ég frá 1880, (segir Eyjólfur Gíslason), en þá fór faðir hans Gísli Eyjólfsson þangað til lundapysna, og var hann þá 12 ára gamall. Var alsiða hér, að drengir fengju að fara til lundapysna um fýlaferðirnar í þær eyjar, sem auðvelt var að fara upp í. Gísli Eyjólfsson vitnaði oft í þessa pysnaferð, er talað var um fækkun fýlsins á vissum stöðum, þar á meðal í Brandinum. Í þessari ferð hans voru 480 fýlar í hlut úr Brandinum einum í 9 eða 10 staða skipti.
Máske hefir skipið fengið einn eða tvo hluti, sennilegast einn hlut af svona miklum afla.
Fýllinn þótti besta búsílag og var mjög eftirsóttur, því að hann gaf af sér kjötið, fituna (viðbitið), fiðrið og eldiviðinn, sem hér var ætíð mjög mikill skortur á á fyrri tímum. Fýlarusl, eins og það var kallað, vængir, vængjafiðurstoppar, stél og innvols, þótti sérstaklega góður eldiviður að blanda því í taðbinginn. Síðar hitnaði þarna í þessu öllu svo rauk af sem illa þurri töðu. Var þetta óviðjafnananlegur eldiviður, þegar snerpa þurfti á katlinum eða pottinum í gamla taðeldhúsinu.
Þegar fýll var krufinn, var þess vandlega gætt að láta hjartað fylgja bringunni í saltið og í pottinn, því að það var uppáhaldsbiti allra barna, sem ólust upp við fýlasúpuátið og fýl, yfirleitt, hvernig sem hann var hanteraður, - steiktur, reyktur eða saltaður.
Árið 1880 var farið í Brandinn á teinæringnum Mýrdæling, og var aflinn þá fullfermi á skipið. Formaður var Árni Einarsson á Vilborgarstöðum, merkur maður á sinni tíð, hreppstjóri og alþingismaður og ágætur bóndi og valmenni hið mesta. Því var viðbrugðið, að í þessari fýlaferð hafði hann í nesti fýlshausa frá fyrra árs framleiðslu, og sýndi það nýtni hans. Almennt hefir það ekki verið að geyma fýlshausa svo lengi, þó að hins vegar væru þeir ávallt hirtir, en sá mun hafa verið siður almennt að ganga fyrst á hausana, strax eftir fýlaferðirnar og hafa þá til matar fyrri part vetrar. Ekki þótti það góður búskapur hér að eiga ekki það mikinn fugl að saman næði frá ári til árs, að minnsta kosti á stærri heimilum.
Í tíð séra Brynjólfs JónssonarOfanleiti, sem var annálaður búmaður, var það föst regla að eiga fullsaltaðar 11 tunnur og kagga af fýl, lunda og súlu. Níu þessara íláta voru ætluð til heimilisþarfa, en úr tveim var gefið fátækum, sem nóg var af hér á þeim árum. Þetta hafði verið föst heimilisvenja. Er það sögn gamallar konu, sem þar var vinnukona í tvö ár, (segir Eyjólfur Gíslason). Að Ofanleiti var þá mannmargt í heimili eða venjulega 4 fullgildir vinnumenn og 3 vinnukonur, auk þess þurfamenn, gamlir og ungir, oftast 2 til 4 í senn.
Gömlum sögnum ber öllum saman um, að á fyrstu tugum 19. aldarinnar hafi verið mikill fýll í Flugunum, óhemju mikill, og í þeim fýlaplássum, sem þeim leigumála tilheyrði og svo líka í Ofanleitishamri.
Úr Flugunum er sagt, að verið hafi 240 fýla hlutur í 8 staða skipti. Óvíst er hins vegar, hve lengi þetta stóð yfir. Ekki er fullkunnugt um, hvort öll fýlaplássin, sem talin voru með Flugunum í seinni tíð eða fram til 1920, að hætt var að fara til fýla, hafi þá verið talin með þeim, en líklegt má það telja, því að venjulega var svo til orða tekið: „Þeir ætla til fýla í Flugur“ (Flugin) eða: „Þeir voru til fýla í Flugum“. Með þessu orðtaki, Flugum, sem fýlaplássi, ná þær frá Sigurðarrönku, (þ.e.a.s. Urðavitanum) suður að Brimurðarloftum, en á þeirri leið eru eftirtalin fýlapláss, en vitanlega er nú margt af hrapað, sem einu sinni voru mikil fýlapláss, en sem nú eru ljótar skriður. Nyrst frá talið eru þessar fýlabyggðir: Sigurðarranka, Nyrðri-Flúðartangi, Milli-Flúða, Syðri-Flúðartangi, Haugató, Stórató, Sigganefstó, Eystri-Skarfatangató, Skarfatangi, Vestri-Skarfatangató, Eystri-Lambaskorur, Vestri-Lambaskorur, Sæfell, með Hrútbring, Gunnarsurðarnefið, Kervíkurfjall með Fýlagípnum, Landstakkstær, Landstakkur og Litlihöfði með bringjunum að sunnan. Þennan leigumála áttu 5 Kirkjubæjarjarðir. Utan fýlaferða var ekki í daglegu tali kallað Flugur, nema strandlengjan frá Sigurðarrönku að Skarfatanganefi, en þá var kallað að Lambaskorurnar við tækju.
Til fýla var farið í Flugin til ársins 1924. Á árunum 1915 til 1920 var þar 50-60 fýla hlutur í 8 staði eða 400-500 fýlar alls. Þar tíðkuðust engir keppfýlar eða gönguhlutur, (Árni Ólafsson, Túni). Til að sjá, hygg ég, vart muni verpa nú meir en ca. 100 fýlar í öllu þessu fýlaplássi, svo ör hefir fækkunin verið síðastliðin 25 ár.
Ofanleitishamar telst frá BlákrókTöglum. Þar hafði verið 150 fýla hlutur fyrrum í 8 eða 9 staða skipti, en nú getur varast heitið, að þar sjáist fýll, máske 20–30. Hvenær hætt var að fara í fýla í Ofanleitishamar, er ekki fullvíst, en sennilega fyrir aldamótin síðustu. Hann tilheyrði Bjarnareyjarjörðunum.
Snemma mun hafa verið farið að veiða vetrarfýlinn í háf á Hamrinum eða nokkru fyrir aldamót, (háfurinn kom 1876 til Eyja). Þessi vetrarveiði var stunduð af kappi miklu allt fram til 1935, og veiddust ábyggilega margar þúsundir frá Ofanbyggjarajörðunum, þ.e.a.s. Draumbæ, Brekkuhúsi, Steinsstöðum, Svaðkoti o.fl., enda voru þar og ágætir veiðimenn, svo sem Jón Pétursson, Sæmundur í Draumbæ, Sigurgeir í Svaðkoti o.fl. Þess utan fengu svo Niðurbyggjarar leyfi til vetrarveiði þar, a.m.k. fór Árni Árnason eldri á Grund oft þangað og veiddi mikið, enda rómaður veiðimaður. Máske hefir þessi vetrarveiði gert sitt til útrýmingar á fýlnum á Heimaey. Máske líka hávaðinn og umferðin um eyjuna, sem gerir mikið í þessu efni og svo umferðin kringum hana, og sárgrætileg misnotkun skotvopna á alla fugla alls staðar við og á eyjunni. Þess utan hefir líka eignarréttur fýlseggjanna ekki verið hafður mjög í heiðri sem áður var, heldur rænt á rán ofan ár eftir ár.
Annars mun, ef til vill, þetta flakk fýlsins vera honum eðlilegt, því að sagður er hann flakka milli landa og landshluta. Í Mýrdal er sama sagan sögð. Þar flytur hann sig mikið alla leið inn til jökla og virðist una sér þar vel. Í Skarðshlíðarfjöllum var fyrir ca. 15 árum ávallt að aukast byggð fýls í fjöllunum ofan við Skarðshlíðarbæina og þar í grennd, og sagði Hjörleifur þá, að þar mundu þá vera um 60 til 70 í stað 12 eða 15 fyrir 2 til 3 árum.
Dalfjallið var leigumáli 6 jarða: Dalir, 2 jarðir, Stakkagerði, 2 jarðir, Ólafshús og Nýibær. Óvíða virðist fýlnum hafa fækkað jafn mikið og á Dalfjallinu eða í öllum þeim leigumála. Fram að aldamótunum 1900 munu oftast hafa verið þar full 600 til hlutar í 7 hluti eða alls 4.200/4.500, þ.e.a.s. jarðarhlutir 7 og 1 gönguhlutur, sem skiptist jafnt milli þeirra 6 manna, sem aðsóttu (fugluðu), og svo fengu þeir 3 keppfýla hver. Einn daginn varð þó að nota bát við fuglatekju vesturfjallsins, og voru 2 menn á honum. Þar varð að kasta fuglinum í sjó. Venjan var að þessir bátsmenn fengju sinn hlutinn hvor og báturinn hálfan hlut.
Árin 1892-1898 var Gísli Eyjólfsson á Eystri Búastöðum til fýla á fjallinu upp á gönguhlut og keppfýla, eða 1/6 af gönguhlut, og þóttu þetta góðir kostir, og fengu þetta ekki nema góðir menn og þá oftast gegnum kunningsskap, og urðu þeir að vera góðir fjallamenn. Gísli Eyjólfsson fór fyrir aðra Stakkagerðisjörðina, en Gísli Lárusson fyrir hina. Sagði Gísli Eyjólfsson, að nafni hans í Stakkagerði hefði verið alveg yfirburða fjallamaður, og var Gísli Eyjólfsson þó með fjallagörpunum Stefáni og Ágústi Gíslasonum, Jóni Péturssyni og fleirum. Sagði hann Gísla Lárusson hafa verið svo jafnvígan á allt er að fjallaferðum laut, síga í bandi, fara lærvað og klífa laus.
Fýlatekja af Dalfjallinu og tilheyrandi (leigumálum) fýlaplássum var á árunum 1900-1912 nálægt þessu: Hánni norðan og austan í ca. 200 stykki, nú máske 15-20 stk., Fiskhellum, Neftó, Miðdagstó og Molda 550-700 stk eða 80 til 100 í hlut. Þessi pláss voru tekin sama daginn, nema Háin, hún fylgdi Eggjunum.
Blátindur með tilheyrandi var tekinn einn daginn, og voru þar venjulega 700 til 850 fýlar eða 100-120 í hlut.
Einn daginn var svo tekin Tíkartó, Halldórsskora, Sauðatorfa, Standur, Arfagilsferðin og Suður- og Norður-Sveinar. Þetta tilheyrði Vesturfjallinu nema Tíkartóin og Halldórsskora. Þarna voru alls um 400 til 500 fýlar eða 60 í hlut. Í Stafsnestanganum voru nokkrir fýlar, en gömul venja var, að bátsmennirnir fengu að taka þá handa sér og komu ekki til skipta. Í Ufsabergi var ásamt í Skriðunum 400-500 stykki eða 60 í hlut og loks í Eggjum og Vondutám voru um 70 í hlut eða ca. 500 stykki.
Vondutærnar voru ávallt þrætupláss milli Stóraklifsmanna og Vesturfjallsmanna og voru því oft teknar fyrst í aðsókninni, af Fjallsmönnum. Eftir 1912-1915 fer fýlnum á þessum stöðum öllum að stórfækka með hverju árinu, sem leið, og 1932-35 er síðast farið sameiginlega til fýla á Dalfjallið. Fengust aðeins 10-12 hundruð fýlar úr öllum þessum fýlabyggðum og þó hefir enn fækkað afarmikið síðan, samkv. sögn Sigbjörns Björnssonar, hins gamla Dalfjallsfyglings.
Um aldamótin hefir fýlatekja í Ystakletti verið ca. 3.000 stk. 1905 til 1912, 2.500 stk. til 2.700, en 1935 var þar aðeins 700 stk. alls og hefir mikið fækkað síðan, segir Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ, kunnur Ystakletts veiðimaður.
Árið 1915 var fuglatekja í Brandinum 310 fýlahlutur í 10 staði eða um 3.100, og hélst sú tala mikið til óbreytt næstu 5 árin. Eftir 1920 fer svo fýlnum mjög fækkandi, svo að 1939, sem er síðasta árið, sem Brandurinn var aðsóttur til fýla, voru þar aðeins 106 fýlar í hlut í 9 staða skipti.
Í Geldungnum, sem sömu Kirkjubæjarjarðir áttu einnig til allra afnota, hélst fýlatekjan nokkuð jöfn frá 1915–1939, þ.e.a.s. 80–90 í hlut í 11 staða skipti. Eftir að steinboginn, sem var uppganga á Stóra-Geldung af Litla-Geldung, hrapaði af í jarðskjálftanum 1896 (daginn eftir að farið var þangað til fýla), var gönguhlutur ávallt þar, og fóru þá 4 menn upp. Báturinn fékk 1 hlut. En eftir 1914 var Jón Magnússon frá Kirkjubæ alltaf aukamaður í Kirkjubæjarleigumálunum upp á heilan hlut vegna þess, hve góður fjallamaður hann var í hvívetna.
Sumarið 1926 voru Jón Magnússon, Eyjólfur Gíslason og Bergur sál. Guðjónsson, Kirkjubóli, 3 sólarhringa við lundaveiði í Geldungnum og veiddu þeir þá 32 hundruð af lunda þessa þrjá daga, er þótti vel gert, enda var það í fyrsta sinn, að þar hafði verið veiddur lundi svo vitað væri.
Um Súlnasker er margt búið að skrifa og segja í ræðu og riti, svo að litlu verður við það bætt. Súlnasker áttu allar jarðirnar hér (48) jafnt til allra nytja, en gönguna upp á það áttu 8 jarðir sameiginlega. Átti þessvegna „gönguna“, eins og það er kallað, hver jörð sjötta hvert ár, og þótti það nokkur fengur og hjá yngri fjallamönnunum mikil upphefð „að vera göngumaður í Skerinu“.
Úr Súlnaskeri voru venjulega 50-60 fýlar í hlut, en hlutir voru 60 eða samtals ca. 3.000 til 3.600. Hlutaskiptin voru annars þannig: 48 jarðir, 4 skipshlutir, tveir á hvort skip, (alltaf tvö stórskip), 2 gönguhlutir, 2 köllunarhlutir og líklega 4 fátækrahlutir, en þó ábyggilega 2 fátækrahlutir; hvort sannara er veit nú víst enginn lengur. Í Súlnasker var alltaf farið laugardaginn í 17. viku sumars, ef fært var, og byrjuðu allsherjar fýlaferðirnar með þeirri ferð. Var þetta ófrávíkjanleg regla, enda þessi laugardagur kallaður Skerdagurinn.
Til fýla í Skerið kölluðu báðir hreppstjórarnir. Þeir skiptu líka aflanum í hlutina, þegar komið var með hann að landi, afhentu fátækrahlutina og skiptu þeim meðal þurfamanna. Hefir þetta síðastnefnda ábyggilega verið vandaverk og áreiðanlega ekki alltaf sem best þakkað eða a.m.k. misjafnlega þakkað starf.
Líka var það köllunarmanna að útvega skipin til ferðarinnar, útvega fýlahrífur til að kraka með fýlinn að skipunum, er hann kom úr niðurkastinu í sjóinn. Voru hrífur þessar 4-5 álna langar með stórum og sterkum haus og 4-5 tommu nöglum í tindastað.
Þegar búið var að drepa fýlinn í Súlnaskeri eða aðsækja eins og það var kallað, þá var fuglinn tíndur saman og „hent til kasta“, sem svo var nefnt, þ.e.a.s., að fýlnum var dyngjað saman fremst á bjargbrúninni og var honum svo kastað þaðan í sjó niður. Var áríðandi að kasta nógu títt eða þétt, svo að sem mest kæmi niður á sama stað, því fljótar var verið að innbyrða fuglinn og minni hætta á, að hann lenti í straum sjávarins, og hann bærist burt með honum. Ekki mátti þó kasta of miklu í einu til þess að bátsmenn misstu ekki fugl í strauminn. Ekkert mátti tapast, en straumurinn var furðu fljótur að dreifa fuglinum út um allt. Ávallt var fýlnum hent til kasta nákvæmlega á sama stað, og átti hvert kast sitt sérstaka heiti, t.d. í Súlnaskeri, Helliskast, Rifukast, Vörðukast og Flatarkast, og ef til vill hafa þau verið fleiri.
Alla tíð hefir það þótt frægðarauki að fara fyrstur upp á Skerið, og talsverður metnaður í þeirri tign, vera forystumaður í uppgöngunni. Einnig þótti frægð í því að vera síðastur upp, og í fýlaferðunum var sá maður nefndur Keppadrellir, því að hans verk var að gæta allra fýlakeppanna, sem hnýttir voru saman í endann á fýlatrossunni, en fyrir enda hennar var venjulega hnýtt yfir mitti forystumannsins, en hnúturinn hafður á bakhlutanum, svo að hann eða bandið tefðu síður uppgönguna. Ætíð var þess og vandlega gætt að fara í réttri röð niður af Skerinu, að sá sem fór síðastur upp færi fyrstur niður og svo hver af öðrum.
Sagt er, að Jón Þorgeirsson á Oddsstöðum hafi verið forystumaður í Skerið um 40 ára skeið, en engar heimildir eru fyrir því, nema sagnir almennt. Hann var langafi Jónasar Sigurðssonar í Skuld og þeirra systkina. Allt fram á síðustu ár var sá siður viðhafður, að sá sem fór þangað upp í fyrsta sinn var „útlátamaður“ sem kallað var, þ.e.a.s. hann átti að gleðja eitthvað hina uppgöngumennina. Fyrrum var það föst regla að veita kaffi með kringlum og tvíbökum, seinna heimabökuðum kökum, sem ýmist var drukkið og veitt í heimahúsum eða mönnunum var fært útlátakaffið, er þeir komu úr fýlaferðinni. Síðast voru svo viðteknar súkkulaðiveislur með rjómatertum og einhverri vínhressingu.
Fyrrum var unglingum lagt það ríkt á minnið að gleyma ekki að gleðja Skerprestinn, svo að þeir hefðu vinhylli hans. Voru jafnvel unglingunum fengnar tölur, ef peningar voru ekki til, til þess að láta í vörðuna í Skerinu, en oft kom víst fyrir, að fólk hafði ekki svo mikil auraráð að geta látið í vörðuna á Skerinu, (sögn Gísla Eyjólfssonar).
Það er eins og almenningi hafi verið og sé eitthvað hlýtt til Skersins, enda var það og kallað Skerið góða. Mætti helst ímynda sér, bæði nafngift þá og svo hlýjuna til þess, runna frá því, hve mikill matur kom þaðan og mætti líka vera frá því komið, hve fáir hafa hrapað þar, enda þótt mikil væri mannaferð þar um fuglatímann.
Það væri sannarlega mikils virði nú að eiga filmu af því, þegar verið var að aðsækja Skerið, sjá stórskipin með 24 menn hvort koma heim í höfnina, drekkhlaðin af fugli, sjá hlutarskiptin 60 á klöppunum stærstu og sléttustu vestast í Hrófunum. Þá voru og þarna saman komin 50 til 60 hross með reiðingum til að bera á fuglinn á hvert einasta jarðarheimili í Eyjum. Þá var og þarna saman komið flest fólk, sem eyjuna byggði, húsfreyjurnar, heimasæturnar, vinnukonurnar, stálpaðir krakkar og unglingar, allir háir og lágir að mannvirðingum. Þetta var því sannkallaður tyllidagur Eyjabúa, einna líkastur, er fjársmölun fór fram á Heimaey og réttað var í Almenningnum á Eiðinu. Þetta voru kærustu dagar og eftirminnilegustu margra Eyjabúa, ungra og gamalla.
Þegar komið var úr Skerinu og öðrum úteyjum á gömlu áraskipunum, úr suðurskerjunum, Súlnaskeri, Hellisey o.fl., var venjan, að skipið flaggaði, ef allt hafði gengið slysalaust og vel. Flaggað var með þeim hætti, að stórum rauðum vasaklút var fest við fýlahrífuna, og var hún svo fest við bitaþóftuna. Mun þetta hafa verið mjög forn siður. Var og það fyrsta, sem að var gáð, er til skipanna sást, hvort flaggið væri uppi. Ekki var siður að flagga, er skipin komu heim frá fýlatekju í austureyjunum og Smáeyjum, óvíst hvers vegna, því að alveg eins gátu slys fyrir komið þar sem í suðureyjunum.
Af þessum hætti varð t.d. strax vitað, er Hjörtur, faðir Rósu Hjartar, hrapaði 1883 í Skerinu. Hafði fólk þá verið mjög órótt sem að líkum lætur, er skipið kom flagglaust úr fuglaferðinni þeirri.
16 Elliðaeyjarjarðir áttu Hellisey til fýlatekju og svartfuglaeggjatöku og lundatekju, ef til kom. Aftur á móti áttu allar 48 jarðir eyjanna Hellisey til súlna, og áttu þá vissar jarðir eyjuna að vestan, en hinar að austan. Þá voru það mjög forn hlunnindi, að Þorlaugargerðismenn kölluðu í Hellisey og fengu heilan hlut fyrir það. Fyrr meir höfðu Þorlaugargerðin Sám í Hellisey til fýla, alveg sérstaklega, sennilega fyrir köllunina, en þetta fór af, er tímar liðu, enda máske verið álitið nokkuð mikil hlunnindi, þar eð í Sám voru 4 til 6 hundruð fýlar.
Stórhöfða áttu 14 jarðir til fýla, þ.e. 12 Elliðaeyjarjarðir og svo Vesturhúsin, Kornhóll, Miðhús og Gjábakki áttu fýlatekju í Stóra-Klifi og Litla-Klifi.
Það merkilega er, að svo lítur út sem Vesturhúsjarðirnar hafi orðið útundan, er skipting leigumála fór fram eða að þessar 2 jarðir hafi verið byggðar seinna, sem þó fær ekki staðist.
Þeim virðist þó hafa verið skotið þarna inn í hjá hinum, sbr. að Vesturhúsin hafa ekki nema 10 sauða beit í Álsey, en t.d. Ólafshús og Nýibær 15, Dalirnir og Stakkagerðin 12. Þetta er eina eyjan hér, sem hagagöngu er misskipt.
Eyjólfur Gíslason fór fyrst 1917 til fýla í Stórhöfða. Aðsótti þá Brunanefið ásamt Jóni Péturssyni, Þorlaugargerði. Þá voru 67 fýlar þar. Árið 1936 fór Eyjólfur þangað síðast. Þá voru þar 13 fýlar. Fram til 1905 var alltaf verið 2 daga til fýla í Stórhöfða. Fyrri daginn var verið að austan, allt suður að Hellutá, og voru þá vanalega 60 í hlut í 15 staði úr því plássi. Sunnan og vestan úr Höfðanum voru 90-110 í hlut í jafnmarga hluti. Árið 1936 segir Eyjólfur, að vart muni hafa verið þar fleiri en 50 fýlar austan úr öllum Stórhöfða alls.

Búningur fýlamanna


Fýlamannabúningurinn var þannig um 1902-1905. Í skónum var haft svellþykkt nautsleður. Þóttu það líka bestu skórnir, sem menn eignuðust, því þeir héldust ávallt mjúkir vegna fýlafitunnar (spýjunnar). Sokkarnir voru þykkir togsokkar, vel bættir á iljum, tám og hælum. Þeir voru gyrtir utan yfir buxurnar og saumaðir fastir í þær. Menn voru í einum ullarprjónabuxum, þykkum og vel þæfðum. Þær voru vel og vendilega bættar með þykkum prjónabótum á rassi, hnjám og klyftum. Axlabönd voru höfð með buxunum. Allir notuðu leðurmittisól. Flestir voru í ofinni milliskyrtu yst klæða, einum bol eða innriskyrtu innanundir. Utanyfirskyrtan var gyrt niður í buxurnar. Aldrei notuðu menn fýlafötin nema til fýlaferða, að undanteknum skónum, en fötin voru vel hirt og vandlega geymd þess á milli.
Algengt var það hér áður fyrri, að menn yrðu að láta úti, ef þeir höfðu ekki að lesa sig upp (hala sig upp á bandi), t.d. upp af Kambinum og úr Dönskutó í Heimakletti. Útlátin voru einn pottur af brennivíni. Sama gilti og um Sveltið og Grommakór í Álsey.
Jón bóndi í Ólafshúsum, greindur og gegn maður, segir, að um aldamótin síðustu reri hann á Farsæl með Kristjáni Ingimundarsyni í Klöpp, og lentu þeir þá í beituhraki. Kom þeim þá saman um að skreppa með háf og veiða nokkra fýla í beitu. – Settust þeir í smá grastó neðst og syðst í Blátindi og veiddu þar 20 fýla. Það létu þeir nægja, enda þótt hæglega hefði mátt veiða mikið meira. Í þessari grastó verptu venjulega 12-15 fýlar, en sumarið eftir brá svo við, að ekki sást þar fýll og aldrei meir.
14 ára gamall var Eyjólfur Gíslason tekinn sem fullgildur maður til fýla í Elliðaey af föður sínum. Eyjólfur var óragur og vildi alls staðar fara, og var því spáð, að hann yrði góður fjallamaður, enda hafði hann verið til lunda með föður sínum frá 4 ára aldri. En 20 ára var hann orðinn, er hann byrjaði fyrir alvöru að fara til fugla í fjöllin. En vegna Austfjarðaferða hans frá 15 til 20 ára aldurs, varð hann af fjallaferðum þann tíma, svo að hann telur sig ekki hafa fengið þá æfingu, sem fjallamenn þurfa að fá. En persónulega held ég, að Eyjólfur sé með betri fjallamönnum í Eyjum eða hafi verið það, meðan hann stóð upp á sitt besta.
Allir ungir eyjamenn hlökkuðu fjarskalega mikið til fýlaferðanna og margir svo að þeir sváfu hreint ekki fyrir tilhlökkun og áhuga nóttina fyrir fýladaginn.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit