Ritverk Árna Árnasonar/Tyrkja-Gudda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 15:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 15:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Tyrkja-Gudda“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Tyrkja-Gudda

Þetta magnaða ljóð er í handritasafni Árna, ritað með hans eigin hendi, en höfundar ekki getið. Það er ort í stíl Klettafjallaskáldsins Stephans G. Stephanssonar, með sama bragarhætti og kvæði Stephans, Jón hrak. Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan hefur ekki upp á neinum hafst, sem kannast við að hafa séð þetta kvæði fyrr, og birtist það því líklega hér á prenti í fyrsta sinn. Árni Árnason er skráður höfundur þess. (Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012).

Sá ég fyrr – í sagna skruddu
sögurnar um Tyrkja-Guddu,
mest var getið mæðu og hnjóðs.
Hertekin og seld var Serkjum,
saurguð, brennd af nautnum sterkum.
Enginn hennar gat til góðs.


Trúvillt þótti og ill í orði,
enginn henni stóð á sporði,
íslenk þjóð þess illa galt.
Hún fór eldi ástríðnanna
yfir sálir beztu manna,
og soramarkið setti á allt.


Útlend kona, ambátt, móðir,
átti mök við heiðnar þjóðir,
bersyndug af dólgum dæmd.
Eftir munað mein oft þjaka,
margir arf með Guddu taka, -
sneyddir Farísea sæmd.


Tungumjúk og tannhvöss var hún,
töframögn því einhver bar hún,
líkt og suðræn sólbrennd vín.
Sturluð ást í fangafjötrum,
fallin kona, í skarti og tötrum,
naumast getur notið sín.


Oft var geðstirð Gudda að meini,
góðskáldið hjá Hallgríms steini
orti upp kvæði, eldi svift.
Ljóð þau urðu að lífsins auði,
létu bæði synd og dauði
undan Hallgríms andagift.


Bregða hinu betra fáir,
breyska Guddu enginn dáir,
frónskra tryggða fyrirmynd.
Sólu vermd frá Serkjalöndum
sótti hún heim að feðraströndum,
Eyjar, jökla, ástir – synd.


Meðan ytra í ánauð var hún,
ótal þunga harma bar hún,
bóndinn heima að syndum sat.
Líkn hann þá af klerkum, kirkjum.
Konan þjáð af ránslýð – Tyrkjum.
Um það sagan sjaldan gat.


En, er Gudda í ánauð þreyði,
eiginmaður hennar deyði,
sekur guð og Guddu við.
Stundum heimsins Stórudómar
standast ekki sagnir frómar. –
Heimslífið á sinn hundasið.


Lærðum glæstum gáfumanni
gekk á hendur veikur svanni,
seidd af eldi - anda hans.
Furðar þá, er síðan syngja
sálma Davíðs, Íslendinga,
hennar ást til höfðingjans.


Stormur þroskar styrkar eikur, -
stórmennið að hættum leikur,
andann menntar eilíft stríð.
Barátta við böl og syndir
birtir skáldi helgar myndir,
sál hans vaknar – vekur lýð.


Þjóðargoð varð þegninn dýri.
Þjóðsögur og ævintýri
heiðra sjaldan hetju víf.
Slekkur ljós, en eldinn æsir
ærsla stormur. Ljóða ræsir
þroskaðist við þrautalíf.


Öndvegið í óðar heimi
ávallt hygg ég skáld að geymi.
Neikvæð öld sízt neitar því. –
Helga gáfu, himni studda,
holdsveikin og Tyrkja-Gudda
hæsta veldi hófu í.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit