Ritverk Árna Árnasonar/Sögur úr Álsey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. september 2013 kl. 18:45 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. september 2013 kl. 18:45 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Sögur úr Álsey


Einhvers staðar þurfa strákarnir að vera


Eitt sinn vorum við faðir minn við veiðar í og við Útsuðursnefið, sem er einn af bestu veiðistöðum Álseyjar. Sat ég hjá pabba, þar eð lítið var um fugl uppi í hausum, þar sem ég mátti vera að veiðum. Neðar var algjörlega bannað að vera, og alls ekki neðan við miðja Lækjarbrekkuna, ef einhver var við veiðar á Útsuðursnefi, Flánni, Gíslanefi eða Einarsnefi.
Þegar nú í þetta skipti leið að kvöldi, gekk vindur nær norðri, svo að veiðiáttin fór af Útsuðursnefi. Pabbi fór þá að kippa veiði sína og bera upp í Veltu, en sagði mér að setjast á Einarsnef, sem er rétt norðan við Útsuðursnefið, góður veiðistaður, sem þolir norðlægari átt. Átt var sæmileg á Einarsnefi og veiddi ég þar nokkuð, en annars var fuglinn farinn að fara frá. Sat ég þarna þó, þar til pabbi hafði lokið að bera veiði sína. Þá hafði ég veitt 60 fugla og þóttist mikill maður yfir afla mínum. Pabbi bar svo veiði mína upp í Veltu. Var síðan öllu velt niður, alla leið niður í Lundakór, þar sem maður stóð fyrir og stoppaði hina veltandi kippu.
Um kvöldið var svo að venju farið að tíunda dagsveiðina. Ekki man ég þær tíundir allar, en faðir minn hafði veitt 350, Kristinn á Löndum 180, Sveinbjörn í Dölum 300. Þegar svo kom að Magnúsi Eiríkssyni að tíunda sína veiði, tíundaði hann ekkert og sagði: „Það er ekki von að maður veiði, þegar strákarnir eru látnir sitja í bestu stöðunum.“ Þessi sneið var til pabba fyrir það að hafa látið mig sitja á Einarsnefi, meðan hann sem sagt bar veiði sína upp í Veltuna. Það þótti ekki tilhlýðilegt, að við strákarnir sætum fyrir öðrum í veiðistöðum. Hefði ég orðið Magnúsar var þarna í námunda við Einarsnef, hefði ég auðvitað staðið strax upp og farið burtu, en við sáum hann aldrei koma þarna.
Að morgni var þetta allt gleymt. Þá gaf Mangi mér kexkökur með kaffinu og sagði, að ég yrði einhvern tíma laginn á að veiða. Á Einarsnef settist ég auðvitað aldrei meir það sumarið. Ég ætlaði ekki að vera fyrir öðrum. Einu sinni var það í Álsey, að ég hafði helst engan stað til að veiða í. Logn var að mestu og allir farnir út, nema ég. Fóru sumir í veiðistaði í Bólbrekkunni, Siggaflesi og víðar.
Þá kom Magnús inn í kofann. „Ætlar þú ekki út, drengur?“ spurði hann. Ég sagðist ekkert vita, hvert ég ætti að fara, svo best væri, að ég væri heima og lagaði til í kofanum. „Farðu upp í Kvalræði, drengur, þar er enginn.“ Það var beint upp af kofanum, ofarlega í norðurbrekkunni. „En hvar ætlar þú sjálfur að vera?“ spurði ég, því að ég vissi, að honum hafði verið ætlað að vera þar að veiðum. „Ég fer eitthvað annað, drengur, taktu háfinn þinn og farðu upp í Kvalræði.“ Ég lét að orðum hans og fór upp í Kvalræði. Um hádegið komu allir heim til bóls, og fór ég auðvitað líka og hafði þá veitt 50 fugla. Allir höfðu veitt vel, en Magnús hafði ekki lagt háf, heldur setið hjá Sveinbirni í Dölum og greitt úr hjá honum í Siggaflesi. Faðir minn ætlaði að fara að atyrða mig fyrir að setjast í Kvalræði, en Magnús sagði þá: „Ég lét strákinn setjast þar, einhvers staðar þurfa þeir að vera.“
Svona gat Magnús verið við þá, sem honum fannst vera eitthvað útundan í einu eða öðru. Eitthvert sinn hafði maður nokkur rekið sér minni máttar úr veiðistaðnum Jónsnefi, svo að hann gæti sest þar sjálfur. Magnús sá þetta tilræði, fór til manns þessa, braut háf hans í mask og sagði: „Veiddu nú Geira. Skammast þú þín nú úr staðnum og lofaðu drengnum veiða þar áfram, ella skaltu eiga mig á fæti.“ Magnús var góður, en stundum var eins og einhver hörð skel utan um góðvild hans og góða mannkosti, sem gerði hann í augum almennings að einhverju hörkutóli, sem ekki var hægt að lynda við. En þetta var grátlegur misskilningur.

—————


Fleira fékkst en fugl í Álsey


Eitt sinn gerði hið mesta hafrótarbrim, er við vorum í Álsey. Bát höfðum við þá hjá okkur. Það var Dalabáturinn „Jói“. Fluttum við veiði okkar sjálfir heim til þess að spara sókningsmennina, en þeir tóku þá 250 fyrir hverja sókningsferð. Farið var með fuglinn heim í Klauf, Vík eða Kaplagjótu og jafnvel alveg heim að bryggju.
Þegar hafrót þetta skall á, var báturinn dreginn svo langt upp bergfláann sem mögulegt var, - eða blökk í blökk. Stóð báturinn þá með hælinn í Efri-Lundakórnum, en stefnið var svo að segja uppi í grasi aðeins neðan við bergflá, sem þar var. Svo mikið var hafrótið, að við vorum rétt búnir að missa bátinn. Gékk sjórinn á bátinn slag í slag, og urðu allir að vera þarna og gæta hans, styðja hann í ólögunum og ausa. Þess utan voru settar á hann margar aukafestingar. Þetta var mesta erfiði, en bátnum héldum við óskemmdum.
Báturinn varð okkur að mesta liði þetta sumar. Oft, er enginn fugl var við, var lögð lúðulína nálægt eyjunni. Einn daginn fengu þeir á línuna 7 stórar lúður, sem farið var með heim samdægurs. Einn daginn rak mjög stóran planka að flánum, sem við náðum. Sá planki varð síðar kjölur í mb. Ásdísi og var þó of langur. Í annað skipti fóru þeir heim með stóran sel, eitt sinn með 24-26 kippur af lunda.
Eitt sinn fóru þeir á bátnum eitthvað til svartfugla. Við vorum eftir í eyjunni Hjálmar Eiríksson og ég með föður mínum. Þeir voru burtu marga tíma og komu seint út í Álsey, og þá með mikið af fugli. Faðir minn var orðinn mjög órólegur yfir útivist þeirra og hélt víst, að eitthvað hefði komið fyrir. En hvert, sem þeir fóru, þá endaði sú ferð vel og giftusamlega. Þegar þeir komu, var komin austan bræla, og gekk illa að koma bátnum upp í Álsey. Þó heppnaðist það. Hvert þeir fóru, veit ég ekki, en ég hygg, að ferð þeirra hafi verið í Súlnasker eða jafnvel Geirfuglasker, og þá sennilega í leyfisleysi. Mikið komu þeir með af svartfugli, en hvað sem því líður, komu þeir allir aftur og enginn þeirra fórst. Heyrði ég þó síðar, að full ástæða hefði verið til að illa hefði til tekist. Magnús hafði legið á bát í ferð þessari, og var víst æði þungorður yfir framferði þeirra Álseyinganna, að vera svo lengi uppi, hvar sem þeir voru.

—————


Kristinn á Löndum kom víða


Þess skal geta hér, að þetta sumar voru í Álsey mestan hluta veiðitímans Sveinbjörn Jónsson, Dölum, Magnús Eiríksson, Vesturhúsum, Jón Jónsson, Brautarholti, faðir minn Árni Árnason, Grund, Helgi Guðmundsson í Dalbæ, Kristinn Sigurðsson, Löndum, og við strákarnir Hjálmar Eiríksson og undirritaður. Um tíma var og Guðjón í Dalbæ, sonur Helga.
Ég vil geta þess hér, að Kristinn Sigurðsson á Löndum var ekki mörg sumur til viðlegu í Álsey eða aðeins 3 sumur. Hann var fyrst í Suðurey af úteyjunum, en eftir það 25 sumur í Ystakletti. Þar eftir var hann 3 sumur í Álsey, og síðan í Heimakletti mörg sumur, og allt fram á síðustu ár (1958).
Það eru fjölmargir Eyjamenn, sem hafa tekið þeirri tröllatryggð við einhverja eina úteyjuna, og hafa þá helst ekki viljað fara annað. Þó urðu menn stundum, einhverra orsaka vegna, að breyta til eða fengu löngun til að koma í fleiri úteyjar og kynnast veiðiháttum og getu annars, en aðeins úr einni úteyjunni. Þannig hefir verið með t.d. Kristin Sigurðsson. Hann kom í Álsey 1912, 1913 og svo 1915, eftir að hafa verið 25 ár í Ystakletti. Þannig var og með Einar yngri í Norðurgarði. Hann kom eitt sumar með okkur í Suðurey, árið 1917, en var annars ávallt til lundaveiða í Elliðaey, leigumála föður síns, Einars í Norðurgarði. Svona mun og vera um fjölmarga, auk þessara, er ég hef hér nefnt. Síðar hef ég uppgötvað, að Kristinn á Löndum var einnig 2 ár í Elliðaey. Hann mun hafa byrjað lundaveiðar 1909 og hætti þeim alveg 1959, (sögn hans sjálfs). Er hann þess vegna einn af elstu lundaveiðimönnum þessa bæjar. Aðeins örfáir eru honum eldri í þeirri list hér.

—————


Franski spítalinn í heimsókn


Það var einu sinni að Sveinn Jónsson faðir Ársæls Sveinssonar og þeirra systkina kom út í Álsey í skemmtiferð. Það var sumarið 1913. Þar á meðal voru þær Ásdís Johnsen, Guðbjörg systir hennar Petersen og frönsk hjúkrunarkona, sem var hér á franska spítalanum. Hún var ætíð nefnd Franska María. Hún kunni þó nokkuð í íslensku.
Sumt af fólkinu, þ.e. karlmennirnir, héldu áfram suður í Súlnasker, en þangað var ferðinni upphaflega heitið. En þar eð sjór var ekki góður, dálítið skvamp, vildi kvenfólkið fara upp í Álsey og bíða þar, uns báturinn kæmi aftur sunnan að. Sveinn Jónsson kom og upp í Álsey líka, ásamt einhverjum fleirum. Sumt af fólkinu fór svo upp á Álsey að skoða sig um, en það fannst okkur einkennilegt, að þegar Sveinn Jónsson hvíldi sig í brekkunni, lét hann höfuðið snúa undan brekkunni. Sagði hann, að þannig hvíldust menn mikið betur. Sennilega hefir hann gert þetta einungis til þess að láta fólkið hlæja að sér og koma því í gott skap.
Lengi var umrætt fólk úti í Álsey og naut ýmissa góðgerða, borðaði og drakk af skrínukosti viðlegumanna með bestu lyst.
Svo fór að líða að heimferðinni, enda kom báturinn úr Hellisey rétt síðar. Fólkið fór þá að tínast niður á steðja. Hjálpuðu karlmennirnir kvenfólkinu mjög vel yfir bergflárnar og leiddu það og studdu.
Enginn mátti snerta Maríu, nema Magnús Eiríksson. Kallaði hún í sífellu: „Magnúsa mín, Magnúsa mína, koma til Maríu.“ Hann vék líka varast frá henni og hjálpaði henni á allan hátt, alla leið niður sjóflá. Var hún oft í fangi hans, og voru það eins og innileg faðmlög. Áður en hún var látin í léttbátinn, vatt hún sér eldsnöggt að Magnúsi og rak honum rembingskoss beint á munninn. Þá var nú brosað og Magnús fór eins og allur hjá sér. Hefir eflaust ekki varað sig á þessu uppátæki Maríu. Kannske var þetta líka í einasta skiptið, sem hann var kysstur af ungri stúlku. Hver veit?
María var mjög falleg stúlka, þybbin vel og í góðum holdum, en andlitsfríð með afbrigðum. Hún var nokkuð hærri en í meðallagi, kát og léttlynd. Hún var nokkur ár hér á franska spítalanum, og tók við af Pálínu frönsku, sem hér var áður. María naut almennra vinsælda bæjarbúa.
Starfslið sjúkrahússins var þá María, Arthur bryti, franskur, franskur læknir, sem ég man nú ekki nafnið á, Elín Jónsdóttir, Löndum, systir Sigurðar föður Kristins þar, o.fl. Margir fransmenn voru á sjúkrahúsinu og oftast flest rúm upptekin. Þá vann og Halldór læknir Gunnlaugsson þar, og virtist meir en nóg að gera. Oft var mesta fjör á spítalatúninu, en þar voru fransmenn, sem fótavist höfðu, að alls konar leikjum, svo sem fransmannaleik, spila á akkordinur, á milli þess, að þeir dönsuðu allskonar stepdans, og átu þess á milli skelfisk, sem þeir keyptu af okkur strákunum. Stundum voru þeir og að spila krokkit, og jafnvel nokkurs konar langbolta (slagbolta). Þeir léku sér mikið og þömbuðu einhver ósköp af rauðvíni, alveg eins og við drukkum vatn.
En þetta var nú smávegis útúrdúr. Með næstu sókningsferð í Álsey, eftir að fólkið hafði verið þar, fengum við úteyjamennirnir stóra og mikla sendingu frá kvenfólkinu. Voru það ýmislegar góðar kökur og kræsingar, vín og tóbak. Nægði þetta nokkra daga og lifðum við á meðan í vellystugheitum og praktugleika. Það var ekki klipið við neglur sér í þeirri sendingu, og var þessa lengi minnst í Álsey. Einnig var og Magnúsi oft strítt með frönsku Maríu. En það tók hann ekki nærri sér, og virtist alveg á sama standa, hvað fjasað var um það.
Þegar þessi umrædda skemmtiferð var farin í Álsey, var ég þar smápatti, og Vilhjálmur Jónsson frá Dölum nokkuð eldri. Var okkur þetta minnisstætt, þar eð við fengum aðeins að skreppa á flot á léttbátnum út á poll og drógum þar nokkra stútunga í matinn. Það var margt á þeim árum til þess að gera strákum úteyjalífið skemmtilegt, ekki síst ef tveir strákar voru þar samtímis.

—————


Magnús Eiríksson líður seint úr minni


Ekki minnist ég þess, að franska María kæmi oftar út í Álsey að heimsækja hann „Magnúsa sín“.
Eitt sinn var Magnús spurður að því, hvort hann hefði aldrei verið trúlofaður eða við neinn sérstakan kvenmann kenndur. Hann kímdi alleinkennilega og svaraði. „Ég? Jú, ég þekkti einu sinni eina og kyssti hana, en hún var ekki beint kyssileg, því að hún var öll kafloðin.“ En meiningin var, að María var með mikinn hárvöxt á efrivör, svo máske hefir hann átt við hana. Veit ég þó ekki um það, þótt hins vegar gæti það hafa átt við Maríu okkar frönsku.
Síðustu árin gerði Magnús Eiríksson ekkert sérstakt framyfir það að passa búfé Vesturhúsaheimilisins og stunda eitthvað sjóróðra sunnan úr Höfðavík. Annars var hann þá orðinn heilsutæpur.
Snemma árs 1917 fór hann til Reykjavíkur að leita sér lækninga, en þar lést hann 5. apríl 1917 og var jarðsettur þar. Mun nú sennilega enginn vita, hvar leiði hans er í kirkjugarðinum, þar eð ég hygg, að enginn legsteinn hafi verið settur á gröf hans.
Magnús var einn af þeim mönnum, sem átti sér margbreytilegan lífsferil, þótti nokkuð sérlundaður, en var allra besti maður, og þeim bestur, sem hann vissi, að áttu erfitt á einhverju sviði. Þar var hann ávallt boðinn og búinn til hjálpar, og gerði það rausnarlega, og án þess að guma af þeim verkum sínum við aðra. Margir munu minnast Magnúsar með hlýhug og virðingu, og er ég einn þeirra. Það er maður, sem seint mun mér úr minni líða. Í þessum pistlum mun nafni Magnúsar enn skjóta upp annað slagið.
Ég sagði áðan, að líklega hefði það verið fyrsti kossinn af vörum ungrar stúlku, sem Magnús fékk, er franska María kyssti hann úti í Álsey.
En ég hygg, að ég særi engan núlifandi, þótt ég ljóstri því upp, að Magnús var, sem ungur maður, trúlofaður stúlku hér í bæ. Einhverra hluta vegna hefir þó slitnað upp úr því, en þær ástæður eru mér ókunnar. Vel mætti setja Ameríkuferðir hans, a.m.k. þá fyrstu, í samband við þau tryggðarof, en um það skal ekkert fullyrt. Stúlka þessi hét Soffía, dóttir Vigfúsar í Hólshúsi hér. Hún var fædd hér 23. okt. 1857. Síðar giftist hún Einari Jónssyni, er lengi bjó í Garðhúsum og síðar Einarshöfn, en fluttu síðar til Reykjavíkur og þar lést Einar. Þeirra son er Axel Einarsson, vel drátthagur, enda mesti fjöldi málverka til eftir hann hér í Eyjum. – Þetta mun hafa verið á fárra vitorði, en ég vona, sem sagt, að héðan af særi ég engan, þótt ég ljóstri því upp.
Svo þegar allt kemur til alls hefir María ekki gefið Magnúsi fyrsta ungmeyjarkossinn.

—————


Sögur af Haraldi Eiríkssyni


Það hefir alltaf þótt erfitt að bera fugl, veiddan í veiðistöðum vestan í Álsey, þ.e. Lækjarbrekkunni og upp í Veltu. En þetta urðu menn þó að gera. Það þótti mesta ósvinna að láta veiddan fugl liggja í veiðistaðnum, þó að ekki væri nema yfir eina nótt. Þótt menn væru slituppgefnir eftir langan veiðidag, var hætt það tímanlega veiðum, að tími yrði til þess að bera veiðina upp í Veltu, og koma fuglinum á sinn venjulega geymslustað, sem var Lundakórinn rétt neðan við grasið mót austri, - á bergfláanum.
Burðurinn er erfiður, kippa veiddan fugl í 80 til 100 fugla kippu, og bera upp brekkuna, alla útgrafna af lundaholum og mjög bratta, og bera máske margar ferðir, ef vel veiddist. Upp í þessa Veltu var borið, t.d. af Útsuðursnefi, Molda, Einarsnefi, Flánni, sem líka er stundum nefnd Gilið, Gíslanefi o.fl. stöðum.
Eitt sinn var Haraldur Eiríksson að veiða í Gilinu og bar þaðan 100 fugla kippu. En þar eð þennan dag var sókningsdagur, þurfti allur fugl að komast niður í Lundakór til skipta og heimsendingar með bátnum eftir miðdaginn. Nú hittist svo á, að Haraldur hafði veitt nokkra fugla norður á Mangastöðum, sem eru við norðurbrún eyjarinnar, um það bil upp af kofanum. En svo illa hittist á, að Haraldur hafði ekkert snæri aukalega með sér. Hann bar þess vegna fuglakippu sína ofan úr Skarði, norður alla norðurbrúnina allt til Mangastaða.
Þar bætti hann á kippu sína þessum fuglum, nálægt 20 stykkjum, og bar síðan kippuna sína upp allan norðurhrygginn, sem er mikið á fótinn og allbratt, og allt suður í Veltu. Þetta hefir verið þung byrði og erfið vegna brekkunnar, en Haraldur lét sig ekki muna um slíka smámuni. Hann var mjög sterkur og hinn mesti burðarskrokkur.
Þegar svo upp í Veltu kom, lét hann kippu sína velta allt niður í Lundakór, þar sem maður stóð fyrir henni, svo að hún ylti ekki í sjóinn. Það kom stundum fyrir, að veltandi kippur breyttu um stefnu og fóru á fleygiferð framhjá fyrirstöðumanni, sem ekki varaði sig á stefnubreytingunni. Oftast náðust þó kippurnar, sem slíkar sjóferðir fóru, en þó kom fyrir, að þær náðust ekki, þar eð þær bárust svo ört frá sjóflánum að ekki tókst að kasta bandi útfyrir þær, hitta vel og draga að flánni aftur.
Þetta þótti ávallt mikill skaði, svo að, ef bátur var í eyjunni, var hann alltaf settur á flot undir slíkum kringumstæðum og kippan sótt. Það þótti vel borga sig. Allt, sem í sjó lendir við flárnar, berst mjög hratt frá þeim vegna sterkra strauma. Liggur hann venjulega svo, að hann kemur frá Mjóastíg inn að flánum, en svo norður að Þjófanefi, þaðan út til austurs, en berst svo aftur inn að Mjóastíg, o.s.frv. Þessu tók maður oft eftir, þ.e. að straumurinn liggur í hring austan við eyjuna, þar eð ýmislegt rak þannig marga hringi, hvort heldur var um austur- eða vesturfall að ræða, (sbr. frásögnina um selinn Álseyjarnaut).

—————


Hraustmennið Haraldur


Ég endurtek, að Haraldur Eiríksson var mjög sterkur maður. Skal enn eitt dæmi tekið hér um krafta hans og dugnað því til sönnunar.
Sumar eitt var ég í Álsey, samtíma þeim Haraldi Eiríkssyni og Kristni Sigurðssyni. Báðir voru þeir mjög skemmtilegir viðlegufélagar, kátir og fjörugir. Þá var það eitt sinn, að um kvöldið langaði alla í kaffisopa, smáhressingu eftir strangan veiðidag. Varð þá að venju að sækja vatnið upp í Vatnsgil, og skyldi sá, er hita átti þennan og hinn daginn, sjá til þess, að vatn væri ávallt nægilegt við ból.
Hefði nú ekki verið hitaður þessi kaffisopi, aukasopi, hefði verið nægilegt vatn til morgunhitunar, en þá átti Haraldur Eiríksson að hita samkvæmt röð, en Kristinn hafði hitað þennan umrædda dag. Hefði ekki þessi aukahitun komið til tals, hefði verið nægilegt vatn, svo að Kristinn þurfti þá ekki að sækja vatn til morgunmálsins. Kristinn var þess vegna á móti þessari kvöldhitun, en þar eð allir aðrir vildu fá kaffi, réði það úrslitum og var kaffið hitað. En þá vantaði vatn til morgunhitunar, en morgunkaffið var venjulega hitað kl. 6.
Eitthvað þrefuðu þeir um þetta frændurnir, Haraldur og Kristinn, og lauk því þrefi þannig, að Haraldur tók vatnskvartelið, sem tók líklega um 30 potta, 25 potta vatnsbrúsa og auk þess lítinn, eða 10 potta brúsa, og fór með þetta allt upp í Vatnsgil. Það er alllöng leið að fara og allt á fótinn, þó að brekkan sé skágengin suður í gilið.
Þarna er og yfir að fara hála bergfláa, og þar fyrir ofan grasbrekkan öll sundurgrafin af lundanum. Hún er þess vegna slæm yfirferðar. Þar sem vatninu er safnað í tunnuna uppi í gili, er venjuleg leið frá kofanum þess vegna fremur óhæg og erfið, þótt undan fæti sé úr gilinu og heim í kofann. Þar sem farið er niður í gilið að vatnstunnunni var hafður tréstigi. Þótt hann væri aðeins 5 þrep, var mjög erfitt að koma þar upp, t.d. þessum 25 pt. vatnsbrúsa, ef maður var einn, svo að ekki sé talað um, hve erfitt var að koma þar kvartelinu upp.
Þetta hefir verið Haraldi mesta þrekraun. Þegar hann hafði komið öllum ílátunum upp á brún, þ.e. gilbarminn, batt hann brúsann og kvartelið saman með margföldu lundasnæri, hafði kvartelið í bak en brúsan fyrir. Lagði hann byrðina yfir öxl sér, en tók svo 10 pt. brúsann og hélt á honum í hendinni. Nokkuð var hált í brekkunni og flánum vegna bleytu, en Haraldi virtist það ekki til neinnar hindrunar. Hann gekk allrösklega með byrði sína heim að kofa, lagði hana þar frá sér og sagði eitthvað um, að nú væri hægt að hita góðan kaffisopa bæði í kvöld og á morgun. Eflaust hefir honum verið þungt í skapi, er hann lagði af stað í þessa vatnsburðarferð, en jafn kátur var hann að henni lokinni eins og venjulega.
Þetta þótti hreystilega gert, og sá ég aldrei neinn vinna slíkt þrekvirki í Álsey, fyrr né síðar. Sannar þetta m.a., að Haraldur var tveggja manna maki að burðum.
Því mætti svo við bæta, að hann var mikill hagleiksmaður á allt. Féll honum helst aldrei verk úr hendi, verk, sem viðlegumönnum voru til hagræðis eða bóta. Hann smíðaði ágætar klemmur úr vír, svo að við gátum hengt út sokkaplögg og annan fatnað, sem við þvoðum, á þvottasnúrur, sem hann setti upp. Þá lagfærði hann vatnsrennslið í Nóngili, svo að þar var hægt að safna vatni í tunnur, sem fylltust hver af annari. Þá er sú fyrsta var full orðin, var rennslissamband milli hinna tunnanna. Var þá örskammt að sækja vatn þar eða í Nóngil, sem er rétt ofan við kofann. Það var mikið hagræði og tímasparnaður. Þar leiddi hann og drjúpandi vatnsdropa á seglgarni nokkra leið þannig, að þeir féllu allir í tunnuna. Var þarna þess vegna oft nægjanlegt vatn, en ekki var það eins gott og úr Vatnsgili. Þessvegna var Nóngilsvatnið meira notað til uppþvotta og tauþvotta, en Vatnsgilsvatnið í kaffi.

—————


„Skemmtiatriði“ í úteyjum


Margt var sér til gamans gert þessi árin sem önnur í Álsey. Menn fundu upp á ýmislegu gríni og glensi, hver í annars garð. Einu sinni var t.d. matarskrína Jóns Jónssonar svo rækilega lokuð að hvernig sem hann fór að, gat hann ómögulega opnað hana. Hann vissi gjörla að skrínan hafði verið negld aftur, en hvernig það var gert, fann hann ekki út. Hann fann enga nagla, sem þessu gætu valdið. Endaði þetta svo, að Jón varð að brjóta upp matarskrínuna. Þá kom í ljós, að undir haus gamals nagla, sem skorið hafði verið örlítið frá, var fyrirkomið koparþræði, hann síðan dreginn upp í lokið og eftir því að framan gegnum læsingarjárnið og niður í aðra naglfestu á botninum. Það var þess vegna ógerningur að opna lokið. Hver þessu hafði valdið, var auðvitað Haraldur Eiríksson. Ekkert varð Jón gramur vegna þessara tiltekta en dásamaði snilld Haraldar.
Ársæll Sveinsson svaf í neðri koju við austurvegg kofans. Ársæll var oft hvíldarþurfi, eftir að hafa máske veitt í Siggaflesi nær allan daginn, en sá veiðistaður er einn allra erfiðasti veiðistaður eyjarinnar vegna þess, hve fuglinn flýgur þar hratt, og hve illa sést til hans á fluginu, þar eð hann ber í brúnt bergið, en kemur svo eins og örskot fyrir veiðistaðinn. Þá er betra að vera ekki seinn að slá háfnum upp. Þarna þótti Ársæli gaman að veiða, og var þar lengstum ef færi gafst. Það var þess vegna síst að undra, þótt hann aðeins þyrfti að láta hvílast í kojunni, er hann kom til bóls til matar.
Nú höfðu prakkararnir hug á því að glettast svolítið við Ársæl, og um leið og það var hugsað, var það líka framkvæmt. Ársæll hafði með sér sængurföt, t.d. yfirsæng, undirdýnu og teppi, ásamt kodda. Þennan dag var Ársæll í Siggaflesi að venju. Þeir tóku þá vatnsfat, létu í það vatn og komu fyrir undir teppinu ofan á undirdýnunni. Gengu síðan vel frá öllu, svo að engin verksummerki sáust.
Nokkru síðar kom Ársæll til bóls, fékk sér að drekka, en hlammaði sér síðan að venju upp í kojuna til þess að láta þreytuna líða úr kroppnum. En vera hans var ekki löng í kojunni, því að varast hafði hann lagst í kojuna, er allt flaut úti í vatni og hann sjálfur vel rassblautur, enda höfðu gárungarnir gert nákvæmar athuganir á því, hvar sá hluti líkamans mundi hafna í kojunni. Hentist Ársæll á fætur í mesta flýti, blautur, svo að lak úr honum bleytan, teppið og dýnan rennblautt, svo að hann þurfti að láta allt úr rúminu út til þerris. Ég hélt, að Ársæll mundi verða bálvondur yfir þessu tiltæki, en það varð hann alls ekki, heldur hafði orð um að launa sumum lambið gráa við hentugleika. Svo henti hann og aðrir gaman að öllu saman.
Nokkru síðar gat Ársæll komið stórum nagla í brauð Haraldar. Var Haraldur með forláta skeiðahníf, sem hann dásamaði mikið. Satt var það, að þetta var forláta hnífur, en þegar svo Haraldur fór að skera brauð sitt með honum, var hann ekki upp á marga fiska. Haraldur sargaði honum í brauðinu, en ekkert beit, og var hnífseggin líkari sagarblaði, þegar hann hætti að reyna að skera brauðið. Þarna hafði Ársæll verið að verki. Það vissi Haraldur, og þannig hafði Ársæll launað honum vatnsbaðið í kojunni. Ég hefði orðið sár í sporum Haraldar, en hann sagði aðeins: „Bannsettur prakkarinn að fara svona með hnífinn minn.“ Það var allt og sumt. Einhver hefði máske sagt meira en t.d. þessir tveir veiðifélagar, en svona var sambúðin góð og ekki síður skemmtileg.
Aðeins eins atviks má ég til að minnast enn af þessu tagi. Kristinn Sigurðsson á Löndum var mesti prakkari og alltaf til í allt slíkt, enda mjög glaðvær og góður félagi. Þeir Haraldur og Ársæll vissu vel, að Kristinn gerði þeim margar brellur og hugðu hérna á hefndir. Það heppnaðist þeim líka vel. Til þess að þurfa ekki að fara út um nætur og kasta af sér vatni, sem margir þurftu, þar eð mikið var drukkið af kaffi á kvöldin, hafði Kristinn fundið það snjallræði að hafa stóra ávaxtadós undir koju sinni og nota hana sem náttpott. Koja hans var við norðurhlið, og svaf hann í neðri koju, en ég í efri koju.
Þeir Haraldur og Ársæll tóku nú dósina hans og gerðu á hana smágöt í botninn og létu hana svo á sinn stað. Um nóttina næstu vaknaði ég við mikinn hávaða, tal og hlátra, en við það blandaðist bölv og ragn Kristins. Hann hafði þá að venju þurft að kasta af sér vatni um nóttina, en skildi ekkert í því, að hann skyldi pissa utan við dósina, svo að allt varð blautt. Fóru menn þá að rumska, ef þeir hafa þá nokkuð verið farnir að sofa vegna eftirvæntingar að sjá viðbrögð Kristins, er hann notaði dósina sína. Man ég, að mikið var hlegið, og Kristinn var sárgramur. Henti hann þá þegar öllu úr kojunni, nema kodda og yfirsænginni, og svaf þannig til morguns. Þá mátti hann fara að þvo sængurföt sín, svo að lítið varð úr veiði hjá honum fyrripart dagsins. Ég veit, að honum sárnaði þessar aðfarir, en ekki bar þó á gremju hans nema fram undir hádegið. Þá hló hann að öllu saman eins og hinir.
Það er aðeins örsjaldan, að illindi hafa orðið vegna slíkra skemmtiatriða manna í úteyjum. Í þessum fámenna hóp verða menn að gera allt til þess að halda góðum félagsskap við líði, stuðla að léttum skemmtistundum og græskulausu gamni. Þar verða, ef allt á að fara vel, allir að vera samtaka um það eitt að viðhalda góðum félagsskap. Einn maður gæti hæglega eyðilagt eitt úteyjafélag, ef hann hegðaði sér ekki samkvæmt þessari gullvægu reglu. Hvergi reynir meira en í útey á sannan félagsanda. Hvergi er og auðveldara að eyðileggja hann með einu orði eða vanhugsuðum aðgerðum.
Síðan ég fór að vera í útey, 1908, hef ég aldrei, að heitið geti, orðið var við neina alvarlega misklíð. Ef til vill aðeins í bili, ef maður tók t.d. brennivínsflösku og henti henni fyrir brún eða faldi fyrir eiganda. Það hefir einstöku sinnum valdið smávægilegu orðagjálfri, sem svo strax hefir gleymst. Í þessu sambandi dettur mér í hug, að maður einn var einu sinni með 4 eða 5 flöskur af víni með sér. Ekki þorði hann að láta marga vita um þetta, nei, aðeins einn maður vissi um flöskurnar. Um kvöldið var eigandi vínsins nokkuð við skál. Tók hann þá flöskur sínar og faldi þær. Það gerði hann svo rækilega að þær hafa aldrei fundist síðan. Hann sagði, að þær væru geymdar í lundaholu rétt við tjaldið. En hvernig sem leitað var, fundust þær ekki, og svo er enn. Það væri víst orðið gott vín, þar eð þetta var nokkru fyrir aldamótin síðustu, 1890 að ég held, úti í Álsey.
Nú veit enginn, hvar tjaldið var þá staðsett. Það gat hafa verið, þar sem kofinn er nú eða þar í grennd, en það gat líka verið ofan við og norðan Nóngils, við rætur Djúpafless, sem er mikil lundabyggð og víðfeðm til suðurs og norðurs. Það verður erfitt að finna þær flöskurnar, þótt ýtarleg leit yrði að þeim gerð. Eitt er víst, að margur maðurinn hefir kannað umhverfi núverandi kofasvæðis án alls árangurs.

—————


Minningar frá Álsey


Núverandi kofastæði í Álsey er fallegt, en hefir þann galla, að erfitt er að fara þaðan til veiða, því að brekkan tekur strax við, brött og erfið alla leið upp í Skarðið. Þegar upp í Skarðið er komið, taka við langar brekkur niður að veiðistöðunum, sem eru niður við brún að vestan. Sú brekka heitir einu nafni „Lækjarbrekka“, en að austan og norðan „Bólbrekka“. Þær hafa komið mörgum manninum til að svitna undir þungum burði af lunda.
En þegar til bóls kemur, er þar fagurt og friðsælt um að litast, þótt kvöldsólarinnar njóti þar ekki sem skyldi. Heimaeyjan blasir við augum manns, há og tignarleg í sínum fegursta sumarskrúða, og bæirnir fyrir ofan hraun gera útsýnið enn yndislegra. Báran hjalar við sjóflárnar blítt og rólega, og léttur niðurinn berst til eyrna manns sem unaðsleg vögguljóð gegnum blæinn mjúka.
En svo breytist umhverfið. Það er rok. Öldurnar æða langt upp, allt að því í gras upp, trylltar og æðisgengnar. Í fjarska heyrast dunur og dynkir, þegar æst hafið fyllir hella og skúta. Sædrifið er eins og regn, og Heimaey hverfur þá í brimmökkinn. Þá er hrikalegt um að litast yfir vesturflóann, sem segja má, að sé ein nær óslitin brimalda. Brimmökkurinn kringum Suðurey er svo mikill að svo er sem þar sé um magnaðan eldreyk að ræða. Brimið veður yfir Suðureyjarskerin svo að allt er á kafi á Útsuðursnefi eyjarinnar, en þar gengur brimaldan upp í grös. Einhvers staðar frá Þjófanefi í Álsey eða Gatnefinu berast að eyrum manns þungir dynkir eins og fallbyssuskot í fjarska, er kraftmiklar öldurnar fylla þar alla kóra og hella:

Höggur bjartur hrannarskafl
hamra-svarta-kóra.
Brýst um hart með ógnarafl
Ægishjartað stóra.

Þar eru ógnaröfl að verki, svo að eyjan titrar og skelfur, þegar mest gengur á. Eitt sumarið komum við til dvalar í Álsey, Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, Jónas Sigurðsson, Skuld, tveir synir hans Sigurgeir og Sigurjón, ásamt undirrituðum. Það reyndist ekki fært við steðjann, svo að við urðum að fara upp við Þjófanef. Þar var ágætt uppgöngu, en er mjög miklu erfiðara, og langur burður á farangrinum heim í kofann. Dótið verður að draga upp á nefið sjálft af sjóflánni, og er það erfitt verk.
Þegar við nú komum upp á nefið, sýndist okkur í kvöldhúminu, að vatn væri í gólfi gömlu fjárréttarinnar, sem var á Þjófanefi, rétt þar sem komið er upp af steðjanum. Við gáfum þessu vatni engan gaum, enda nóg annað að gera, að draga upp allt dótið. En þegar við síðar fórum að athuga vatn þetta, kom annað í ljós. Þetta var sem sé sjórinn, sem við sáum, sjórinn sunnan við Þjófanef. Einhverntíma um veturinn hafði brimið verið svo gífurlegt að það hafði sprengt gólfið í réttinni, og hefir þetta stóra bergstykki fallið í sjóinn sunnan við Þjófanef. Þá hefir Ægir karl sennilega sýnt afl sitt svo um munaði. Sennilega hefir sjórinn þá komið austsuðaustan frá og sprengt upp gólfið, og hefir þurft meir en lítið átak til þess. Þetta var svo ótrúlegt, að við vorum lengi að átta okkur á, að það væri veruleiki. Það reyndist þó vera staðreynd, og þannig lítur þetta út enn í dag. Botninn er úr gömlu fjárréttinni á stóru svæði.
Þjófanef hét áður Húnanef. Er sagt að nafnbreytinguna hafi það fengið, af því að eitthvert sinn hafi erlendir sjófarendur farið upp þarna, rænt fé, en skilið eftir tvo stranga vaðmáls sem greiðslu fyrir fé það, er þeir tóku. Er sagt, að nafnið hafi haldist síðan og nefið nefnt Þjófanef.
Norðan í nefinu er allstórt lón, sem viðlegumenn baða sig oft í. Er það ágætur baðstaður, lónið alldjúpt og sólin ekki nema síðast á kvöldin um hásumarið. Aðrir kjósa nú orðið heldur að baða sig í Ókindabás, rétt hjá Siggaflesi og Mjóastíg. Inn í þann bás eða kór gengur sjórinn strax um hálffallinn sjó. Botninn er þakinn mjúkum þaragróðri og nokkuð háll, en sé varlega farið, er hættulaust að busla þarna í básnum. Hin síðari árin synda menn frá steðjanum, sjóflánni við Lundakór, og nokkuð út á pollinn. Þó er þetta ekki með öllu hættulaust, því að stórgerður þaragróður er á flánum, sem hæglega gæti flækst um fætur manns og hindrað eðlileg sundtök. Þá sjást og stöku sinnum stórir beinhákarlar nugga sér við flárnar. Menn hafa stundum til öryggis band um sig, ef þeir synda út frá flánum, með tilliti til hins stórvaxna þaragróðurs. Hann er hættulegur.
Atvik kom fyrir í Álsey fyrir 4 eða 5 árum, sem orsakaði, að einn veiðimanna þar kastaði af sér klæðum og synti „út á poll“, þ.e. leguna við eyjuna. Það var sól og sumarblíða. Sókningsmaður okkar, Valdimar Tranberg, kom til okkar skemmtiferð og var allan daginn úti í ey. Trilluna bundum við fasta við dufl, sem lagt var aftur af henni, og band úr stefni hennar fest við sjóflána. Hún vaggaði þarna því létt og örugglega um 3 til 4 metra frá sjóflánni. Allt í einu tókum við eftir því, að trillan var komin óeðlilega langt frá og var auðséð, að hún hafði losnað, bandið, sem hún var bundin með, hafði slitnað eða sargast sundur. Sigurgeir Jónasson frá Skuld afklæddist þess vegna í snatri, henti sér út af sjóflánni og synti út í trilluna, sem hann komst upp í fyrirhafnarlítið. Bátnum var borgið, og Sigurgeir fékk sér hressandi bað. En Tranberg hafði engar áhyggjur. Hann sat uppi í brekku og sötraði kaffi úr könnu hinn rólegasti og skemmti sér við að horfa á fuglinn og landslagið. Hann var alveg áhyggjulaus, þótt báturinn væri á reki um leguna og gæti jafnvel rekið frá eyjunni.
Þrátt fyrir erfiðar og langar brekkur, er Álsey í augum viðlegumanna þar, undrafögur og hefir veitt þeim óteljandi ánægjustundir fyrr og síðar. Um fjölmörg síðastliðin ár hafa mestmegnis verið þar sömu mennirnir og samfélag þeirra verið með afbrigðum gott. Þeir hafa komið sér þar upp mjög glæsilegum viðlegukofa, sem er svo vel gerður og fínn að líkja má við sumarbústað af bestu gerð. Þar er rúmgott svefnherbergi með 6 kojum, mjög bjart og snyrtilegt, veggfóðrað og málað, þar er matstofa, stór og rúmgóð, eldhús og fatageymsla. Allt er þetta mjög snyrtilegt og rúmgott, hreint og bjart.
Aðalviðlegumenn þar síðustu árin hafa verið þeir:

Jónas Sigurðsson, Skuld,
Sigurgeir Jónasson, Skuld,
Jóhannes Gíslason frá Eyjarhólum,
Hjálmar Jónsson frá Dölum,
Magnús Magnússon frá Vesturhúsum,
Helgi Magnússon frá Vesturhúsum,
Árni Árnason, símritari.

Þess utan hafa verið þar fjölmargir tíma og tíma, t.d. Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum, sem var þar lengi og allt til síðustu æviára sinna, Hjálmar Guðnason, Vegamótum og m.m.fl. Þá hefir fyrir komið, að konur hafa verið hjá mönnum sínum 3-4 nætur eða lengur. Þá hefir oft verið sungið og saman spjallað, og margt sér til gamans gert. Má segja, að Álsey sé nefndra manna sumarheimili, sem þeir dásama á allan hátt í umræðu og söng. Þeir eiga sinn sérstaka Álseyjarsöng, kvæði, sem einn þeirra hefir gert undir lag eftir Oddgeir Kristjánsson tónskáld. Þetta er oft sungið, og er ekkert of sagt, að þar fylgi hugur máli. Þótt kvæði þetta sé ekki mikill skáldskapur, þykir mér sjálfsagt að láta það fylgja hér með.
Já, ykkur finnst, ef til vill, einkennilegt, að kvenfólk sé að dvelja í úteyjum hjá mönnum sínum. En það er skiljanlegt. Þeim þykir yndislegt að vera þar og taka þátt í þessu landfræga útilífi með maka sínum og vinum. Ég minnist, að í Álsey hafa verið Sigríður Haraldsdóttir, Saltabergi, hjá Hlöðver manni sínum, og Jakobína Guðlaugsdóttir kona Sigurgeirs Jónassonar frá Skuld.

—————


Höfuðlausi sigamaðurinn


Öllum bjargsigum í Álsey hefir þó ekki lokið svo farsællega, sem hér að framan er frásagt. Til þess bendir eftirfarandi sögn, sem mætti færa til óskiljanlegra atburða.
Fyrir neðan Molda í Álsey er stórt svartfuglabæli (þar mun átt við Randabæli), sem sjaldan hefir verið farið á, eftir að eftirfarandi atburður gerðist. (Hvenær það hefir gerst veit enginn með vissu, en þó mun það hafa verið nálægt 1890).
Fyrir löngu voru nokkrir menn til sigaferða í Álsey. Fór þá einn þeirra á nefnt bæli, en þegar hann var dreginn upp aftur, vantaði á sigamanninn höfuðið. Enginn vissi með hverjum hætti þetta hafði borið til, en eftir það voru menn tregir til að fara á bælið, og fékkst helst enginn til þess. Nokkru fyrir síðustu aldamót (líklega um 1890) voru þeir Magnús Vigfússon frá Presthúsum og Sigurður Sigurðsson frá Kirkjubæ við aðskókn í Álsey. Vildi Sigurður þá fara á umrætt bæli, en Magnús aftraði því. Sagðist hann ekki vilja draga hann hauslausan upp aftur.
Þegar maður athugar þessa fyrri sögn um höfuðlausa manninn, gæti sá hafa verið að síga niður á Moldabekkinn til fýla, og er það hreint ekki ósennilegt. En á Moldabekkinn hefir oft verið farið fyrr og síðar, og ekkert óvenjulegt komið fyrir við þau sig. Fyrir neðan eru svo tvö svartfuglabæli, en þau er venja að taka af sjó, svo vart getur um þau verið að ræða.


—————


Úteyjaglettur
Frásögn eftir Óskar Kárason


Tunnan var eins og venjulegar tunnur með botnum í báðum endum.
Ég ætlaði að senda hana austur í Vík og fá mér í hana slátur með haustinu. Maðurinn, sem ætlaði að senda mér slátrið, var hjá mér um veturinn, en fór Reykjavíkur-leiðina, því að aldrei kom leiði austur í Vík.
Hann gat þessvegna ekki tekið tunnuna með sér, en ég var búinn að sýna honum hana, og taldi hann tunnuna ágæta undir slátrið. Hann sagði mér bara að skera fangamarkið sitt á hana og senda hana svo með næstu ferð, sem félli austur. Ég var búinn að merkja tunnuna, og stóð hún ferðbúin heima, en aldrei kom leiði.
Þetta sumar ætlaði ég til lunda út í Álsey með þeim Vesturhúsafeðgum, Magnúsi eldra og Magnúsi yngra, Árna Árnasyni símritara frá Grund og Hjálmari frá Dölum Jónssyni.
Sem sagt, lundatíminn var kominn. Við stóðum allir ferðbúnir niðri á Bæjarbryggju og vorum búnir að láta dót okkar um borð í Létti litla, sem ætlaði að skutla okkur út í ey.
Þegar til kom, vantaði okkur tunnu undir vatn. Magnús eldri, sem héreftir verður nefndur Magnús og hinn Maggi, sagði, að frá sínum bæjardyrum séð væri ekki hægt að fara í eyna án þess að hafa tunnu, þareð gamla tunnan væri vafalaust orðin ónýt.Við vorum á sama máli og Magnús, en hvar áttum við að fá tunnuna? Þá datt mér í hug tunnan mín, sem ég átti heima og beið leiðis austur í Vík í Mýrdal. Ég sagði félögum mínum, hversu á stóð með tunnuna, og vildu þeir óðir fá hana lánaða hjá mér. Ég lét loks tilleiðast, en þó ekki, fyrr en ég fékk loforð um að fá 50 lunda í leigu fyrir hana. Það lenti í mesta þrefi að semja um leiguna, sem geta má nærri, enda verð ég að játa, að þetta var mikils virði. Var og helst ómögulegt að fá tunnur um þetta leyti.
Það er nú ekki neitt að segja um þessi mál, fyrr en við komum í Álsey. Þá kom í ljós, að tunnan mín var hriplek, og fékk ég nú óspart að heyra, að ég hefði svikið tunnuna inn á þá, og að ég fái ekki einn eyri í leigu fyrir hana. Mér sveið þetta sárt, en datt þá það snjallræði í hug að leggja tunnuna í bleyti til þess að þétta hana, og festi hana því á bólfæri og gaf henni síðan niður í sjó, og batt svo færi við fjallabolta. Þegar því var lokið, komu þeir Hjalli og Maggi ofan úr Vatnsgili og segja þau tíðindi, að tunnan sé í besta lagi og sé þessvegna óþarfi fyrir mig að vera að hafa þetta fyrir minni tunnu, því að hún verði aldrei notuð. Mér þóttu þetta að vonum engar gleðifréttir, því að nú vissi ég, að ég fengi ekkert fyrir leigu á tunnunni.
Allt í einu datt mér í hug gott ráð, einmitt þegar ég var að horfa á tunnuna, sem rúllaði léttilega á Álseyjarpollinum. Ekki var nú annað en að láta hitt tunnræksnið falla í stafi, og mundi þá verða annað hljóð í þeim. Satt að segja var ég svo hrifinn að horfa á tunnuna, að ég gleymdi mér alveg og rankaði ekki við fyrr en Hjálmar kallaði: “Til bóls, til bóls” . Þegar ég kom inn í kofa, voru þeir búnir að hita og voru nú farnir að tína upp úr matarskrínunum. Þegar ég var rétt nýbúinn að skera mér vænan tertubita og ætlaði að fara að gæða mér á honum, ásamt ilmandi kaffinu, kom Magnús inn og sagði þær fréttir, að tunnan væri slitin af seilinni.
Það varð því lítið úr máltíðinni hjá mér. Ég þaut út, setti um kaffikönnuna hans Magga, en óviljandi þó. Hann bölvaði mér í sand og ösku, ásamt tunnunni. Ég lét sem ekkert væri og fór mína leið út. En þegar til kom var tunnan á sama stað og allt í besta lagi með hana. Ég hefði svo sem mátt vita, að Magnús var smá glettni-skreytinn. Þegar ég sá, að ekkert var að tunnunni, fór ég til bóls aftur. Tæplega var ég sestur við matardall minn, þegar hafnar voru umræður um tunnuna. Addi sagði, að það legðist í sig, að ég mundi ekki sjá tunnuna meira, ef hún ætti að liggjaí bleyti yfir nóttina. Magnús taldi, að útlit væri fyrir austanrok, og þá vissu allir, hvernig færi. Maggi hélt, að það væri nú ekki mikill skaði í tunnufjandanum, þó að hún færi skrattans til. Ekki bætti Hjalli úr skák. Hann sagði, að réttast væri að henda mér út á eftir tunnunni eftir svikin. Eins og nærri má geta sveið mig sárt undir þessum ræðum, en tók þó öllu með stillingu. Þó hugsaði ég þeim þegjandi þörfina.
Þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir í kofanum, þ.e.a.s. búa um okkur og koma matardöllum okkar fyrir, var farið að setja upp háfana. Ég átti eina flösku af koníaki, og fékk mér aðeins bragð og gaf Adda og Hjalla líka, en feðgarnir voru templarar og eins og nærri má geta þáðu þeir ekki mjöðin.
Það var ekkert úr veiði þennan daginn, því að logn var og enginn fugl við. Það er því skemmst frá því að segja, að dagurinn leið í gáska og gleði, eins og þeir einir vita, sem í úteyjum hafa verið.
Það sakar kannske ekki að geta þess, að Hjalli varð að skreppa út til þarfinda sinna. Þegar hann svo kom inn aftur, brá svo við, að hann komst með engu móti í matardall sinn. Ég fór að dást að því, hve lokið félli vel, en þá bar hann það á mig, að ég hefði neglt aftur dallinn sinn, og sagðist hann mundir reyna að borga mér þetta. Mér fannst ekki taka því að svara þessari fjarstæðu.
Nú bauðst Maggi til þess að hjálpa Hjalla að opna dallinn, en það var sama, hvernig sem þeir reyndu, að allt kom fyrir ekki. Hann gaf sig hvergi. Maggi var sá eini, sem kunni nokkuð til smíða, enda var hann bæði með forláta sög og ágætan hníf. Þegar ekkert gekk, kom Magnús með þá tillögu, að best væri þá sama hvort upp sneri eða niður, þ.e.a.s. lokið eða botninn. Okkur þótti þessi tillaga Magnúsar mjög viturleg, sem von var, og samþykkti Hjalli hana, eftir að hafa fengið hjá mér “einn lítinn”.
Maggi tók nú að saga, og gekk það vel til þess að byrja með, enda bar hann sig mjög smiðslega að, og var unun að sjá handbrögð hans. Við horfðum á hann af mikilli hrifningu.
Allt í einu hætti Maggi að saga, þurrkaði af sér svitann og sagði: „Það er einhver fjandinn fyrir söginni. Mér þykir verst, ef ég eyðilegg hana, því að þetta er sú albesta sög, sem ég hef nokkurntíma átt, og hef ég þó átt margar góðar. Ég gæti næstum trúað, að ég væri búinn að saga sundur leirfantinn og væri kominn í eitthvað ennþá verra.”
Við töldum þetta ekki sennilegt, en héldum þó, að ekki væri sögin nú eins góð og hann vildi vera láta, ef hún þyldi ekki að saga í sundur einn lélegan leirfant. Það var auðséð, að Magga stórþótti, þegar við fórum að níða sögina, því að nú hóf hann að saga aftur og sagði um leið: „Hann skal sundur, enda þótt ég verði að fórna söginni.“ Maggi sagaði nú og sagaði svo svitinn rann af honum, og sjá: Undrið skeði. Eftir hálftíma lá skrínan í tvennu lagi á gólfinu.
Við fórum nú að athuga sagarsárið á öðrum parti skrínunnar. Kom þá í ljós, að Maggi hafði sagað sundur leirfantinn, sem Hjalli notaði til að drekka úr kaffið. Fanturinn var sagaður í sundur sem sagt í miðju, og var skeiðin, sem í honum var, líka í tvennu lagi. Þarna gat að líta í sárið á eftirtöldum matartegundum: Rúgbrauði, franskbrauði, tertu, exporti, kaffipakka, sem nú var að tæmast úr á gólfið, og við hliðina á honum var sykurstampurinn, sem í var strásykur, og blandaðist hann saman við kaffið í fagurlagaða og keilumyndaða strýtu. Draup svo innihald úr svartadauðaflösku, sem lá þannig, að sögin hafði ekki náð til að sníða af henni nema smá sneið af stútnum. Hjalli var ekki seinn á sér að bjarga flöskunni, og fékk sér fljótt vænan sopa, sem von var, og leit um leið fjandsamlega til mín. Ég hélt, að hann ætti þá háttvísi til að bera að bjóða mér um leið einn lítinn, en það var öðru nær. En sleppum því.
Neðst í skrínunni voru 3 eintommu fjallaboltar og glitti í sár þeirra eins og á nýfægðan silfurpening. Þegar Maggi sá þessi undur, varð honum að orði: „Þarna getið þið séð, hvort ég hef hælt söginni minni um of, en þetta reið henni líka að fullu. Það markar ekki fyrir einni tönn í henni framar.“ Eftir að við höfðum dáðst bæði að söginni og dugnaði Magga um stund, sagði Magnús: „Já, þarna hefur þú raunverulega, frá mínum bæjardyrum séð, misst hinn mesta kjörgrip, sonur sæll.“
Hjalli fór nú að athuga skrínuna og komst að þeirri niðurstöðu, að hún hefði verið negld aftur með sextommu nöglum og leit ennþá illilega til mín og sagði: „Það eru aumu bölvaðir fúskararnir þessir múrarar.“ Ég þóttist ekkert heyra og fékk mér vænan sopa úr flöskunni minni og bauð Hjalla að súpa á. Hann þreif flöskuna og saup vel á og sagði: „Það er þó bót í máli, að flaskan mín slapp við að tæmast.”
Á meðan Hjalli var að taka til og koma vistum sínum fyrir, var farið að tala um, hver hefði nú gert þetta. Magnús sagði, að varla gæti þetta verið eftir múrara, því að handbragðið væri líkara úrsmíði og taldi, að ekki væri ósennilegt, að Mangi grjót hefði verið hér að verki.
Mikið var hlegið að þessari fyndni Magnúsar, en ég held þó helst, að Hjalli hafi hlegið hálfgerðum kuldahlátri. Maggi var hálf dasaður eftir áreynsluna og sagðist ætla út að kæla sig. Hann var nokkra stund úti sér til hvíldar og hressingar.
Þegar hann kom inn aftur, settist hann við dallinn sinn og sagði: „Ég held, að maður eigi nú fyrir því að fá sér eina brauðsneið og vel við henni.“ Hann tók því upp heilt rúgbrauð og hugðist skera sér væna sneið, en sagði þó áður og sýndi okkur biturlegan hníf, tálguhníf: „Þessi er nú góður. Ég get sem best rakað mig með honum.“ Við dáðumst allir að hnífnum og fór Maggi svo að skera, en ekkert gekk. Honum þótti þetta kynlegt og hélt, að við hefðum skemmt hnífinn, en enginn vildi kannast eða viðurkenna það. Þá sagði Maggi: „Það skal láta undan þó hart sé.“ Með það sama lagði hann brauðið á skrínulokið og hamaðist við að skera af öllum lífs og sálarkröftum. Við horfðum allir á hann með andagt og hrifningu en hrifnastur var Magnús, sem von var. Svo hart gekk handleggur Magga, að ógerlegt var að greina hendi hans. Það var engu líkara en þarna væri að hamast stimpilstöng úr Skandíavél á fullri ferð. Mér fannst þetta svo tilkomumikil sjón að ég tárfelldi af aðdáun og var alveg búinn að gleyma tunnunni minni.
Loks féll sneiðin á skrínulokið og Maggi rétti úr sér sigri hrósandi, tók sneiðina upp, en um leið datt á hana kringlótt gat, sem var svona á að giska á stærð við túkall. Þá varð Magga að orði: „Nú, þið hafið þá látið fjallabotla í brauðið.“ Síðan tók hann það, sem hann hafði sneitt af boltanum, og var það eins og peningur að lögun, spegilfagur öðru megin, og sagði Maggi um leið og hann þeytti þessum undrapeningi langt út á Poll: „Þið eruð nú meiri karlarnir.“ Þá varð Adda að orði: „Þú ferð laglega með peninginn drengur.“ Þá gat ég ekki stillt mig um að brosa í laumi. En það hefði ég ekki átt að gera, því að Maggi sá það og snéri sér nú að mér og sagði: „Þau eru svo sem auðþekkt handbrögð múraranna, það er allt svo fínlegt og pent, sem þeir gera. En það er ekki öll nótt úti enn.“ Ég sagði þá í mesta grandaleysi: „Þú ættir nú að leggja þig litla stund, Maggi minn, mér sýnist þú svo þreytulegur.“ Hann sagðist nú líklega ekki fara að spyrja mig að því, hvenær hann legði sig. Það var svo farið að tala um gæði hnífsins, og kom okkur öllum saman um, að hann væri að sínu leyti síst verri en sögin. Rann þá allur þótti af Magga, og fór hann svo að brýna og var sannarlega ekki vanþörf á því.
Ég fékk mér nú einn gráan og fór svo að huga að tunnunni. Að þessu sinni var ég töluverða stund að horfa á hana. Hún lá þarna svo róleg í logninu á spegilsléttum Pollinum að það var hrein unun að horfa á hana. Ég sá nú, að það dugði ekki að vera alltaf að glápa á mína tignarlegu tunnu, enda átti ég eftir að búa um mig, en ég var þó búinn að negla strigann í botninn á kojunni. Það var siður veiðimanna þá að hafa striga í stað trébotna í kojunum.
Þegar ég kom inn í kofa, sá ég, að búið var að búa um mig. Ég varð sannarlega snortinn af þessari hugulsemi minna kæru félaga. Til þess að votta þeim mitt þakklæti, bauð ég þeim snaps, sem vildu semsagt Addi og Hjalli, en Magnúsi gaf ég í nefið og Magga tertu. Magnús fór nú að hafa orð á því, að ég væri nokkuð fölur, og tóku hinir í sama streng. Þeir fóru að tala um, að ég hlyti að vera lasinn. Mér þótti það ekki svo vitlaus tilgáta, því að satt að segja var ég allþéttur af víni. Og þegar Magnús stakk upp á því, að ég hefði gott af því að leggja mig litla stund, sá ég, að það var þjóðráð.
Ég svaf í hákoju og fór nú að brölta upp í hana. Ég lagði mig því næst útaf og fór prýðilega um mig. Varð mér nú enn hlýrra til strákanna, þegar ég fann, hvað vel þeir höfðu búið um mig. Ég hef líklega blundað um stund, sem von var, því að það fór svo vel um mig. En allt í einu vaknaði ég við það, að ég er að hrapa, og vissi ég ekki af mér, fyrr en ég lenti á kaf í sjó, að mér fannst. Þegar ég áttaði mig, lá ég í neðri kojunni með allan bakhlutann á kafi í vatni. Það fyrsta, sem ég heyrði til félaga minna, var að Magnús sagði: ”Það er aðeins gusugangur á honum Óskari.“ Ég reif mig upp úr þessu og komst fram á gólf. Var ég þá allur rennandi blautur að aftan, eins og hundur af sundi dreginn. Þá sá ég, hverskyns var. Í koju Hjalla, sem var undir minni koju, var vatnsheldur seglastrigi, og höfðu þeir sett vatn í kojuna, á meðan ég svaf, og skorið svo botninn úr minni koju, og var það þá, er ég hrapaði.
Ekki er hægt að lýsa gleði þeirra Hjalla og Magga yfir óförum mínum. Þó má Hjalli eiga það, að hann kom með svartadauðaflöskuna og bauð mér sjúss. Ég sló nú ekki hendinni á móti því, og sannarlega veitti mér ekki af hressingu. Síðan fór ég úr og hafði fataskipti. Á eftir mér gullu hlátrar og háðsyrði, en ég lét það ekkert á mig fá. Þegar ég hafði farið í þurr föt, fór ég aftur inn í kofa, og var þá Hjalli rétt búinn úr flöskunni. Var ekki að tala um annað en að ég tæmdi úr henni, sem ég líka gerði með mestu lyst.
Addi var að setja upp útvarpið, sem var af elstu gerð, sem þá fyrirfannst í Eyjum, og kunni enginn á það nema hann. Hann var búinn að koma því fyrir á sínum stað og fór svo út að setja upp loftnetið. Hann var alllengi að því og var okkur farið að muna í mússikkina.
Þegar hann kom loksins inn, þá sagði hann: „Nú er allt í lagi, drengir góðir, mætti ég ekki bjóða ykkur eitt lag?“ Við héldum nú það. Svo fór Addi að stilla ýmsa takka, en ekkert hljóð heyrðist. Loks sagði Addi: ”Nú kemur það, piltar.“ Og mikið rétt. Við heyrðum nú eitthvert urg og arg. „Hver fjandinn er nú þetta,“ hrópaði Addi, „ég held helst, að það sé franska,“ - bíðum nú við: „O, o, o, A, a, a, igga, digga, igga, digga, digga …“
„Nú, það er eins og það séu bæði lundi og svala inní tækinu,“ sagði Addi steinhissa. Þá opnaði hann tækið og viti menn, út úr því flugu lundi og tvær svölur. Addi spurði þá: „Hvern fjandann hafið þið gert af innvolsinu úr tækinu?“ Enginn svaraði þar til Magnús sagði: „Getur ekki verið, að lundinn og svölurnar hafi étið innmatinn úr því?“ Við gátum nú ekki varist brosi lengur sem von var. Ég bauð nú Adda einn lítinn, og þáði hann það með þökkum. Þess má geta, að innvolsið úr tækinu fannst svo í matardalli Magnúsar, en enginn vissi, með hvaða hætti það var þangað komið.
Eftir þessar glettur gengum við til náða og sofnuðum fljótt í faðmi hinnar yndislegu úteyjarnætur.
Þegar við vöknuðum morguninn eftir, var komið austanrok. Ég klæddi mig í skyndi og þaut út til þess að gá að tunnunni, en mér til mikillar hryggðar var hún horfin og vaðurinn aðeins eftir. Það var því ekkert að gera, og fór ég til bóls og sagði fréttina. Henni var mjög vel tekið, sem vænta mátti, og var nú gert óspart grín að mér og tunnunni fyrir að hafa verið sá bjálfi að leggja hana í bleyti á þennan hátt.
Þegar ég sagði þeim, að þeir yrðu að borga tunnunna, urðu þeir fyrst æstir og sögðu, að ég mætti þakka fyrir að verða ekki að borga sjálfur svikin og bjálfaháttinn. Síðan hlógu þeir dátt að allri fyndni sinni, en mér sveið sárt undan háði þeirra. Þó stillti ég mig vel.
Eftir hádegið lygndi og síðan gekk hann í vestanátt. Við veiddum vel um daginn. Þegar allir voru komnir til bóls um kvöldið, hóf Magnús gamli umræður um tunnuna. Hann sagði, að það hefði verið leitt með tunnuna hans Óskars, og taldi víst, að það hefði verið stórfiskurinn Léttir, sem hefði ráðist á hana. Hann væri mesta illfiski og hefði þá náttúru að sökkva öllu, sem flyti. Hjalli var á sama máli, og sagðist hafa heyrt hinn mesta djöfulgang um nóttina, og þá hefði Léttirinn ábyggilega verið að hamast á tunnunni.
Addi mátti ekki vera að því að taka þátt í umræðunum, því að hann var að gera við útvarpið. Loksins kom eitthvert urg úr því, og spurði Maggi þá, hvort hann væri nú kominn í samband við tunnuna. Að þessari snjöllu fyndni hlógu allir. Þó verð ég að játa, að ég hló hálfgerðum kuldahlátri.


Það bar nú ekkert til tíðinda í nokkra daga. Vindur var alltaf á vestan og veiddum við vel. Það mun hafa verið 6. júlí, sem tunnan hvarf af Álseyjarpollinum. Þann 12. sama mánaðar kom sókningsbáturinn og með honum fékk ég bréf. Ég reif það upp inn í kofa að öllum viðstöddum og sagði: „Nú, það er frá Vík í Mýrdal.“ Þá gall Maggi við og sagði: „Ætli að þú fáir ekki fréttir af tunnunni?“ Ég svaraði því engu, en las bréfið yfir í flýti. Þegar ég hafði lokið því sagði ég: „Það er nú það merkilega við þetta bréf, að það er einmitt um tunnuna, og skal ég nú lesa bréfið hátt fyrir ykkur. Þið munuð vafalaust hafa ánægju af því, svo mikið eruð þið búnir að stagast á um tunnuna.“„Farðu nú að byrja, maður,“ kallaði Hjalli. Ég hóf svo lestur bréfsins og í því stóð eftirfarandi:
Vík í Mýrdal 10. júlí 1938.
Kæri vinur.
Aðeins nokkrar línur, af því að báturinn kom í dag. Svo er mál með vexti, að nóttina 9. júlí nú í sumar dreymir mig all kynlegan draum. Ég þóttist staddur á Víkurfjöru og horfa til hafs. Sé ég þá stórfiska, sem eru að hamast á einhverju, sem flýtur á sjónum. Sýn þessa bar æ nær mér, og sé ég nú, að hvalir þessir eru með mannshöfuð. Brátt fer ég að kannast við andlitin. Tveir af fiskunum líkjast mjög Vesturhúsfeðgum, Magnúsi eldra og Magnúsi yngra. Hinir voru líkir að stærð, og var annar alveg eins og Hjálmar frá Dölum, en hinn mjög líkur Árna frá Grund símritara. Þessir fjórir fiskar hamast á tunnu, sem þeir virðast vera að reyna að sökkva. Þeir blésu mikinn og virtust að sjá móðir mjög.
Þá verður mér litið lengra til hafs, og sé ég þá, hvar kemur einn stórfiskur ennþá, og fer hann afar hart. Hann kemur í stefnu frá Eyjum og nálgast óðfluga. Þá er hann nálgast hina fiskana, hverfa þeir, en um leið sé ég, að þessi fiskur er líka með mannshöfuð og sé ég ekki betur en að það sért þú sjálfur, en þá vaknaði ég. – Ég fór snemma á fjöru um morguninn, því að ég þóttist vita, að þetta væri einhver bending frá þér til mín. Þegar ég kom fram á kamp, er það það fyrsta, sem ég sé, að tunna er að reka upp í sandinn. Ég geng niður að flæðarmáli og um leið skilar alda tunnunni upp í sandinn, og náði ég henni þá strax. Ég velti henni undan sjó og set hana síðan upp á endann, og blasa þá við mér upphafsstafir mínir og neðanundir: Vík í Mýrdal. Þá þekkti ég tunnuna. Það var sú sama, sem þú ætlaðir að senda mér undir slátrið. Þú mátt vera þess fullviss, að ég sendi þér slátrið í haust. Gaman væri að fá frá þér línu við tækifæri. Þess má geta, að tunnan getur ekki hafa komið með bátnum, því að hann kom ekki fyrr en daginn eftir eða þann 10. júlí.

Kærar kveðjur.
Þinn einlægur vinur – Sveinn Jónsson ...


Meðan á lestrinum stóð þögðu allir og að honum loknum nokkra stund. Magnús rauf fyrstur þögnina og sagði: „Raunverulega, frá mínum bæjardyrum séð, hefur tunnan ekki verið lengi á leiðinni“. Þess má geta, að á eftir þetta var aldrei minnst á tunnuna.
Afritað samkvæmt frumriti Óskars Kárasonar, sem einnig hefur samið frásögn þessa. Þó eru örlitlar orðlagsbreytingar gerðar. Á.Á..

—————


Dagbókarfærslur


Magda mey


Það er á allra vitorði, að í sumar höfðu Álseyingar hjá sér stúlkur oft á viku hverri. Ein var þó lengst og meir að segja lá við hjá þeim í nokkrar nætur. Þetta var yndælasta stúlka, ung og lagleg.
Hún hét Magðalena, en sem auknefni var hún kölluð mey og í daglegu tali Magda mey, enda var hún hin mesta skírlífismanneskja og aldrei við karlmann kennd, og kom þar af meyjar nafnið. Húsmóðir hennar hafði líka varað hana við öllu illu, og hafði Magda mey auðvitað lofað öllu fögru að venju.
Eftir nú að hafa verið í Álsey 2 nætur, fékk hún að tala heim við frú Valgerði: „Halló, er það frú Valgerður? Það er Magda mey. Nú er ég búin að reykja sígarettu.“ Frú Valgerður varð yfir sig hissa: „Hvað segirðu, blessað barn. Þetta máttu aldrei gera aftur. Þá læt ég senda þig heim með Hallbergi í Gerði.“ „Okey,“ sagði Magda mey.
Næsta kvöld hringdi Magda mey aftur til húsmóður sinnar: „Er það frú Valgerður? Það er Magda mey, - í dag kyssti ég einn Álseyinginn.“ Frú Valgerður varð aldeilis dolfallin: „Guð sé oss næstur, Magda mey. Kysstirðu karlmann?“ „Já, sagði Magda mey, ég kyssti kokkinn fyrir matinn. Elsku Magda mey, þetta máttu aldrei gera aftur, annars læt ég Jónas senda þig strax heim.“ „Okey,“ sagði Magda mey.
Nú liðu 2 dagar. Þá hringdi Magda mey ennþá: „Halló, er það frú Valgerður? Það er ... það er hún Magda.“
Þá steinleið yfir frú Valgerði.

—————


Af búskap Jónasar


Jónas í Skuld er, eins og allir vita, orðinn mikill fjárbóndi, og á hann fé sitt allt í Álsey í sumarhögum. En rollurnar í Álsey taka stundum upp á þeim fjanda að verða eitthvað lasnar og svo varð í sumar. Fann Jónas þá eina kind sína eitthvað vankaða og fannst mikið til um skaðann.
Varð honum að vonum tíðrætt um skaða þennan, að þurfa að skera kindina niður, sem kallað er, þegar ekki er hægt að notfæra sér afurðir hennar. „ Já, ég segi ykkur satt piltar,“ sagði Jónas. „Það er meiri skaðinn að þurfa að skera kindina niður.“ Þá gellur Sigurgeir sonur hans við og segir: „Úr því að það er svona slæmt og vont að skera kindina niður, af hverju skerðu þá ekki rolluna upp?“

—————


Bjargstokkur


Svonefndir bjargstokkar hafa allsnemma á árum komið til notkunar í úteyjum við uppdrátt og niðurgjöf flutnings til og frá úteyjunum, t.d. í Suðurey og Bjarnarey. Í Suðurey er hann á svonefndri Hellu eða „á Vatni“, en í Bjarnarey á Hvannhillunefinu. Eru það eikarstólpar, vel niðurfestir, og standa þeir nokkuð framfyrir fjallsbrúnina, en í framenda þeirra leikur eikarhjól á ás og dálítið grópað inn í hjólið fyrir niðurgjafabandinu. Þar sem niður er gefið og upp dregið, er svo nefnt „bullandi loft“, þ.e., að farangurinn kemur hvergi við bergið, fyrr en upp í brún er komið eða niður í bátinn.
Skammt frá brúninni var svo bolti til þess að „stoppa á“, og lá þá bandið beint frá bjargstokkshjólinu á bolta þennan. Þetta létti mjög allan burð á farangri, sem ella gat verið býsna langur og erfiður. Einu erfiðleikarnir samfara bjargstokkunum voru þeir að ná því, er upp var dregið, inn fyrir brúnina. Það gat líka verið erfitt, býsna erfitt.
Er tímar liðu sáu Álseyingar, hve miklum erfiðleikum þeir gátu eytt úr daglegum störfum sínum með því að koma upp hjá sér bjargstokk. Það mun þó ekki hafa verið fyrr en um 1930/31, að þeir létu verða úr framkvæmdum í þessu efni, heldur notuðust við gamla lagið að bera allan flutning til og frá steðjanum og heim í kofa. Þetta var sérlega erfitt, t.d. er menn voru að fara fyrstu ferðina þangað og flytja heim eftir veiðitíma.
En það voru þó ekki veiðimenn, sem að uppsetningu bjargstokks stóðu í Álsey. Það voru fjáreigendur. Þeir komu fyrir bjargstokk rétt austan við kofann. Þar er lofthæð um 12 faðmar og allþægilegt að fyrirkoma bjargstokk í brúnina. Verst var að, þar sem bjargstokkurinn var, er flúð, sem sjórinn neðan undir er fremur ókyrr við. En með því að láta bátinn liggja dálítið utan við flúðina og hafa úr bátnum aðdráttartaug úr niðurgjafarhlutnum í bátinn, sem hann svo gat dregið til sín jafnótt og niður var gefið, heppnaðist þetta ágætlega. Þarna var síðan gefið niður öllum farangri og fé til og frá eyjunni. Síðar var svo fyrirkomið enn betri útbúnaði þarna.
Upp var sett mastur, stutt af þrem hliðarstögum úr vír, og höfð bóma, sem lék leikandi létt í mastrinu, og henni svo slegið út og innfyrir brúnina með hlut þeim, sem afgreiddur var. Þetta gekk mjög vel, enda var vandað vel til þessara niðurgjafatækja. Þau eru enn í fullri notkun og er öllum farangri og fé upp- og útskipað þar úr og í eyna.
Það skildi nú margur halda, að veiðimenn hefðu fundið þetta upp hjá sér, en svo var þó ekki. Það voru fjáreigendur í Álsey og jarðarmenn, eigendur eyjarinnar, sem uppkomu þessum útbúnaði, sem létt hefir feikna erfiði af veiðimönnum og fjáreigendum, ekki hvað síst af þeim síðarnefndu.
Veiðimenn verða þó enn, að lang mestu leyti, að afskipa veiddum fugli frá eynni við svonefndan Lundakór, þ.e. við steðjann, þareð þar er mikill hluti fuglsins geymdur, sem veiddur er suður á ey. Þó er fugl, sem veiddur er á svonefndri Lend oftast geymdur, ásamt fugli þeim, sem veiðist í Landnorðursstaðnum, Siggaflesi og víðar þar, geymdur rétt hjá Siggaflesi, aðeins norðan við það og þar undir móbrík, sem ávallt er í skugga. Er það góður geymslustaður vegna maðkaflugunnar, sem er mjög ásækin í fuglinn, en þarna er nú engin fluga vegna skuggans, og svo er þar oftast gola nokkur. Fugl, sem veiddur er „á Lendinni“, Landnorðursstaðnum og víðar þar suður á eynni, er borinn upp í Veltu, sem er nokkuð neðan Búðarhamars, en nær beint upp af Siggaflesi. Veltur fuglinn svo, hvort sem hann er í poka eða hefir verið kippaður til burðar, mjög vel niður, þareð Veltan er mjög brött grasbrekka, um það bil allt niður að Siggaflesbringu. Er þaðan örskammt að bera fuglinn í geymslustað.
Við kofann er lítið geymt af fugli, þótt veiddur sé þar í grennd, vegna flugunnar, sem er mikil og ásækin sérstaklega þar. Er þessvegna fugl, sem veiddur er, t.d. á Eyfanefi, Árnabring, Bólbrekkunni, Kvalræði og víðar, borinn til geymslu í fyrrnefndum Lundakór. En þrátt fyrir þetta er bóman Álseyjarveiðimönnum mikill hægðarauki vegna alls farangurs og vista, sem er dregið þarna upp 4-5 föðmum frá kofadyrunum.
Skömmu eftir 1930/31 var svo fyrrnefnd bóma og mastur uppsett. Það voru miklar umbætur með tilliti til allrar afgreiðslu. Nú er fé helst ekki út- eða uppskipað við Álsey nema við notkun bómunar. Má segja, að þar hafi framsýni fjáreigenda verið mikil og ber köllunarmanni eyjunnar, er þá var, Erlendi Jónssyni, Ólafshúsum, heiðurinn af þeim framkvæmdum. Sennilega mun og hugdettan um þetta hafa verið hans í fyrstu. – Síðar sáu svo aðrir ágæti þessa afgreiðslutækis, t.d. Suðureyingar, og settu mastur og bómu hjá sér á Hellunni. Þó er bjargstokkurinn gamli þar enn í brúninni og sést hann vel á meðfylgjandi mynd. En miklum mun hægara er síðan að taka allt inn fyrir bjargbrúnina en áður var.
(Um bjargstokka í úteyjum og bómur sbr. við Suðurey og Bjarnarey, sjá þar nánar getið þessara samgöngutækja).

—————


Minningar


Eitt besta og skemmtilegasta úteyjafélag, sem ég minnist að hafa verið í, var þegar við vorum í Álsey, faðir minn Árni Árnason, Hjálmar Eiríksson, Vegamótum, Hjálmar Jónsson frá Dölum, Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ og undirritaður. Allir vorum við strákarnir líkir í veiðileikni, en kappið á milli okkar var býsna mikið. Í daglegum tíundum vorum við hæstir til skiptis, en faðir minn ávallt langhæstur, enda afbragðs veiðimaður og þaulvanur. Þetta var 1918.
Þá voru úteyjastundirnar unaðslegar, en því miður alltof fljótar að líða. Mánuðurinn var búinn, áður en maður vissi af. Oft var það á kvöldin um 9 til 11, að við sungum allir úti á hlaði margraddað, því að allir vorum við söngmenn, a.m.k. sæmilegir. Lögin endurómuðu í kvöldkyrrðinni og bárust vítt um. Stundum var undursamlega hljóðbært á kvöldin, t.d. heyrðum við oft hundgá á bæjunum fyrir ofan Hraun. Það sumar sótti Peter Andersen til okkar á mb. Skógafossi. Það kom oft fyrir að við heyrðum, þegar hann lét úr höfn. Vélin var mjög hávær eða máske hljóðdunkslaus. En hvernig sem það var, heyrðum við oft í bátnum og hljóðið í honum var auðþekkt.
En söngurinn okkar var aðeins fyrir okkur og lundann í Álsey. Hann heyrðist ekki langt, nema vítt um eyjuna okkar og var okkur sjálfum til ánægju. Uppáhaldslögin okkar voru:
Ég vitja þín æska,
Eitt er landið ægi girt,
Vorið er komið,
Yfir fornum frægðarströndum,
Þat mælti mín móðir,
Bördumst ek einn við átta,
Stefán á stoltum fótum,
Til hákarla í Vestmannaeyjum, o.m.fl.
Faðir minn söng stundum með okkur. Hann var góður söngmaður. Hann var raunverulega í Álsey sem faðir okkar allra, hjálpaði okkur með viðgerðir háfana, réði okkur til um veiðistaði o.fl. Einu staðirnir þar, sem við ekki máttum fara í til veiða voru Sveltið og Vítisflái. Það eru heldur ekki staðir fyrir alla. Báðir stór hættulegir. En við höfðum nóga aðra staði úr að velja, og reyndi faðir minn að jafna þeim sem best á okkur, enda ríkti ávallt fullt samkomulag um staðina, og engum fannst hann afskiptur. Sem fyrr segir var veiði okkar strákanna mjög lík. Þó hygg ég, að Hjálmar Jónsson hafi verið okkar slyngastur að öllu jöfnu. Annars vísast til meðfylgjandi tíundarskráa frá þessum tímum.
Eitt var einkennandi fyrir okkar góða félagsskap. Það var aldrei neinn prakkaraháttur í hvers annars garð. Aldrei settir naglar í brauðin, matardallarnir alltaf látnir í friði o.s.frv. Þetta og annað eins var þó oft viðhaft í úteyjum. Ég minnist þess eitt sumar í Álsey, að einu sinni komst einn viðlegumanna einhvern veginn að því eða hafði hugboð um, að nagli væri í brauði hans. Hann grunaði einn sérstakan og hugsaði honum þegjandi þörfina. Uppi á hillu við rúm sitt átti sá maður góðan rakhníf. Um kvöldmatinn tekur nú maðurinn, sem brauðið átti, rakhnífinn ofan af hillu fyrir augunum á eiganda hans og myndar sig til að skera sér eina brauðsneið. Þá hrópaði sá, er hnífinn átti: „Uss uss, ekki skera, það er, - það er nagli í brauðinu“. „Jæja var svo,“ sagði sá, er brauðið átti, skar inn í brauðið þar til hnífurinn komst ekki lengra vegna naglans. Óhætt er að segja, að ekki var rakhnífurinn betri á eftir. Við héldum, að illindi mundu verða vegna þessa, en svo varð þó ekki. Menn tóku þessu með langlundargeði og fyrirgáfu allt slíkt sem þetta. Annars hefði verið eðlilegt, þótt sumir yrðu sárir, er eigur þeirra eða matur varð fyrir bellibrögðum prakkaranna.
Ég hef áður getið þess, að gott samkomulag í útey er nauðsynlegt, ef vel á að fara, þareð hvert úteyjafélag byggist upp af 4-5 mönnum, ef til vill mismunandi að skapgerð og skoðunum og auk þess máske varast kunnugir, nema af daglegri umgengni á götum Heimaeyjar. Í úteyjum urðu menn að vera sem einn maður, kátir í lund, umburðarlyndir og kunna þá list að hegða sér við félagana eins og maður vildi, að þeir kæmu best fram við mann sjálfan. Þar eru allir fyrir einn og einn fyrir alla í orðum og gjörðum.
Það mun fyrrum hafa verið óþekkt fyrirbrigði, að kvenfólk væri í úteyjum, nema meðan heyjað var, t.d. í Elliðaey, þá var oft margt af kvenfólki þar við heyannir. Í úteyjum hafa þær ekki stundað fuglaveiðar, þótt þær gerðu það sumar á Heimalandinu, jafnframt því að fara um fjöll Eyjanna til taðtínslu og hvannaróta. Er í því sambandi helst getið þeirra systra Margrétar og Þorgerðar dætra Gísla í Görðum Andréssonar og konu hans Þórelfar Kortsdóttur¹). Þær voru mestu fjallakettir, ef svo mætti segja. Fóru þær oft, t.d. niður í Dufþekju í Heimakletti til rótartínslu og hafa tæplega gengið framhjá velgerðum fýl, ef þeir urðu á vegi þeirra, hvar sem var á Heimalandinu. Þorgerður varð kona Sigurðar hreppstjóra á Heiði, en þau skildu samvistir. Sonur þeirra var Högni í Vatnsdal, sem var mikill fjallamaður á sinni tíð.
Hin síðari árin hafa konur viðlegumanna í úteyjum oft gist úteyjarnar, en þá aðeins sér til skemmtunar, en ekki veiða. Vitanlega er aðstaða til þess að hýsa kvenfólk í úteyjum ekki góð, þar sem aðeins um eitt herbergi og eldhús er að ræða í kofanum, nema í Álsey. Þar er svefnherbergi, matstofa og eldhús í hinum nýja kofa. En þrátt fyrir lítil og einhliða húsakynni, hafa konurnar ekki vílað fyrir sér að fara til manna sinna og dvelja þar allt að því vikutíma eða lengur og kært sig kollótta um, þótt þær yrðu að vera fáklæddar í svefnskála viðlegumanna. – Konurnar hafa svo tekið að sér matartilbúning og fleiri störf innanhúss, sem gert hefur allt vistlegra fyrir viðlegumennina.
Fyrsta konan, sem dvaldi í Álsey var Guðrún Rafnsdóttir, kona Þórarins Bernótussonar. Þar næst var þar Sigríður Haraldsdóttir, kona Hlöðvers Johnsen, Lovísa Magnúsdóttir kona Odds Sigurðssonar í Dal, Kristjana kona Einars Bjarnasonar frá Vík í Mýrdal, en þá var Einar í Álsey. Svo hefir Jakobína Guðlaugsdóttir kona Sigurgeirs Jónassonar frá Skuld verið í Álsey, líklega tvö sumur o.fl. Ein stúlka var hjá okkur í Álsey 1957, a.m.k. vikutíma. Hún hét Ester var af Austfjörðum, en vann sem gangastúlka á sjúkrahúsinu í Eyjum. Fyrstu nóttina svaf hún ein í gömlu baðstofunni, sem nú er matstofa, en svo flutti hún sig inn í svefnhús okkar karlmannanna. Henni var alveg sama, þótt hún væri inni hjá okkur í svefnpokanum sínum og var ekkert smeyk við framkomu okkar gagnvart sér.
Síðar komu svo til okkar í Álsey, þ.e. í sömu vikunni, menn, sem voru á leið suður í Geirfuglasker að athuga vitastæði. Meðal þeirra voru bæjarstjórinn Guðlaugur Gíslason, Jón Í. Sigurðsson lóðs o.fl. Þegar Ester vissi um ferð þeirra, varð hún óð og uppvæg í það að fá að fara með þeim í Geirfuglasker. Þetta leyfi fékk hún. Mun það ábyggilega vera einasti kvenmaðurinn, sem farið hefir upp á Geirfuglasker. Hún hafði staðið sig mjög vel í þessari fjallaferð. Kom hún svo aftur til okkar í Álsey og gisti þar áfram nokkra daga. Fullt nafn stúlku þessarar var Ester Karlsdóttir og var frá Djúpavogi.
Þegar þeir komu aftur úr Geirfuglaskeri, varð bæjarstjórinn eftir hjá okkur í Álsey. Hygg ég, hann hafi átt þar ánægjulegar stundir, þareð veður var hið ákjósanlegasta, hiti mikill og sólskin. Dvaldi hann hjá okkur 3 daga í besta yfirlæti. Hann er góður fjallamaður og allslunginn veiðimaður, þótt lítið hafi hann stundað veiðar undanfarin ár. Eitt er víst, að hjá okkur naut hann hvíldar og hressingar, vera með okkur í kyrrð og næði og njóta undaðsemda úteyjalífsins. Margar myndir voru teknar við þetta tækifæri, og birtast hér sýnishorn af þeim.
Þegar svo Ester fór heim, varð að fara með hana niður af Þjófanefi og gékk það ferðalag vel. Eitt þótti mér og fleirum einkennandi við þessa stúlku. Henni virtist alveg sama, hvernig við sáum hana eða hún okkur. Hún lá í sólbaði við kofann og vegna hins sterka sólarhita vorum við oft nær hálfnaktir. Það skipti hana engu máli. Var engu líkara en hún umgengist okkur sem kvenfólk, en ekki karlmenn. Um það voru allir viðlegumennirnir sammála. Ekki ber að skilja þetta svo, að neinn hafi verið að „stíga í vænginn“ gagnvart henni, en fyrr mátti nú vera afskiptaleysi ungrar stúlku, þareð ungir menn voru meðal okkar. - Það hefði einhverntíma þótt undraverð framkoma, en sem sagt, þarna fannst okkur öllum þetta prýðilegt og samveran mjög skemmtileg.
¹) Margrét Gísladóttir var dóttir fyrstu konu Gísla, Sigríðar Guðmundsdóttur. (Heimaslóð).

—————


Togaraheimsóknir í Álsey


Árið 194... vorum við í Álsey að venju. Sú nýlunda var á þessari viðlegu okkar, að við höfðum morsesendistöð með okkur, til viðskipta við Bjarnarey. Þar var þá Haraldur Eiríksson og hafði hann með sér talsendi. Höfðum við þannig samband í milli eyjanna, að Haraldur talaði, en undirritaður sendi á morselykli. Haraldur gat vel tekið morsemerki, ef ekki var sent til hans með mjög miklum hraða. Sambandið milli okkar var ágætt. Í Bjarnarey voru þá þeir Haraldur, Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði, Kristmundur Sæmundsson, Draumbæ og Jóel Jóelsson, Sælundi.
Í Álsey voru þeir Hjálmar Jónsson frá Dölum, Jónas Sigurðsson frá Skuld, Böðvar Jónsson, Háagarði, Árni Árnason símritari.
Ég átti þá marga góðkunningja á íslenskum, enskum og þýskum togurum, sem voru loftskeytamenn, og hafði ég skipt við þá í mörg ár. Á meðal þeirra mætti nefna á erlendum togurum: Abraham hjá Guðmundi Ebenesersyni og Tim gamla hjá Ted Little, Axel Olsen hjá Martin Olsen o.m.fl. Skipstjóra þessa þekkti ég og vel, því að oft hafði ég komið um borð til þeirra, t.d. farið sem loftskeytamaður á mb. Leó einn túr austur að Portlandi, þar sem Leo losaði fisk í Embassy, Schottish o.fl. togara með íslenskum og enskum skipstjórum.
Eitt kvöldið var ég að venju að tala við Harald Eiríksson og var ég á morsetækinu mínu. Þá allt í einu kallar Tim vinur minn á togaranum GTNK, á Álsey, á sömu bylgjulend, sem við Haraldur vorum á. Þekkti Tim strax sendingu mína og vissi þá, hvar ég var. Við Tim ræddum nokkuð saman og spurði hann meðal annars, hvort hann fengi lunda í eina steik, ef þeir kæmu til okkar í Álsey. Ég taldi auðvitað engin vandkvæði á því og spurði hann hvar þeir væru. „We are just now passing Portland, bound for Westmann Islands,“ svaraði Tim, “I will give you a call later on Om.“
Þetta fannst okkur í Álsey stórfurðulegt, að þessi litli sendir okkar skyldi heyrast alla leið austur að Portlandi. Sendirinn var aðeins nokkra v watta Coilsendir. Þá var það um kvöldið seint, líklega nálægt kl. 11, er við vorum allir komnir í rúmið, og sumir reyndar sofnaðir eða að ljúka við síðustu kvöldpípu sína, að við heyrðum stutt hljóð í eimpípu gufuskips, dimmt og draugalegt. Við rukum út á hlað að sjá, hvað um væri að vera, og gáfu sumir sér varast tíma til þess að fara í buxurnar vegna óstjórnlegrar forvitni. Þegar út kom, gaf á að líta. Þarna var togari kominn og svo nálægt flánum að undur mátti kalla, að hann skyldi ekki lenda á undirflárnar. Hann hlaut að vera alkunnugur. Við sáum fljótt, að til okkar var veifað frá skipinu, og svo kvað við annað stutt flaut.
Við hentumst þá inn, klæddumst og hlupum niður á steðja, þar sem bátur okkar var í Lundakórnum. Við vorum ekki lengi að setja á flot, og hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð bát í Álsey settan svo fljótt í sjó niður. Rann hann fljótt í kjölrás sinni niður í ládauðan sjóinn. Af steðjanum höfðum við þekkt skipið, það var bv. Vinur, kallmerki GTNK, skipstjóri Tedd Little, stýrimaður Einar Olgeirsson og loftskeytamaður Gamli Tim, vinur minn. Tim var svo trúr í stöðu sinni, að sagt var, að hann svæfi með heyrnartólið á höfðinu og yrði alltaf var við strax og einhver kallaði á skipið, jafnvel, að hann svaraði sofandi. Þarna varð mesti fagnaðarfundur, og nutum við þar margskonar góðgerða í mat og drykk, auk tóbaks, sem okkur lysti mest.
Togarinn lá þarna ca. einn klukkutíma og lá alveg upp við flárnar, svo að allt að því var hægt að stökkva úr honum í land í Álsey.
Vitanlega fengu þeir fugl í steik, en við margskonar góðgæti í staðinn til þess að hafa hjá okkur í eynni, mat, drykkjarföng og tóbak. Síðan héldu þeir brott, en áður en þeir fóru, sögðust þeir aldeilis ekki hafa verið austur við Portland, þegar Tim talaði við mig, heldur fyrir sunnan og vestan Geirfuglasker.
Sendinn okkar heyrðu þeir vel þangað, en kærðu sig ekki um að segja, hvar þeir væru. Með stuttu flauti kvöddu þeir svo Álsey, en við veifuðum og gáfum þeim duglegt „Húrra“ af steðjanum. Þessari eftirminnilegu heimsókn í Álsey var þar með lokið.
Við hituðum okkur svo aukakaffisopa og átum fínustu enskar kökur með. Varð okkur að vonum tíðrætt um þessa heimsókn, sem mun vera alveg einstæð. Ég hef aldrei heyrt þess getið, að togari kæmi alveg inn að bergflám í úteyjum, svo að varast væru meir en 2-3 metrar út í hann og tæplega það. Síðar áttum við tal um þetta ævintýri við Sigurð Jónatansson vitavörð. Hann hafði séð skipið þarna og hélt fyrst, að það væri strandað, en þegar hann sá bátinn koma frá Álsey, varð honum skiljanlegra ferðalag togarans, en hafði engar eftirgrennslanir um það mál. „En mikið feikn var skipið nálægt flánum,“ sagði Sigurður furðu lostinn. Hann sagðist hafa beðið á fótum þar til skipið fór aftur. Þá vissi hann, að allt var í lagi um þessa sérstæðu skipsferð í Álsey. Skipið þekkti hann gegnum kíki sinn og sá, að þar var Edward Little, góðvinur þeirra Stórhöfðabúa.
Í annað skipti kom togari að Álsey. Það var togarinn Black Prince. Sá hann til mannaferða þar og að flagg var á kofanum. Hélt hann þá, að þarna væru skipbrotsmenn, sneri við og kom inn á poll, þ.e. höfnina í Álsey. Var þá báturinn settur á flot og farið um borð. En þegar þangað kom, urðu skipsmenn hálfgramir yfir, að þetta skyldu vera veiðimenn og allt í lagi hjá þeim. Hafa máske álitið, að veiðimenn hafi svona hálfvegis gabbað þá á togaranum með fánanum, sem verið hafði uppi vegna komu sókningsbátsins þennan dag út í Álsey. Hvorki fengu þeir vott né þurrt hjá skipinu, og sigldi það svo sína leið frá Álsey, en viðlegumenn settu bát sinn í naust. Síðar strandaði Black Prince á Eiðinu, sem kunnugt er og bar þar beinin. Það var fallegt skip og skipstjóri þess einn af aflasælustu skipstjórum Englendinga er við Ísland fiskuðu.
Þá varð þetta kvæði til um skipið:

1. Black Prince kom brotinn af hafi
í blindhríðarveðri og sjó.
Vígbráður klettur úr kafi
knálega í brjóst honum hjó.


2. Harðnaði heljarleiðið,
hamingjan þrotin var.
Hann komst þó undir Eiðið
hólpinn sig taldi þar.


3. Ægir tók þá til orða,
hans orð hafa gildi jöfn.
Það má ekki feigum forða,
þá feigðar er stýrt í höfn.


4. Bylgjurnar hrammana hristu,
hröktu Black Prince á land.
Kuldi og glettni hann kysstu,
kominn var hann í strand.

Talið var, að togarinn hefði rekist á kletta kringum Eyjar eða sker fyrir vestan þær. Hann komst þó að Eiðinu, en sem sagt þar lenti hann í strand og liðaðist þar í sundur. Voru miklar tilraunir gerðar til þess að bjarga skipinu, bæði af bátum héðan að heiman svo og enskum togara, en allt kom fyrir ekki. Þetta skeði aðfaranótt 12. jan. 1932.

—————


Heimsóknir milli eyja


Nokkrum dögum eftir að bv. Vinur hafði heimsótt Álsey komu þeir til okkar ,,Suðureyingar“ á heimleið. Það voru þeir Stefán Guðlaugsson, Gerði og Ólafur Ástgeirsson, Brimbergi. Komu þeir upp í kofa til okkar Álseyinga. Fengu þeir að sjálfsögðu margskonar veitingar í mat og drykk, en skildu alls ekki, hve miklir búmenn við værum.
Með þeim fór frá okkur úr Álsey Jónas Sigurðsson. Á leiðinni var ekki vel hlýtt, svo að Jónas gaf þeim þá svolítinn brjóstyl af fallegum pela. Er óhætt um það, að mjöðurinn yljaði þeim vel, og að þeir urðu meir en lítið hissa yfir öllum þessum veitingum. Þeir höfðu farið úr Álsey vel saddir af allskonar veitingum í mat og drykk, og svo bætti Jónas við þær veitingar á leiðinni. Skildu þeir hvorki upp né niður í búsældarbrag Álseyinga. Ekkert vissu þeir um skipskomuna til okkar og vita sennilega ekki ennþá. En lengi minntust þeir þess, hve veitulir Álseyingar hefðu verið.
Þá er þessu leyndarmáli uppljóstrað, en það er líka alveg einstakt í sögu bjargveiða. Og það allra besta var, að 3 dögum áður hafði togarinn verið í Heimaey og lokið þar öllum sínum skyldum og sköttum, svo að þau lög voru þó ekki brotin, þó að segja megi að smá sprungur hafi komið í önnur lög, t.d. viðkomandi tóbakinu etc.
Síðar þetta sumar var farið í heimsókn úr Álsey austur í Bjarnarey.
Sókningsbátur okkar, mb. Skógafoss, flutti okkur þangað, en síðan ætluðu þeir Bjarnareyingar að sjá um flutning á okkur vestur í Álsey á trillu, sem var þeirra sókningsbátur.
Ferðin úr Álsey hófst með því, að við vorum að skipa út fuglinum, sem heim átti að fara, og notuðum léttbát mótorbátsins til þess að fara á milli. Er við svo vorum að kasta kippunum upp úr léttbátnum í Skógafoss, rann ég á blautum hástokknum og féll í sjóinn. Mátti ég þessvegna fara heim í kofa og hafa fataskipti utast sem innst. Fall er fararheill og svo reyndist í þetta sinn.
Við lögðum á borð með okkur mat og drykk til þess að éta þá ekki út á gaddinn í Bjarnarey. Dvöldum við þar lengi, allt fram um miðnætti, og skemmtum okkur konunglega. Voru þeir góðir heim að sækja Haraldur Eiríksson og Sigugeir í Suðurgarði. Við Álseyingar létum góðar veigar þynna lútsterkt kaffið, og var góður rómur gerður að hinum dýru veigum.
Síðar var haldið í Bunka til veiða. Skyldi það nokkur prófraun á getu okkar hvers og eins. Veiðin var að vonum ekki mikil. Röðuðum við okkur norðan í Bunka, hver upp af öðrum, og veiddu menn frá 3 upp í 7 stykki af lunda. En gaman var að þessu hæfnisprófi. Sigurgeir veiddi 7 fugla, undirritaður sjö, og vorum við því hæstir. Sat ég neðstur í brekkunni, sem álitið er best, en Sigurgeir, að ég held, næst efstur í brekkunni.
Svo var farið að hugsa til heimferðar í Álsey. Þá var skipst á kveðjum, og héldu þeir austur í Bjarnarey, Sigurgeir og Jóel Jóelsson á trillunni. Allir vorum við þreyttir orðnir og ánægðir að vera komnir heim í góða kofann okkar, þar sem hver eftir annan lagðist til svefns, sæll og ánægður eftir góða skemmtun. – Morguninn eftir töluðum við svo við Bjarnarey, þökkuðum fyrir síðast, en þareftir var svo haldið upp á Álsey til veiða.
Mun það líklega vera fyrsta heimsókn milli úteyja um veiðitímann.
Löngu síðar fóru svo Álseyingar í heimsókn í Suðurey. Vorum við þar í besta yfirlæti meiri hluta dagsins og skemmtum okkur mjög vel. Var þar æði margt nýtt að sjá, sem síðari tíma viðlegumenn höfðu upptekið. Þá lágu þar við til veiða Ágúst Ólafsson, Landagötu, Bárður Auðunsson, Austurvegi 4, Skúli Theódórsson trésmiður, Hásteinsvegi, Gunnar Stefánsson, Gerði og 1-2 unglingspiltar. Þessarar heimsóknar getur nánar við Suðureyjarpistla. – Árið eftir komu svo Suðureyingar í heimsókn til Álseyinga og voru hjá okkur lengi dags, allt framm á miðnættið. Veitingar voru góðar og miklar, enda undu menn vel hag sínum í sumarblíðunni allan daginn og fagurri sumarnóttinni.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit