Ritverk Árna Árnasonar/Póstferð í Landeyjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. október 2013 kl. 17:16 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. október 2013 kl. 17:16 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Póstferð í Landeyjar“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Póstferð í Landeyjar


Fram yfir síðustu aldamót voru samgöngur mjög slæmar frá og til Vestmannaeyja.
Meðan fastar póstskipaferðir voru ekki komnar á, voru einu samgöngurnar við meginlandið landferðir Eyjaskeggja, Eyjaferðir Landeyinga, fjallamanna og stundum Mýrdælinga.
Eftir að fastar póstskipaferðir hófust frá útlöndum til Íslands um miðja 19. öld, átti póstskipið að vísu að koma við í hverri ferð, en það vildi brenna við, að litlar efndir yrðu á því, þótt lagt væri fyrir skipstjórana að koma við í Vestmannaeyjum, þá skeyttu þeir því lítið, ef þeim sýndist svo við horfa.
Samgöngur voru, við meginlandið, ærið stopular, vegna sífelldra og langvarandi brima við Sandana. Við bar, að ekki varð komizt til lands eða frá svo mánuðum skipti og hrepptu menn því oft stórar teppur. Voru landferðir þessar stórhættulegar og lá oft við slysum. T.d. hvolfdi skipi í póstferð 6. janúar 1895 og skemmdist það allmikið. Slys á mönnum varð þó ekki í það sinn, þótt undarlegt megi virðast. Ef einhver vildi komast út í Eyjar eða ef pósturinn var kominn út í Landeyjar, var venjan sú, að brennt var bál á hól einum skammt frá „Bakka“ í Austur-Landeyjum. Var þá brugðið við, ef fært þótti, og ferðum hraðað. Var þá oft lagt út í tvísýnu og voru ferðir þessar farnar meira af kappi en forsjá, eins og sjá má af eftirfarandi sögn.
Helgi Jónsson varð verzlunarstjóri í „Garðinum“ um 1880. Var það að haustlagi, sem hann átti að taka við verzluninni. Kom hann í nóvembermánuði austur í Landeyjar. Var þegar kynt bál hjá Bakka. Vestmannaeyingar brugðu þegar við og héldu upp undir Landeyjasand. Formaður fyrir skipinu var Hannes Jónsson fyrv. hafnsögumaður á Miðhúsum í Vestmannaeyjum. Bjó hann þá enn í Nýja-Kastala.
Þegar upp undir Sandinn kom, sáu þeir bátverjar strax, að ekki var lendandi vegna brims. Braut langt út frá sandinum á hverju rifi. Margt manna beið í sandinum og meðal þeirra voru þeir Helgi verzlunarstjóri og Magnús á Kirkjulandi. Var Magnús alkunnur formaður, hafði vel vit á sjó og langa reynslu við lendingar við Sandinn. Biðu þeir Hannes þarna fyrir utan allan daginn og varð aldrei hlé á briminu. Þegar komið var fram undir myrkur, vildu flestir þeirra sem í sandinum voru, fara heim, svo að þeir á skipinu biðu ekki lengur. Magnús vildi bíða dálítið enn og sagði, að ef til vill yrði lát á briminu með flóðinu, en mjög skammt var til flóðs. Hinir réðu þó betur og fóru þeir burtu, en Magnús og Helgi hinkruðu við.
Þegar Landeyingar voru horfnir upp fyrir Kampinn, sá Magnús að hlið var í brimgarðinum og gaf bátverjum merki um að vera viðbúnir. Lagðist hann síðan niður í sandinn, þar sem hann vildi að þeir lentu. Héldu Vestmannaeyingar skipinu þegar inn fyrir fyrsta brotið og gekk það vel. Biðu þeir þar lags um stund. Svo skammt var á milli brotanna, að við lá að ytra brotið skylli á skutnum, en innra brotið félli um stafninn. Urðu þeir því að halda bátnum svo að segja á sama blettinum. Eftir nokkurn tíma gaf Magnús merki um að taka landróðurinn og heppnaðist lendingin ágætlega.
Byrjuðu bátverjar þá þegar að bera skipið til og áttu þeir ólagt árar í keipana, þegar Magnús kallaði, að nú væri lagið út. Hannes sagði, að þeir væri ekki búnir enn og þeir hreyfðu sig ekki til útróðurs fyrr en allt væri í lagi. Kallaði Magnús rétt síðar aftur, að lag væri til útróðurs og lögðu Vestmannaeyingar þá frá. Heppnaðist þeim vel að komast á flot, og gátu þeir tekið útróðurinn í einni lotu út fyrir öll brot.
Mátti ekki naumara standa. Strax og þeir voru komnir á rúmsjó, komu ólögin hvert af öðru og varð aldrei hlé úr því þar til myrkur skall á. Hafði lendingin og útróðurinn ekki tekið meira en 15 mínútur og var þetta eini tíminn, sem fært var þann dag og næstu daga. Héldu þeir síðan út til Eyja með póstinn, tví- eða þrígildan og með verzlunarstjórann og gekk þeim allt að óskum heim.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit