Ritverk Árna Árnasonar/Netaveiðar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. september 2013 kl. 16:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. september 2013 kl. 16:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Netaveiðar“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Netaveiðar


Eins og ég sagði áður var árið 1770 gefin út fyrirskipun, auðvitað konungleg, að nota flyðru og þorskanet hér sem annarsstaðar á landinu. Ekki voru net þessi þó tekin í notkun hér þá, frekar en línan, enda mun skoðun allra hafa verið sú, að slíkum veiðitækjum yrði ekki viðkomið vegna hrauna og straums.
Og við þessa skoðun sat nær 140 ár eða til 1908 að Þorsteinn Jónsson, Laufási, gerði hina fyrstu tilraun með þorskanet, sem þó mistókst með öllu, þó að hann hinsvegar væri viss um að vera á réttri leið sem síðar sýndi sig.
Nú líða enn 3 ár. Þá var hér Norðmaðurinn Förland við fiskútgerð og lifrarkaup. Það var árið 1911. Reyndi hann þá þorskanet á bátnum Fjósarauð, sem nefndur var, allstór bátur, rauður að lit. Hefur hann eflaust séð til netanotkunar í Noregi. Honum gekk þetta brösótt, en var þó við þessa veiðiaðferð um tvær vertíðir, og létu menn sér fátt um finnast. Höfðu og tilraunir Þorsteins í Laufási fyrir augum.
En Þorsteinn var enn viss um, að ekki væri fullprófað með netin. Og þegar hann hafði fengið línuspilið í Unni, og það reynst svo vel sem raun var á um drátt línunnar, sá hann einn netanotkunarerfiðleikana að engu orðna, þ.e. drátt netanna.
Árið 1913 reyndi hann því með þau enn og gekk nú mikið betur. Hélt hann tilraunum sínum áfram, svo og Förland á Fjósarauði, og lærðu þeir smátt og smátt að yfirvinna erfiðleikana og gekk þá betur næsta túr á eftir. Og árið 1915 opnuðust augu manna fyrir ágæti netjanna, sáu að Þorsteinn var á réttri leið.
Þá gekk svo vel hjá Þorsteini í apríl, að menn ruku upp til handa og fóta, fengu sér net líka. Og brátt fóru allir að fiska vel, fylltu bátana 1 sinni og 2svar á dag eins og t.d. 1915, en þá var mestur fjöldi manna innunninn á braut þessa veiðarfæris, sem síðan hefir ár eftir ár oftast borið útgerðina yfir til góðrar afkomu. Er óhætt að segja, að sjaldan hafi netavertíð brugðist hér, síðan netin voru tekin í notkun almennt 1915 til 1916. Heiður og heill Þorsteini Jónssyni í Laufási fyrir ötult brautryðjendarstarf á þessu sem svo mörgum öðrum sviðum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit