Ritverk Árna Árnasonar/Jarðskjálftarnir 1896

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Úr fórum Árna Árnasonar


Jarðskjálftarnir 1896


Í jarðskjálftum árið 1896 urðu hér í Eyjum allmikil spjöll víða og þá sérstaklega í fjöllum Heimaeyjar og úteyjunum. Víða hrundi mikið úr fjöllunum og varð sumsstaðar að slysum, en aðrir björguðust með naumindum og nærri á óskiljanlegan hátt. Í Heimakletti fórst þá Ísleifur Jónsson vegna grjóthruns, í Álsey björguðust menn naumlega sem annarsstaðar er að vikið. Mikið hafði hrunið suður í Flugunum, Ofanleitishamri, Dalfjalli og víðar. Í Suðurey hrundi þá og mikið úr eynni að austan o.fl. Bogi var yfir frá Klofadranganum í Þrídröngum. Það er merkilegt við Þrídranga, að þeir eru fjórir, en þar af aðeins 3 þeirra, sem sjást heiman frá Heimaey, hlutu þeir nafnið Þrídrangar. Þegar boginn hrundi varð þessi vísa til, höfundur ókunnur:

Illa er sótt að auðargná
um það vottar skrifið.
Gatið Dranga gaf sig þá,
gleitt var sundur rifið.

Þrídrangar eru um klukkustundarsiglingu frá Heimaey. Þar voru góð fiskimið, sem Eyjamenn og Landeyingar sóttu mjög á. Nefndu Landeyingar það Drangaveiðar. Þar var mikið af fiski og varð það mörgum sveitabóndanum, sem öðrum, ærinn búbætir.
Í fjallaferðum þurftu menn að vera tápmiklir og kjarkgóðir, íþróttamannseiginleikar , sem ekki voru öllum gefnir. Allir ungir menn kepptu að því að verða góðir fjallamenn og sjómenn og gátu ekki hugsað sér annan frama meiri, að verða þetta annaðhvort eða hvortveggja. Allar hugsanir og gerðir snérust um þetta tvennt, og byrjuðu unglingarnir mjög snemma að iðka þessar íþróttir.
Sem dæmi upp á aldur fyglinga mætti minnast þess, að Gísli Lárusson var aðeins 15 ára gamall, þegar hann seig Stórhellana í Hellisey, sem talið er erfiðasta sig í Vestmannaeyjum, og tókst það með ágætum. En svo var áreynslan mikil fyrir óharðnaðan unglinginn að hann lá nær viku á eftir að jafna sig. Hann var síðar einn allra snjallasti fjallagarpur Eyjanna fyrr og síðar. Hann lagði t.d. veginn upp á Geldunginn með Magnúsi Guðmundssyni á Vesturhúsum, eftir að vegurinn hrapaði af þar í jarðskjálftunum 1896, o.fl. Það er ekki ofsagt, að það reyndi oft mjög á þrek og þor, snarræði og lipurð í fjallaferðum. Skulu hér tilfærðar, (hvor tilheyrandi þeirri útey), tvær frásagnir, önnur úr Álsey en hina er að finna með frásögnum úr Geldungi.
Sjá kaflann Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Sannir íþróttamenn, þar sem þessum atburðum er lýst.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit