Ritverk Árna Árnasonar/Jónas Helgason (Nýjabæ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Kynning.

Jónas Helgason bóndi í Nýjabæ fæddist 26. september 1851 og lést 15. apríl 1914.
Foreldrar hans voru Helgi Jónsson bóndi í Kornhól, f. 9. júlí 1806, d. 17. júní 1864, og kona hans Sigríður Bjarnadóttir húsfreyja í Kornhól 1855, f. 25. júní 1814 í Eyjum, d. fyrir manntal 1860.

Kona Jónasar Helgasonar í Nýjabæ var Steinvör Guðrún Jónsdóttir húsfreyja í Nýjabæ, f. 5. janúar 1868 í Hallgeirsey í A-Landeyjum, d. 6. febrúar 1942. Hún var bústýra Jónasar 1910.
Börn Jónasar og Steinvarar:
1. Jóhanna Guðrún húsfreyja í Nýjabæ, f. 29. október 1898, d. 23. mars 1955, gift Sigurði Þorsteinssyni.
2. Kristín Jónasdóttir, f. 3. janúar 1901, d. 16. júní 1914.
3. Soffía, f. 6. júlí 1904, d. 26. júní 1987.
Fósturdóttir þeirra var
4. Jóhanna Sigríður Björnsdóttir, f. 16. september 1893, d. 15. september 1977.

Jónas í Nýjabæ var með foreldrum sínum í Kornhól 1855, vinnumaður í Nýjabæ 1870 hjá Þorsteini Jónssyni og Kristínu Einarsdóttur, ókvæntur bóndi í Nýjabæ 1901, sama þar 1910.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Jónas í Nýjabæ var góður bóndi og komst vel af, enda sparsamur og féglöggur maður. Hann var fremur lágur vexti og enginn burðarmaður að afli. Málaði eikarmálningu, skrautmálaði á kistur, fatakistur. Hann þótti nokkuð smáskrýtinn er á leið ævina en hélt búi sínu í góðu gengi fram til þess síðasta og var þar ríkjandi fyllsta ráðdeild.
Jónas fór mikið til veiða og var helst í leigumála sínum, Álsey, bæði til fugla og eggja. Enginn veiðimaður var hann í háf en duglegur við netja- og holuveiðar. Þó gekk hann til veiða með háf, þegar háfur kom fyrst til Eyja, en náði ekki neinni leikni.
Jónas var skemmtilegur maður, ræðinn og fróður um margt. Einu sinni kom Guðlaugur bóndi í Gerði til Jónasar í Nýjabæ og fékk kaffi og skeggræddu þeir um ýmislegt. Þeir voru góðkunningjar. Allt í einu stendur Jónas upp og segir: „Jæja, þakka þér fyrir kaffið, Laugi.“ Guðlaugur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og glápir á Jónas sem áttar sig nú og bætir við: „Æ, mig minnti að ég væri á ókunnugum bæ, ég hélt ég væri hjá þér.“ Já, hann var dálítið skrítinn, hann Jónas.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Heimaslóð.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.