Ritverk Árna Árnasonar/Hannes Jónsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. janúar 2016 kl. 10:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. janúar 2016 kl. 10:36 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Hannes lóðs.

Kynning.
Hannes Jónsson formaður, lóðs, bóndi á Miðhúsum, fæddist 21. nóvember 1852 og lést 31. júlí 1937.
Faðir hans var Jón Hannesson tómthúsmaður í Nýjakastala, frá Langholti í Meðallandi, f. 1820. Jón drukknaði 21. október 1853 af skipinu ,,Najaden“ í hákarlaferð.
Móðir Hannesar var Margrét Jónsdóttir frá Núpi undir Eyjafjöllum. Hún var tvígift og var Jón Hannesson seinni maður hennar, en fyrri var Jón Gíslason sjómaður í Tómthúsi (1845), en hann fórst líka í hákarlaferð með Morten Eriksen 1847.
Barn Margrétar og Jóns Gíslasonar var Sesselja, kona Jóns í Gvendarhúsi Jónssonar, en börn Margrétar og Jóns Hannessonar voru Hannes lóðs og Jóhanna kona Guðmundar á Fögruvöllum Guðmundssonar.

Kona Hannesar, (16. október 1880), var Margrét dóttir Brynjólfs bónda í Norðurgarði Halldórssonar. Þau giftu sig 16. október 1880, voru þá bæði 28 ára.

Börn Hannesar og Margrétar voru:
1. Brynjólfur Hannesson, f. 1. júlí 1882, d. 24. júlí 1882 úr mislingum.
2. Brynjólfur Jóhannes Hannesson útgerðarmaður og utanbúðarmaður, f. 2. júlí 1884, d. 3. febrúar 1919, kvæntur (1910) Guðrúnu Jónsdóttur húsfreyju, f. 30. júlí 1874, d. 7. september 1911.
3. Jórunn húsfreyja á Vesturhúsum, f. 30. september 1879, d. 24. apríl 1955, gift (1903) Magnúsi Guðmundssyni formanni og útgerðarmanni.
4. Hjörtrós húsfreyja á Miðhúsum, f. 20. febrúar 1888, d. 16. mars 1926, fyrri kona Tómasar Guðjónssonar útgerðarmanns og kaupmanns frá Sjólyst, síðar á Miðhúsum og í Höfn.
Er mikil ætt frá þessu fólki komin.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Hannes var meðalhár, rösklega þrekinn mjög og sterkur, léttur á fæti og glaðlyndur.
Hann varð fljótt sjómaður, aðeins 11 ára, en varð formaður um tvítugt. Góður sjómaður, glöggur og gætinn, og harðduglegur alla ævi og skipaður lóðs um vorið 1895 og gegndi til dauðadags.
Við lundaveiðar var Hannes frá barnæsku. Henti hann það áfall að hrapa fyrir brún, en netið festist þar á nibbu lengst niðri í bjarginu, gjörsamlega ókleifu, en á óskiljanlegan hátt komst hann óafvitandi upp í brekku aftur, lamaður og ósjálfbjarga. Beið þessa aldrei fullar bætur, mjög skjálfhentur æ síðar og gat vart skrifað.
Hannes var gerður að heiðursborgara eyjanna, mætur og mikill maður í hverju starfi, þ.á.m. orðlagður veiðimaður lunda með gömlu veiðiaðferðunum, – með netum og greflum.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Hannes Jónsson


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit