Ritverk Árna Árnasonar/Hafsúlurannsóknir í Vestmannaeyjum sumarið 1939

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Úr fórum Árna Árnasonar


Hafsúlurannsóknir í Vestmannaeyjum sumarið 1939


(Skráð eftir Hjálmari Jónssyni frá Dölum).
Hinn 2. dag júlímánaðar var farið á mb ,,Léttir“ í úteyjar til þess að rannsaka, hve mörg hafsúlubæli myndu vera í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á bátnum var Ólafur sonur Ólafs Oddssonar Snæfelli í Vestmannaeyjum, en vélstjóri var Filippus G. Árnason.
Upphafsmenn þessarar rannsóknar voru ráðamenn Oxford-háskólans, er sendu hingað 3 af nemendum háskólans, og skyldu þeir rannsaka hjónafjölda súlunnar hér við land. Stúdentarnir voru þessir:
1. H.G. Vevers, Departement of Zoology, Oxford.
2. Hannas Evans, Departement of Zoology, Oxford og
3. W. Gemmett, (Dept) Alexander Gaytonerofs, Heswell, Cheshire.
Sigamenn héðan voru Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði og Hjálmar Jónsson frá Dölum.
Fyrst var rannsakað í ,,Brandinum“ og taldist svo að þar mundu vera 315 súluhjón.
Því næst var farið að ,,Hellisey“. Ekki var farið upp í eyna, en áætlað að þar mundu vera sem mest 1.700 súluhjón.
Þá var farið að ,,Geldungnum“, en ekki heldur farið upp þar, og voru þar talin 580 hjón.
Þareð degi var tekið að halla fannst okkur ekki tiltækilegt að fara þann dag upp á Súlnasker, svo ákveðið var að fara heim, en fara í bítið næsta dag. Veður var hið ákjósanlegasta, og þótti Englendingunum eyjarnar einkennilega tilbreytingaríkar og fagrar. Fannst þeim þó Hellisey bera af þeim, sakir hins fjölskrúðuga fuglalífs, enda tóku þeir margar myndir af henni og hinum einkennilegu hamra-myndunum hennar á ýmsum stöðum.
Næsta dag 3. júlí 1939 var enn lagt af stað í rannsóknarferð. Var þá kl. 05.30. Vindur var þá norðan ca. 6 vindstig, svo ekki leit glæsilega út, að uppganga á Súlnasker mundi takast, þareð uppgöngustaðurinn er sem næst norðri. Ferðin suður að eynni gekk vel, en ekki var tiltækilegt að komast upp við ,,Steðjann“ vegna sjávargangs og vinds.
Fannst okkur Svavari skrambi hart að verða að fara heim og fara árangurslausa ferðina suður í eyna, svo að við fórum að reyna að komast upp sunnan við ,,Steðjann“. Þar hagar svo til, að staður þar er í vari fyrir norðanáttinni, enda var þar logn og sjóslétt.
Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir tókst okkur að kasta bandi yfir framslútandi stein-nibbu og ,,lásum“ við okkur svo þangað upp. Síðan þurftum við að fara norður bergið yfir dálítið gildrag, sem var mjög ógreiðfært vegna hálku. Svo illa tókst nú til, að við töpuðum bandi, sem við vorum með, niður fyrir og í sjó og voru nú góð ráð dýr, því að annar okkar varð að komast niður á smáhillu neðan við gildragið og norður. Gaf ég því Svavari niður á hillu þessa í hálstrefli hans, og þótti þeim ensku og bátsmönnunum það æði glæfralegar tiltektir hjá okkur. En allt fór þetta vel, trefillinn hélt og Svavar komst niður, og tók hann svo á móti mér niður á hilluna.
Eftir þetta var að mestu greiðfær vegur, eftir því sem um er að gera í fjöllum. Við fengum nú annað band hjá bátnum og þurftum við að fara alla leið niður undir ,,steðja“ að sækja það. Síðan var haldið af stað upp á ,,skerið“ hina venjulega leið, og vorum við mjög fljótir upp, enda vorum við Svavar leiðinni vel kunnir.
Uppi á ,,Súlnaskeri“ taldist okkur að vera mundu 700 súlupör (hjón). Tókum við nokkra fullþroskaða unga og fórum með þá heim í matinn.
Niðurferðin af ,,Skerinu“ gekk mjög vel. Fórum við suður af því á svokölluðum ,,hnoðaburði“, en hann er þannig, að bandið liggur yfir járntein sem rekinn er í bjargbrúnina og liggur það tvöfalt niður bjargið. Síðan er farið á ,,lærvað“ niður tógið, en lærvaður er þannig, að sigmaður bregður bandinu milli fóta sér, og tekur síðan með annari hendi um tógið aftanlærs og lætur það renna gegnum hönd sér þannig, að mestur þungi líkamans hvílir á lærinu. Hinni hendinni tekur hann yfir um tógið í hérumbil höfuðhæð. Lætur sig síðan renna niður og ýtir sér frá með fótunum.
Okkur gekk mjög vel að komast í bátinn og var síðan farið kringum ,,Skerið“ og inn á Helli. Töldum við súluna þar og tókum nokkrar myndir. Alls töldust vera í Súlnaskeri 1.780 súluhjón.
Englendingunum þótti mjög fallegt, stórhrikalegt og einkennilegt að sjá ,,Skerið“, og sögðust hvergi hafa augum litið neitt því líkt. Fannst þeim mjög mikið til fegurðar Vestmannaeyja koma og hins einkennilega stórfengleiks, sem þær höfðu upp á að bjóða, og til hins sérkennilega byggingarstíls, sem náttúran hafði úthlutað þeim.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit