Ritverk Árna Árnasonar/Einar Jónsson (Norðurgarði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Kynning.

Einar Jónsson.

Einar Jónsson bóndi og sjómaður í Norðurgarði, fæddist 12. júní 1859 að Ketilsstöðum í Mýrdal og lést 8. ágúst 1937. Einar fluttist til Eyja frá Hlíð undir Eyjafjöllum 1888.
Faðir hans var Jón bóndi á Ketilsstöðum, síðar á Litlu-Hólum í Mýrdal, f. 1829, d. 20. mars 1871, Þorkelsson bónda á Hryggjum í Mýrdal 1835, f. 25. apríl 1801, d. 24. mars 1862, Runólfssonar húsmanns í Rofabæ 1801, f. 1767, Hávarðssonar og konu Runólfs í Rofabæ, Ragnhildar húsfreyju, f. 1733, Ólafsdóttur.
Móðir Jóns á Ketilsstöðum og kona Þorkels á Hryggjum var Þórunn húsfreyja frá Brekkum í Mýrdal, f. 20. október 1791, d. 8. febrúar 1870, Sveinsdóttir bónda á Brekkum 1801, f. 1758, d. 20. október 1838, Eyjólfssonar og konu Sveins Guðrúnar húsfreyju, f. 1760, Þóðardóttur prests í Kálfholti Sveinssonar og konu sr. Þórðar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur í Árbæ í Holtum Kortssonar.

Móðir Einars í Norðurgarði og kona Jóns á Ketilsstöðum var Ingiríður húsfreyja, f. 2. nóvember 1832, d. 18. janúar 1913 í Norðurgarði, Einarsdóttir bónda á Giljum í Mýrdal 1835, f. 1790, d. 3. júní 1866, Jónssonar bónda á Brekkum í Hvolhreppi, f. 1762, d. 12. febrúar 1842, Þorbjörnssonar, og konu Jóns á Brekkum, Vilborgar húsfreyju, f. 1763, d. 14. febrúar 1843, Jónsdóttur.
Móðir Ingiríðar Einarsdóttur og kona Einars á Giljum var Salgerðar húsfreyja, f. 1789 í Eyjum, d. 10. júní 1862 á Ketilsstöðum, Bjarnadóttir bónda á Skíðbakka í A-Landeyjum, síðast í Hrúðurnesi í Leiru, Gull., f. 20. maí 1766 á Ljótarstöðum í A-Landeyjum, d. 25. júlí 1826 í Hrúðurnesi, Guðmundssonar, og konu Bjarna á Skíðbakka, Guðrúnar húsfreyju, úr Eyjum, f. 1765, d. 10. júní 1836, Björnsdóttur.

Systkini Einars í Eyjum voru:
1. Vilborg Jónsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, f. 28. febrúar 1855, mun hafa látist í Utah.
2. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, f. 27. mars 1862, d. 14. janúar 1939, kona Arngríms Sveinbjörnssonar.
3. Bjarni Jónsson í Norðurgarði, bóndi og málari í Utah, f. 19. apríl 1863.
4. Þorkell Jónsson bóndi á Gjábakka, f. 1. október 1867. Hann fluttist til Vesturheims. Kona hans var Kristín Jónsdóttir húsfreyja, f. 2. júní 1864.
5. Salgerður Jónsdóttir vinnukona á Kirkjubæ og í Hólshúsi f. 28. desember 1869 á Litlu-Hólum í Mýrdal.

Kona Einar í Norðurgarði var Árný Einarsdóttir húsfreyja, f. 22. apríl 1865, d. 9. ágúst 1938.
Börn Einars og Árnýjar voru:
1. Einar, f. 15. september 1892, d. 21. mars 1967.
2. Sigurður, f. 16. júní 1895, hrapaði til bana í Geirfuglaskeri 1. júní 1929.
3. Þórarinn Einarsson, f. 20. júlí 1900, d. 17. desember 1903.
4. Ingiríður, f. 6. febrúar 1902, d. 30. ágúst 1981.
5. Guðbjörg Sigríður, f. 21. desember 1905, d. 12. ágúst 1972.

Barnmóðir Einars var Ólöf Þórðardóttir, síðar húsfreyju á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og síðast í Eyjum.
Barn þeirra var
6. Jónína Einarsdóttir húsfreyja á Seljalandi, f. 25. mars 1885 í Hlíð u. Eyjafjöllum, d. 22. september 1968.
Ólöf Þórðardóttir varð móðir Friðfinns á Oddgeirshólum og þeirra systkina.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Einar var hár maður og þrekinn, rauðbirkinn, sterklega vaxinn, beinaber, langleitur og bar snemma alskegg. Hann var búmaður allmikill, duglegur á mörgum sviðum og nytjaði jörð sína af mesta áhuga með viljafestu, sparneytni og atorku. Nokkuð var Einar skapþungur og seinn til vinfesti, en reyndist vinhollur og veitull heim að sækja.
Einar var mikið við fuglaveiðar alls konar og eggjatöku, oft sem bátsmaður seinni árin, en fyrr göngumaður, dugmikill. Veiðimaður á lunda var hann slakur, en því meiri burðarmaður og gerði það helst að bera veiði frá veiðimönnunum á geymslustað.
Til fýla fór Einar á hverju sumri, og var hann sá síðasti, ásamt sonum sínum Einari og Sigurði, sem notaði gamla fýlamannabúninginn.
Nokkuð þótti Einar fastheldinn á gamla siði og venjur í búskaparháttum og daglegri umgengni, sérsinna og einkennilegur í orðum.
Hann verður ekki talinn til hinna meiri veiðimanna, en ötull aflamaður, sem gaf ekki hlut sinn eftir, þótt nokkra fyrirhöfn hefði það í för með sér.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
  • Manntöl.
  • Íslendingabók.is.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.