Rafmagn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. nóvember 2016 kl. 21:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. nóvember 2016 kl. 21:22 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Götulýsing með olíukerum

Götulýsing var léleg fyrsta tug aldarinnar. Árið 1910 voru keypt 7 steinolíuljósker. Voru þau sett á við Nýborg, Krossgötur efri og neðri, við Templarahöllina, læknishúsið, Þykkvabæ og Hof á Hofsveg. Árið 1912 var eina götulýsingin í bænum nokkur olíuljósker. Þremur árum síðar var reist rafstöð, en gætt ítrasta sparnaðar í notkun rafmagns. Kaupmenn voru áminntir um að slökkva í búðum sínum eftir lokun og almenningur að láta ekki ljós loga að óþörfu. Árið 1921 er háttvirt rafmagnsnefnd beðin um að hlutast til um, að bætt verði lýsing á Skólavegi því hann sé ósléttur og illur yfirferðar.

Fyrsta rafstöðin

Viðgerð á ljósastaur við Illugagötu

Á fundi sýslunefndar 16. mars 1912 var á dagskrá mál frá Gísla J. Johnsen þar sem hann biður um álit nefndarinnar á því hvort að hún sé meðmælt því að sýslan noti rafljós til götulýsingar ef þess væri kostur. Þrír nefndarmenn voru á fundinum, Gunnar Ólafsson, Jón Einarsson og Halldór Gunnlaugsson kaupmenn auk Sigurðar Lýðssonar sem var fulltrúi sýslumanns. Þeir voru sammála því að raflýsing væri æskileg ef góð kjör væru í boði. Á fundi nefndarinnar í nóvember 1912 sagði Karl Einarsson sýslumaður að Jón Þorláksson landsverkfræðingur ætlaði að gera kostnaðaráætlun við byggingu og rekstur rafstöðvar í Eyjum. Áætlun Jóns var kynnt 9. mars 1913. Kosnaður við veituna alla (hús, vélar, rafgeyma og leiðslur) var 49600 krónur með díselvél og 52800 krónur með gufuvél. Sýslunefndin ræddi áætlun Jóns á fundi sínum 8. júlí 1913. Voru allir hlynntir því að byggð yrði rafstöð. Þann 24. júlí sendi Karl sýslumaður húseigendum í Vestmannaeyjum greinargerð og undirskriftalista. Þar stóð meðal annars: „Hér með er skorað á þá húseigendur í Vestmannaeyjum, sem taka vilja rafmagnsljós í hús sín, ef sýslunefndin hér ræðst í að reisa hér rafmagnsstöð, að skrifa nöfn sín og heimilisfang á lista þennan og taka fram hversu marga lampa og stóra þeir óski og gildir áritunin sem skuldbinding. ..að síðustu skal ég taka fram að nefndin mun ekki sjá sér fært að reyna að reisa stöðina nema undirtektirnar verði mjög almennar með því.“ Skemmst er frá því að segja að 198 húseigendur skrifuðu undir skjalið en þess má geta að á þessum tíma voru aðeins 212 íbúðarhús í Eyjum. Því var ákveðið að fara í að reisa rafstöð af fullum krafti. Staðurinn sem varð fyrir valinu fyrir rafstöð var í garðinum fyrir framan London og klárað var að byggja húsið árið 1914. Sjálf rafstöðin var ekki fullbúin til rekstrar fyrr en 25. ágúst árið 1915. Þá var búið að leggja rafleiðslur í rúmlega 200 hús og setja upp 30 götuljós.

Rafmagnið skammtað

Rafmagn var skammtað en þó var leyft að mótorinn í rafstöðinni væri látinn ganga til að íbúar gætu straujað tvisvar í viku. Vestmanneyingar voru lengi sjálfum sér nógir með rafmagn.

Bakað niðri á rafstöð

Upp úr 1930 er getið sérstakrar þjónustu sem starfsmenn rafstöðvarinnar veittu bæjarbúum. Svo háttaði til að hljóðkútur frá aflvél var í niðurgröfnu byrgi. Hleri var yfir og niðurgengt. Þarna niðri var bökunarhiti. Þetta vissu margar húsmæður bæjarins. Þær komu með pottbrauð sín hnoðuð og báðu um bakstur. Þetta sparaði eldivið og var þessi þjónusta ókeypis.

Ný rafstöð 1949

Ljósastaur árið 1973, er fyrst var kveikt á ljósastaurunum eftir gos.

Ný rafstöð var vígð árið 1949 og þjónaði þar til rafmagn frá Sogsvirkjun var leitt til Vestmannaeyja 1962. Keyptu Vestmanneyingar ákveðið magn raforku frá Sogsvirkjun. Rafveituvélarnar voru keyrðar ef álag varð of mikið. Þegar bilun varð á raforkusvæði Sogsvirkjunar seldi Rafveita Vestmannaeyja iðulega rafmagn til lands um rafstrenginn.

Rafmagnsstaur á Skansinum

Rafstöðin eyðilagðist í gosinu

Rafstöðin eyðilagðist í gosinu og var rafmagn skammtað fram á haust það ár. Árið 1989 voru Rafveita, Fjarhitun og Vatnsveita sameinaðar í Bæjarveitu Vestmannaeyja.



Heimildir

  • Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár. II. bindi. Reykjavík: Vestmannaeyjabær, 1991.