Rúdólf Pálsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Rúdólf Pálsson.

Rúdólf Skaftason Pálsson viðskiptafræðingur, kennari, ljóðskáld fæddist 7. október 1931 í Lyngfelli og lést 10. apríl 2021.
Foreldrar hans voru Páll Oddgeirsson kaupmaður, útgerðarmaður, f. 5. júní 1888, d. 24. júní 1971, og Ragnhildur Skaftadóttir vinnukona í Lyngfelli, f. 8. febrúar 1904, d. 12. október 1939.

Börn Páls og hálfsystkini Rúdólfs:
1. Richard Pálsson framkvæmdastjóri, f. 27. september 1920 í Miðgarði, d. 4. mars 1994.
2. Ísleifur Annas Pálsson skrifstofustjóri, forstjóri, f. 27. febrúar 1922 í Miðgarði, d. 14. desember 1996. Kona hans var Ágústa Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 10. desember 1922 í Fagurlyst, d. 31. mars 2013.
3. Oddgeir Pálsson skrifstofumaður í Reykjavík, síðar fasteignasali í Los Angeles, f. 22. desember 1923 í Miðgarði.
4. Anna Regína Pálsdóttir húsfreyja, baðvörður, f. 16. maí 1928 í Reykjavík. Maður hennar var Sveinbjörn Hermann Þorbjarnarson loftskeytamaður, f. 4. apríl 1929 á Akureyri, d. 30. september 1979 í London.
5. Bergljót Pálsdóttir húsfreyja, verslunarstjóri, skrifstofumaður á Akureyri, f. 19. janúar 1933 í Miðgarði, d. 28. nóvember 2017. Maður hennar var Tryggvi Georgsson múrarameistari, f. 17. febrúar 1932 á Akureyri, d. 2. nóvember 2010.

Barn Ragnhildar og hálfbróðir Rúdólfs:
6. Grétar Skaftason skipstjóri, f. 26. október 1926, drukknaði 5. nóvember 1968.

Rúdólf var með móður sinni í Eyjum, en fluttist með henni að Suður-Fossi í Mýrdal 1934. Hún lést 1939 og hann ólst upp hjá Sigurjóni móðurbróður sínum og Guðbjörgu Nikulásdóttur bústýru hans á Suður-Fossi, en hún var síðari kona Skafta Gíslasonar afa Rúdólfs.
Rúdólf tók landspróf við Héraðsskólann á Laugarvatni, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954.
Hann lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 1958 og stundaði nám við verslunarháskóla í Bergen í Noregi 1959-1960.
Rúdólf var kennari við barna-og unglingaskólann á Blönduósi 1962-1963, við Gagnfræðaskólann í Keflavík 1963-1964, Barna-og miðskólann á Dalvík 1964-1965, Barna-og unglingaskólann í Ólafsvík 1965-1966, Barna-og miðskólann á Patreksfirði 1969-1970, Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki 1970-1971, Barnaskólann og miðskólann í Bolungarvík 1971-1972. Auk þessa stundað hann ýmis skrifstofustörf og verkamannavinnu.
Rúdólf orti ljóð og gaf út ljóðabók 1973: Á svörtum reiðskjóta. Auk þessa gaf hann út ljóð á fjórum öðrum tungumálum.
Hann var ókvæntur og barnlaus, dvaldi á Eir í Reykjavík síðustu ár sín.
Rúdólf lést 2021.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Guðbjörg Guðbergsdóttir.
  • Íslendingabók.is.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.