Qmen 7

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. júní 2007 kl. 09:16 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. júní 2007 kl. 09:16 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Hljómsveitin Qmen 7 var stofnuð árið 1976. Stofnendur voru þrír, Ólafur M. Aðalsteinsson gítarleikari, Sigurgeir Jónsson bassaleikari og Birgir Guðjónsson trommuleikari. Þeir Ólafur og Sigurgeir höfðu áður leikið í hljómsveitinni Eldum sem var starfandi í Eyjum fyrir gos.

Qmen 7 lék aðallega í Alþýðuhúsinu í Eyjum en einnig talsvert uppi á fastalandinu, var m.a. eins konar fastahljómsveit í samkomuhúsinu í Garðinum í eitt ár. Í tengslum við hljómsveitina var stofnað sérstakt félag í Eyjum, Kúmenfélagið, sem gekkst fyrir dansleikjahaldi í Alþýðuhúsinu. Á þeim dansleikjum var föst venja að bjóða upp á kúmenkaffi og meðlæti um miðnætti. Félagar í Kúmenfélaginu voru hátt á annað hundrað þegar hæst lét.

Nafn hljómsveitarinnar þótti nokkuð sérstakt og er þannig til komið að árið 1972 voru þeir Ólafur og Sigurgeir að spila á dansleik með Eldum, austur á Neskaupstað. Aðalhljómsveitin á Neskaupstað var þá Amon Ra. Ungt fólk á staðnum var að ræða við þá félaga og spurði hvað hljómsveitin héti. Ólafi þótti Eldanafnið of fornfálegt og tilkynnti Norðfirðingum að sveitin héti Qmen 7, svona til mótvægis við Amon Ra. Þegar þeir félagar stofnuðu svo nýja hljómsveit 1976, var ákveðið að hún fengi þetta nafn. Hljómsveitin hætti störfum árið 1986. Þeir Ólafur og Sigurgeir voru í sveitinni alla tíð en auk Birgis voru trommuleikarar þeir Björgvin Sigurjónsson og Friðsteinn Vigfússon.