Páll Bjarnason skólastjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Páll Bjarnason.

Páll Bjarnason fæddist 26. júní 1884 og lést 5. desember 1938. Sonur hjónanna Margrétar Gísladóttur og Bjarna Pálssonar frá Stokkseyri. Kona Páls var Dýrfinna Gunnarsdóttir kennari við Barnaskólann. Þeim varð ekki barna auðið en þau ólu upp dóttur hjónanna í Vinaminni í Eyjum, Sigmundar Jónssonar smiðs og Sólbjargar Jónsdóttur.

Snemma bar á ríkri bókhneigð hjá Páli Bjarnasyni. Hann þráði að geta veitt sér góða menntun. Hann lauk kennaraprófi og stundaði einnig um skeið nám við lýðháskóla í Danmörku.

Haustið 1907 gerðist Páll Bjarnason kennari í Grímsnesi og haustið 1909 var hann ráðinn sem skólastjóri Barnaskólans á Stokkseyri. Þar var hann til 1917 þegar hann réðst sem ritstjóri í Vestmannaeyjum við blaðið Skeggja sem Gísli J. Johnsen kaupmaður hafði þá stofnað og hafið útgáfu á. Páll reyndist slyngur penni, rökfastur og hugmyndaríkur. Hann vakti fljótlega máls á mörgu sem betur mátti fara í Vestmannaeyjum þar sem fólksfjöldi hafði fjórfaldast á nokkrum árum sökum mikils vaxtar í sjávarútvegi.

Meðal þess sem Páll Bjarnason vakti athygli á voru ýmsir þættir skólamála, björgunarmála, búnaðarmála og líknarmála til stuðnings almenningi þegar á bjátaði.

Páll lagði hart að því í pistlum sínum að bæjarstjórn yrði stofnuð þar sem honum þótti núverandi ástand óbærilegt miðað við vaxandi fólksfjölda í Vestmannaeyjum. Hinn 24. apríl 1918 var haldinn sameiginlegur fundur í sýslunefnd og hreppsnefnd Vestmannaeyja um tillögu Páls að bæjarstjórn yrði skipuð í Vestmannaeyjum. Þar var samþykkt í einu hljóði að skora á Alþingi að samþykkja lög um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum. Í maímánuði 1918 var frumvarp um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum tekið til 3. umræðu í efri deild þingsins og lagði þingnefndin þar til að frumvarpið yrði samþykkt. Þannig lauk þessu hugsjónamáli Páls, Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi og voru kosningar til hinnar fyrstu bæjarstjórnar þar afráðnar 16. janúar 1919.

Alls buðu fram 7 listar. Á nokkrum þeirra voru sömu mennirnir, til dæmis var Páll á fjórum listum og efstur á D-listanum ásamt Gísla Lárussyni útgerðarmanni og kaupfélagsstjóra og Árna Filippussyni gjaldkera í Ásgarði. Þá var var Páll þriðji maður á C-listanum þar sem Gísli J. Johnsen var efstur og Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum í öðru sæti.

Hugsjón Páls Bjarnasonar um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum og þar með breytta stjórnarhætti í byggðinnni til framfara og alhliða hagsbóta var því orðin að veruleika þegar fyrsta bæjarstjórn Vestmannaeyja var skipuð að loknum kosningum 1919. Páll sat á fjórum af sjö listum sem voru í framboði og var hann kosinn í bæjarstjórn ásamt átta öðrum.

Haustið 1919 var Páll ráðinn kennari við Barnaskóla Vestmanna ásamt þekktum rithöfundi, Sigurbirni Sveinssyni. Ári síðar gerðist Páll skólastjóri Barnaskólans og stjórnaði hann honum til dánardægurs 5. desember 1938.

Sjá nánar: Blik 1971, — Páll Bjarnason, skólastjóri.

Myndir


Heimildir