Páll Þorbjörnsson (skipstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Páll Þorbjörnsson)
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Páll Þorbjörnsson, skipstjóri og alþingismaður.

Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, var landskjörinn þingmaður á árunum 1934 til 1937.

Páll fæddist í Vatnsfirði þann 7. október 1906. Páll lést í Vestmannaeyjum þann 20. febrúar 1975. Foreldrar Páls voru Þorbjörn Þórðarson (fæddur 21. apríl 1875, dáinn 25 desember 1961) héraðslæknir á Bíldudal og Guðrún Pálsdóttir (fædd 25. janúar 1883, dáin 3. júlí 1971). Páll kvæntist þann 20. maí 1933 Bjarnheiði Jónu (fædd 7. september 1910) dóttur Guðmundar Guðmundssonar bónda á Ragnheiðarstöðum í Flóa og Ólafar Jónsdóttur.

Páll lauk gagnfræðaprófi í Reykjavík árið 1922. Tók farmannapróf árið 1930 frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hann stundaði sjómennsku frá sextán ára aldri þar til hann varð 24 ára gamall eða á árunum 1920-1932. Þá var hann ráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags alþýðu í Vestmannaeyjum í nokkur ár en þá kallaði sjórinn aftur til hans og eftir það var hann skipstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Páll stundaði kaupsýslustörf síðustu árin sem hann lifði. Hann var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1935-1937 og yfirskoðunarmaður ríkisreikinga 1936-1937.

Páll var skipstjóri á Skaftfellingi á stríðsárunum 1942—1945 og var í siglingum með fisk til Englands. Áhöfnin á Skaftfellingi öðlaðist mikla frægð þegar þeir björguðu 52 manna áhöfn af þýskum kafbáti og sigldu með þá til Englands.

Páll var skipstjóri á mótorbátinn Nönnu RE, en það var flutningaskip.

Loftur Guðmundsson samdi eitt sinn formannsvísu um Pál:

Gáfur og ráðsnilld glæsa Pál
garp á Ránarþingi
með heppni kannar hættuál
hann á Skaftfellingi.

Óskar Kárason samdi einnig formannavísu um Pál:

Palli krata krappan sjó
kann í byljum rata,
þó að natin niðar þró
Nönnu vilji glata.

Myndir



Heimildir

  • Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.
  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.