Margrét Jónsdóttir (Nýja-Kastala)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. janúar 2016 kl. 11:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. janúar 2016 kl. 11:15 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Margrét Jónsdóttir húsfreyja í Nýja Kastala fæddist 1818 og lést 12. nóvember 1890.
Faðir hennar var Jón bóndi í Vesturholtum undir Eyjafjöllum, f. 1792, Jónsson.
Móðir Jóns í Vesturholtum var Guðrún, f. um 1750 í Syðri-Brennu í Holtssókn, húsfreyja, ekkja í Nýjabæ u. Eyjafjöllum 1801, var hjá Jóni syni sínum í Vesturholtum 1835, en horfin 1840, Guðmundsdóttir.

Móðir Margrétar var Ragnhildur húsfreyja í Vesturholtum, f. 1788 á Höfðabrekku í Mýrdal, d. 25. maí 1866 í Vesturholtum, Gísladóttir bónda í Seljalandi í Fljótshverfi, V-Skaft., f. 1753 í Kerlingardal í Mýrdal, d. 11. nóvember 1841 á Flögu í Skaftártungu, Jónssonar, f. (1725), Gíslasonar og ókunnrar konu.
Móðir Ragnhildar og sá maki Gísla er ókunnur. Hann var kvæntur fjórum sinnum og átti alls 19 börn.

Systir Margrétar var Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Vesturholtum, kona Jóns Gunnsteinssonar bónda.
Börn þeirra í Eyjum voru:
1. Gunnsteinn Jónsson sjómaður í Hólshúsi.
2. Guðrún Jónsdóttir bústýra.

Margrét var 17 ára dóttir hjóna í Vesturholtum 1835, 23 ára dóttir þeirra þar 1840. Hún var trúlofuð og bjó með Jóni Gíslasyni sjómanni í Tómthúsi¹) í Eyjum 1845. Jón sá Gíslason var sonur Gísla bónda í Seljalandi Jónssonar og 4. konu hans Guðrúnar Jónsdóttur og var því a.m.k. hálfbróðir Ragnhildar móður Margrétar.
1850 var Margrét gift kona Jóns Hannessonar í Ensomhed í Eyjum.
Hún lést 1890 á Miðhúsum.

Margrét var tvígift:
I. Fyrri maður hennar, (22. nóvember 1845), var Jón Gíslason í Túni, f. 1818, fórst með Morten Eriksen í hákarlaveiðiferð í maí 1847.
Börn þeirra Margrétar og Jóns Gíslasonar voru:
1. Sesselja Jónsdóttir húsfreyja í Gvendarhúsi, f. 31. desember 1844, d. 9. júní 1923, kona Jóns í Gvendarhúsi.
Hún var hálfsystir Hannesar lóðs á Miðhúsum.
2. Jóhanna Karólína Jónsdóttir, f. 5. ágúst 1846, d. 11. ágúst 1846 „af Barnaveikin“.
3. Jón Jónsson, f. 19. september 1847, d. 21. september úr ginklofa.
¹) Húsnafn á mt. 1845.

II. Síðari maður Margrétar, (18. október 1849), var Jón Hannesson sjómaður í Nýja-Kastala, f. 1820, tók út af hákarlaskipinu Najaden 1853.
Börn Margrétar og Jóns voru:
3. Jóhanna Jónsdóttir, f. 2. maí 1849. Hún fór til Vesturheims frá Fögruvöllum 1891, þá orðin ekkja eftir Guðmund Guðmundsson á Fögruvöllum, f. 1848. Með henni fór dóttir hennar Margrét Jónína Guðmundsdóttir, f. 5. apríl 1874, d. 20. nóvember 1891.
4. Margrét Jónsdóttir, f. 25. mars 1851, d. 31. mars 1851 úr ginklofa.
5. Hannes Jónsson, (Hannes lóðs), f. 21. nóvember 1852, d. 31. júlí 1937.
6. Jón Jónsson, f. 20. febrúar 1854, d. 25. febrúar 1854 „af barnaveiki“.

Hér fara hlutar úr frásögn Jóhanns Gunnars Ólafssonar af Hannesi lóðs í Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum. Þar segir svo m.a. um Margréti. (Sjá frásögnina í heild á Heimaslóð):

„Sjálf vann hún myrkranna á milli, til þess að framfleyta sér og sínum. Að sumrinu reytti hún lunda fyrir kaupmennina. Um þessar mundir var gott verð á lundafiðri og höfðu kaupmenn þá margt manna við lundaveiði. Leigðu þeir veiðiréttinn af bændum og réðu til sín margt manna, jafnvel austan úr Mýrdal, til veiðinnar, og settust margir þeirra síðan að í Vestmannaeyjum. Fyrir reytinguna guldu kaupmenn helming fugls og fiðurs.“ …
… „Margrét hafði því ærið að starfa þessi árin yfir sumarmánuðina, og mátti heita, að hún sæti í fuglinum dag og nótt. Sjálf bringureytti hún, því að það var vandasamara, en lét dætur sínar, er þær stálpuðust, bakreyta og reyta vængina. Var fiðrið flokkað þannig, að haldið var sér fiðri af bringu, baki og vængjum. Spýlurnar, bak, vængi og læri lundans, en hann var þá spýlaður á lærunum, þurrkaði Margrét og notaði til eldsneytis. Einnig vann Margrét mikið við fiskverkun hjá verzlununum, en þá var fiskur enn lagður inn við verzlanirnar blautur eða beint úr sjónum. Nokkurn styrk hafði hún snemma af Sesselju. Ung að aldri var hún farin að himnudraga fisk, og breiða til þurrks. Með sparsemi bjargaðist Margrét þannig með börnin, án þess að þiggja af sveit.“ (Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum. JGÓ).

Við manntal 1860 var Margrét ekkja í Nýja-Kastala með tvö börn, Hannes Jónsson 8 ára og Jóhönnu Jónsdóttur 11 ára. Þar var Þorleifur Sigurðsson 24 ára, fyrirvinna.
Við manntal 1870 var hún 52 ára ekkja í Nýja-Kastala með Sesselju 25 ára, Jóhönnu 21 árs, Hannes 17 ára. Að auki var þar systurdóttir hennar Guðrún Jónsdóttir 6 ára og Sveinn Jónsson 12 ára niðursetningur.
Við manntal 1890 var Margrét 72 ára hjá syni sínum Hannesi og fjölskyldu hans á Miðhúsum.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.