Kolbrún Sigurðardóttir (forstöðumaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. júní 2021 kl. 15:29 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. júní 2021 kl. 15:29 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Kolbrún Sigurðardóttir.

Kolbrún Sigurðardóttir húsfreyja, kennari, námsstjóri, forstöðumaður fæddist 2. mars 1940 á Fífilgötu 5.
Foreldrar hennar voru Sigurður Guðlaugsson frá Rafnseyri, hárskeri, f. 19. júlí 1918, d. 3. júlí 1958, og kona hans Kristín Guðríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 21. apríl 1919, d. 30. apríl 2012. Börn Kristínar og Sigurðar:
1. Kolbrún Sigurðardóttir húfreyja, kennari, námsbókahöfundur, forstöðumaður, f. 2. mars 1940 á Fífilgötu 3 í Eyjum. Maður hennar Hjálmar Vilhjálmsson.
2. Guðlaugur Sigurðsson matreiðslumaður, bryti, f. 29. júlí 1945 í Reykjavík. Kona hans Alda Björk Skarphéðinsdóttir.
3. Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir, f. 27. apríl 1952 í Reykjavík. Sambúðarmaður hennar Ágúst Ólafur Georgsson.

Kolbrún var með foreldrum sínum í æsku, á Fífilgötu 5 og í Bifröst við Bárustíg 11 í Eyjum, í Reykjavík, Ytri-Njarðvík og Keflavík.
Hún lauk landsprófi í Gagnfræðaskólanum í Keflavík 1956, varð stúdent í Menntaskólanum á Laugarvatni 1960, varð fil. cand. frá Háskóla Íslands 1971, tók 1. stig í bókasafnsfræði frá HÍ 1972 og varð B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands 1975. Kolbrún fór í þrettán mánaða framhaldsnám (Ed.Tec.grad.) í námsefnisgerð og stjórnun kennslumiðstöðva við Memorial University á Nýfundnalandi, Kanada 1990 þegar hún var í kennaraorlofi.
Í sumarleyfum á námstímanum vann hún ýmis störf, m.a. við barnagæslu, á hrossabúinu í Kirkjubæ á Rangárvöllum, við afgreiðslustörf og fiskiðnað.
Kolbrún var grunnskólakennari við Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskóla Íslands 1975-1978 og vann einnig á svipuðum tíma lítilsháttar hjá Skólarannsóknadeild (SKRD) við kynningar á námskránum út um land og sem námsstjóri í íslensku fyrir yngsta stigið.
Hún var æfingakennari við Æfinga- og tilraunaskóla KHÍ 1978-1990, forstöðumaður að hluta við gagnasmiðju KHÍ 1986-1988, forstöðumaður gagnasmiðju KHÍ haustið 1990-1991, deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Námsgagnastofnunar 1991-1993, forstöðumaður kennslumiðstöðvar KHÍ 1993-2000 og kennsluráðgjafi við Menntasmiðju KHÍ 2000-2008. Kolbrún hefur samið kennslubækur og greinar í skólamálablöð og bækur, m.a. um lestur, ljóðakennslu, málfræði og skrift. Hún skrifaði Þorskinn ásamt Hjálmari manni sínum, einnig Ritrúnu og Ritrúnu 1, 2, 3, Verkefni í ritun móðurmáls og Mál til komið, Mál í mótun og Mál er miðill með verkefnabókum ásamt Þóru Kristinsdóttur. Kolbrún var ritstjóri ásamt Sverri Guðjónssyni og Þórdísi Mósesdóttur ljóðasafnanna Ljóðspora, Ljóðspegla, sem fékk tilnefningu til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna, og Ljóðsprota, en þau sömdu einnig verkefnin í bókunum.
Kolbrún skrifaði pistla í Smiðjubelg, vefrit Menntasmiðjunnar um kennslumál og skrifaði greinina „Einsögubrot úr kennslu í Æfingaskólanum“ birt í bókinni Skóli í deiglu, útg. 2002. Enn fremur var Kolbrún ritstjóri Verkefnabanka fyrir neytendafræðslu í grunnskólum.
Kolbrún var varaformaður Félags háskólamenntaðra kennara (FHK) þegar Kristján Thorlacius var formaður og viðriðin stofnun Hins íslenska kennarafélags (HÍK) og var formamaður á svæðinu í kringum Menntaskólann við Hamrahlíð.“
Samtök móðurmálskennara gerðu Kolbrúnu að heiðursfélaga samtakanna 2. maí 2008. Hún var einn af stofnendum samtakanna í júní 1978 og eina konan í fyrstu stjórn.
Þau Hjálmar giftu sig 1960, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu síðast á Ásvallagötu 18 í Reykjavík.
Hjálmar lést 2011.
Kolbrún býr á Þorragötu 7.

I. Maður Kolbrúnar, (3. september 1960), var dr. Hjálmar Vilhjálmsson frá Mjóafirði eystra, fiskifræðingur, f. 25. september 1937, d. 20. ágúst 2011. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Hjálmarsson, bóndi, kennari, alþingismaður, ráðherra, rithöfundur, f. 20. september 1914, d. 14. júlí 2014, og kona hans Anna Margrét Þorkelsdóttir húsfreyja, f. 15. febrúar 1914, d. 21. apríl 2008.
Börn þeirra:
1. Sigurður Stefán Hjálmarsson tölvufræðingur í Svíþjóð, f. 2. apríl 1961. Kona hans Jóhanna Erlingsdóttir.
2. Kristín Anna Hjálmarsdóttir fatahönnuður, kaupmaður, kennari, kynjafræðingur, f. 23. september 1962. Maður hennar Jón Þór Gestsson.
3. Ína Björg Hjálmarsdóttir líffræðingur, gæðastjóri, f. 28. nóvember 1963. Maður hennar Sigurður Þór Jónsson.
4. Vilhjálmur Hjálmarsson leikari, sérfræðingur í hljóð- og myndvinnslu, f. 1. febrúar 1967.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Kolbrún.
  • Morgunblaðið 2. mars 2015. Árnað heilla og 29. ágúst 2011. Minning Hjálmars.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.