Jarðfræði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. júlí 2005 kl. 09:58 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. júlí 2005 kl. 09:58 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Vestmannaeyjar liggja um 10 km suður undan Landeyjasandi. Eyjaþyrpingin samanstendur af 14 eyjum og auk þeirra eru um 30 drangar og sker. Eyjarnar eru sæbrattar og víðast hvar þaktar graslendi. Af þeim er Heimaey lang stærst eða um 13,4 km² og hún er sú eina sem er í byggð. Helstu og stærstu eyjarnar í kringum Heimaey eru Elliðaey og Bjarnarey norðaustur af Heimaey og til suðvesturs Suðurey, Álsey, Brandur, Hellisey, Súlnasker og Surtsey.

Menn hafa öldum saman velt fyrir sér uppruna Vestmannaeyja á jarðfræðilegum forsendum, og taldi Jónas Hallgrímsson til dæmis að eyjarnar hafi eitt sinn verið samfastar Eyjafjöllum, en að sjógangur og vindar hafi „nagað sundur tengslin“ við meginlandið:

Undirlag þeirra er allt móberg með blágrýtis- og stuðlagrjótskömbum, er ganga upp í gegnum það hingað og þangað, og sumsstaðar ofan á því nokkur lög af grásteini, sumstaðar líka, efst og yngst, eldhraun, komið úr Helgafelli [...] Má af öllu sjá, að það er hið sama jarðlag, sem liggur undir rótum Eyjafjallajökuls, og á saman við Seljalandsmúla og Fljótshlíðarhálsana; hefur það allt verið samfast til forna, fyrr en hafið braut það í sundur.

Jarðvísindamenn okkar tíma hafa aðrar skoðannir á sama máli:

Eyjarnar eru ungar á jarðsögulegan mælikvarða og hafa allar myndast í eldgosum, þær elstu fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum. Flestar eyjarnar eru gíglaga móbergsstapar og á sumum þeirra eru gjallgígar.

Vestmannaeyjar eru á umfangsmiklu eldgosasvæði sem er um 38 km langt og 30 km breitt með 70-80 eldstöðvum eða leifum þeirra.

Heimaey

Sjá aðalgrein: Heimaey

Heimaey er eina eyjan í Vestmannaeyjaklasanum sem hefur myndast í fleiri en einu eldgosi. Mestöll eyjan er úr móbergi, en einnig er þó nokkuð af vikri, bólstrabergi og öðrum bergtegundum, sérstaklega í kringum nýja hraunið. Mikið er af holufyllingum á borð við kvartz á suðurhluta eyjunnar nálægt ræningjatanga. Um það bil 1/3 af eyjunni er þakin fjalllendi.

Norðurklettarnir

Norðurklettarnir eru elsti partur Heimaeyjar, en þær eru taldar um 10-14 þúsund ára gamlar. Heimaklettur, Miðklettur, Ystiklettur og Klifið hafa myndast í gosum undir jökli en þeir eru misgamlir móbergsstapar, en Dalfjall og þá Blátindur ásamt Molda mynduðust við eldgos, sem hefur verið að einhverju leyti undir jökli, þar sem að Herjólfsdalur var megineldstöðin.

Suðurklettarnir

Stórhöfði, líkt og Heimaklettur, hefur myndast við gos undir jökli, enda er einnig um móbergsstapa að ræða þar. Stórhöfði er talinn vera um 10.000 ára gamall.

Kervíkurfjall, Sæfjall og Litli höfði hafa myndast í jarðeldum með Stakkabót sem megineldstöð, en skerin Litli Stakkur og Stóri Stakkur hafa myndast í sama gosi. Þá hefur fláin milli Breiðabakka og Stórhöfða, þar sem Brimurð og Klauf eru myndast við söfnun jarðefna þar á milli, mjög líkt og Þrælaeiði. Ræningjatangi hefur þó myndast í sama eldgosinu og Litli Höfði. Bergið frá Sæfjalli suður að Garðsenda er talið um 5.000 ára gamalt.

Helgafell

Helgafell er næstyngsta eldfjallið á Heimaey, en hún er talin vera um 5.000 ára gömul, ögn yngra þó en Sæfjall. Helgafellsgosið tengdi saman norðurklettana og suðurklettana og gerði úr þeim eina heildstæða eyju. Hægt er að áætla að í gosinu hafi eyjan stækkað um allt að 7km².

Heimaeyjargosið

Sjá aðalgrein: Heimaeyjargosið

Eldgos hófst á Heimaey þann 23. janúar árið 1973 og stóð fram til 3. júlí sama ár. Á þeim tíma eyðilagðist og/eða skemmdist u.þ.b. 440 hús, en um þriðjungur húsanna á eyni fóru undir hraun.

Í upphafi gossins opnaðist jarðsprunga frá suð-suðvestri til norð-norðausturs um 300 metrum austur af Kirkjubæ, og var sú sprunga um 2,3km löng, en hún lokaðist að stórum hluta á fyrstu dögum gossins og einangraðist við megineldstöð.

Eftir stóð eldfjallið Eldfell, sem margir Vestmannaeyingar vildu kalla Kirkjufell, rétt norðaustan Helgafells. Frá því stendur Eldfellshraun, sem teygir sig frá Skarfatanga í suðri að Skansinum í norðri, og stækkaði Heimaey um eina 3 ferkílómetra.

Eldfellshraun er basískt apalhraun að mestu, með nokkrum helluhraunsblettum.

Úteyjar

Úteyjarnar urðu allar til í eldgosum undir jökli á síðustu ísöld, að undanskildri Surtsey. Margar eyjanna, til dæmis Bjarnarey, hafa mjög augljósa gjallgíga, en aðrar eyjur eru ekki jafn áberandi að uppruna, til dæmis er gígurinn sem myndaði Álfsey undir sjávarmáli.

Surtsey

Sjá aðalgrein: Surtseyjargosið

Surtsey varð til í miklu neðansjávargosi sem hófst árið 1963 og lauk 1967, sem mun vera lengsta sögulega eldgos á Íslandi. Við upphaf gossins voru tvær eyjur sem mynduðust, og fengu þær nöfnin Syrtlingur og Jólnir. Jólnir kom upp úr sjó rétt fyrir Þorláksmessu, og stóð fram yfir jólin 1963. Syrtlingur stóð mun lengur, en leifar þessarra eyja mynduðu Surtsey seinna meir.

Strax að loknu gosinu var Surtsey friðuð, þar sem að þetta var í fyrsta skiptið á sögulegum tíma sem ný eyja hafði myndast, og voru jarðfræðingar jafnt sem líffræðingar forvitnir um þróun lífríkisins á eyjunni og eyjunnar sjálfrar. Strax á fyrstu árunum eftir gosið fóru ýmsar lífverur að taka sér bólfestu þarna.


Heimildir

  • Þorleifur Einarsson, Gosið á Heimaey; Heimskringla, Reykjavík, 1974, ISBN 0-0003-057098
  • Ferðafélag Íslands, Árbót Ferðafélags Íslands; Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1948, ISBN 0-0003-019302