Jórunn Sigurðardóttir (Löndum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. ágúst 2019 kl. 20:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. ágúst 2019 kl. 20:44 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Jórunn Sigurðardóttir.

Jórunn Sigurðardóttir vinnukona á Löndum, fæddist 24. nóvember 1881 á Lágafelli í A-Landeyjum og lést á Sjúkrahúsinu 8. júlí 1965.
Foreldrar hennar voru Sigurður Guðmundsson bóndi á Lágafelli í A-Landeyjum, síðar dvalarmaður á Uppsölum f. 13. ágúst 1842, d. 11. mars 1905 á Uppsölum í Eyjum og kona hans (15. maí 1873, skildu), Þórunn húsfreyja, f. 18. október 1839, d. 25. maí 1899, Sigurðardóttir.

Jórunn var 8 ára með móður sinni, fráskilinni vinnukonu, í Búðarhóls-Austurhjáleigu (Hólavatni) 1890.
Við manntal 1910 var hún skráð hjú á Löndum, en var fjarverandi á Eskifirði.
Jórunn var síðan vinnukona hjá hjónunum á Löndum, þeim Elínu Þorsteinsdóttur og Friðriki Svipmundssyni þeirra búskap, fylgdi síðan Elínu og var síðast með Friðriki og Erlu, uns hún var lögð inn á Sjúkrahúsið öldruð, og þar lést hún 1965.
„Hún fylgdi þrem barnakynslóðum stór-fjölskyldunnar, - pabba og systkinum hans, okkur systkinum og börnum okkar Erlu,“ sagði Friðrik.


left thumb ctr


Minningarljóð þetta birtist í Morgunblaðinu 1965.

Jórunn Sigurðardóttir frá Löndum — minning
Fædd 24. nóvember 1881 að Lágafelli í Landeyjum.
Dáin 8. júlí 1965.

Yfir Fljótshlíð flæðir
funi morgunglóðar,
bjarminn kostum klæðir
konur æsku rjóðar.
Langt í suðri synda
sjónum fyrir meyjar,
hafs við himinlinda,
hlýjar Vestmanneyjar.
Þangað leiðir lágu,
lífið hló við svanna,
studd af feti fráu,
fús til átakanna.
Brátt var hafizt handa,
hér var gott að una
sæl, og vaxin vanda
virti hamingjuna.
Hlýju kærleiks hlaustu
á heimilinu merka.
Anna og næðis naustu,
næm til góðra verka.
Þarna blessuð börnin
barst, og við þau ræddir.
Þeim var þekkust vörnin
þegar áföll græddir.
Þakka vinir vilja
verkin þinna handa.
Öll þín kynnin ylja
og í minning standa.
Svo við lokin leiðar
ljóminn þakti velli
fann sér götur greiðar
geisli að Helgafelli.
Þú varst trygglynd, trúuð
traustvekjandi kona.
Elfan breiða er brúuð —
bar þér fylling vona.
Víst þig vinir trega!
Von til Guðs er bundin.
Hann þér vel til vega
vísi, í dýrðarlundinn.
E.J.E



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Friðrik Ásmundsson.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 14. október 1965.
  • Íslendingabók.is.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.