Jóhannes Helgason (Vesturhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Jóhannes Þorsteinn Helgason frá Vesturhúsum-vestri, verkamaður, fiskimatsmaður, bóndi, bifreiðastjóri, verslunarmaður, kaupmaður, efnisvörður í Reykjavík, fæddist 25. ágúst 1934 á Vesturhúsum.
Foreldrar hans voru Helgi Björgvin Benónýsson bóndi, útgerðarmaður, f. 23. apríl 1900 í Bakkakoti í Skorradal, Borg., d. 19. ágúst 1985, og kona hans Nanna Magnúsdóttir frá Vesturhúsum, húsfreyja, f. þar 12. september 1905, d. 9. september 1975.

Börn Nönnu og Helga:
1. Jórunn Guðný Helgadóttir húsfreyja, f. 11. júní 1929 á Vesturhúsum.
2. Magnús Helgason, f. 10. desember 1930 á Vesturhúsum, d. 30. janúar 1931.
3. Magnús Eggert Helgason skipstjóri, málari í Reykjavík, f. 29. desember 1932 á Vesturhúsum.
4. Jóhannes Þorsteinn Helgason fiskimatsmaður, efnisvörður í Reykjavík, f. 25. ágúst 1934 á Vesturhúsum.
5. Guðmunda Rósa Helgadóttir húsfreyja í Stykkishólmi, f. 21. mars 1936 á Vesturhúsum.
6. Drengur, f. 22. janúar 1938 á Vesturhúsum, d. 25. janúar 1938.
7. Hannes Helgason vélstjóri, póstmaður í Reykjavík, f. 13. mars 1941 á Vesturhúsum.

Jóhannes var með foreldrum sínum í æsku.
Hann vann meira og minna við fiskiðnað frá tólf ára aldri.
Jóhannes vann hjá Vinnslustöðinni frá 15-18 ára aldurs, var fiskimatsmaður í Eyjum 17-20 ára, vann hjá Fiskiðjunni í fjögur ár, 20-24 ára. Hann varð yfirfiskimatsmaður í Eyjum og jafnframt á Höfn í Hornafirði í þrjú ár.
Jóhannes var bóndi á Nýlendu u. Eyjafjöllum frá 1962-1965.
Þau Erna fluttu til Reykjavíkur 1965, þar sem Jóhannes var verkstjóri í Hraðfrystistöð Reykjavíkur í eitt ár, síðan lagermaður hjá Heildverslun G. Þorsteinsson og Jónsson í þrettán ár, en hjónin ráku jafnframt þrjár sjoppur, Bússu, sjoppu við Grettisgötu og sjoppu í strætisvagnaskýli í Kópavogi.
Jóhannes rak Fiskbúðina í Fossvogi í eitt ár.
Þá gerðist Jóhannes sendibílstjóri í þrjátíu ár og ráku þau hjónin jafnframt hreingerningafyrirtæki Ernu og Þorsteins í tuttugu og fimm ár.
Þau Málfríður Erna giftu sig í Eyjum 1961, eignuðust barn í Eyjum og þrjú börn utan Eyja. Þau byggðu hús við Ásaveg 31 í Eyjum, bjuggu að Óðinsgötu 19 í Reykjavík.
Málfríður Erna lést 2007.
Jóhannes býr nú að Árskógum 6.

I. Kona Jóhannesar Þorsteins, (14. febrúar 1961), var Málfríður Erna Sigurðardóttir frá Leirum u. Eyjafjöllum, húsfreyja, ræstingastjóri, f. 14. febrúar 1941, d. 10. ágúst 2007. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson bóndi á Leirum og Nýlendu, f. 10. september 1902, d. 10. apríl 1964, og kona hans Guðrún María Ólafsdóttir húsfreyja, f. 8. júní 1908, d. 31. mars 2000.
Börn þeirra:
1. Guðrún Margrét Jóhannesdóttir húsfreyja, vinnur við umönnun aldraðra í Mörk við Suðurlandsbraut, f. 12. nóvember 1961. Maður hennar Jón Ásgeir Sigurbjartsson. Fyrrum sambýlismaður hennar Sigurður Jensson.
2. Sigurbjörg Jóhannesdóttir húsfreyja, myndlistamaður, kennari við Háskólann í Reykjavík, f. 7. júní 1966. Maður hennar Sigurður Hreiðar Erlendsson.
3. Nanna Guðný Jóhannesdóttir húsfreyja, sjúkraliði, f. 14. maí 1970. Maki Skarphéðinn Þór Gunnarsson. Fyrrum sambýlismaður Sveinbjörn Bjarnason.
4. Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir húsfreyja, viðskiptafræðingur, fasteignasali, f. 26. nóvember 1974. Maður hennar Ívar Torfason.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.