Jóhanna Magnúsdóttir (Reykjum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Jóhanna Magnúsdóttir frá Steinum u. Eyjafjöllum, húsfreyja í Núpakoti, síðar ekkja og húsfreyja á Reykjum fæddist 9. september 1868 á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð og lést 13. febrúar 1955 í Eyjum.
Foreldrar hennar voru Magnús Þorvaldsson bóndi, f. 1816, d. 26. nóvember 1893, og kona hans Steinunn Gísladóttir húsfreyja, f. 10. maí 1823, d. 5. apríl 1907.

Jóhanna var með foreldrum sínum 1870, en var send í fóstur að Tumastöðum í Fljótshlíð 1871 og dvaldi þar til 12 ára aldurs. Þá varð hún léttastúlka í Steinum u. Eyjafjöllum, vinnukona í Núpakoti þar 1890. Þar var Jón Einarsson vinnumaður.
Þau Jón giftu sig 1892, bjuggu í fyrstu í Ysta-Skála, síðan í Syðra-Bakkakoti og þá í Steinum. Þau eignuðust 9 börn, eitt þeirra lést nýfætt, en 8 náðu fullorðinsaldri.
Einar fæddist 1892 og fór snemma í fóstur að Núpakoti og fylgdi fósturforeldrum sínum að Þóroddstöðum í Grímsnesi.
Þau eignuðust svo önnur börn sín á 20 árum. Magnús fæddist 1897 og fór í fóstur að Ytri-Skála. Sigurjón fæddist 1898 og var í fóstri á Fit.
Þau voru í Steinum 1901 með börnin Bergþóru og Guðjón og 1910 með Bergþóru, Guðjón, Guðna og Steindór. Guðmundur Einar fæddist 1912 og var fósturbarn í Indriðakoti.
Jón Einarsson veiktist hastarlega og gat lítt sinnt búskap. Hann lést 1916.
Jóhanna bjó í Steinum næsta ár, en fluttist þá að Rimhúsum með Bergþóru og Guðjóni manni hennar. Þau fluttust til Eyja 1919 og Jóhanna fór með þeim með Guðmund Einar og dvaldi hjá þeim um margra ára skeið. Þau bjuggu á Eystri Gjábakka 1920, og þar voru Steindór og Guðjón synir hennar hjá þeim. Hún var vinnukona í Ásbyrgi 1922, var á Reykjum 1930 með Guðna og Steindóri sonum sínum. Þar var hún enn 1934.
Jóhanna var húsfreyja á Skólavegi 25 1940 með Steindóri og Guðmundi Einari Jónssyni sonum sínum. Hún var þar ein 1945, húskona þar 1949.
Jóhanna bjó hjá Bergþóru dóttur sinni á Reykjum 1955, er hún lést.

Maður Jóhönnu, (1892), var Jón Einarsson bóndi, bókbindari í Steinum, f. 28. júlí 1867, d. 21. ágúst 1916.
Börn þeirra:
1. Einar Jónsson símaverkstjóri, síðast í Reykjavík, f. 28. apríl 1892, d. 9. apríl 1994.
2. Bergþóra Jónsdóttir húsfreyja á Reykjum, f. 10. október 1894, d. 20. desember 1989.
3. Magnús Jónsson skipstjóri, útgerðarmaður á Arnarfelli, f. 16. febrúar 1897, d. 8. ágúst 1927.
4. Sigurjón Jónsson bifreiðastjóri, bifvélavirki, f. 5. mars 1898, d. 1. nóvember 1981.
5. Guðjón Jónsson skipstjóri í Hlíðardal, f. 15. desember 1899, d. 8. júlí 1966.
6. Guðni Jónsson vélstjóri, formaður, síðar í Keflavík, f. 3. janúar 1906, d. 18. október 1957.
7. Steindór Jónsson bifreiðastjóri, síðar í Reykjavík, f. 24. september 1908, d. 16. febrúar 2010.
8. Guðmundur Einar Jónsson bifreiðastjóri, f. 16. desember 1912, síðast á Skólavegi 25, d. 24. apríl 1950.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Sagnagestur – þættir og þjóðsögur - I. Þórður Tómasson. Ísafoldarprentsmiðja h.f. Reykjavík 1953.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.