Jóhann V. Scheving (Vilborgarstöðum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. ágúst 2015 kl. 11:20 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. ágúst 2015 kl. 11:20 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Jóhann Svheving.

Jóhann Sveinn Vigfússon Scheving útvegsbóndi á Vilborgarstöðum fæddist 5. desember 1893 og lést 26. janúar 1957.
Faðir hans var Vigfús P. Scheving bóndi á Vilborgarstöðum, f. 5. september 1852, d. 23. dsember 1939 og kona hans Friðrika Sighvatsdóttir húsfreyja, f. 1858.

Jóhann ólst upp með foreldrum sínum. Hann gerðist útgerðarmaður.
Árið 1924 keypti Jóhann fjórðung í Maí VE-275, 21 tonns bát, og var hann einn stærsti báturinn í flotanum, byggður í Noregi. Báturinn var eign Lofts Jónssonar á eystri Vilborgarstöðum, Jóhanns, bróður hans Sigfúsar í Heiðarhvammi og Vigfúsar föður þeirra. Var Sigfús formaður.
Jóhann sá um fiskverkun, m.a. stakkstæðisþurrkun á fiskinum.

Á árinu 1945 var Maí seldur og hætti Jóhann þá útgerð. Hann vann við fiskverkun, einkum hjá Fiskiðjunni.
Samvinna þeirra Jóhanns í Línubæ og Lofts í Gústubæ var einstaklega góð. Unnu þeir meðal annars saman að ræktunarmálum og ræktuðu upp tún, útsetu, fyrir sunnan Helgafell, við Litla-Fell.
Þeir voru frændur, systrasynir.
Þau Nikólína ráku dálítið bú á Vilborgarstöðum.
Jóhann var sérlega barngóður maður og sagði góðar sögur.
Hann var heitur bindindismaður. Með erfiðari skrefum hans munu hafa verið þau, sem hann gekk í apótekið til að kaupa brennsluspritt handa slátraranum. Sá hafði skotið kúna fyrir Jóhann, en treystist þá ekki í fláninguna án „áfyllingar“.

Kona Jóhanns var Nikólína Halldórsdóttir húsfreyja frá Búðarhóli í A-Landeyjum, f. 21. október 1896, d. 27. mars 1983.
Þau Jóhann voru barnlaus, en hjá þeim dvöldu um lengri eða skemmri tíma börn þeim tengd. Meðal þeirra var systursonur Nikólínu og nafni þeirra hjóna, Jóhann Ágústsson, síðar kaupsýslumaður, en hann dvaldi hjá þeim um skeið, meðan faðir hans barðist við berkla á hælinu í Kópavogi og síðan í Kristnesi.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Heimaslóð.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Garður.is.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.